Yfirlit yfir sjúkdóma sem hafa greinzt í cavalier king charles spaníelhundum á Íslandi
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 9. sep, 2005 • Flokkur: HundarHér á eftir er samantekt um flesta sjúkdóma og kvilla sem hafa verið staðfestir í cavalierhundum hér á landi. Sumir þeirra eru arfgengir, aðrir meðfæddir og enn aðrir einfaldlega tilfallandi hjá hundum af þessari hundategund rétt eins og hjá hundum af öðrum tegundum.
Hjarta
Míturmurr (Cronic Mitral Valve Disease)
er arfgengur sjúkdómur í míturlokum hjartans og getur, andstætt hjá öðrum hundategundum, komið í ljós hjá ungum einstaklingum. Hjartað er heilbrigt við fæðingu, þ.e.a.s. sjúkdómurinn er ekki meðfæddur.
Með árunum kemur fram bilun í hjartaloku, míturlokunni, sem er lokan á milli vinstri gáttar og slegils.
Sem betur fer greinist sjúkdómurinn oftast ekki fyrr en hundurinn hefur náð miðjum aldri (> 5 ára) og þá eru líka allar líkur á að hann geti lifað ágætu lífi fram á gamals aldur. (Sjá grein Clarence Kvart um hjartasjúkdóma)
Míturmurrið er misalvarlegt og er greint í 6 stig þar sem 5. og 6. stig eru lokastig sjúkdómsins. Sjúkdómurinn er alvarlegri því yngri sem hundurinn er þegar lokurnar bila sem getur því miður takmarkað lífslíkur hans. (Sjá reglur cavalierdeildarinnar um undaneldi)
Augu
Lípíð í glæru (Corneal Dystrofi)
er algengur fundur við augnskoðun. Þá sjást misstórir,kringlóttir hvítir flekkir á glærunni, oftast á báðum augum.
Um er að ræða útfellingu krystalla (kolesterols) oftast af óþekktri ástæðu, þó undirliggjandi sjúkdómar, eins og vanstarfsemi skjaldkirtils, geti verið orsökin.
Engin þekkt lækning er til nema þá helzt að reyna að minnka fituinnihald fóðurs. Reynslan sýnir að í mörgum tilfellum hverfa blettirnir.
Starblinda (Cataract)
Aðeins hafa tvö tilfelli starblindu verið staðfest og í öðru tilfellinu var starblindan meðfædd. Á síðasta ári greindist svo ung tík með starblindu sem hafði leitt til blindu.
Innhverfing augnloks (Entropion)
er óalgeng, en í einstaka tilfellum má sjá lítinn hluta neðra augnloksins verpast smávægilega inn. Í augnskoðun finnast öðru hverju tvísett augnhár (Distchiasis) sem vaxa inn á við.
Stoðkerfi
Liðhlaup í hnéskel
var þekkt vandamál í stofninum áður fyrr og áður en cavalierhundar bárust hingað til lands. Með markvissu ræktunarátaki tókst að losna við það, þó enn greinist einstaka hundur með lausar hnéskeljar.
Stjórn cavalierdeildarinnar ákvað þó að kanna tíðni á liðhlaupi í hnéskeljum í stofninum hér á landi svo nú eru hnéskeljarnar skoðaðar um leið og hjartaskoðun fer fram.
Mjaðmalos
Mjaðmalos er mjög sjaldgæft í cavalierhundum þó það finnist hjá einstaka hundi í undartekningartilfellum.
Ónæmiskerfi
Holdgunarhnúðar í munnholi
eða með öðru orði „oralt eosinofilt granulom“ eru breytingar á slímhúð í koki beggja megin við tungurótina og myndast þá upphleypt afmörkuð sár.
Þetta er nokkuð algengur kvilli sem getur valdið hundinum verulegum óþægindum. Ástæðan er sennilega einhvers konar ofnæmi eða óþol.
Hreisturveiki (Ichtyosis?)
Fyrir nokkrum árum fæddust nokkrir hvolpar og sást strax við fæðingu að þeir voru frábrugnir eðilegum hvolpum. Feldurinn var grófur og stríður, klær duttu af og sár mynduðust á glæru þegar augun opnuðust.
Einhverjir þessara hvolpa drápust en aðrir voru aflífaðir. Talið er að um svokallaða hreisturveiki hafi verið að ræða en það er sjúkdómur í ónæmiskerfinu. Sem betur fer hefur ekkert borið á þessum sjúkdómi í lengri tíma.
Húð
Eyrnabólga
er nokkuð algengur kvilli og geta ástæður hennar verið margvíslegar. Stundum er ástæðan kuldi, vatn eða ryk og stundum getur orsökin undirliggjandi sjúkdómur tengdur ónæmiskerfi eða hormónatruflunum.
Naflaslit
er ekki óalgengt en er yfirleitt alveg vandræðalaus kvilli. Þegar hundurinn stækkar og feldurinn eykst ber minna á því.
Náraslit
sést stöku sinnum og þá ofast í tíkarhvolpum og kemur fram sem mjúk bunga í náranum.
Endaþarmssekkir
Bólga og sýking í endaþarmssekkjum getur verið til hinna mestu vandræða og eru ekki óalgengir kvillar í cavalierhundum.
Sýkursýki
Sýkursýki hefur verið staðfest í örfáum cavalierhundum og hafa þeir þá verið meðhöndlaðir með insúlíni með góðum árangri.
Nýrnabilun
Nýrnabilunar (Familiar Nephrophati) hefur orðið vart í fáeinum hundum og verið þá á háu stigi. Sjúkdómurinn er ólæknanlegur.
Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað