Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Kynþroski katta

Höfundur: • 16. feb, 2004 • Flokkur: Kettir

Kettir eru um margt sérstök dýr og eiga sér margar hliðar, ekki bara í fjölda lífa, heldur er t.d. æxlunarmynstur þeirra og meðganga flóknari en hjá öðrum tömdum rándýrum.

Kynþroski

Flestir kettir verða kynþroska 6-10 mánaða, læður heldur fyrr en fress. Kynþroskinn  ræðst að einhverju leyti af því á hvaða árstíma kisa er fædd en einnig  tegund, umhverfi og fóðurástandi. Frávik geta verið veruleg, því þekkt er að læður geti gotið öllum að óvörum 5-6 mánaða, sem sannar að þær hafi orðið kynþroska 3-4 mánaða, meðan aðrar læður verða svo kannski ekki kynþroska fyrr en 16-18 mánaða. Eðalkettir verða að jafnaði seinna kynþroska en venjulegar kisur og það sama gildir um ketti, sem alfarið er haldið inni.

Meðalaldur kynþroska

Tegund Aldur í mánuðum
Heimiliskisa 7  (3-15)
Colorpoint 13 (12-18)
Burma 8

Læður verða í raun aldrei of gamlar til að eignast kettlinga, en sjaldgæft er hins vegar að þær gjóti eftir 14 ára aldur.

Við kynþroska byrja fresskettir að merkja sér yfirráðasvæði sitt og merkja þá nánast allt sem fyrir verður, innanhúss sem utan. Lyktin er fremur slæm og getur verið erfitt að losna við hana. Við vönun hætta fress að mekja, enda atferlið kynbundið, og lyktin hverfur nánast einnig.

Fengitími

læða er árstíðabundinn, en er í lágmarki í svartasta skammdeginu (janúar-september), en nær hámarki um leið og daginn fer að lengja. Sumar læður breima þó árið um kring, sérstaklega þær sem alfarið er haldið inni, því birtumagnið (ljós) hefur áhrif  á kynhormónana.  Fresskettir eru hins vegar tilbúnir til pörunar alla daga ársins þó kynhvötin sé einnig í lágmarki hjá þeim í svartasta skammdeginu.

Læður verða venjulegast breima viku eftir að kettlingarnir eru teknir undan, þó dæmi séu um að þær geti breimað örfáum sólarhringum eftir got. Þess vegna er nauðsynlegt að halda læðu á kettlingum alfarið inni frá því að hún gýtur og þangað til hún er gerð ófrjó eða sett aftur á pilluna. Tæknilega séð getur læða auðveldlega gotið þrisvar sinnum á ári, miðað við 65 daga meðgöngu.

Gangmálið

Læður breima að meðaltali á  u.þ.b. 3ja vikna fresti og varir gangmálið (breimaástandið) í  6-8 daga. Gangmálið skiptist í fyrirgangmál (proöstrus) sem varir í 1-3 daga og þá dagana er kisa óvenju kelin og getur merkt umhverfið með því að spræna eins og fress utan í veggi og húsgögn. Venjulegast er engin útferð eða breyting á ytri kynfærum.

Tímabilið sem egglos getur átt sér stað (östrus) er 6-8 dagar, en andstætt við tíkur verður aðeins egglos hjá læðum parist hún við fress.

Atferli breima læða fer varla fram hjá nokkrum manni, því kisa gólar í síbylju, veltir sér og nuddar utan í fólk. Lystin minnkar og kisa heldur áfram að spræna hér og þar og með þvaginu skilst út lyktarefnið feromon sem laðar fresskettina að.

(Heimildir: Astrid Indrebø. NVT. 1993)

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd