Legbólga
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 29. sep, 2024 • Flokkur: AlmenntLegbólga
Legbólga er alvarlegur sjúkdómur hjá tíkum og getur leitt til dauða sé hann ekki meðhöndlaður strax. Hjá tíkum er algengast að sjúkdómsins verði vart eftir fjögurra til fimm ára aldur og varlega má áætla að um fjórðungur þeirra, 10 ára og eldri, fái legbólgu. Afar fátítt er þó hins vegar að mjög ungar tíkur veikist af legbólgu, þó það sé þekkt.
Legið
er klætt að innanverðu með kirtlaríkri slímhúð sem breytist og þykknar á lóðaríinu til að geta undirbúið móttöku og hýsingu væntanlegra fóstra.
Legið er hvorki umfangsmikið né stórt, en heilbrigt leg í meðalstórri tík skiptist í sjálft legið sem er 3 cm á lengd og breidd og svo tvö leghorn (þar sem fóstrin eru verði getnaður), sem hvort um sig eru um 1 cm í þvermál og 12 – 15 cm á lengd. Leghornin tengjast svo við eggjastokkana, sem eru egglaga og um 2 cm á lengd, með eggjaleiðurunum.
Gangferill tíka, þ.e. tímabilið frá lóðaríi til lóðarís, er að meðaltali 5 – 7 mánuðir og kynhormónarnir sem stjórna gangferlinum, eru flókið fyrirbæri.
Gangferillinn skiptist í 4 tímabil, þ.e. blæðingartímabil þegar blóðug útferð sést frá ytri kynfærum (7 – 10 dagar/rauð sneið), egglosunartímabil (7 – 10 dagar/gul sneið), eftirgangmál (2 mánuðir/græn sneið) og hvíldargangmál (3 mánuðir/blá sneið). Blæðingar- og egglosunartímabilið (lóðaríið, rauð + gul sneið) varir því samanlagt í um 3 vikur og er tíkin aðeins frjó á þeim tíma.
Orsök?
Áður var talið að legbólga væri ,,bara“ sýking í leginu, en í dag er hins vegar talið að orsökin séu hormónafrávik með sýkingu í kjölfarið og þar eigi hormónið prógesterón verulegan hlut að máli.
Frávikin, m.a. afbrigðileg framleiðsla prógesterónsins, eru orsök óeðlilegar þykknunar legslímhúðarinnar, stækkun kirtlanna í henni sem seyta meiri vökva en eðlilegt er sem eykur vökvasöfnunina í leginu, auk myndunar legslímublaðra og seinkunar á lokun leghálsins. Að auki virkar prógesterón letjandi á hvítu blóðkornin, sem eru hluti af varnarkerfi líkamans, og minnkar þar með mótstöðu hans gegn sýkingum. Líkurnar á innrás hættulegra sýkla, eins og Escherichia coli og Staphylococcus, frá leggöngunum gegn um opinn leghálsinn, og inn í legið þar sem fyrir eru kjöraðstæður fyrir vöxt og viðloðun þeirra í óheilbrigðri slímhúðinni, aukast því vegna skerts ónæmisins og allir þessir samverkandi þættir auka svo enn líkurnar á legbólgu.
Þessar breytingar eiga sér frekast stað að loknu blæðingar- og egglosunartímabilinu, þ.e. í upphafi eftirgangmálsins (græna sneiðin) og því sjást einkenni legbólgunnar oftast 4 – 8 vikum eftir lóðarí.
Einkenni legbólgu
Talað er um að legbólga sé annað hvort ,,opin“ eða ,,lokuð“ og er þá átt við hvort leghálsinn er opinn eða lokaður þegar sýkingin verður. Þegar legbólgan er ,,opin“ getur legið tæmt sig, þ.e. sýkt innihaldið rennur frá tíkinni og sést sem rauðbrún útferð (jafnvel grænleit), en ,,lokuð“ þegar leghálsinn er lokaður og vaxandi, sýkt innihaldið safnast fyrir í leginu sem þenst út eins og vatnsfyllt blaðra.
Helztu einkenni legbólgu eru:
- Útferð frá ytri kynfærum,
- aukinn þorsti (sprænir þá líka meira),
- minni matarlyst,
- hiti og jafnvel lækkaður hiti,
- uppköst og
- stækkaður kviður.
Oftast vaknar grunur eigandans um að eitthvað sé að, þegar hann tekur eftir því að tíkin sleikir sig meira en venjulega að aftan, þrátt fyrir að lóðatímabilið eigi að vera afstaðið og jafnframt að vatnsskálin er alltaf tóm. Þegar betur er að gáð sést rauðbrúnleit útferðin, jafnvel grænleit, stundum þykk, stundum þunn og stundum sést bara klístur í kring um ytri kynfærin. Deyfð og lystarleysi geta líka verið byrjunareinkenni og hafi tíkin lóðað fyrir skömmu, verður að leiða hugann að því að um geti verið að ræða legbólgu.
Það þarf alls ekki að vera samræmi milli einkenna og alvarleika sjúkdómsins, því sumar tikur geta verið allt að því einkennalausar í byrjun burtséð frá þandari kvið, á meðan aðrar tíkur sýna öll alvarlegustu einkenni sjúkdómsins þó legið sé ekkert sérstaklega stækkað.
Lokuð legbólga er auðvitað mun hættulegri en opin. Lengri tími getur liðið frá því að eigandinn gerir sér grein fyrir að tíkin er lasin, þar sem sjáanleg einkenni eru auðvitað minni en þegar tíkin sleikir sig í sífellu, þangað til sjúkdómsgreiningin liggur fyrir. Aukinn þorsti er þó oftast til staðar og jafnvel svo áberandi, að tíkin liggur við tóma vatnsskálina. Það er auðvitað takmarkað hve mikið legið getur þanist út og því hætta á að það springi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Eins og áður segir, greinist legbólga oftast 4 – 8 vikum eftir lóðarí og hjá tíkum eldri en 6 ára.
Meðferð með hormónalyfum, þ.e. getnaðarvarnarlyfjum, til að stöðva, eða fresta, lóðarí getur einnig verið hvati að legbólgu.
Greining
Leiki grunur um legbólgu, er mikilvægt að fá góðar upplýsingar frá eigandanum um einkenni og hvenær tíkin lóðaði. Stundum er greiningin auðsjáanleg þegar ytri kynfærin eru skoðuð og rauðbrún sýkingin lekur frá tíkinni. Að öðrum kosti er legið ómskoðað til að athuga hvort það sé stækkað og hvort um geti verið að ræða lokaða legbólgu og einnig geta blóðsýni líka komið að góðu gagni.
Meðferð
Vegna þess hve legið er lokað líffæri vinna sýklalyf mjög illa á sýkingunni, eða alls ekki, og gagnast því ekki til að lækna sjálfa legbólguna. Þegar tík greinist með legbólgu er bezta meðferðin einfaldlega sú að fjarlægja sýkta legið sem allra fyrst, ásamt eggjastokkum, og er það sú aðferð sem mælt er með.
Sé um mjög verðmæta undaneldistík að ræða, má reyna lyfjameðferð með hormónum sem geta tæmt legið, ásamt sýklalyfjum, en í flestum tilfellum endar samt með brottnámi legs og eggjastokka.
Hér á stofunni í Skipasundi leggjum við áherzlu á að fjarlægja legið sem allra fyrst eftir að greining liggur fyrir, enda er sjaldnast eftir nokkru að bíða og tíkin jafnvel mjög veik. Aðgerðin tekur að jafnaði um tvær klukkustundir og á eftir fer tíkin heim með bæði sýkla- og verkjalyf.
Okkar reynsla er sú, að flestar tíkur jafna sig bæði fljótt og vel, jafnvel þær tíkur sem eru komnar af ,,léttasta skeiði“ og líður þeim jafnvel mun skár en þeim hefur liðið lengi. En auðvitað fer afturbatinn eftir því hve veikar þær voru fyrir aðgerðina. Einnig er mikilvægt að leiðbeina eigandanum vel um eftirmeðferð þegar heim er komið og sleppa ekki hendinni af sjúklingnum fyrr en hann er kominn til fullrar heilsu.
Læður
Legbólga í læðum er mun óalgengari en í tíkum og kann skýringin hugsanlega að vera sú. að egglos á sér stað við pörun. Legbólga er hins vegar algengari hjá þeim læðum sem hafa verið á getnaðarvarnarlyfjum, pillunni, þó dregið hafi úr notkun slíkra lyfja þar sem flestir eigendur kjósa ófrjósemisaðgerðir þegar læðan hefur aldur til.
Meðferð við legbólgu er sú sama og hjá tíkum, þ.e. fjarlægja leg og eggjastokka sem allra fyrst ásamt sýklalyfjagjöf.
Sé um verðmæt undaneldisdýr að ræða, má reyna hormónameðferð.
Heimildir:
J. Verstegen, K. Verstegen-Onclin. College of Veterinary Medicine, University of Florida, Gainesville, FL, USA.
PYOMETRA IN THE BITCH AND QUEEN. Simón Martí Angulo. Proceedings of the Southern European Veterinary Conference and Congreso Nacional AVEPA
Veraldarvefurinn
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað