Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur http://www.dyralaeknir.com Skipasundi 15, 104 Reykjavík, sími 553 7107 Thu, 28 Dec 2023 10:13:46 +0000 is hourly 1 Áramótin nálgast! http://www.dyralaeknir.com/2023/12/11/aramotin-nalgast-6/ Mon, 11 Dec 2023 10:00:48 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=2246  

 

Áramótin nálgast og þá fer að bera á hávaða frá flugeldum. Þessi tímamót eru spennandi tími fyrir marga sprengju-glaða menn, en eru þó að sama skapi tími ótta og skelfingar fyrir mörg gæludýr. Hávaðinn og ljósglamparnir sem fylgja flugeldunum  og skottertunum geta valdið þeim verulegri hræðslu og svo mikilli að jafnvel djörfustu veiðihundum stendur ekki alveg á sama. Það er því  mikilvægt að undirbúa alla ferfætta heimilisvini eins vel og hægt er undir sprengi,,gleðina“ kringum áramótin og sérstaklega sé um að ræða fyrstu áramót bezta vinarins.

Hræðsla og ótti geta auðvitað átt sér margar ástæður hjá hundi eða ketti, en eitthvert eitt atvik eða slæm upplifun, eins og t.d. áramótalæti, getur valdið hundi eða kisa, sem ella eru í góðu jafnvægi, mikilli hræðslu. En hvort heldur sem það er hávaðinn eða ljósglamparnir sem valda hræðslunni, er hvoru tveggja jafn ófyrirsjáanlegt í augum hundsins eða kisa því ógnin kemur að þeim og það algjörlega  fyrirvaralaus úr öllum áttum. Sé neikvætt og endurtekið áreyti, eins og áramótalæti, fyllist hundurinn eða kisa mikilli hræðslu og skelfingu strax við fyrsta hvell og hefur skelfingin því miður ríka tilhneigingu til að versna með árunum.

Sem betur fer verða ekki öll dýr hrædd og má nefna að til er í dæminu að einhverjir hundar haldi að flugeldar séu eitthvað sérdeilis skemmtilegt sem eigi að elta, en varla þarf að taka fram, að ,,skotglaður“ hundur og flugeldar eða blys eiga aldrei samleið!

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Eins og áður segir, er mikilvægt að undirbúa áramótin vel svo öllum geti liðið sem bezt þegar nýja árið gengur í garð.

Sérstaklega þurfa eigendur gæludýra sem eru að upplifa sín fyrstu áramót að undirbúa þau vel. Sé hvolpur, eða ungur hundur á heimilinu sem á sín fyrstu áramót framundan, og sérstaklega hvolpur á aðal mótunarskeiði lífsins, þ.e. 4 – 5 mánaða, er mikilvægt að gera allt til að koma í veg fyrir að hann verði hræddur, því grípi hann skelfing er líklegt að sú neikvæða lífsreynsla fylgi honum um ókomin áramót.

Mikilvægt er að hafa í huga, að hundar eiga alls ekkert erindi á brennur eða flugeldasýningar og það er engin ástæða til að taka þá áhættu sem kann að fylgja því að fara með þá þangað.

Eigi að gefa dýrinu róandi lyf, þarf að hafa samband við dýralækninn tímanlega til að fá kvíðastillandi lyf og leiðbeiningar hvernig og hvenær eigi að gefa lyfin. Mikilvægt er að gefa lyfin á réttum tíma og áður en hræðslan nær yfirhöndinni (þ.e. áður en sprengingarnar fara á fullt), því þá getur verið erfitt að ná tökum á ástandinu.

Kisur

Skynsamlegt er að loka kisu inni dagana fyrir áramótin eða fara með hana út í beisli, vilji hún endilega fara út svo kisa troði sér ekki einhvers staðar inn eða jafnvel undir t.d. sólpalla þaðan sem hún kemst kannski ekki til baka.

 

 

 

 

Hestar

Hesteigendur eru einnig hvattir til að huga vel að hestum sínum, en þeir hræðast ljósblossana frekar en hávaðann. Gott er að byrgja glugga í hesthúsinnu til að útiloka blossana, en einnig er líka gott að setja  góða tónlist ,,á fóninum“ og líta til þeirra reglulega um áramótin til þess að ganga úr skugga um að allt sé í góðu lagi.

Einkenni hræðslu

Dýr hafa enga ánægju af skottertum

Dýr hafa enga ánægju af skottertum

eru augljós. Dýrunum bregður við hvern hvell, anda ótt og títt, titra og skjálfa og reyna að leita skjóls hjá eigendunum, undir rúmum eða lengst inni í skáp og sum þeirra geta jafnvel orðið svo hrædd að þau missi þvag. Matarlystin hverfur og um leið áhuginn á uppáhalds nammibitunum eða leikföngum og hundar, og jafnvel kisur, hafna því alfarið að fara út fyrir hússins dyr til að gera þarfir sínar. Hræðslan hefur því miður ríka tilhneigingu til að aukast með árunum og dýrin virðast skynja strax hvað í vændum er þegar skotæfingarnar hefjast fyrir áramótin jafnvel þó í órafjarlægð sé. Hrædd dýr vilja ekki út svo tímunum skiptir til að gera þarfir sínar sem eykur auðvitað enn á vanlíðanina.

Hvað er til ráða?

Byrja þarf á því að undirbúa áramótin vel.  Eins og áður segir er afar mikilvægt að koma í veg fyrir að ung dýr, sem nú upplifa sín fyrstu áramót, verði hrædd og sýni það minnstu merki um ótta eða hræðslu, þarf að róa það með rólegu tali og látbragði svo hræðslan nái ekki yfirhöndinni. Almennt eru hundar mun hræddari en kettir sem virðast hugdjarfari og eiga líka auðveldara með að finna skjól frá hávaðanum með því að grafa sig dýpst inn í (fata)-skápa!

  • Séu hrædd dýr skilin eftir ein heima, eða lokuð  afsíðis, er meiri hætta á að það skapi enn meiri hræðslu og vanlíðan, því þá vantar þau nándina, stuðninginn og hvatninguna frá eigandanum. Hvorki matur né uppáhaldsleikföng hjálpa þá, enda veldur hræðslan þeim sinnuleysi.
  • Dagana fyrir áramótin og sérstaklega á gamlársdag er gott að fara í lengri gönguferðir með hundinn en vanalega, og á þeim tíma sem minnst er um flugelda, og leggja jafnvel fyrir hann þrautir og skemmtilegheit svo hann verði þreyttari en venjulega og þá kannski ekki eins upptekinn af umhverfinu.
  • Á þeim tíma sem von getur verið á flugeldum eða sprengingum má t.d. aldrei skilja hund eftir bundinn úti í garði, einan í garðinum þó girtur sé eða í búri í bílnum. Hann hefur þá enga möguleika á að komast undan eða leita skjóls og getur algjörlega misst stjórn á aðstæðum með ófyrirséðum afleiðingum.
  • Ketti ætti alltaf að loka inni dagana fyrir og eftir áramót og þurfi þeir út er bezt að hleypa þeim út um ,,há“bjartan daginn þegar minnst er von á sprengingum, eða fara með þá út í ól og taum.

Munið líka að það má ekki undir neinum kringumstæðum sleppa hundi lausum þar sem minnsta von er á sprengilátum, því óttasleginn hundur getur tekið á rás algjörlega stjórnlaust út í buskann!

  • Séu hrædd dýr skilin eftir ein heima, eða lokuð  afsíðis, er meiri hætta á að það skapi enn meiri hræðslu og vanlíðan, því þá vantar þau nándina, stuðninginn og hvatninguna frá eigandanum. Hvorki matur né uppáhaldsleikföng hjálpa þá, enda veldur hræðslan þeim sinnuleysi.

Athugið að hrædd dýr má aldrei skilja eftir ein heima eða loka þau ein afsíðis !

Gamlárskvöld

Gott er að undirbúa gamlárskvöldið með hundinum eða kettinum þannig að einhver sé inni með dýrið á meðan hinir sprengja. Bezt er þá að vera á þeim stað í húsinu eða íbúðinni þar sem minnsta hávaða og/eða ljósagangs gætir, t.d. í gluggalausu herbergi. Sé gluggi á herberginu, dragið þá gluggatjöldin vel fyrir og spilið rólega tónlist í tilraun til að draga úr hávaða- og ljósmenguninni utanfrá.

Sömu ráðstafanir gilda auðvitað fyrir eldri dýr sem vitað er að eru smeyk eða hrædd. Hafi þau hins vegar verið mjög hrædd um síðustu áramót og eigandanum finnst óráðlegt að láta dýrið upplifa sömu hræðsluna á ný, eru nokkur ráð til bjargar. Stundum eru svokölluð ferómonefni nægileg til að róa hundinn eða kisu og gera þeim áramótin bærilegri, en í öðrum tilfellum eru þau ekki nægileg hjálp og þá verður að grípa til þess ráðs að gefa kvíðastillandi og jafnvel einnig róandi lyf.

Aldrei má gefa hundi eða kisa róandi lyf og skilja þau síðan eftir ein heima eða eftirlitslaus!

Róandi lyktarefni

D.A.P.

D.A.P.

Á markaðnum eru efni sem hafa róandi áhrif á dýr án þess að vera lyf og draga úr streitu og hræðslu. Til eru t.d. svokölluð ferómon (lyktarefni) sem eru efni sem skiljast frá fitukirtlum umhverfis spena tíkarinnar eftir got og hjá köttum á haus (vangum) og hefur mjög róandi áhrif á afkvæmin. Einnig eru til efni sem eru blanda náttúrulegra plöntuolía sem hafa róandi áhrif á kvíða og streitu hjá flestum dýrategundum bæði gæludýrum og hestum. Meðal innihaldsefnanna eru m.a. efni unnin úr rótum plöntunnar garðabrúðu, en virkni þeirra gegn streitu og kvíða hefur verið þekkt um aldir. Þessi náttúrulegu efni henta jafnvel gæludýrum sem hestum og fuglum.

Þessi efni hafa gefið góðan árangur í margvíslegri meðferð hunda og katta með truflað atferli s.s. vegna breyttra aðstæðna á umhverfi, taugaóstyrks og/eða hræðslu t.d. í kringum áramót, en byrja þarf meðferðina einhverjum vikum fyrir t.d. áramótin.

Lyfjagjöf

getur því miður reynst nauðsynleg í sumum tilfellum. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að dýrin líði, en í lang-flestum tilfellum eru það hundar sem þarfnast lyfja.

Gott að ræða við dýralækninnn tímanlega fyrir áramótin um vandamálið og hvenær dagsins/kvöldsins sé bezt að gefa lyfin, hvernig og hversu lengi þau virka, en almennt virka róandi og kvíðastillandi lyf í 3 – 6 klukkustundir. Í vægum tilfellum fær hundurinn aðeins kvíðastillandi lyf, en nægi þau ekki ein og sér eru einnig gefin róandi lyf.

Mikilvægt er að eigandinn láti okkur vita hvernig lyfin virka, svo hægt sé að breyta lyfjagjöfinni um næstu áramót, þurfi þess. Reynsla okkar hér á stofunni er sú að rétt lyfjagjöf, þegar hennar er þörf,  léttir bæði fer- og tvífættum áramótalætin.

                           Hundar í taumi – og kisur inni!

Göngutúr í taumi

Göngutúr alltaf í taumi

Mikilvægt er að hafa hundinn í taumi dagana í kringum áramótin þurfi hann að fara út, jafnvel bara út í garð, því skyndilegur hvellur getur hrætt hundinum svo illilega við að hann rjúki af stað, beint af augum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

           Langur göngutúr – alltaf í taumi!

Áramótabrennur og flugeldasýningar?

Munið að dýr hafa enga ánægju af brennum, flugeldum eða „skottertum” og eiga því ekkert erindi á slíkar samkomur. Þó hundur hafi ekki verið hræddur áður, getur smávægilegt atvik valdið skelfingu og þá er ekki aftur snúið.

Mikilvæg atriði sem hafa þarf í huga um áramótin:

  • Verið heima með hundinum ykkar eða kisa á gamlárskvöld/þrettándanum.
  • Það má alls ekki skilja hrædd dýr eftir ein heima.
  • Farið snemma út með hundinn á gamlársdag í góðan göngutúr áður en sprengingarnar hefjast, hafið hundinn í taumi – og haldið kisu alveg inni, helzt líka dagana fyrir gamlársdag. 
  • Hafið hundinn eða köttinn  þar sem minnsta hávaða og ljósagangs gætir og dragið gluggatjöldin vel fyrir til að forðast ljósaganginn.
  • Kveikið á útvarpinu eða spilið rólega tónlist til að „fela“ sprengjulætin.
  • Ekki skjóta upp rakettum eða kveikja í „tertum“ nálægt húsinu. Hugsanlega eru nágrannarnir líka með dýr, svo tala má um að allir fari fjær húsunum með flugeldana.
  • Verið með hundinum eða kisu og reynið að leiða athygli þeirra frá látunum, – vorkennið þeim alls ekki; sýnið þeim heldur með atferli ykkar að ekkert er að óttast!
  • Ráðgeri fjölskyldan að skoða brennur er skynsamlegt að einhver verði heima með hundinn á meðan.

Hestar

Þeir sem eiga hesta þurfa einnig að gæta vel að þeim fyrir gamlárskvöld. Mikilvægt er að gefa þeim vel af góðu og lystugu heyi til að dreifa athyglinni fr+a l+atunum úti.

