Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Gríma fundin!

Höfundur: • 4. feb, 2007 • Flokkur: Fréttir
Kisan Gríma.

Kisan Gríma.

Hinn 7. desember s.l. lagði Gríma, lítil, átta ára gömul innikisa, af stað í ferðalag norður í land í nýja búrinu sínu, en þar átti hún að búa hjá ,,ættingjum“ vegna brottflutnings eigandans til Svíþjóðar. Búið var að gefa Grímu róandi lyf fyrir flugið og eigandinn var sestur í sætið sitt í vélinni þegar flugfreyjan kom til hans og sagði kisu vera horfna úr búrinu! ,,Ég trúði ekki mínum eigin eyrum“ sagði Sólveig Elín eigandi Grímu, sem yfirgaf flugvélina þegar í stað og fékk að sjá tómt kattarbúrið. Þá hafði grindin verið tekin úr búrinu og lá inni í því, en allir pinnar heilir og á sínum stað Hvernig kötturinn hafði getað sloppið úr búrinu var með öllu óskiljanlegt, en við eftirgrennslan kom í reyndar í ljós, að starfsmaður flugvallarins hafði látið búrið standa á jörðinni við hliðina á flugvélinni þegar hann hlóð vélina. ,,Þetta þóttu mér vera undarleg vinnubrögð“ sagði Sólveig Elín sem hóf strax leit að Grímu. Starfsmenn Flugfélagsins sögðust hafa séð köttinn hlaupa yfir flugbrautina í átt að stóra Skerjafirði en ekki getað elt hann, því enginn megi fara inn á brautina. Sólveig fékk svo hjálp frá starfsmanni Flugmálastjórnar við leitina sem bar heldur engan árangur.

Næstu tvær vikurnar fóru í að leita að Grímu, ganga um og kalla á hana, hengja upp auglýsingar víða um bæinn og Flugfélagið dreifði auglýsinum í hús í Skerjafirði og setti  tilkynningar í útvarpið og Fréttablaðið. Einnig voru settar tilkynningar í Velvakanda Morgunblaðsins og blaðamaður Blaðsins tók viðtal við Sólveigu Elínu. En allt kom fyrir ekki og öll leit og auglýsingar báru engan árangur, þótt  nokkrar vísbendingar bærust öðru hverju um að Gríma hefði sést í Skerjafirði og Vesturbæ.

Sólveig Elín flutti svo til Svíþjóðar 23. desember afar sorgmædd yfir því að hafa ekki fundið Grímu og vitandi af henni í úti í kuldanum yfir jólin. Eftir jólin bárust aftur nokkrar vísbendingar  um kött í Vesturbænum sem gæti verið Gríma og leituðu vinkonur Sólveigar Elínar kisu þar án þess að finna hana. En það var svo að miðvikudagskvöldið 24. janúar s.l. að maður í Skerjafirði hringdi til Sólveigar Elínar og sagðist halda að Gríma væri undir pallinum hjá sér. Hún þakkaði ábendinguna, en sagðist vera stödd í Svíþjóð og eiga þess vegna erfitt með að koma sjálf á staðinn og var satt að segja heldur ekki mjög vongóð um að þarna væri Gríma á ferð. Maðurinn fékk þó símanúmerið hjá vinkonum Sólveigar, en þegar þær komu í Skerjafjörðinn höfðu tvær mæðgur í nágrenninu, miklar kattarvinkonur sem höfðu fylgst með auglýsingunum eftir Grímu, gert sér lítið fyrir og náð kettinum inn í búr, alveg sannfærðar um að þarna væri Gríma fundin. Það reyndist rétt, en lýsingin á Grímu, bleika hálsólin sem núna var mörgum númerum of stór og eyrnamerkið tóku af allan vafa um að þetta væri hún. Þeim mæðgum má svo sannarlega þakka snarræðið að ná Grímu í búrið og varð það henni til lífs.

Gríma var höfð í búrinu yfir nóttina því hún var skelfingu lostin og þegar komið var með hana hingað á stofuna næsta dag, var ástand hennar afskaplega bágborið. Gríma, sem hafði verið tæp 6 kíló áður en hún hvarf, var nú tæplaga 3 kíló og við dauðans dyr af næringarskorti, grindhoruð, augun starandi og hélt hún hvorki jafnvægi né stóð undir sjálfri sér. Gríma fékk strax vökva undir húð og í æð og þegar hún hafði legið hér á stofunni heilan dag með vökva í æð fór að færast líf í augun og malið varð æ háværara.

Glaðar vinkonur.

Glaðar vinkonur.

Þær voru svo glaðar vinkonurnar sem hittust tveimur dögum eftir að Gríma fannst, því Sólveig Elín kom strax heim frá Svíþjóð og frá þeim degi fór kisu fram með hverri stundinni sem leið.

Viku seinna þótti Gríma ferðafær á ný og  núna er hún komin á upphaflega áfangastaðinn, þangað sem hún var á leið til þegar hún slapp.

Óhætt er að segja að sagan af Grímu hafi endað vel, þakkað sé öllum góðu kattavinunum.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd