Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Pörun og vandamál

Höfundur: • 16. jan, 2016 • Flokkur: Almennt

Egglos tíka og og pörun

Pörun er sem betur fer oftast vandalaus og í flestum tilfellum sjá hundurinn og tíkin um framkvæmdina hjálparlaust. En stundum koma upp vandamál og þá getur þurft aðstoð dýralæknis til Cavalierpörunþess að fallegir hvolpar líti dagsins ljós í fyllingu tímans.

Ófrjósemi þekkist bæði hjá hundum og tíkum hver svo sem ástæðan kann að vera, en talið er að einungis 8 af hverjum 10 tíkum séu frjóar, þ.e. eignist afkvæmi og getur orsökin  fyrir ófrjóseminni verið margvísleg og kannski ekki alltaf auðleysanleg. En sem betur fer finnst þó oft lausn á vandanum sem getur kannski bara stafað af því að eigendurnir lesa ekki alveg rétt í stöðuna, eru of bráðlátir og gefast þá annað hvort upp eða grípa til þess að láta sæða tíkina upp á von og óvon.

Lóðarí og egglos   

Litlu blöðrurnar í eggjastokknum innihalda egg sem losna úr honum þegar blöðrurnar springa

Litlu blöðrurnar í eggjastokknum innihalda egg sem losna úr honum þegar blöðrurnar springa

Forsenda þess að tík verði hvolpafull er að það verði egglos, en það á sér einungis stað á lóðatímabilinu. Tíkur lóða að jafnaði á 5 – 7 mánaða fresti (sjá greinina kynþroski tíka og lóðarí) í um 3 vikur í senn og þá sést blóðug útferð. Egglosið á sér svo stað ,,einhvern tímann“ á þessu tímabili og er tíkin því aðeins frjó þá. Hjá flestum tíkum er egglos í kringum 12. dag lóðarísins, en á því geta sannarlega verið frávik. Stundum á egglosið sér stað miklu fyrr – en stundum líka miklu seinna.

Eggin

Þegar egglosið á sér stað hrynja nær öll eggin samtímis úr eggjastokkunum. Það sem aðskilur egg tíkarinnar frá eggjum flestra spendýra er að þau verða ekki frjó fyrr en 24 – 72 klst. seinna. En þegar þau eru tilbúin, lifa þau að jafnaði í um 2 – 4 sólarhringa í eggaleiðurunum og þangað ná sáðfrumurnar 25 sekúndum eftir pörun.

Hvenær á egglosið sér stað?

Venjulegaimagessta vísbendingin um að egglosið sé í nánd er sá dagur þegar tíkin leggur skottið greinilega til hliðar og vill standa undir hundi. Flestar tíkur sýna þetta mjög greinilega og mæti þær hundi, eru þær afar tilkippilegar og hundurinn alveg jafn hrifinn af tíkinni! En eru þessi merki örugg um að þetta sé rétti tíminn til pörunar? Því miður er ekki alltaf svo því egglosið getur átt sér stað áður en tíkin sýnir þessi einkenni og líka seinna og pörunin því átt sér stað of seint – eða of snemma.

Það kemur einnig fyrir, að þó lóðaríið virðist vera alveg eðlilegt og tíkin sýni öll merki þess að vera tilbúin, verður ekki egglos og sé svo er líka skiljanlegt að

Græna línan sýnir hækkunina á prógesterónhormóninum í blóðinu og rauði krossinn v. megin hvenær egglosið á sér stað

Græna línan sýnir hækkunina á prógesterónhormóninum í blóðinu og rauði krossinn v. megin hvenær egglosið á sér stað

árangurinn láti á sér standa.

Hægt er að mæla nákvæmlega hvenær egglosið á sér stað með blóðrannsókn, en það gerist þegar  magn hormónsins prógesteróns hefur náð tilskyldu magni í blóðinu. Til að hægt sé að staðsetja það upp á dag, getur þurft að mæla nokkrum sinnum. Á markaðnum eru til ýmsar hraðvirkar aðferðir til þess að mæla magn prógesteróns í blóði, en þær eru alls ekki eins nákvæmar og mælingar á rannsóknarstofum. Einnig er mögulegt að áætla egglosið með því að skoða frumusamsetningu slímhúðar í leggöngum (í smásjá), en það eitt sér er aðeins leiðbeinandi rannsókn og alls ekki mjög örugg. Bezt er að þetta fari allt saman, þ.e. atferli tíkarinnar, útlit slímhúðar í leggöngum og magn  prógesteróns í blóðinu (sem er eins og áður segir, öruggasti þátturinn í ferlinu). Lukkist pörunin ekki, er mikilvægt að hafa samband við dýralækninn strax í upphafi næsta lóðarís svo mögulegt verði að leysa vandann.

Sæðið

sæðisfrumurHeilbrigt sæði getur lifað allt að 4 – 6 daga í legi tíkarinnar og jafnvel lengur. Líftími eggjanna, sem og sæðisins, gerir það að verkum að í flestum tilfellum ætti að vera alveg nægjanlegt að para einu sinni.

Vandamál?

Ljóst er að vandamál geta verið á ferðinni, þó allt virðist vera í góðu lagi þegar hundur og tík eru pöruð og jafnvel ítrekað lóðarí eftir lóðarí, þegar engir hvolpar líta dagsins ljós. Var kannski parað of seint eða of snemma, er hundurinn hugsanlega ekki frjór, sæðið lélegt eða þá að egglos átti sér ekki stað hjá tíkinni? Oft fylgir sögunni að endurtekin sæðing hafi ekki hjálpað og allir verða leiðir þegar árangurinn lætur á sér standa.

Vandamálin geta auðvitað verið margvísleg og jafnvel er undirliggjandi sjúkdómur ástæða fyrir ófrjóseminni. Því er mikilvægt að leita til dýralæknis til að leita ástæðunnar

Sagt er að reyndur hundur viti upp á hár hvenær tík er tilbúin. Staðreyndin er hins vegar sú, að atferli tíkarinnar segir meira til um réttan tíma en atferli hundsins ( – flestir hundar eru reyndar tilbúnir hvar og hvenær sem er, sé lóða tík annars vegar) og það er hún sem ákveður hvort og þá hvenær hún vill parast.

Mikilvægt er að taka tillit til þess þegar ungar og óreyndar tíkur eiga í hlut, því þær eru ekki alltaf tilbúnar til pörunar þó tíminn sé réttur og sama á líka við um óreynda hunda (– og eigendur). Allt getur þetta haft áhrif á gang mála og því er rétt að leita aðstoðar komi upp vandamál.

Það þarf líka að skoða sæðið og sérstaklega fylgi það sögunni að hundurinn hafi árangurslaust verið notaður áður. Þegar sæði er tekið verður að vera lóða tík við höndina, því annars er eins líklegt að það komi bara vökvi frá blöðruhálskirtlinum en ekkert sæði. Margir hundar eru misöruggir með sig, sumir jafnvel ,,feimnir“ og engan veginn tilbúnir í sæðistöku. Hins vegar læra þeir oft fljótt að þetta er ekkert mál og þá er björninn unninn! Sæðið er sett á plötu undir smásjá og skoðað hve lifandi sáðfrumurnar eru, þéttleikinn og hvort þær virðist ekki heilbrigðar. Til er í dæminu að (ungur) hundur sem hafi aldrei fyrr verið notaður eða hafi ekki notaður lengi, sé ,,í hvíld“ (long sexual rest) og sjást þá bara óþroskaðar sáðfrumur. Þá verður að bíða einhvern tíma, því það tekur frumurnar tíma að þroskast.

Pörun

Við pörun er mikilvægt að hafa í huga að hundurinn er að jafnaði meira ráðandi en tíkin og þess vegna er betra að fara með tíkina til hundsins, þ.e. á hans yfirráðasvæði. Þau þurfa einnig að fá að kynnast og venja sig hvort við annað. Sé tíkin hins vegar sú ráðandi getur pörunin gengið brösuglega.

Þegar para á tík ætti að skoða ytri kynfærin daglega svo mögulegt sé að fylgjast með hvenær lóðaríið hefst og skrifa hjá sér hvenær fyrst sést blóð. Ráðlegt er að fara með tíkina til hundsins frá 5. – 6. degi lóðarísins, leyfa þeim að kynnast og para þau svo á 2. – 3 daga fresti þegar tíkin er tilbúin.

Ómskoðun

Fóstur og rauði depillinn er hjartað

Fóstur og rauði depillinn er hjartað

Lukkist nú allt vel, þá má þreifa eða ómskoða tíkina u.þ.b. 22 – 24 dögum eftir pörun. Unnt er að sjá fóstur frá 20. degi getnaðar, en þó það sjáist eitt fóstur eða hvolpafull tíkfleiri, kemur það því miður fyrir að þau ná ekki að þroskast áfram. Frá 6. viku ætti að sjást greinilega að tíkin er hvolpafullt því þá er hún orðin umfangsmeiri og spenarnir stækkaðir. Frá 43. degi ætti svo að gefa henni spóluormalyf  (sjá greinina Spóluormar í hundum).

Heimildir:
Canine and Feline Endocrinology and Reproduction. Feldman and Nelson
Veraldavefurinn

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Comments are closed.