Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Kynþroski tíka og lóðarí

Höfundur: • 13. okt, 2009 • Flokkur: Hundar
Aldur við kynþroska fer eftir tegund og stærð

Aldur við kynþroska fer eftir tegund og stærð

Fyrstu einkenni kynþroskans eru þau að ytri kynfæri tíkarinnar þrútna og það sést blóðug  útferð. Þetta tímabil er kallað lóðarí.

Gangferill tíka, þ.e. tímabilið frá lóðaríi til lóðarís, er flókið fyrirbæri sem tengist m.a. kynþroska, egglosunartímabili, aldri o.fl. sem svo aftur stjórnast af hormónum, umhverfi og erfðum, atferli ásamt andlegu og líkamlegu ástandi tíkarinnar.

Tíkur verða að jafnaði kynþroska á aldrinum 6 – 10 mánaða og lóða í fyrsta skipti einhverjum mánuðum eftir að þær hafa náð meðalþunga og stærð tegundarinnar. Vissulega er það tegundabundið, og ekki síður einstaklingsbundið, hvenær lóðarí hefst. Þannig getur tík af smáhundakyni lóðað 5 – 6 mánaða, en tík af stóru hundakyni ekki fyrr en 12 (18 – 24) mánaða. Að meðaltali líða 7 mánuðir á milli lóðaría (5 – 11 mánuðir), þó hjá sumum hundategundum sé nokkur frávik. Séfertíkur lóða t.d. á 4 – 4,5 mánaða fresti, en basenjitíkur (og tíbeskar mastiftíkur) lóða hins vegar aðeins einu sinni á ári. Hjá þeim er lóðaríið birtutengt, þ.e. þær lóða þegar sól fer að lækka á lofti og á norðurhveli jarðar gjóta þær því í svartasta skammdeginu í nóvember – janúar (og á suðurhveli jarðar í júní/júlí!).

Gangferillinn skiptist í 4 tímabil, þ.e.

 1. blæðingartímabil,
 2. egglosunartímabil,
 3. eftirgangmál og
 4. hvíldargangmál.
Gangferill tíkur

Gangferill tíkur

Fyrstu merki um að tíkin sé kynþroska eru þrútin ytri kynfæri og blóðug útferð

Fyrstu merki um að tíkin sé kynþroska eru þrútin ytri kynfæri og blóðug útferð

Blæðingartímabil (proestrus): Meðallengd blæðingartímabilsins er 9 dagar en getur varað frá 2 – 3 dögum allt að 27 dögum. Útferðin er blóðug og á þessum tíma dregur tíkin að sér hunda, en sýnir þeim litla athygli eða bregst jafnvel illa við. Ástæða aðdráttaraflsins er talin stafa af sérstökum lyktarefnum, ferómónum, í útferðinni, seyti frá endaþarmssekkjunum eða þvagi.

Egglosunartímabil (estrus): Hægt er að segja að sá dagur sem tíkin stendur undir hundi sé byrjunin á egglosunartímabilinu. Flestar tíkur sýna það líka mjög greinilega, því mæti þær hundi eru þær afar tilkippilegar! Egglosunartímabilið er að jafnaði 9 dagar, en getur varað allt frá 4 til 24 daga og aðeins á þessum tíma er tíkin frjó. Ytri kynfærin eru enn þrútin en þó heldur mýkri en á blæðingartímanum og liturinn á útferðinni er ljósari þó ekki alltaf.

Samspil hormóna, þ.e. estrógens, prógesteróns og gulbúskveikjunnar (LH) í blóðinu, stjórna þroska eggjanna í eggjastokkunum og egglosi. Egglos á sér svo stað 2 – 3 sólarhringum eftir að magn gulbúskveikjunnar hefur náð hámarki. Egg tíkarinnar eru sérstök að því leyti að þau eru ekki frjó fyrr en 2 – 3 sólarhringum eftir að þau losna úr eggjastokkunum. Hvenær egglosið á sér svo stað er önnur saga og er ekki alltaf í samhengi við atferli tíkarinnar. Oftast eru eggin þó tilbúin til frjóvgunar nokkrum sólarhringum eftir að egglosunartímabilið hefst, þ.e. að jafnaði 12 – 14 dögum eftir að blæðinga verður vart.

Hægt er að mæla magn prógesteróns í blóði, en egglosið á sér stað þegar það hefur náð ákveðnu gildi (12 – 30 nmol/L). Þegar sæða á með frystu sæði eða vandamál steðja að, er nauðsynlegt að taka blóðsýni og sýnir þá magn prógesterónsins hvort eða hvenær egglos á sér eða hefur átt sér stað.

Eftirgangmál (Diestrus): Eftirgangmálið varir um 2 mánuði og þá er magn prógesteróns í blóði hátt, hvort sem tíkin er hvolpafull eða ekki, en lækkar svo í lok tímabilsins niður fyrir 3 nmol/L. Þá á fæðingin sér líka stað hafi tíkin orðið hvolpafull

Hvíldargangmál (Anestrus): Hvíldargangmálið er eins og nafnið gefur til kynna ,,hvíldartímabil“ legsins sem þá dregst saman eftir hormónasveiflurnar á blæðinga- og egglosunartímabilinu og/eða meðgöngu. Það varir að jafnaði 4,5 mánuði og lýkur þegar blæðingatímabilið hefst að nýju.

Það er skynsamlegt er að merkja við í dagatalinu þegar tíkin lóðar, því þá er annars vegar hægt að fylgjast með hvenær von er á næsta lóðaríi og hins vegar hvort tíminn á milli sé of langur eða stuttur sem gæti verið merki um sjúkdóm.

Getnaðarvarnir

Ýmsar getnaðarvarnir eru til fyrir tík til að koma í veg fyrir að hún verði hvolpafull svo sem að passa hana, meðhöndla með getnaðarvarnarlyfjum (hormónum) eða gera varanlega ófrjóa.

1. Passa!
Tíkin er sem sagt aðeins frjó þegar hún lóðar og þegar fyrstu merki um blóð sjást er aðeins eitt ráð til, þ.e. að passa hana vel eigi ekki að gera hana ófrjóa eða nota hormónalyf. En það að passa lóða tík þýðir einfaldlega að aldrei má missa á henni sjónar, því annars vegar er hún afskaplega tilkippileg og getur látið sig hverfa á augabragði, sjáist hundur í nágrenninu, og og hins vegar, sé vonbiðill á næstu grösum, getur hann verið eldsnöggur að stökkva yfir jafnvel hæstu grindverk og girðingar og þá er ekki að sökum að spyrja. Því má aldrei láta lóða tík vera lausa eða eina, hvorki heima við í girtum garði úti á víðavangi eða leyfa börnum að fara með hana í gönguferð.

2. Getnaðarvarnarlyf
Hægt er að koma í veg fyrir að tík lóði með því að meðhöndla hana með hormónalyfjum, svokölluðum getnaðarvarnarlyfjum. Þá er tíkin sprautuð á 5 mánaða fresti og er mikilvægt að byrja meðferðina þegar tíkin er stödd í hvíldartímabilinu (anestrus) í gangferlinum. Þess vegna verður hún að hafa lóðað einu sinni svo hægt sé að sprauta hana á réttum tíma. Frá byrjun lóðarís þ.e. blæðingatímabilinu, verða því að líða a.m.k. þrír mánuðir áður en meðferðin hefst.

Rannsóknir hafa sýnt að meðferð með hormónalyfjum leiðir til hærri tíðni krabbameins í júgri og hærri tíðni legbólgu.

3. Varanleg ófrjósemisaðgerð
Varanleg ófrjósemisaðgerð felst í því fjarlægja eggjastokka með skurðaðgerð. Aðgerðin er í sjálfu sér einföld og tíkin er venjulega mjög fljót að ná sér með góðri hjálp verkjalyfja.

Kostir og ókostir við varanlegar ófrjósemisaðgerðir

Vissulega eru bæði kostir og ókostir við ófrjósemisaðgerðir á hundum og tíkum. Rannsóknir á því hvaða áhrif aðgerðirnar kunna að hafa á heilsufar þeirra, tíka sérstaklega þegar til lengri tíma er litið, hafa hins vegar leitt í ljós að ekki er allt sem sýnist í þeim efnum, upplýsingar oft ófullnægjandi, jafnvel misvísandi og sjaldnast minnst á þær neikvæðu aukaverkanir sem aðgerðin kann að hafa í för með sér á heilbrigði tíkarinnar. Þó aðgerðin minnki vissulega líkur á nokkrum alvarlegum sjúkdómum eins og t.d. legbólgum og krabbameini í júgri, á það ekki við um aðra sjúkdóma.  Þættir eins og aldur við aðgerð sem og áhættuþættir (arfgengir) er kunna að fylgja kyninu, geta hugsanlega einnig haft áhrif  á það hvort aukaverkanir komi í ljós eða ekki.  Það er því skynsamlegt að leita ráða hjá dýralækninum áður en ákvörðun um ófrjósemisaðgerð er tekin!