Einnig er gott að byrgja gluggana á hesthúsinu til að dempa leiftrin frá flugeldunum og sprengjunum og jafnframt er gott að hafa hjá þeim útvarp með tónlist.

Hestamenn ættu að vitja hesta sinna um eða eftir miðnætti til að athuga hvort ekki sé allt í góði lagi.

Gott er að meta hvort skynsamlegt er að fara í reiðtúr á meðan von getur verið á sprenginum og hvellum, því  hestur getur auðveldlega fælzt við snöggum hávaða.

Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur í Skipasundi óskar öllum gæludýraeigendum og skjólstæðingum þeirra gleðilegra áramóta og farsældar á nýju ári!

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár!

]]>
Hundar, vetrarkuldar, skjólföt – eða ekki? http://www.dyralaeknir.com/2022/12/08/hundar-vetrarkuldarskjolfot-eda-ekki/ http://www.dyralaeknir.com/2022/12/08/hundar-vetrarkuldarskjolfot-eda-ekki/#respond Thu, 08 Dec 2022 12:36:45 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=2565 Á að klæða hunda í föt?

Þurfa allir hundar yfirhafnir eða skó þegar þeir fara út?

Þurfa allir hundar yfirhafnir eða skó þegar þeir fara út?

Framundan er veturinn með misjöfnum veðrum bæði fyrir menn og hunda. Staðreynd er, að hundum líður ekkert skár í vondum veðrum en okkur hinum og getur svo sannarlega líka orðið kalt í frosti og strekkingi. En þurfa hundar yfirhöfn eða skó þegar þeir fara út vegna þess að feldurinn ver þá ekki lengur gegn veðri og vindum?

Hundurinn lifði af í náttúrunni um árhundruð án peysu eða annars skjólfatnaðar, en hins vegar hafa mannanna verk ekki bara breytt útliti fjölmargra hundategunda, heldur einnig feldgerðinni sem ver einstaklinginn ekki lengur gegn kulda.

Flest hundakyn, og úlfurinn, hafa feld sem er gerður úr tveimur lögum hára, þ.e. þeli sem er mjúkt og situr næst húðinni og togi, sem eru löngu yfirhárin, og veitir slíkur feldur mjög góða vörn gegn kulda og roki. Þegar markviss ræktun hófst fyrir árhundruðum, voru ýmsir eftirsóttir eiginleikar hafðir í fyrirrúmi og fram komu m.a. smáhundakyn sem urðu gæluhundar, sváfu jafnvel hjá eigandanum og þurftu þar af leiðandi ekki jafn mikinn feld og vinnuhundarnir sem bjuggu við minni lúxus!

En það eru reyndar ekki bara smáhundar eins og t.d. chihuahua  sem eru feldlitlir, því það á sannarlega einnig við um sum stærri hundakyn sem geta þá ekkert síður átt erfitt með að halda á sér hita, eins og t.d. whippet, og er náttúruleg vörn þeirra gegn kulda þar af leiðandi í lágmarki

Þessum virðist ekki líða illa þó stórhríð geysi allt í kring

Þessum virðist ekki líða illa þó stórhríð geysi allt í kring

Þunnhærð hundakyn, eða hárlaus, hafa hærri líkamshita en loðnir hundar, einfaldlega til þess að bæta varmatapið sem hlýst vegna feldgerðarinnar.

Yfirborð búksins, sem er stærsti hluti líkamans, er þess vegna sá hluti sem þarf að verja gegn kulda, þó hundum geti sannarlega líka orðið kalt á ,,tánum“, eyrunum og skotti. Blóðið í stóru æðunum sem flytja heitt blóðið frá búknum í útlimi, kólnar á hringferðinni og kemur kaldara aftur til baka og líkaminn þarf að nota mikla orku til hita það á nýjan leik.

Mörgum þykir það skrýtið, að sleðahundar frjósi ekki í hel, eða útlimina kali, þegar þeir hringa sig í snjónum í nístandi frosti og roki. En með aðlögun þeirra að umhverfinu, og einstakri hjálp náttúrunnar, hefur æðakerfið í útlimunum þróað með sér eins konar varmaskiptakerfi. Kerfið virkar þannig, að súrefnisríkt, heitt blóð sem líkaminn dælir til móts við kalda blóðið í útlimunum vermir það, svo líkamshitinn í þeim helzt jafn. Um leið er ,,kerfið“ jafnframt orkusparandi.

Hvað ber að varast í kuldanum?

Kuldi og vosbúð getur valdið ýmsum kvillum

Kuldi og vosbúð getur valdið ýmsum kvillum

Verði hundi kalt er honum auðvitað hættara við að verða veikur. Ekki er óalgegnt að sjá t.d. blöðrubólgu, hálsbólgu og jafnvel lungnabólgu eftir kulda, slark og bleytu.

Hundum finnst jafn slæmt og okkur að vera kalt og kuldinn er enn verri sé gigt til staðar. Það er því mjög eðlilegt að dýralæknirinn ráðleggi hlífðarföt fyrir þá hunda sem þess þarfnast til varnar kuldanum.

 

 

 

 

Eyru og þófar 

Volgt sápu,,fóta"bað getur gert kraftaverk

Volgt sápu,,fóta“bað getur gert kraftaverk

Á  feldlitlum hundum er það ekki bara feldurinn á búknum sem er þunnur, heldur er hann það líka á eyrnablöðkum, loppum og skotti. Snöggar og þunnhærðar eyrnablöðkur, eða bert skott, eru viðkvæm fyrir kulda og getur kalið í miklu frosti.

Salt á götunum getur valdið bæði ertingu og sárum á loppunum og því er nauðsynlegt að skola þær þegar heim er komið. Gott húsráð við aumum þófum er að útbúa volgt sápuvatn (brúnsápu t.d.) og láta hundinn standa í volgu vatninu í nokkrar mínútur, þerra síðan loppurnar vel, setja jafnvel græðandi smyrsli á þófana og klæða svo í bómullarsokka.

gott er að klippa hárin á milli þófanna svo ekki safnist í þau ísklumpar sem geta sært

Séu loppurnar loðnar á milli þófanna, ætti að klippa hárin þar reglulega í burtu, því í þau sezt snjór sem getur myndað köggla sem varla getur verið gott að ganga á! Fyrirbyggandi má bera á þá vaxáburð sem einnig ver gegn saltinu. Veiðimenn ættu t.d. alltaf að hafa ,,hundasokka” og mýkjandi krem (t.d. AD smyrsli) til taks í bakpokanum, því langar göngur í harðfenni og á grýttu landi geta meitt og skorið þófana.

Skottlömun (Watertail)

sést oftast hjá þeim sækjandi fuglahundum eins og retríverhundum. Ástæðan er sú að hundurinn ofreynir skottið þegar hann syndir og notar það sem stýri í köldu vatninu, eða dillar því um of. Ofreynslan veldur bólgum í vöðvunum kringum skottrótina, bólgan þrengir að taugaendunum, skottið lamast og hangir nánast eins og dautt. Þessu geta fylgt veruleg óþægindi og því ekki verra að hafa samband við dýralækninn og fá verkjalyf.

pungur

Eistun eru viðkvæm líffæri og getur ofkæling leitt til ófrjósemi

 

Eistu

Sérstaklega þarf að gæta vel að pungnum í frosti, því húðin á honum er þunn, eistun afar viðkvæm fyrir kulda og ofkæling getur leitt til ófrjósemi. Einnig má benda á, að þunn húðin á pungnum getur brunnið í mikilli sól.

Blöðrubólga

Ekki er óalgegnt að tíkur fái blöðrubólgu verði þeim kalt, t.d. sitji þær lengi úti í snjó og kulda. Einnig ætti að taka tillit til þeirra þegar þær eru á lóðaríi og forða þeim frá vosbúð og kulda meðan það stendur yfir.

Hvolpar

ber-mallieru berir á mallanum og því verulega hætt við ofkælingu. Ekki er ráðlegt að leyfa þeim að vera úti í köldu veðri og blautu, nema örstutta stund í senn.

 

 

 

 

 

Rakur og blautur feldur                                                                                      

missir einangrunargildið og þykkur feldur getur verið lengi að þorna sem eykur því verulega líkurnar á ofkælingu.

Kaldur bíll

hitamotta1

Hitamotta sem hægt er að stinga í samband í bílnum er tilvalin sem undirlag í köldum bíl

Gott er að hafa flíspoka í bílnum til að geta sett hundinn í hann svo hann kólni ekki eftir gönguferð

Gott er að hafa flíspoka í bílnum til að geta sett hundinn í hann svo hann kólni ekki eftir gönguferð

Sé farið í gönguferð á köldum vetrardegi, eða í veiði, er mikilvægt að setja ekki hundinn sem kemur heitur úr gönguferðinni, inn í kaldan bíl. Tilvalið er þá að klæða hundinn í flíspoka sem nær upp að hálsi svo hann kólni ekki. Einnig er hægt að fá hitamottu sem stungið er í samband og hafa aukalega sem hlýtt undirlag undir hundinn.

 

 

 

 

 

Gamlir hundar og gigtveikir

fylgjast vel með gamla hundinum og passa að honum verði ekki kalt

Mikilvægt er að fylgjast vel með gamla hundinum og passa að honum verði ekki kalt

þola kulda alveg sérstaklega illa. Mjög mikilvægt er að taka tillit til þeirra og gæta þess að þeim verði ekki kalt eða sitji, eða liggi, lengi hreyfingarlausir úti. Hlý yfirhöfn er mikil bót fyrir gamla hundinn í köldu veðri og rigningu, auk gigtarlyfja sem geta gert kraftaverk fyrir gamlan og gigtveikan hund.

Er í lagi að hundar éti snjó?

NEI – alls ekki, því snjóát getur valdið magakvillum og jafnvel blóðugum uppköstum. Hafi hundurinn tilhneigingu til að éta snjó eða klaka, er skynsamlegt að beina athyglinni frá þeirri iðju og alls ekki örva hana með því að henda til hans snjóboltum.

 

Föt og/eða skór?

Með aldrinum fá hundar gjarnan gigt. Gigtveikir hundar hreyfa sig þá auðvitað hægar og minna, eru um leið viðkvæmari fyrir kulda og hættara á ofkælingu.

Hundaföt mega ekki vera lítillækkandi fyrir hundinn eða þjóna hégómagirnd eigandans

Hundaföt mega ekki vera lítillækkandi fyrir hundinn eða þjóna hégómagirni eigandans

Oft sést það á hundinum hvort honum er kalt eða ekki. Líði honum vel hoppar hann og skoppar, en norpar aftur á móti og skelfur sé honum kalt.

skor

Sokkar hlífa meiddri eða aumri loppu

Sé tekið mið af aldri hundsins, heilsu hans og veðráttu, er auðvitað betra fyrir hann að vera í ,,yfirhöfn“ í göngutúrunum til að halda á sér hita og njóta útiverunnar.

Sumir hundar þola einnig illa saltið á götunum og þá gæti líka verið nauðsynlegt að klæða hann í til þess gerða skó til að hlífa loppunum.

Hundeigandinn þarf að taka mið af aðstæðum hverju sinni og meta þær hundinum til góðs og hafa í huga, að skjólfatnaðurinn á að þjóna velferð hundsins, en má alls ekki vera eins hvers konar tízkufyrirbæri sem þjónar hégómagirni eigandans.

Er of kalt til þess að fara út?

Auðvitað er misjafnt frá hundi til hunds hvernig kuldinn bítur á hann, en samkvæmt meðfylgjandi töflu má reikna hvort það sé of kalt fyrir hundinn þinn til þess að fara út – eða vera áfram inni í hlýjunni.

En hvað er of kalt?

Smellið á mynd til að stækka.

Bandaríski dýralæknirinn K. Smyth, yfirfærði einfalda töflu frá leikskóla barnanna hennar þar sem kuldaáhrif á lítil börn voru metin, í sambærilega töflu fyrir hunda. Leiðbeiningarnar í töflunni miðast var við litla, meðalstóra og stóra hunda þar sem 1 táknar enga hættu við útiveru, en 5 getur gæti valdið lífshættu. Lóðrétt eru svo kuldagráðurnar, ásamt vindkælingunni, en  láréttu dálkarnir eru hugsaðir eins og umferðarljósin; græni liturinn er hættulaus, sá guli táknar varúð og sá rauði hættu.

Ljósbláu línurnar til hægri eru svo leiðbeinandi fyrir eigandann til að geta metið aðstæðurnar miðað við hundinn. Í rigningu og hráslagalegu veðri ætti þá að leggja + 2 við lóðréttu dálkana sem getur þá hækkað hættustigið og sé um feldmikinn hund að ræða, eða hund sem er vanur kulda má draga 1 – 2 stig frá.

 

 

 

Fara verðu varlega nálægt ísilögum ám eða vötnum

Hundeigendur!

Farið ávalt varlega nálægt ísilögðum ám og vötnum, því ekki má treysta því að ísinn haldi,  jafnvel ekki léttum hundi.

]]>
http://www.dyralaeknir.com/2022/12/08/hundar-vetrarkuldarskjolfot-eda-ekki/feed/ 0
Sjúkdómar í íslenzkum fjárhundi http://www.dyralaeknir.com/2022/07/18/sjukdomar-i-islenzkum-fjarhundi/ http://www.dyralaeknir.com/2022/07/18/sjukdomar-i-islenzkum-fjarhundi/#respond Mon, 18 Jul 2022 10:47:12 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=332 skjamba

Telja má að hundurinn okkar, íslenzki fjárhundurinn, sé nokkuð heilbrigður hundur þrátt fyrir að hafa verið í útrýmingarhættu um langt árabil vegna lítillar stofnstærðar og mikils skyldleika. Sem betur fer vakti Íslandsvinurinn og áhugamaðurinn um íslenzka fjarhundinn, Mark Watson, athygli Íslendinga á þessari þjóðargersemi okkar og vonandi hefur tekizt með markvissri ræktun að snúa dæminu við. 

Þrátt fyrir þessa litlu stofnstærð, og fullmikinn skyldleika, eru arfgengir og meðfæddir kvillar sem betur fer ekki margir, en fjölgar þó því miður. Þar má helzt nefna starblindu (katarakt), en um aldamótin síðustu var sá sjúkdómur talinn óþekktur í hundinum hér á landi. Þegar staðfest tilfelli lágu hins vegar fyrir í íslenzkum hundum í nágrannalöndum okkar, ákvað þáverandi stjórn DÍF að ráðast í markvissa augnskoðun á stofninum og fékk danska augnsérfræðinginn Finn Boserup til þess að fylgja verkefninu úr hlaði með styrk frá HRFÍ. Um 100 hundar voru skoðaðir og var ekki að orðlengja, að í þessari fyrstu skoðun fundust nokkrir hundar með starblindu, svo hugsanlega hefur þessi alvarlegi augnsjúkdómur verið lengur í stofninum en talið var.

Gaman er að geta þess, að íslenzki fjárhundurinn er afar langlífur hundur og er alls ekki óalgegnt að hann nái háum aldri með þokkalegri heilsu.

Yfirgripsmikil rannsókn sem var gerð á skyldleika hundsins sýndi að hér á landi fundust, þegar rannsóknin var gerð, nokkrir hópar (fjölskyldur) hunda sem voru ekki mikið skyldir, gagnstætt hundum erlendis, t.d. í Skandinavíu, þar sem flestir hundanna tilheyrðu einni og sömu fjölskyldunni. Rannsóknin gagnaðist í ræktunarstarfinu með því að koma í veg fyrir, eða minnka, skyldleikaræktun og koma þar með í veg fyrir að arfgengir sjúkdómar gætu næðu yfirhöndinni vegna innræktunar.

Til gamans má geta þess, að til er fryst sæði úr hundi sem tilheyrði sjaldgæfasta fjölskylduhópnum og var hann raunar sá eini sem eftir var úr þeim hópi!

Á mörgum undanförnum árum hefur deild íslenzka fjárhundsins því lagt mikla áherzlu á að hvetja ræktendur til að nota undaneldishunda úr sem flestum fjölskylduhópunum til að breikka genamengið – og minnka hættu á arfgengum sjúkdómum. (Sjá yfirlit um „fjölskylduhópa“ á Norðurlöndum).

Ábyrgð ræktenda íslenzka fjárhundsins er mikil, því á þeirra herðum hvílir framtíð íslenzka hundsins og jafnframt sú skylda að nota einungis heilbrigð dýr til undaneldis.

Það er einnig mikilvægt, að ræktendur geri sér ljóst mikilvægi þess að búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á hundinum og fylgja um leið þeim reglum sem díf setur ræktendum varðandi  heilbrigðiseftirlit, svo sem mjaðmamyndatöku (frá 12 mánaða aldri) og augnskoðun (frá 6 mánaða aldri).

Eftir að hafa fylgst með íslenzka fjárhundinum um áratugaskeið sem dýralæknir, er gott að geta sagt að hundurinn tilheyri heilbrigðum stofni þó aldrei sé hægt að útiloka að einstaklingar veikist hvort heldur þeir eru íslenzkir hundar eða ekki.

Almennt heibrigði hundsins

er gott og hann ekki kvillasamari en aðrar tegundir nema síður sé. Eyrnabólgur eru (nánast) óþekktar og tannheilbrigði gott og varla að sjáist tannsteinn, þó alltaf sé til bóta að bursta tennurnar.  Fylgjast þarf með sporum sem geta vaxið í hring inn í þófa sem er afar sársaukafullt. Feldhirða er lítil nema á hárlosunartímabilinu, en annars er heilbriður feldur nánast sjálfhreinsandi! Mjaðmalos virðist ekki valda vandræðum, en gigt getur látið á sér kræla hjá gömlum hundum sem hægt er að meðhöndla með gigtarlyfjum. Hjartakvillar eru afar fáséðir, en ofnæmi og óþol er eitthvað sem þarf að hafa augu á.

Eftirfarandi sjúkdómar hafa verið staðfestir í íslenzkum fjárhundum hér á landi, þó tæplega sé hægt að fullyrða að listinn sé tæmandi.

Ónæmiskerfið

Mikill skyldleiki getur veikt ónæmiskerfi einstaklingsins og valdið sjúkdómum eins og ofnæmi og óþoli. Kláð, t.d. að sumarlagi, er þekktur í hundinum og einnig einkenni frá meltingarvegi eins og lystarleysi samfara miklum gauragangi og depurð.

Mjaðmalos

Umræðan um mjaðmalos hefur verið umtalsverð og valdið mörgum áhyggjum bæði hér heima og erlendis. Í Danmörku var meira að segja rætt um það í fullri alvöru, að gera tilraunir með íblöndun annars hundakyns við stofn íslenzka hundinn þar í landi til að lækka tíðni mjaðmaloss!

Í lok ársins 2005 höfðu 317 hundar verið myndaðir hér á landi og samantekt á niðurstöðum sýndi að af þeim voru 208 án einkenna (A/B) eða 65%, 43 hundur var með C-mjaðmir eða 14%, 45 hundar með D- mjaðmir eða 14% og 21 hundar greindust med E-mjaðmir eða 7%.

Þrátt fyrir að þriðjungur hunda, að meðaltali, greinist með breytingar á mjaðmaliðum (C-E), er sem betur fer afar fátítt að ungir og yngri hundar sýni klínísk einkenni sjúkdómsins  þó gigtin  geti plagað þá með aldrinum!

Röntgenmynd af heilbrigðum mjöðmum

Röntgenmynd af heilbrigðum mjöðmum

– og hér sjást miklar breytingar

Starblinda (Cataract)

Starblinda er sjúkdómur í augnlinsunni sem veldur því að hún verður gruggug og ógegnsæ. Breytingarnar leiða smám saman til blindu.

Við augnskoðun sjást eins og þrjú jafnarma strik í linsunni sem er staðfesting á starblindu

– en svona sér eigandinn augað

Arfgeng starblinda sem getur verið meðfædd, áunnin eða arfgeng, finnst í mörgum hundategundum og því miður bætast sífellt nýjar tegundir við í hópinn eins og sannaðist hjá íslenzka fjárhundinum.

Dæmigerð linsa í íslenzkum fjárhundi með starblindu. Þríhyrningurinn er í linsunni.

Dæmigerð linsa í íslenzkum fjárhundi með starblindu. Þríhyrningurinn er í linsunni.

Staðfest var að arfgeng starblinda hefði fundizt í íslenzkum hundum erlendis, en þeir hundar sem höfðu verið augnskoðaðir hér höfðu allir reynzt heilbrigðir. Í þeim tilgangi að skoða ástand stofnsins réðst díf í það verkefni, eins og að framan segir, að efna til sérstakrar augnskoðunar. Skoðunin fór fram í nóvember 2003 og var það nokkuð áfall, en kannski ekki óvænt, þegar  5 hundar fundust með arfgenga starblindu.  Það sem var e.t.v. alvarlegast var að nokkrir þeirra voru innan við ársgamlir. Í samráði við Finn Boserup , ráðgjafa díf, var ákveðið að taka þessa alla þessa hunda úr ræktun og að jafnframt skyldi hvorki alið undan foreldrum þeirra eða systkinum.

Díf fór fram á að þau skilyrði yrðu sett, í samráði við HRFÍ að frá 1. janúar 2005 fengjust íslenzkir fjárhundshvolpar ekki skráðir í ættbók nema foreldrarnir væru augnskoðaðir, en augnvottorðið má ekki vera eldra en 18 mánaða við pörun.

Við augnskoðunina dagana 28. – 29. október 2005 greindist svo ungur hundur með arfgenga starblindu svo samtals fundust strax 6 hundar með sjúkdóminn.

Stjórn díf hefur hvatt alla eigendur íslenzkra hunda að láta augnskoða þá strax 6 mánaða og síðan reglulega á a. m. k. 18 mánaða fresti eftir það.

Visnun í hornhimnu (Corneal Dystrophy)

Tvö hornhimnuvisnunar í glæru hafa verið staðfest í augnskoðun, en það stafar af útfellingu lípíðkristalla í glærunni sem mynda misstóra, hvíta flekkir í öðru auga eða báðum.

Ástæðan er óþekkt, þó hugsanlega megi rekja ástæðuna í einhverjum tilfellum til undirliggjandi sjúkdóma, eins og vanstarfsemi skjaldkirtils. Engin lækning finnst en bent er á, að minnka megi fituinnihald þess fóðurs sem hundurinn fær.

Sjónumisvöxtur (Retinal Dysplasia)

Á sjónunni sjást fellingarnar sem lítil svört strik

Á sjónunni sjást fellingarnar sem lítil svört strik

hefur verið staðfest í einum hundi. Þá myndast felling/fellingar á sjónunni sem þá losnar frá undirlaginu og hefur venjulegast engin áhrif á sjálfa sjónina. Sjónumisvöxturinn getur verið algjörlega tilfallandi þó hann sé arfgengur í sumum hundategundum og geti leitt til blindu.

Vanstarfsemi skjaldkirtls

Fyrir nokkrum árum voru staðfest tilfelli vanstarfsemi í skjaldkirtil (Hypothyreodisme) í tveimur alsystkinum. Ástæðan getur annað hvort verið bilun í ónæmiskerfi líkamans eða stafað af óþekktri ástæðu. Þessi sjúkdómur getur verið arfgengur.

Skjaldkirtillinn, sem er staðsettur framan á hálsinum, skiptist í tvo hluta sitt hvoru megin við barkann, gefur frá sér hormónið týroxín sem stjórnar meðal annars efnaskiptum líkamans og hefur jafnframt áhrif á líkamsstafsemina og mörg líffæri svo sem húð, hjarta og meltingarfæri.

Nabbasótt í hvolpum

Sár myndast kringum augu og trýni

Sár myndast kringum augu og trýni

Nabbasótt leggst á unga hvolpa og þó ástæða hennar sé óþekkt er hún jafnvel talin stafa af skertu ónæmi hvolpsins.

Fyrstu einkennin eru bólgur kringum augu, trýni og í eitlum undir kjálkabarði. Þetta er frekar sjaldgæfur sjúkdómur en virðist leggjast þyngra á íslenzka fjárhundshvolpa en hvolpa af öðrum hundategundum.

Tannskortur

Nokkuð hefur boðið á tannskorti og hefur þá aðallega vantað einn eða fleiri framjaxla (P1 -P4). A.m.k. eitt tilfelli er þekkt þar sem hundinn vantaði fullorðinsframtennur.

i = framtennur, C = vígtennur, P = framjaxlar (P1 – P4), M = jaxlar

Hér vantar framjaxl (P 4)

Flogaveiki

Staðfest er eitt tilfelli flogaveiki í tík úr stórum systkinahópi. Flogaveiki er þekkt í öllum tegundum hunda og þarf ekki að vera arfgeng.

Nýrnasjúkdómar

Grunur hefur leikið á um (arfgenga) nýrnabilun og þá sérstaklega í íslenzkum hundum Danmörku fyrir mörgum árum. Í dag munu einhver tilfelli til viðbótar hafa fundizt um nýrnabilun hjá skyldum hundum í Finnlandi.

Ófrjósemi

Ófrjósemi hjá hundum og tíkum getur stafað af mörgum ástæðum. Hjá hundum getur ófrjósemin stafað af rýrnun í (báðum) eistum, hugsanlega af völdum sýkingar, og þ.a.l. engri myndun sáðfruma.

Tíkur eru sárasjaldan ófrjóar, en frjósemin minnkar auðvitað með aldrinum af eðlilegum ástæðum og þá aukast einnig líkur á sýkingu í legi, þ.e. legbólgum. Ástæða ófrjósemi getur einnig stafað af innræktun, þ.e. of miklum skyldleika.

Launeistu

Sjást af og til og algengast er að annað eistað sé staðsett í náragöngum eða kviðarholi. Sjaldgæfara er að bæði eistun séu í kviðarholi, en þá er hundurinn líka algjörlega ófrjór.  Það er arfgengur kvilli séu eistu, annað eða bæði, ekki rétt staðsett.  (Sjá grein um kynþroska hunda).

Krabbamein

Krabbamein er sem betur fer mun fátíðara í íslenzkum fjárhundi en mörgum öðrum hundategundum. Tíðni krabbameinsæxla í júgri er frekar lág, en þau geta hins vegar verið frekar illskeytt.

Góðkynja æxli í eistum sjást hugsanlega oftar í íslenzkum hundum en öðrum hundategundum. Lækningin er auðveld, veika eistað er einfaldlega fjarlægt (passa að heilbrigða eistað sé ekki fjarlægt).

]]>
http://www.dyralaeknir.com/2022/07/18/sjukdomar-i-islenzkum-fjarhundi/feed/ 0
Kynþroski hundsins, ófrjósemisaðgerð – eða ekki? http://www.dyralaeknir.com/2022/03/08/kynthroski-hunda/ Tue, 08 Mar 2022 11:06:15 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=309 Hundar (rakkar) verða kynþroska á aldrinum 8 – 10 mánaða og við upphaf kynþroskans stækka eistun og framleiðsla karlhormóna, andrógena, hefst. Aðalkarlhormónið er testósterón og stýrir það kynhvötinni, framleiðslu sáðfrumanna og  kynbundnu atferli, en hefur auk þess vefaukandi verkun sem stuðlar að auknum vöðvamassa og útliti hundsins sem karldýrs. Þó að framleiðsla þess fari nánast eingöngu fram í eistunum, myndast testósterón einnig í örlitlu magni í nýrnahettunum – og reyndar líka smávegis í eggjastokkum hjá tíkum!

Hundar geta verið frjóir frá 6 mánaða aldri, en eru almennt seinna kynþroska en tíkur af sömu tegund/stærð. Sömuleiðis verða hundar af smáhundakyni heldur fyrr kynþroska en stærri hundar.

Fyrstu einkenni kynþroskans eru að hundurinn fer að lyfta löpp, sýna tíkum áhuga og vöðvamassi þeirra eykst.

Æxlunarfæri hundsins

 

samanstanda af getnaðarlim, eistum, eistalyppum, blöðruhálskirtli, sáðrás og forhúð.

 

 

 

 

1. Getnaðarlimur og forhúð

Forhúðin hylur getnaðarliminn alveg og það er ekki óeðlilegt að sjá smávægilega útferð sem venjulegast sést varla. Sé  hins vegar um forhúðarbólgu að ræða, eykst úferðin verulega og getur jafnvel valdið óþægindum.

2. Eistun 

Hjá kynþroska hundi eiga eistun að vera jafnstór og á bilinu 2-4 cm á lengd og 1.2-2.5 cm á breidd. Breyting á stærð og lögun eista, hnútar, viðloðun/bandvefstenging við húðina eða sársauki við snertingu, getur verið merki um bólgur, sýkingu eða æxli.

Eistalyppan, en í hana safnast sæðið, hangir við eistað og finnst greinilega sem smáhnútur aftan á því.

Eistun ganga venjulega niður í punginn nokkrum dögum eftir fæðingu og finnast auðveldlega þegar hvolpurinn er 6-8 vikna. Þó getur það komið fyrir fram til 10 vikna aldurs, sérstaklega sé hvolpurinn æstur eða taugaóstyrkur, að eistun dragast upp í náragöngin og hverfa um stundarsakir, en rata svo aftur á réttan stað þegar ró færist yfir hann á ný. Finnist ekki eista þegar hvolpurinn hefur náð 8 mánaða aldri, er ólíklegra að það gangi niður úr því. Eistað er þá annað hvort í náragöngum eða kviðarholi og er þá talað um launeista.

Talið er að launeistu finnist hjá um 2% hunda og þar sem hitastigið í umhverfi þess eista sem er á vitlausum stað er hærra en í pungnum, hefur það áhrif á framleiðslu sáðfrumanna með þeim afleiðingum að það er ófrjótt. Hins vegar heldur framleiðsla kynhormónanna áfram.

 

Krabbamein í eistum finnst aðallega hjá eldri og gömlum hundum og er þá oftast góðkynja. Einkenni krabbameins í eista er að það stækkar og greinilegur munur verður á stærð eistnanna. Sem betur fer dreifa góðkynja æxli (Sertolicelle-tumor) sér sjaldnast og lækningin felst í að fjarlægja veika eistað með skurðaðgerð og batahorfurnar eru almennt mjög góðar.

Illkynja æxli  eru innan við 1% af þeim æxlum sem finnast í eistum og algengari í launeistum en í eistum sem eru rétt staðsett. Launeistu í kviðarholi er rétt að fjarlægja þar sem ekki sést breyti þau um lögun, sem er hins vegar auðsjánlegt hjá launeistum í náragöngunum.

Mikilvægt er að benda á, að það er alls engin ástæða, eða fagleg rök, að fjarlægja heilbrigða eistað í forvarnarskyni! 

Gott er að hafa í huga, að á snögghærðum hundum er þunn húðin á pungnum óvarin gegn sólinni og getur því auðveldlega sólbrunnið.

Blöðruhálskirtillinn

er kynkirtill sem liggur í grindarholinu og umlykur þvagblöðruhálsinn og aftasta hluta þvag- og  sáðrásarinnar. Hann framleiðir  kirtilvökva sem blandast sæðinu og er starfsemin bundin framleiðslu testósteróns. Breytingar eins og stækkun, eða truflun á starfsemi kirtilsins, getur stafað af bólgum, sýkingu eða krabbameini. Fyrstu einkenni geta verið blóð í þvagi, almenn vanlíðan eða erfiðleikar við að hafa hægðir því stækkaður blöðruhálskirtill getur þrýst á ristilinn.

 

Kynbundið atferli og/eða lært! 

Bæði hundar og tíkur hafa meðfædd, kynbundin viðbrögð. Strax í frumbernsku eru greinileg skil á atferli og hegðun hund- og tíkarhvolpa og til dæmis má nefna, að leikur hunda einkennist mun meira af riðli en leikur tíkarhvolpa. Það stafar af skammvinnri aukningu testósteróns í kringum fæðingu sem hefur áhrif á ýmis líffæri hans og mótun sem karldýrs fram að kynþroskaaldri.

Kynbundna atferlið verður auðvitað enn greinilegra við kynþroskann og framleiðslu karlkynshormónanna og einkennist það gjarnan af merkingu yfirráðasvæða, áhuga á hinu kyninu, löngun til að fara á flakk og hugsanlega meiri líkum á ,,ósamkomulagi“ við aðra hunda.

Þó kynhormónar eigi sinn þátt í að stýra kynbundnu atferli bæði hvolpa og sérstaklega fullorðinna hunda, mótast þeir ekki síður af uppeldi, umhverfi og atlæti. Sé þeim þáttum ábótavant, getur það haft bæði veruleg og íþyngjandi áhrif á líf og umhverfi hundsins síðar meir, því minnst  af atferli hundsins er kynbundið. Flestar daglegar gjörðir hans, og hegðan, eru meðfæddir, eiginlegir, lærðir og/eða áunnir eiginleikar og gelding er því sjaldnast lausn á vandamálum sem tengjast atferli.

Rétt uppeldi og þjálfun hvolpsins ásamt jákvæðri og markvissri mótun hans frá frumbernsku og fram að kynþroskaaldri, samfara þekkingu á eðli og atferli hundsins er forsenda farsællar framtíðar hans, því lengi býr að fyrstu gerð.

Gelding

Við geldingu eru kynkirtlar hundsins, eistun, fjarlægðir og með þeim hverfur  framleiðsla kynhormónanna (testósterónsins). Hundurinn verður ófrjór og samfara því lætur hann af kynbundnu atferli, en meðfæddir eiginleikar eins og veiði- og vakteðli breytist hins vegar ekki, enda ekki kynbundnir.

En eins og kemur fram hér á undan, er minnst af atferli hundsins kynbundið þar sem flestar daglegar gjörðir hans og hegðan, eru ýmist meðfæddar, eiginlegar (tegundabundnar), lærðar og/eða áunnar. Þess vegna er afar mikilvægt að undirstrika, séu vandamál til staðar sem eigandinn vonar að hverfi með geldingu, er alls óvíst að það gerist sé rótin að vandanum ekki hormónatengd.

Óöruggur eða hræddur hundur sem t.d. hefur tilhneigingu  til að ógna eða bíta  lætur mjög ósennilega af þeirri hegðan við vönun, enda atferli sem sennilegast á sér aðrar ástæður eða orsök og gæti það jafnvel frekar versnað við aðgerðina. Í slíkum tilfellum er afar hæpið, og jafnvel áhættusamt, að láta gelda hundinn.

Hins vegar kann gelding hunds vissulega vera réttlætanleg í einhverjum tilfellum eins og til að koma í veg fyrir að sjúkdómar, meðfæddir eða arfgengir, erfist eða af læknisfræðilegum ástæðum vegna sjúkdóma í kynfærum. Smáhundar, sérstaklega, geta haft tilhneigingu til að merkja sér yfirráðasvæði svo sem heimilið og þar sem það er kynbundið atferli, er líklegra en hitt að sá ósiður lagist við aðgerð.

Íhugi eigandi geldingu hundsins síns, er mjög mikilvægt að kynna sé kosti og galla aðgerðarinnar vandlega. Skynsamlegt er að leita ráða hjá dýralækninum um afleiðingar aðgerðarinnar á hundinn sem auðveldar það að geta tekið upplýsta ákvörðun.

Einnig er rétt að velta því fyrir sér, hvort réttlætanlegt sé að leggja ónauðsynlega, og óafturkræfa, aðgerð á hundinn sinn sé hennar ekki þörf, sérstaklega verði ávinningurinn jafnvel ekki sá sem búist var við og vonað.

Kostir – og ókostir við geldingu (Tekið saman af Danska dýralæknafélaginu)

1. Kostir

Erfðir:

  • Ófrjór – engin eða ekki fleiri afkvæmi,
  • arfgengir sjúkdómar erfast ekki.

Atferli:

  • Kyndeyfð,
  • enginn áhugi á lóða tíkum og
  • merkir sér síður yfirráðasvæði.

Lítil eða engin hætta á:

  • Stækkun á blöðruhálskirtli,
  • æxli í eistum,
  • sýkingu í eistum,
  • krabbameini við endaþarm,
  • sýkingu í blöðruhálskirtli eða
  • slit (haull) í grindarbotni.

Rannsóknir hafa sýnt að í í 90% tilfella hættir hundur flakki sé hann vanaður, enda er kynhvötin horfin. Hins vegar mun aðeins helmingur geldra hunda hætta merkingu yfirráðasvæðis eða riðli.

 2. Ókostir

Aukin hætta er á:

  • Þyngdaraukningu,
  • verulegum breytingum á feldi og auknu háralosi,
  • krabbameini (sjá hér að neðan),
  • aukinni hættu á slitnum krossböndum í hné,
  • seinkun á að vaxtalínur lokist.

Hugsanlegar breytingar á atferli, sérstaklega sé hundurinn geldur fyrir kynþroskaaldur:

  • Aukin hætta á ótta eða kvíða,
  • árásargirni og
  • minni námsfærni t.d. í þjálfun.

Tegundabundin áhætta á illkynja meinum:

  • Beinkrabbi hjá stórum hundategundum.

Gelding fyrir kynþroska:

  • Krabbamein í blöðru (ýmsar terríertegundir),
  • eitlakrabbamein (dobermann, rottweiler, boxer og berner sennen),
  • húðkrabbamein (golden retriever, labrador retriever, boxer og boston terríer).

Auk ofantalins er vert að benda á, að þó hundur sé vanaður er hann enn í áhættuhópi með að fá krabbamein í blöðruhálskirtil. Enn er ekki vitað hvort það séu meiri líkur hjá einhverjum tegundum frekar en öðrum.

Það er skynsamlegt, og ætti að vera sjálfsagður hluti af daglegri umhirðu hundsins, að skoða ytri kynfæri hans reglulega. Sé það gert uppgövast  óeðlilegar breytingar fyrr og þá er um að gera að hafa strax samband við dýralækninn.

Lyfjagelding

Langi eiganda hunds til að láta gelda hann, en er í vafa um hvort gelding muni vera til gagns eða ekki, er til svokölluð lyfjagelding. Eins og nafnið segir, er hormónalyfi sem bælir framleiðslu kynhormónakveikju hundsins í heiladinglinum komið fyrir undir húðinni. Lyfið, sem er forðalyf, dregur þ.a.l. úr framleiðslu testósterónsins, kynhvötinni og kynbundnu atferli hundsins. Það virkar í 6 eða 12 mánuði eftir styrkleikanum og um 3 vikum eftir inngjöfina fer áhrifanna að gæta, eistun hafa minnkað umtalsvert og hverfa síðan nánast alveg. Þegar lyfið er horfið úr líkamanum, stækka eistun í eðlilega stærð og hundurinn nær fullri frjósemi á ný. Hafi lyfjageldingin ekki tilætluð áhrif, hefur varanleg gelding framkvæmd með skurðaðgerð það heldur ekki.

 

 

Helztu heimildir

Textbook of Veterinary Internal Medicine. Ettinger/Feldman. Saunders 1995
Canine and Feline Behavorial Therapy.Benjamin L. Hart, D.V.M., Ph.D. and  Lynette A. Hart, Ph.D. Lea & Febiger. Philadelpia 1985.
Long-Term Health Risks and Benefits Associated with Spay/Neuter in Dogs, Laura J. Sanborn. 2007
Den Danske Dyrlægeforening
Veraldarvefurinn

]]>
Veirukvef! http://www.dyralaeknir.com/2022/02/17/veirukvef/ Thu, 17 Feb 2022 17:09:49 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=3482 Undanfarnar vikur hefur borið nokkuð á einkennum í öndunarfærum hunda hér á höfuðborgarsvæðinu, meira en eðlilegt kann að teljast og  sem lýsa sér m.a. með þurrum hósta og nefrennsli.

Sjúkdómurinn virðist bráðsmitandi, en sem betur fer hefur afar lítið borið á alvarlegum veikindum og flestir smitaðir hundar virðast ná sér fljótt og vel á einhverjum dögum.

Í byrjun lék grunur á að um svokallaðan hótelhósta væri að ræða þar sem einkenni sjúkdómsins minna nokkuð á þann sjúkdóm, þó hóstaeinkennin séu í flestum tilfellum mun vægari.

 

Orsök sjúkdómsins

 

Í ljós kom að um er að ræða bráðsmitandi öndunarfærasjúkdóm af völdum kórónunveiru, Canine respiratory coronavirus/CRCoV; veiru sem hefur aldrei greinzt áður í hundum hér á landi og fékkst staðfesting sjúkdómsins við greiningu á sýnum (PCR) úr smituðum hundum.

 

 

 

Nýr smitsjúkdómur – veirukvef?

Smitsjúkdómur af völdum veirunnar var fyrst staðfestur í Bretlandi árið 2003, en kanadískar rannsóknir sýna, þar sem litið var til baka, að hægt var að rekja veiruna þar í landi allt aftur til ársins 1996.

Veiran hefur dreifst víða síðan og valdið sjúkdómi í mörgum löndum í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, en mörg lönd hafa þó ekki staðfest tilfelli af völdum hennar þó efalaust finnist hún víðast.

Kjörstaðir

CRCoV sýkilsins eru nefhol, eitlarnir þar og barki sem skýra einkennin, en hann finnst hins vegar afar sjaldan í lungunum eða eitlunum í lungnaberkjunum.

Sýkillinn er hluti þeirra sjúkdómsvalda, þ.e. baktería og veira, sem valda  hótelhósta (Canine infectious respiratory disease complex – CRID) og því ekki furða að í fyrstu hafi vaknaði grunur um hann.

 

 

 

Einkenni

sjúkdómsins sem almennt eru væg, eru hósti, hnerri og nefrennsli, en fylgi aðrar öndunarfærasýkingar í kjölfarið getur sjúkdómurinn leitt til lungnabólgu.

Sjúkdómurinn leggst frekar á eldri hunda en unga hvolpa, þó allir hundar, sama hverrar tegundar þeir eru, geti smitast.

Komi ekki til fylgikvillar vara einkennin í eina til tvær vikur.

Meðferð

Þar sem um orsakavaldurinn er veira eru engin lyf sem gagnast við sjúkdóminum. Komi fylgikvillar í kjölfarið, eins og lungnabólga, eru gefin sýklalyf.

Smitleiðir

Eins og fram hefur komið hér að ofan, er sjúkdómurinn bráðsmitandi og berst smitefnið mjög auðveldlega milli hunda með úðasmiti (hósta og hnerra), snertingu og menguðum hlutum eins og matarílátum, fatnaði og óhreinum höndum (þvo og spritta ….).

Aðalhættan á smiti er því auðvitað þar sem margir hundar eru samankomnir s.s. á hundasýningum, í hundaskólum og á hundahótelum.

Ekki er þekkt hve langur tími líður frá smiti til einkenna, sennilegast eru það bara nokkrir dagar og ekki er heldur vitað hve lengi veiran skilst út.

Bólusetning

Ekkert bóluefni er til, enn sem komið er, gegn þessum sjúkdómi.

 Covid?

Í allri umræðunni um kórónuveiru og covid-smit undanfarið, eru engar vísbendingar um að CRCoV geti smitað önnur dýr eða fólk.

Heimildir
1. Berliner und Münchener Tierärztliche Wochenschrift 134, 1-6
DOI: 10.2376/1439-0299-2021-1
© Schlütersche Fachmedien GmbH. 2021. Publiziert: 04/2021
2. Veraldarvefurinn
]]>
Hótelhósti http://www.dyralaeknir.com/2022/01/13/hotelhosti-kennel-cough/ Thu, 13 Jan 2022 21:37:37 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=246  

Undanfarið hefur borið meira á öndunarfærasjúkdómum í hundum en venjulega a.m.k. hér á höfHótelhóstiuðborgarsvæðinu sem hefur vakið  grun um hugsanlegan smitsjúkdóm, jafnvel hótelhósta. 

Reyndar hefur hótelhósti aldrei verið staðfestur hér á landi þó einkenni svipuð honum hafi skotið upp kollinum öðru hverju og margir hundar lasnast á sama tíma.   

Þegar einangrun innfluttra hunda hefur verið stytt í 2 vikur, má velta því fyrir sér hvort smit geti hugsanlega hafa borizt með innfluttum hundi, sérstaklega þegar vitað er að hundur sem hefur náð sér eftir hótelhósta getur verið heilbrigður smitberi í jafnvel 3 mánuði.     

Hótelhósti

eða smitandi barka- og berkjubólga (Infektiøs tracheobronchitis), er bráðsmitandi sjúkdómur  sem nær yfir lungu og öndunarveg hunda og veldur misalvarlegum veikindum gjarnan með þurrum hósta eins og nafnið bendir til.

Hótelhósti brýst gjarnan út þar sem margir hundar eru samankomnir til dæmis á hundahótelum og af því dregur sjúkdómurinn nafn sitt, á hundasýningum og námskeiðum. Hann er sem betur fer í flestum tilfellum hættulítill sjúkdómur, alvarleg tilfelli sjaldgæf og flestir hundar ná sér að fullu. En berist hann í mjög unga hvolpa getur hann þó reynst þeim skeinuhættur.

Orsök

hótelhóstans er sambland smitefna, veira og baktería, í öndunarvegi hundsins. Veirurnar eru parainflúenzuveira og adenóveira (Canine adenovirus2/CAV2), en bakterían er Bordetella bronchiseptica. Algengasta orsök sjúkdómsins er sambland parainflúenzuveirunnar og bordetellabakteríunnar.

Parainflúenzuveiran ræðst á yfirborð efri hluta öndunarvegarins og veldur ein og sér frekar vægum einkennum sem minna á kvef. Adenóveiran, sem leggst á lungun, veldur heldur verri einkennum eins og berkjubólgum, lungnakvefi og snörli í nefgöngum. Bætist bakterían Bordetella bronchiseptica hins vegar í hópinn, sem er ekki óalgengt, tekur hún sér bólfestu á þekjuhárum í lungum og öndunarvegi og veldur þurrum og djúpum hósta sem minnir á kíghósta hjá fólki. Hótelhósti minnir um margt um kíghósta enda veldur frænka Bordetellabakteríunnar í hundum kíghósta (Bordetella pertussis) hjá fólki.

Streita og álag, léleg loftgæði, raki, kuldi og trekkur getur svo allt lagt sitt af mörkum til alvarlegri veikinda og framkallað fylgikvilla af völdum annarra sóttkveikja.

 

Einkenni

hótelhósta geta verið margvísleg eða allt frá því að vera mild með lítils háttar slappleika og lystarleysi til slæms hósta og jafnvel lungnabólgu.

En sem betur fer verða fæstir hundar mikið veikir og ná sér venjulegast á nokkrum dögum.

Í byrjun sést smá hiti, lystarleysi og rennsli úr augum og nösum og nær hundurinn sér fljótt nema nái sýkillinn að fjölga sér. Um viku (2 – 14 dögum) eftir smit koma aðaleinkenni hótelhóstans, þurr hósti, í ljós og hundurinn er síhóstandi bæði dag og nótt. Hóstinn getur orðið svo slæmur að hundurinn kúgast og getur jafnvel kastað upp. Venjulegast minnkar hóstinn á 5 dögum þó hóstakjöltur geti heyrst næstu 2 – 3 vikurnar, sérstaklega við áreynslu. Alla jafna er hundurinn þokkalega hress að öðru leyti, étur vel og er jafnvel hitalaus.

Þekkt er að í einstaka tilfelli geta alvarlegir fylgikvillar eins og lungnabólga með hita, fylgt í kjölfarið og auðvitað eru hvolpar viðkvæmari fyrir sjúkdómnum en fullorðnir hundar.

Benda má á að eðlilegur líkamshiti hunds er 38.5 – 39.0°C og einfalt er að mæla hundinn með hitamæli í endaþarm.

Sjúkdómsgreining

er í flestum tilfellum einföld þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Hundurinn hóstar þurrum og djúpum hósta 5 – 10 dögum eftir dvöl á hundahóteli eða öðrum stað þar sem margir hundar voru samankomnir.

Vert er að taka aftur fram, að sem betur fer hefur hótelhósti ekki enn verið staðfestur hér á landi, en spurning er hversu lengi sem við höldum þeim forréttindum!

Smitleiðir

Hótelhósti er ofursmitandi. Smitefnið dreifist með dropasmitum sem þyrlast í umhverfi hundsins þegar sýktur hundur hóstar, en smitefnið berst einnig milli hunda með beinni snertingu, (óhreinum) skálum, fatnaði og (óhreinum) höndum!

Erfitt getur verið að forðast smit þar sem meðgöngutími frá smiti og þar til einkenni gera vart við sig er frekar langur eða 3 – 7 (5 – 10) dagar, þ.e. frá því að hundurinn smitast og þar til einkenni koma í ljós. Á meðan er hann auðvitað smitberi og sé hann innan um margra hunda, er veruleg hætta á að hann smiti þá flesta, ef ekki alla. Hundar geta reyndar myndað eðlilegt ónæmi gegn sjúkdómnum þar sem hann er landlægur og veikjast því ekki þó þeir hitti smitaðan hund, á meðan aðrir eru óvarðir og veikjast og hundur getur auðveldlega endursmitast af hótelhósta.

Mikilvægt er að muna, að eftir staðfestan grun um hótelhósta getur hundurinn verið heilbrigður smitberi í allt að þrjá mánuði eftir að hafa náð bata.

Meðferð

Engin sérstök meðferð er við hóstanum og í flestum tilfellum gengur sjúkdómurinn yfir á 2 – 4 vikum sem fer eftir því hve fljótt ónæmiskerfi hundsins nær að byggja upp vörn.

lmennt krefst hann ekki meðhöndlunar nema minnka má einkennin með hóstastillandi mixtúru, en komi  bakteríusýking í kjölfarið þarf oft að gefa sýklalyf.

Mikilvægt er auðvitað að fara vel með hundinn, hlúa vel að honum, halda í ró í hlýju og streitulausu umhverfi til að hann nái að jafna sig fljótt og vel.

Bólusetning

Þar sem orsakavaldarnir eru fleiri en einn og bæði veirur og bakteríur, er flóknara að fyrirbyggja sjúkdóminn með bólusetningum en ætti aðeins einn skaðvaldur hlut að máli.

Hér á landi eru flestir hundar vel bólusettir með margþátta bóluefninu Recombitek (Merial). Það inniheldur, auk mótefnavaka gegn smáveirusótt (Parvo) og smitandi lifrarbólgu (HCC), mótefnavaka gegn bæði parainflúenzu- og adenóveirunni CAV-2. Því miður er sú vörn sem það veitir gegn flenzu- og adenóveirunni frekar skammvinna, jafnvel skemmri en ár, miðað við margra ára vörn gegn parvó og smitandi lifrarbólgu.

Bóluefnið inniheldur hins vegar ekki mótefnavaka gegn bakteríunni Bordetella bronciseptica. Erlendis er til sérstakt ,,lifandi“ bóluefni gegn henni og parainflúenzunni í formi nefúða, en þá eru notaðar lifandi, en veiklaðar veirur og bakteríur, sem mótefnavakar til að virkja ónæmiskerfið. Það veitir því miður einnig frekar skammvinna vörn, varla ár, og því getur bólusettur hundur smitast af hótelhósta þó bólusettur sé, þó einkennin verði almennt vægari.

Vandamálið við bóluefni í formi nefúða er að það getur reynzt erfitt að sprauta því upp í nefgöngin á hundinu sem finnst það hreint ekki þægilegt og hnerrar því út um allt! Geta má þess, að fyrir allmörgum árum fékkst hér bóluefni, ætlað í nös og átti að veita vernd gegn hótelhósta (?), en þá hafði orðið vart við einhverja hnerrapest í hundum sem virtist smitandi. Hnerrinn hvarf að sjálfu sér svo sjálfhætt var að nota það.

Og þar sem hótelhósti hefur ekki enn verið staðfestur hér á landi, sem betur fer, hefur heldur ekki verið ástæða til að bólusetja gegn sjúkdómnum.

Getur fólk smitast af hótelhósta?

Hótelhósti er svokölluð súna (Zoonosis), þ.e. að hann getur smitað fólk þó í algjörum undantekningartilfellum sé, enda er bakterían sem veldur hótelhóstanum náskyld bakteríunni sem veldur kíghósta í fólki eins og áður segir.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Vegna þess hve hótelhóstinn er bráðsmitandi, meðgöngutíminn langur og smitberarnir geta verið algjörlega einkennalausir svo vikum skiptir eftir afstaðin veikindi, getur verið afskaplega erfitt að hefta útbreiðslu sjúkdómsins komi upp faraldur af hótelhósta. Þess vegna er mikilvægt, leiki grunur hótelhósta, eða á hvaða á smitfaraldri sem er, að forðast að fara með hundinn á þá staði þar sem margir hundar eru samankomnir.

Heimildir:Veraldarvefurinn
]]>
Kynþroski tíka, lóðarí og getnaðarvarnir http://www.dyralaeknir.com/2021/04/30/kynthroski-tika-lodari-og-getnadarvarnir/ http://www.dyralaeknir.com/2021/04/30/kynthroski-tika-lodari-og-getnadarvarnir/#respond Fri, 30 Apr 2021 15:23:00 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=3296

 

Tíkur verða að jafnaði kynþroska á aldrinum 6 – 10 mánaða sem getur verið bæði tegundabundið og einstaklingsbundið, en meðalreglan er sú að tík verður kynþroska einhverjum mánuðum eftir að hafa náð meðalþunga og stærð tegundarinnar.

Líklegast er því að tík af smáhundakyni verði kynþroska 5 – 6 mánaða, meðalstór tík 7 – 10 mánaða, en tíkur af stærstu hundategundunum ekki fyrr en 12 (18 – 24) mánaða.

 

 

Kynfæri tíkarinnar

Kynfæri tíkarinnar samanstanda af ytri kynfærum (vulva), leggöngum (vagina), legi (uterus), leghornum (cornua uteri), eggjaleiðurum (salpinx) og eggjastokkum (ovarie). 

Legið er mjög lítið eða bara nokkrir sentimetrar að lengd, en frá því ganga tvö, löng leghorn sem hýsa fóstrin. Eggjaleiðarrnir sem eru í framhaldi af leghornunum, eru mjög stuttar, holar pípur og á þeim enda sem snýr að eggjastokkunum, eru þreifarar sem grípa eggin sem losna úr þeim. 

Eðlileg stærð eggjastokkanna eru um 1 cm að stærð    

 

 

Fyrstu einkenni kynþroskans

Fyrstu merki um að tíkin sé kynþroska eru þrútin ytri kynfæri og blóðug útferð

eru þau að ytri kynfæri tíkarinnar þrútna. Þau verða frekar áberandi sérstaklega hjá snögghærðum tíkum, blóðug útferð sést um þriggja vikna skeið og tíkin sleikir sig meira að aftan. Þetta tímabil kallast lóðarí og þá er tíkin frjó. Einnig má nefna að spenar og júgur verða meira áberandi.  

Á kynþroskatímabilinu getur gilt það sama fyrir hunda eins og aðra; það að verða ,,táningur“ getur truflað athyglina og námsárangurinn. Þó tíkur séu almennt viðráðanlegri en hundar hvað það varðar, breytir kynþroskinn skapgerðinni og sjálfstæðið eykst. Algengustu einkennin eru þau að svo virðast sem að bananar séu komnir í eyrun því innikallinu er síður hlýtt og á gönguferðunum þarf að svo þefa af öllu og til þess að geta það, er togað í tauminn sem ekki var gert fyrr!   

 

Gangferillinn

Hjá flestum tíkum er gangferillinn, þ.e. tíminn frá lóðaríi til lóðarís, að meðaltali 6 – 7 mánuðir (5 – 11 mánuðir) og reglulegur hjá hverri tík, þ.e. tímabilið á milli lóðaría er það sama hjá hverri tík.

Gangferillinn er flókið fyrirbæri sem stjórnast af hormónum, umhverfi og erfðum ásamt andlegu og líkamlegu ástandi tíkarinnar og skiptist í fjögur tímabil, þ. e.:

a. Blæðingartímabil,

b. egglosunartímabil,

c. eftirgangmál og

d. hvíldargangmál.

Frávik á lengd gangferilsins eru þó þekkt hjá sumum hundategundum eins og séfertíkum sem geta lóðað á 4 – 4,5 mánaða fresti, á meðan basenjitíkur (og tíbeskar mastiftíkur) lóða aðeins einu sinni á ári. Hjá þeim er lóðaríið reyndar birtutengt sem þýðir að þær lóða þegar sól fer að lækka á lofti og gjóta á norðurhveli jarðar í svartasta skammdeginu eða í nóvember – janúar, en á suðurhveli jarðar í júní/júlí.

Lóðarí

Lóðaríið sjálft skiptist sem sagt í tvö aðskilin, en þó samhangandi tímabil, þ.e.  a. blæðingartímabil og b. egglosunartímabil sem vara samanlagt að jafnaði í um 3 vikur án augljósrar aðgreiningar.    

Fyrra tímabilið, blæðingartímabilið (proestrus), byrjar með blóðugri útferð sem getur varað frá 2 – 3 dögum til 27 daga, en meðallengd þess hjá flestum tíkum eru 9 dagar. 

Á þessum tíma byrjar tíkin að draga að sér hunda, en sýnir þeim þó litla athygli og bregst jafnvel illa við nálgist þeir hana um of að hennar mati.

Það getur verið misjafnt hve mikið blæðir frá tík á lóðatímabilinu, því hjá sumum blæðir mikið en hjá öðrum getur verið erfitt að sjá að þær séu lóða. Sjaldnast fylgja lóðaríi nokkur óþægindi fyrir tíkareigendann því þær þrífa sig almennt afskaplega vel.

Ástæða aðdráttaraflsins er talin stafa af sérstökum lyktarefnum, ferómónum, í útferðinni, seyti frá endaþarmssekkjunum og þvagi.

Seinna tímabilið, egglosunartímabilið (oestrus), er svo í beinu framhaldi af blæðingartímabilinu og er líka að jafnaði 9 dagar. Ytri kynfærin eru enn þrútin en liturinn á útferðinni er eitthvað ljósari. Hægt er að segja að sá dagur þar sem tíkin stendur undir hundi, sé byrjunin á egglosunartímabilinu og sýna margar tíkur  það greinilega með því að vera afar tilkippilegar á þesum tíma. Mikilvægt er að undirstrika að tíkin er einungis frjó á þessum tíma.  

En hvenær egglosið á sér svo stað er önnur saga og er reyndar ekki alltaf í samhengi við atferli tíkarinnar sem getur sýnst tilbúin þó egglosið hafi ekki átt sér stað eða verði seinna.

Algengast er að þó egglosið eigi sér stað á 9. – 12. degi eftir upphaf blæðinga, en getur, eins og fyrr segir átt sér stað mun fyrr, eða seinna, jafnvel allt frá 4. degi til 24. dags frá því að blóð sést fyrst.

Egglosið stjórnast af samspili hormóna, þ.e. estrógens, prógesteróns og gulbúskveikjunnar (LH) í blóðinu. Þeir hormónar stjórna þroska eggjanna í eggjastokkunum og þar með egglosinu og losna eggin öll á sama sólarhringnum. Egg tíkarinnar eru sérstök að því leyti, að þau eru ekki frjó fyrr en 1 – 3 sólarhringum eftir að egglosið á sér stað.

Til þess að staðsetja egglosið upp á dag, er hægt að mæla magn prógesteróns í blóðinu sem er afar skynsamlegt að gera, eigi að para tíkina.

Benda má á, að tíkur geta verið viðkvæmari á lóðatímanum þegar hormónarnir leika lausum hala í líkamanum. Einbeitingin getur líka verið og það er því skynsamlegt að taka tillit til ástandsins og krefjast ekki of mikils á þessum tíma t.d. með æfingum eða álagi.

This image has an empty alt attribute; its file name is hundur-og-ís.gif

Einnig ætti að hlífa tíkinni við kulda eins og t.d. sundi í köldu vatni.  

 

 

c. Eftirgangmál (diestrus) er tímabilið sem tekur við af lóðatímabilinu og varir það í um 2 mánuði. Magn prógesterónsins er enn hátt í blóðinu á þessum tíma hvort sem tíkin er hvolpafull eða ekki, en lækkar niður í sama gildi í lok tímabilsins og það var fyrir lóðarí (< 1.0 ng/ml). Sé hún hvolpafull á fæðingin sér stað þegar prógesterónið er komið undir 2 ng/ml. Í lok eftirgangmálsins geta sumar tíkur sýnt hegðun sem lýsir sér eins og þær séu á hvolpum, fengið mjólk í spena og látið sem þær séu mjög uppteknar við umönnun ímyndaðra hvolpa.  Þetta er kallað ,,fölsk meðganga“ og gengur yfir á einhverjum dögum eða fáum vikum.

d. Hvíldargangmál (anestrus) er, eins og nafnið gefur til kynna, tímabil í gangferlinum þegar slímhimna legsins er í hvíld eftir hormónasveiflurnar á blæðinga- og egglosunartímabilinu og/eða meðgöngu. Það byrjar við lok eftirgangmálsins eða eftir fæðingu, varir að jafnaði í 4,5 mánuði og lýkur þegar lóðaríið/blæðingatímabilið hefst að nýju.

Hvolpar eða ekki?

Þegar tík kemur á heimilið er skiljanlegt að eigandinn velti fyrir sér hvernig bezt sé að koma í veg fyrir að hún verði  hvolpafull og hvaða getnaðarvarnir eru í boði.

Eins og kemur fram hér að ofan, er tíkin aðeins frjó þegar hún lóðar og utan þess tíma er engin hætta fyrir hendi. En það er það afar góð regla að skrifa hjá sér hvenær tíkin lóðar, því flestar tíkur lóða reglulega með sama millibili og sé vel fylgst með henni, ættu fyrstu merki um blóð ekki að fara fram hjá eigandanum.   

En hvaða ráð eru fyrir hendi?

Þegar kemur að getnaðarvörnum er afar skynsamlegt að hugsa sig vel um áður en ákvörðun er tekin um óafturkræfar aðgerðir, því ókostirnir geta oftar en ekki verið fleiri en kostirnir og þá er ekki aftur snúið.

1. Allra bezt!

Hér á stofunni er eindregið ráðlagt að passa tíkina á lóðatímanum, sem er ekki svo erfitt sé haft í huga að fylgjast vel með henni, undirbúa sig vel og hafa auga á hverjum fingri!

Það að passa lóða tík þýðir einfaldlega að hún má aldrei vera laus í gönguferðum, aldrei úr augsýn eða ein úti í garði þó girtur sé.

Ókosturinn við það að passa lóða tík er helztur sá, að hún getur verið afskaplega vergjörn og meira en tilkippileg til að stofna til nánari kynna við nálægan vonbiðil og þá hleypur jafnvel fótfráasti eigandi hana ekki uppi ætli  hún sér að hitta einhvern skemmtilegri en hann! Lausir hundar eru líka öskufljótir að þefa uppi lóða tík og eru þá eldsnöggir á staðinn og setja ekki fyrir sig jafnvel hæstu grindverk og girðingar og þá er ekki að sökum að spyrja.

Óskynsamlegt að leyfa börnum að fara með lóða tík í gönguferð, því beri stóran hund að er veruleg hætta á að þau ráði ekki við aðstæður.

2. Ófrjósemisaðgerð

Varanleg ófrjósemisaðgerð felst í því fjarlægja eggjastokkana með skurðaðgerð. Í eggjastokkunum myndast kynhormónið estrógen, einnig kallað kvenhormón, og það á sinn þátt í að framkalla eðlilegan líkams- og kynþroska kvendýra. Það finnst reyndar bæði í karl- og kvendýrum, en mun meira í kvendýrunum og kemur að skipulagi tíðahrings/gangferils, meðgöngu og fósturþroska og hefur jafnframt áhrif á kynhvöt og á þroska júgursins.

Séu eggjastokkar fjarlægðir áður en tík verður kynþroska, myndast kvenhormóninn estrógen auðvitað ekki, en án hans þroskast (fullorðnast) hún ekki eðlilega sem kvendýr og getur það bæði leitt til bæði líkamlegra sjúkdóma og breytinga á atferli.   

Eins og við allar aðgerðir felast bæði kostir og ókostir við varanlega ófrjósemisaðgerð, en mikilvægt er að hafa í huga að ekki verður aftur snúið þegar aðgerðin hefur verið gerð, þó auðvitað geti þær aðstæður komið upp að nauðsynlegt er .að gera tík varanlega ófrjóa.

Mikilvægast er að kynna sér bæði kosti, og sérstaklega ókostina við aðgerðina og hugsa sig vel um áður en ákvörðunin er tekin og leyfa tíkinni að njóta vafans.

 Ókostir við varanlega ófrjósemisaðgerð eru:

  • Það hægist á efnaskiftunum sem verða ekki nema 80% af því sem eðlilegt er og getur það auðveldlega leitt til þyngdaraukningar,
  • háralos eykst verulega og hjá sumum tegundum, eins og spaníel- og setterhundum, verður feldurinn ein óreiða, mattur og lubbalegur,  
  • óþroska kynfæri,
  • aukin áhætta á að liðbönd í hnjám rifni,
  • beinæxli (sérstaklega hjá stærri hundategundum),
  • krabbamein í blöðru (skoskur terríer, fox terríer, beagle og west highland white terrier)
  • eitlakrabbi (doberman, rottweiler, boxer og berner sennen)
  • húðkrabbi (golden retriever, labrador retriever, boxer og boston terrier). 
  • krabbamein í milti (séfer, golden retriever og  labrador retriever).

 

Sé tík gerð ófrjó áður en hún lóðar í fyrsta skipti:

  • Þroskast kynfæri ekki eðlilega,
  • aukin hætta er á að liðbönd í hnjám rifni,
  • aukin tíðni krabbameins í blöðru og 
  • eitlakrabba og  
  • seinkun á lokun vaxtalína.

Nefna má  líka að þvagleki er ekki óalgengur fylgikvilli ófrjósemisaðgerða, séstaklega hjá stærri hundategundum og einkum sé aðgerðin gerð á mjög ungri tík og/eða fyrir kynþroska. Þvagleki hefur tilhneigingu til að versna með árunum og þó til séu lyf sem geta hægt á honum, getur hann orðið til verulegra leiðinda. 

Einnig er talið að ófrjósemisaðgerðir á mjög ungum dýrum valdi snemmbærri öldrun.

Kostirnir við varanlega ófrjósemisaðgerð eru:

  • Arfgengir sjúkdómar berast ekki áfram,
  • tíkin fær ekki legbólgu seinna á lífsleiðinni,
  • hættan á illkynja júguræxlum er hverfandi sé aðgerðin gerð fyrir fyrsta  lóðarí, 
  • æxli myndst ekki í leggöngum og
  • engin hætta á falskri meðgöngu. 

 

3. Getnaðarvarnarlyf voru mikið notuð áður fyrr til að koma í veg fyrir að tík lóðari, en eru nánast horfin af markaðnum í dag. Kannski má segja sem betur fer, því rannsóknir hafa sýnt að notkun  þeirra leiðir til hærri tíðni krabbameins í júgri og legbólgu.

 

Heimildir:   Long-Term Health Risks ane Benefitss Associated with Spay/Neuter in Dogs. Laura J. Sanborn 2007,                 

Early  s.paying in dog. Samuel Buff. DVM, Dipl. ECAR. Ecole Nationale Vétérinaire de Lyon. 2009 ,

Irene Jarnved og Lise Lotte Christensen.   

Den Danske Dyrlægeforening

 

]]>
http://www.dyralaeknir.com/2021/04/30/kynthroski-tika-lodari-og-getnadarvarnir/feed/ 0
Hundaskottið og táknmál þess! http://www.dyralaeknir.com/2021/01/15/hundaskottid-og-taknmal-thess/ Fri, 15 Jan 2021 17:20:20 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=3082

Skottið er áberandi líkamshluti hundsins og er lögun þess og staðsetning einkennandi fyrir hvern einstakling – eða hundakyn. Það getur verið lafandi, sperrt, vísað beint aftur, hringað eða stubbur og allt þar á milli.

Skottið virkar sem jafnvægisstöng og sem mótvægi fyrir afturhlutann þegar hundurinn hleypur, stekkur eða breytir um stefnu – og svo auðvitað sem stýri á sundi. En skottið sýnir einnig, eins og flestir hundeigendur sennilegast vita, hugarástand hundsins.

Rannsóknir á hundaskottinu og hlutverki þess í líkamstjáningu hundsins eru ekki margar, en árið 2013 birti ítalski vísindamaðurinn Giorgio Vallortigara við Háskólann í Trieste og samstarfsmenn hans, dýralæknarnir Angelo Quaranta og Marcello Siniscalchi, áhugaverðar niðurstöður rannsóknar sínar á skotthreyfingum hunda og samsvörun þeirra við hugarástand hundsins; niðurstöður sem komu nokkuð á óvart.

Líkamstjáning

hundsins er nokkuð flókin og eigi að reyna að túlka hana, verður að horfa á hundinn, og líkamsstöðuna, í heild allt frá eyrum, munni, kambi og aftur að skotti. Hreyfingar skottsins, ósjálfráðar og/eða ómeðvitaðar, eru auðvitað vel sýnilegar en sýna hugarástand hundsins vel á sama hátt og andlitið sýnir svipbrigði okkar tvífættu.

Þar sem hundar skynja hreyfingu mun betur en hluti eða liti, sjá þeir dillandi skott vel og stundum hjálpar náttúran líka til að gera það enn sýnilegra með tíru, ljósari feldi að neðanverðu eða miklum feldi sem sveiflast við minnstu hreyfingu.

Skottstýfðir hundar tjá sig auðvitað ekki á sama hátt og hundar með skott, en nota líkamstjáninguna því meira. Ekki munu vera til neinar rannsóknir á því hvaða áhrif það hefur á hund að missa skottið, t.d. af slysförum.

Flestir telja það víst að dilli hundur skottinu sýni það tóma gleði, en rannsóknir á atferli hunda hafa sýnt að málið er ekki alveg svo einfalt og reyndar það sem maðurinn mistúlki einna oftast í atferli hundsins. Hreyfing skottsins hvort sem það er sperrt, lágreist eða lafandi, er sem sagt ekki alltaf merki um jákvætt hugaástand. ,,Dillið“ getur nefninlega líka táknað hræðslu, óöryggi, félagslega áskorun í hópi eða jafnvel verið aðvörun um að bezt sé að halda sig fjarri. Hins vegar eru fæstir í vafa um hugarfar hunds þegar slátturinn á skottinu er slíkur, að hann heldur varla jafnvægi af gleði.

Hvernig má lesa og túlka, stöðu skottsins?

Líkja má stöðu og sveiflu skottsins sem eins konar ,,tilfinningaloftvog“ hundsins, há eða lág, fer eftir hugarástandi hans.

Birtingarmyndirnar eru efalaust fleiri en koma fram hér að neðan og verður þá auðvitað að túlka eftir aðstæðum hverju sinni.

Skottstaðan:    

1. Upprétt skott, en ekki sperrt, táknar áhuga og athygli á umhverfinu.   

2. Slakur og afslappaður hundur ber skottið ,,í hálfa stöng“ og sveiflan er hæg.

3. Mjög sperrt skott þar sem sveiflan er stutt og tifandi táknar yfirlæti,  jafnvel derring og að kveikjuþráðurinn gæti verið í styttri kantinum og því betra að vara sig.

4. Lafandi skott sem varla bærist, er svo merki um undirgefni og óöryggi og

5. hræddur hundur setur skottið niður á milli afturlappanna.

 

Sé hundurinn skottstýfður, eða fæddur án skotts, er auðvitað mun óhægara að túlka hugarástand hans út frá skotthreyfingunum miðað við ,,eðlilega“ skottlengd.

Hægri eða vinstri?

Eins og áður segir, eru rannsóknir á skotti eða tengingu á milli hreyfinga þess og hugarástandi hundsins ekki margar. En það var einmitt það sem Ítalirnir vildu rannsaka og í þeim tilgangi skoðuðu þeir hvernig 30 blendingsheimilishundar brugðust við mismunandi áreiti, jákvæðu eða neikvæðu.

Hver hundur var settur í sérklefa með myndavél sem myndaði skotthreyfingarnar nákvæmlega þegar ,,áreitið“ birtist fyrir framan klefann, en það var eigandinn, ókunnugur aðili, kisa og svo ógnandi hundur.  

Í ljós kom, öllum til undrunar, að við jákvæða upplifun leitaði skottið til hægri miðað við hrygglínuna, en til vinstri væri um neikvæða upplifun að ræða. 

Sæi hundurinn eitthvað gott og skemmtilegt eins og eigandann, dillaði hann glaður skottinu sem leitaði yfir til hægri. Það gerði skottið einnig þegar sá ókunnugi birtist, þó sveiflan væri ekki alveg jafn áköf til hægri og þegar hann sá eigandann og þegar kisa birtist, hægðist til muna á skottsveiflunni sem var eilítið hikandi, en þó enn til hægri.

Hver skýringin er á tengslum skotthreyfingar til hægri eða vinstri við gleði eða ótta er ekki vitað, en ein kenning er sú að hugsanlega tengist það heilastarfseminni. Sé starfsemin mest í vinstra heilahveli hafi skottið tilhneigingu til að leita til hægri og öfugt.

Þegar ógnandi hundurinn birtist svo fyrir framan klefann, breyttist stefna skotthreyfingarinnar hins vegar yfir til vinstri.

Tekið er fram að ,,vinstri eða hægri“ miðast við að horft sé í sömu átt og hundurinn. Sé hins vegar staðið augnliti til auglitis við hann, þá er hans hægri hlið okkur á vinstri hönd og sú vinstri okkur á hægri hönd. 

Í framhaldi af rannsókninni og niðurstöðu hennar, lék vísindamönnunum auðvitað forvitni á að vita hvort hundar gætu túlkað hugarástand annarra hunda eftir því hvort þeir dilluðu skottinu til hægri eða vinstri. Hver hundur var settur í vesti með mælitækjum sem mældi hjartsláttinn og þeim sýnt myndband með mynd af útlínum hunds sem sveiflaði skottinu til vinstri. Greinilega kom í ljós að  púlsinn hækkaði sem vísindamennirnir túlkuðu sem merki um aukna streitu eða ótta. 

Þá vitum við það!

Það sem helzt getur hrjáð skottið

Skottlömun (Watertail)

Einkenni skottlömunar er, eins og nafnið segir, lömun og lafir skottið þá nánast eins og dautt. Orsökin er oftast talin vera kuldi og bleyta. 

Þegar hundur syndir i köldu vatni, notar hann skottið sem stýri og beitir því þá gjarnan öðru vísi en á þurru landi. Vatnskuldinn, og öðruvísi hreyfing á vöðvana umhverfis skottrótina, getur valdið bólgum í vöðvunum sem þrengja að taugaendunum í þeim og er það bólgan sem veldur lömuninni. Skottlömun getur verið sársaukafull og getur sársaukinn jafnvel haft áhrif á afturhluta hundsins svo hann eigi erfiðara með hreyfingar. Undir öllum kringumstæðum er skynsamlegt að hafa samband við dýralækninn og fá bólgu- og verkjaeyðandi lyf.

Hafi hundur einu sinni fengið skottlömun, hefur hann tilhneigingu til þess að fá hana aftur. Það er því mikilvægt þegar hundurinn kemur kaldur úr vatni, að þurrka hann vel, setja hann gjarnan í peysu og láta hann alls ekki dúsa í köldum bíl.  

Skottstúfur

Meðfæddur skottstúfur getur verið snúinn eins og skrúfa eða með brot. Orsökin er vansköpun eins eða fleiri skottliða og fer lögun og lega skottins eftir því hve margir liðir eru vanskapaðir. Sé aðeins einn eða tveir skottliðir vanskapaðir sést það eins og brot í skottinu, en séu margir liðir í röð vanskapaðir, rúllast skottið og í einstaka tilfelli getur skottið legið svo illa að það liggi fyrir endaþarminum. Í versta falli getur vansköpun á hryggjarliðum fylgt vansköpuninni á skottinu, sérstaklega hjá hundum með klesst trýni, með þeim afleiðingum að hundurinn lamast. 

Vansköpunin er sársaukalaus, en getur verið arfgeng.

 

Brotið skott

Ekki er algengt að hundar skottbrotni, sem betur fer, og oftast er þá um slys að ræða. Skottið getur orðið undir bílhjóli eða klemst milli stafs og hurðar og brotnað þá svo illa að eina lækningin er sú að fjarlægja brotna hlutann. 

Ígerð

Skottið er viðkvæmur líkamshluti og á það getur komið sár og húðsýking í kjölfarið sé ekki vel að gætt. Jafnvel geta útvortis sníkjudýr eins og hársekkjamaur (Demodex canis) valdið sáramyndun, en einkenni hans sjást þá víðar á líkamanum.   

Efst á skottinu, rétt fyrir neðan skottrótina, eru fitukirtlar sem í getur hlaupið ofvöxtur og jafnvel sýking, sérstaklega hjá eldri karlhundum og þá þarf að koma í veg fyrir að hundurinn sleiki sárið og geri það verra.   

 

Æxli

Fyrirferðaraukning á skotti getur verið bæði góð- eða illkynja æxli og skynsamlegast er að láta dýralækninn skoða meinið strax og þess verður vart. Þurfi að fjarlægja æxlið, er bezt að gera það áður en það stækkar það mikið að ekki verði næg húð til að sauma sárið saman.

Heimildir:

Hundsvansen. SKK 2018, Veraldarvefurinn

]]>
Kórónaveiran, hundar og kettir! http://www.dyralaeknir.com/2020/03/15/koronaveiran-covid-19/ Sun, 15 Mar 2020 13:34:25 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=2977

COVID – 19 veiran átti upptök sín í kínversku borginni Wuhan í Kína að því talið er í desember á síðasta ári, en hér á Íslandi greindust fyrstu tilfellin í lok febrúar. Síðan þá hefur tilfellum fjölgað afar hratt og æ fleiri hafa þurft að sæta sóttkví og jafnvel einangrun vegna veikinda.

Kórónaveirur tilheyra stórri fjölskyldu veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá bæði mönnum og dýrum. Hjá fólki er veiran oft orsök kvefs, en getur einnig valdið alvarlegri lungnabólgu eins og getur verið raunin með sjúkdóminn COVID-19.

Allir geta smitast, en sem betur fer verða fæstir alvarlega veikir. Eins og fram hefur komið hjá heilbrigðisyfirvöldum, er það aðallega eldra fólk og einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma sem eru í mestri hættu.  

Kórónaveirur (alfacoronaveirur) valda nokkrum algengum sýkingum hjá hundum og köttum. Hjá hundum veldur hún magakvillum eins og niðurgangi. Hjá köttum veldur veiran líka niðurgangi, en getur einnig leitt til mun alvarlegri veikinda eins og smitandi lífhimnubólgu (FIP/Feline Infectious Peritonitis) sem veldur í flestum tilfellum dauða kisu.    

Mikilvægt er að taka fram, að það eru engar vísbendingar um að gæludýr geti veikst af völdum veirunnar eða verið smitberar. Sá möguleiki er aðeins talinn vera fræðileg smitleið – en ekki þýðingarmikill eins og fram hefur komið.

Mörgum brá því nokkuð þegar fréttir þess efnis birtust, að veiran hafi fundist í hundi kínversks eiganda sem var smitaður. Talið er einna líklegast að veiran hafi sezt á slímhúðina í munnholi og nefi hundsins eða jafnvel á feldinn og þess vegna hafi sýnin frá honum sýnt væga, jákvæða svörun.  

12. marz s.l. kom tilkynning frá kínversku matvælastofnunni (Agriculture, Fisheries and Conservation Department – AFCD) þess efnis, að sýni frá umræddum hundi, sem höfðu áður endurtekið sýnt væga jákvæðni fyrir COVID – 19, væru nú neikvæð.    

19. marz bárust svo aftur þau tíðindi frá Kínversku matvælastofnunni (AFCD), að hundur annars smitaðs eiganda hafi endurtekið greinst jákvæður fyrir COVID-19 veirunni. Á því heimili voru tveir hundar, en aðeins annar þeirra reyndist jákvæður. Hvorugur jákvæðu hundanna hafa hins vegar sýnt minnstu einkenni um veikindi. Í áliti frá Alþjóðasamtökum dýralækna núna (23. marz) kemur fram, að það séu engin dæmi um að dýr hafi veikst eða smitað eigendur. Sýni hafa verið tekin frá þúsundum hunda og katta og reyndust þau öll neikvæð, en því miður munu vera dæmi þess, skv. samtökunum, að fólk hafi látið aflífa dýrin sín af ótta við smit.

Kettir

Rannsóknir telja að af þeim dýrategundum sem hafa verið rannsakaðar  hingað til, séu kettir einna móttækilegastir fyrir COVID-19. Tilraunir á rannsóknarstofum hafa leitt í ljós að smit getur borizt á milli katta, þ.e. að smituð kisa getur smitað aðra kisu en er talið vera afar sjaldgæft. Matvælastofnun Belgíu hefur  þó tilkynnt um tilfelli þar sem kisa, í eigu smitaðs einstaklings, greindist ekki bara jákvæð fyrir COVID-19 heldur sýndi einnig einkenni frá meltingarvegi og öndunarfærum og fannst veiran í uppkasti og saursýnum. Samkvæmt heimildum OIE (World Organization For Animal Health) hefur þetta þó ekki fengist endanlega staðfest (31. marz 2020). Kisa mun hins vegar vera á góðum batavegi.

Hundar eru hins vegar ekki taldir eins móttækilegir fyrir sýkingu og kettir, þó dæmi séu um að veiran hafi fundizt hjá þeim og hvorki svín og hænsni eru móttækileg fyrir sýkingu af völdum SARS-CoV-2 veirunnar.

Þekking á veirunni COVID-19 er reyndar enn nokkuð takmörkuð. Nýjustu rannsóknir bandarískra vísindamanna sýna að veiran getur lifað í loftinu í allt að 3 klst., á yfirborði kopars í 4 klst, á yfirborði pappa í sólarhring og á plasti og ryðfríu stáli í 2 – 3 sólarhringa, en ekki er þó talið útilokað að dýr geti borið veirur á húð, feldi eða slímhúð í nokkurn tíma eftir snertingu við smitandi eiganda/fólk eins og kemur fram um hundana í Kína. Þessar niðurstöður styrkja einfaldlega þær mikilvægu ráðleggingar sem við heyrum daglega, þ.e. að þvo hendur vel og vandlega með sápu, halda góðri fjarlægð á milli sín og annarra og sótthreinsa hluti og yfirborð sérstaklega vel.

Óneitanlega vakna margvíslegar spurningar hjá gæludýraeigendum vegna þessarar nýju veiru, t.d. spurningar eins og:  

Getur kórónaveiran (COVID-19) smitað hundinn minn eða kisa – eða þau mig?

Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að veiran geti smitað gæludýr – né að þau geti verið uppspretta smits í fólki, enda smitast veiran fyrst og fremst milli fólks. Samkvæmt Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni (OIE) hafa engar upplýsingar borist þess efnis að dýr geti veikst af veirunni. En allur er varinn góður meðan þekking á sjúkdómnum er takmörkuð.

Á ég að koma í veg fyrir að hundurinn minn komist í snertingu við aðra hunda?

COVID – 19 er ekki sjúkdómur í hundum eða köttum. Það er heldur ekkert sem bendir til þess, né nein dæmi um að hundurinn geti verið smitberi, þ.e borið smit í aðra hunda sem geti þá borið sjúkdóminn í fólk. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að hundar hittist og leiki sér saman.

Margir sjúkdómar smitast hins vegar á milli hunda, en sem betur fer má bólusetja gegn sumum þeirra eins og t.d. smáveirusóttinni. Öðrum hættulegum og smitandi sjúkdómum verjumst við hér á landi með einangrun innfluttra dýra til að forðast óteljandi, bráðsmitandi og alvarlega veiru- og sníkjudýrasjúkdóma sem enginn vill fá í sinn hund eða kött.

Eins og áður segir er þekking á veirunni COVID-19 í fólki enn takmörkuð og á meðan svo er, ber þeim einstaklingum sem hafa greinzt með smit að hafa í heiðri þá gullnu reglu að reyna að takmarka útbreiðslu smitsins. Rannsóknir sýna, eins og að ofan greinir, að veiran getur lifað skemur eða lengur á ýmsum snertiflötum og hugsanlega einnig einhvern tíma á feldi hunda (katta?) smitaðra eigenda.

Hvað ef eigandinn er sjálfur í sóttkví?

Full ástæða er til að gæta fyllsta öryggis og því skynsamlegt að bæði eigandi og hundur haldi sig frá öðrum tví- og ferfættum, enda eigandinn í sóttkví!

Er í lagi að kisi, sé hann útiköttur, fari frjáls ferða sinna?  

Það ætti ekki að vera nein ástæða til þess að loka kisa inni nema eigandinn sé sjálfur í sóttkví eða smitaður. Þá er full ástæða til að loka kisa inni til að gæta fyllsta öryggis.

Smitaður eigandi?

Sé eigandi greindur með, eða er veikur af COVID-19 og í einangrun, má hann auðvitað ekki fara út eða á meðal fólks. Þá verður að hleypa hundinum eða kisa einungis út í lokaðan garð (kisu í bandi) og koma þannig í veg fyrir snertingu við önnur dýr eða fólk – og muna að hirða upp eftir bæði hund og kött.  

Hvað ef eigandinn er smitaður með COVID -19

Sé eigandi smitaður af COVID-19 er ráðlagt að forðast náið samneyti við gæludýr, kyssa þau og faðma. Þar sem talið er að veiran geti lifað í tvo sólarhringa utan mannslíkamans, getur gæludýr, þó það veikist ekki sjálft, hugsanlega borið veiruna með sér t.d. á feldinum þó smit frá gæludýri í fólk sé óþekkt, en allt er þetta enn mjög óljóst og einnig ósennilegt.

Eftirfarandi ráðleggingar ætti því að hafa í huga:

  • Takmarka samneyti við gæludýr þar til viðkomandi hefur náð heilsu.
  • Koma dýrinu fyrir í pössun.
  • Forðast að kyssa og knúsa dýrið, vandlegur handþvottur fyrir og eftir snertingu og jafnvel andlitsgríma.

Dýralæknir?

Þurfi gæludýr smitaðs einstaklings (COVID-19) á dýralæknishjálp að halda, er rétt að fá heilbrigðan einstakling til að fara með dýrið til dýralæknisins og upplýsa hann um aðstæður.    

COVID-19 er sjúkdómur sem er nýlega kominn fram á sjónarsviðið og þekking á veirunni eykst sem betur fer hægt og sígandi vegna rannsókna. Hreinlæti og handþvottur eru þau atriði sem mest áherzla er lögð á til að tefja smit og eru gæludýraeigendur því eindregið hvattir til að viðhafa fyllsta hreinlæti í umgengni við öll gæludýr og allt er viðkemur þeim.

Veikir einstaklingar ættu jafnframt að forðast dýr og verði einhver breyting á heilsufari þess ætti strax að hafa samband við dýralækni.   

Heimildir:

WHO

covid.is

AFCD – kínverska matvælastofnunin

]]>
Hvað ber að varast á vorin? http://www.dyralaeknir.com/2017/04/15/hvers-ber-ad-varast-a-vorin/ http://www.dyralaeknir.com/2017/04/15/hvers-ber-ad-varast-a-vorin/#respond Sat, 15 Apr 2017 21:58:19 +0000 http://www.dyralaeknir.com/?p=2804 Nú er blessað vorið á næsta leyti, dagurinn lengist, sólin skín  og gróðurinn er farinn að gægjast upp eftir langa vetrardvöl í kaldri moldinni. En vorið, og fallegu vorboðarnir, kæta ekki bara augað, því þeir geta sumir hverjir verið hættulegir hundum.

Vorið er þá ekki síður skemmtilegur tími fyrir hundeigandann sem hlakkar til að spretta úr spori upp um fjöll og firnindi með bezta vininum eða hjóla hressandi túra eftir malbikuðum hjólastígum.

En  hundeigendur þurfa að hafa í huga þegar vorið kallar, að ofgera ekki hundinum, og þá sérstaklega hvolpum og ungum hundum, með of löngum gönguferðum, að ekki sé minnst á hjóla/hlaupatúra!

Það er því mikilvægt að hundeigendurnir gæti vel að velferð hundsins í hvívetna, jafnt í garðinum heima sem í gönguferðum.

Hjóla- og gönguferðir
Myndaniðurstaða fyrir hund og cykeltur

  1. Hjólaferð með hvolpa eða unghunda getur verið allt of mikil áreynzla á vöðva, bein og sinar. Hjólið bara með fullorðna hunda.
  2. Þó hundurinn sé fullorðinn þarf samt að byrja ,,hlaupa/hjóla“ þjálfunina hægt og rólega og forðast að hundurinn ofreyni sig, því viljinn ber hann oft hraðar en getan. Byrjið á því að ganga í nokkrar mínútur, þá hlaupa í mínútu og hlaupið svo áfram  á víxl í um 20 mínútur.
  3. Dragist hundurinn aftur úr, er það einfaldlega merki þess að hann er þreyttur!
  4. Gott er að byrja þjálfunina frekar á flatlendi en í brattlendi, því eins og áður sagði, ber viljinn hundinn oft lengra en getan sem getur leitt til álagsmeiðsla.
  5. Hjólaferðir á malbiki, eða gönguferðir í hrauni, geta valdið verulegum meiðslum á þófum. Hér á stofunni sjáum við ekki ósjaldan slit á húðinni á þófunum svo sér í opna kviku sem er auðvitað hræðilega sársaukafullt fyrir hundinn.

 

 Gróður

Á vorin eru beðin í görðum yfirfull af litfögrum  vorblómum sem sum koma upp af margvíslegum laukum. Oft er það laukurinn (rétt eins og matarlaukar) eða rótarhnýðið, sem er eitrað, stundum plöntusafinn og stundum er það öll plantan og getur þá verið nægilegt að hundurinn sleiki plöntublöðin til að verða fyrir eituráhrifum.

Auðvitað eru það frekar hvolpar en fullorðnir hundar sem helzt þurfa að skoða vel það sem á vegi þeirra verður, sleikja og jafnvel smakka örlítið á skemmtilegum laukum og jafnvel grafa þá upp.

TúlípMyndaniðurstaða fyrir túlípanaranar. Öll plantan er eitruð en þó sérstaklega laukurinn. Laukátið getur valdið uppköstum og niðurgangi og getur, í verstu tilfellum, valdið dauða, en þá þarf reyndar að éta verulegt magn sem er afar ósennilegt.

 

 

                                 

PáskMyndaniðurstaða fyrir páskaliljuraliljur. Það er aðallega safinn í blóminu sem veldur eitrun, en einnig laukurinn. Einkennin geta verið þau að hundurinn hnigi skyndilega niður eða virðist lamast. Þar sem páskaliljur eru afar algengar í görðum og jafnvel á víðavangi, þarf að hafa athyglina á hvolpum sem vilja snusa af páskaliljum.

 

 

 

Myndaniðurstaða fyrir vetrargosi

Vetrargosi (Erantis). Það er laukurinn sem veldur eituráhrifum og einkenni eitrunarinnar eru uppköst, niðurgangur og hjartasláttaróregla.

 

 

 

DalaMyndaniðurstaða fyrir dalaliljalilja. Öll plantan er eitruð og þar sem hún ilmar vel, gæti ilmurinn hugsanlega vakið athygli forvitinna hvolpa á henni. En sem betur fer er hún líka bragðvond sem minnkar vonandi líkurnar á að hundurinn vilji éta hana. Einkenni eitrunarinnar eru ógleði, magaverkir og verkir fyrir brjósti.

 

 

 

Myndaniðurstaða fyrir lyngrósirLyngrósir (Rhododendron) er sígrænn runni sem blómstrar hér á landi í júni og júlí. Allir hlutar hans eru eitraðir og til að framkalla eituráhrif sem eru slef, uppköst, krampi og jafnvel hjartastopp, er nóg að hundurinn sleiki plöntuna eða japli aðeins á henni

 

 

 

Það er því skynsamlegt að undirbúa vel göngu- eða hjólaferðir svo þær verði ekki til þess að hundurinn verði  fyrir álagsmeiðslum. Ekki er síður mikilvægt að kynna sér vel hvaða plöntur geta verið hættulegar, sérstaklega forvitnum hvolpum og unghundum, og láta þá aldrei vera eina og eftirlitslausa úti í garði.

Heimildir og myndir:
Hunden, blað danska hundaræktarfélagsins (Dansk Kennelklub) 2017 og
veraldarvefurinn.
]]>
http://www.dyralaeknir.com/2017/04/15/hvers-ber-ad-varast-a-vorin/feed/ 0