Ávinningur:

 • Sé aðgerðin gerð áður en tíkin verður 2 1/2 árs minnka líkurnar á krabbameini  í júgra, algengastu gerð krabbameins hjá tíkum, um 90%
 • útilokar nær legbólgur sem um fjórðungur tíka ella fær og dregur um 1% þeirra til dauða og
 • minnkar líkur á krabbameini í legi, leghálsi og eggjastokkum (sem reyndar er frekar óalgegnt < 0.5%).

Ókostir  m.a.:        

 • Eykur líkur á offitu með tilheyrandi fylgikvillum,
 • veldur oftar þvagleka eða hjá 4  –  20% tíka (og algengari eftir því sem tíkin er yngri þegar aðgerðin er gerð),
 • sé um stærri tíkur að ræða (og sé aðgerðin gerð áður en þær ná ársaldri), aukast líkur á beinkrabba (osteosarcome) til muna,
 • líkur á vanstarfsemi skjaldkirtils þrefaldast,
 • meiri líkur á endurteknum og/eða langvinnum þvagfærasýkingum,
 • aukið háralos,
 • verulegar feldbreytingar, sérstaklega hjá spaníeltegundum og
 • skortur á umhverfisþroska og tilhneiging til árásargirni (sérstaklega sé  aðgerðin gerð fyrir fyrsta lóðarí).

Fölsk meðganga

Margir tíkareigendur þekkja það að nokkrum vikum eftir lóðarí sýnir tíkin öll merki þess að vera hvolpafull án þess að hafa haft náin kynni við hund! Tíkin er óróleg, grefur í teppi og rótar í bælinu sínu eins og hún sé að undirbúa got. Sumar tíkur fá mjólk í júgur og leikföng sem tísta eru í sérstöku uppáhaldi. Tíkin vill jafnvel ekki út eða gefa sér tíma til að éta. Fátt er til ráða, en gott er að reyna að brjóta upp þetta atferli með því að fara oftar út að ganga eða gera eitthvað skemmtilegt til að dreifa huga tíkarinnar. Til eru lyf sem má nota sé tíkin illa haldin og/eða full af mjólk.

Legbólga

Leg úr tík með alvarlega legbólgu

Leg úr tík með alvarlega legbólgu

Legbólga er alvarlegur sjúkdómur og algengastur hjá tíkum á aldrinum 4 – 8 ára. Reyndar geta tíkur á öllum aldri fengið legbólgu! Oftast koma einkenni í ljós fáeinum vikum eftir lóðarí, en einkennin geta verið óljós og jafnvel misvísandi. Helztu einkenni eru þau að tíkin er daufari en venjulega og mun  þorstlátari og áberandi er að hún sleikir sig meira að aftan. Þegar að er gáð getur sést óeðlilega lituð útferð og hárin í kring um ytri kynfæri og á skotti eru klístruð útferð.  Í öðrum tilfellum verður hún bráðveik og því fyrr sem sjúkdómurinn er greindur, því betri eru batahorfurnar. Meðferðin felst í aðgerð þar sem leg og eggjastokkar eru fjarlægðir.

Lyfjameðferð með sýklalyfjum dugir venjulegast skammt, en til eru hormónalyf (Alizin) sem má reyna að nota, sérstaklega sé um undaneldistík að ræða. Batinn er þó sjaldnast til frambúðar.

Heimildir:                                                                                                                                                                                                                                                                                                             Long-Term Health Risks ane Benefitss Associated with Spay/Neuter in Dogs. Laura J. Sanborn 2007                                                                                                                                 Early  s.paying in dog. Samuel Buff. DVM, Dipl. ECAR. Ecole Nationale Vétérinaire de Lyon. 2009

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd