Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Naggrísir

Höfundur: • 23. okt, 2003 • Flokkur: Kanínur og nagdýr
Upphaflega ættaðir frá Suður-Ameríku.

Upphaflega ættaðir frá Suður-Ameríku.

Naggrísir, stundum kallaðir marsvín, eru upphaflega ættaðir frá Suðurameríku (Ekvador, Bólivía og Perú) og lifðu þar í grasi vöxnum hlíðum Andesfjallanna. Talið er að þeir hafi fylgt manninum mjög lengi eða allt frá því 5000 árum f.kr. og teljast því til fyrstu húsdýra mannsins. Upprunalega voru naggrísir notaðir til matar, en seinna einnig til fórna (500 – 0 f.kr.). Enn þann dag í dag halda ættflokkar Indíána í Andesfjöllum naggrísi sem heimilisdýr – og reyndar líka til matar.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær naggrísir bárust til Evrópu, en seint á 15. öld, skömmu eftir fund Ameríku, koma fram lýsingar á þeim í evrópskum ritum, en talið er að hollenzkir kaupmenn hafi tekið þá með sér heim. Hugsanlega á nafnið „marsvín“ rætur sínar að rekja til þess að þetta litla, fallega dýr hafi komið hafið og líkist grís í laginu! Á norðurlandamálum heitir það ,,marsvin“ en á hollenzku og þýzku „Merschweinchen“.

Menn héldu naggrísi fyrst og fremst vegna kjötsins, en snemma þóttu þeir heppilegir sem tilraunadýr og hafa verið notaðir í þeim tilgangi allt frá árinu 1810.

Naggrísir eru í eðli sínu hlédræg og taugaóstyrk dýr. Séu þeir truflaðir eða áreittir, flýja þeir eða fela sig eins og þeim er eðlilegt í náttúrunni og erfitt getur verið að handsama þá, því þeir þeytast á ógnarhraða um búrið.

Naggrísir eru auðtamdir og aðlagast manninum vel, en mislíkar þó að láta bögglast með sig eða flytja úr stað. Við það geta þeir létzt svo um munar, þó þeir nái sér á næstu tveimur til þremur sólarhringunum

Naggrísir eru kvik, athugul og „málgefin“ dýr sem hafa hávær tjáskipti sín á milli, t.d. þegar hætta steðjar að, á matartímum eða þegar einhver nálgast sem þeir þekkja. Þeir eru dagdýr, þ.e. vakandi á daginn og sofandi um nætur og sjá,  einir fárra nagdýra, að takmörkuðu leyti í lit.

Í náttúrunni lifa þau  í hópum, 5 – 20 dýr saman og grafa sér göng undir grassverðinum sem þau nota sem svefnstað og skjól gegn fjendum. Þeim fylgir nokkuð sterk lykt sem gerir þá kannski ekki sérlega heppileg gæludýr í litlu húsnæði.

Innan naggrísaættarinnar eru 14 tegundir, en þau dýr sem haldin eru sem gæludýr, eru komin af tegundinni Cavia porcellus og er skipt í 3 hópa:

Snögghærður, einlitur naggrís sem er jafnframt sá algengasti. Lengd á feldi er 3.8 cm.

Snögghærður, einlitur naggrís sem er jafnframt sá algengasti. Lengd á feldi er 3.8 cm.

Rósettugrísinn (Abessinski naggrísinn) er bæði marglitur og með fjölbreyttar litasamsetningar. Feldurinn er snöggur og stríður og leggst í hvirvla (rósettur).

Rósettugrísinn (Abessinski naggrísinn) er bæði marglitur og með fjölbreyttar litasamsetningar. Feldurinn er snöggur og stríður og leggst í hvirvla (rósettur).

Angórunaggrís (frá Perú) er loðinn með allt að 30 cm langan og marglitan feld. Þessi naggrís er einna sjaldgæfastur.

Angórunaggrís (frá Perú) er loðinn með allt að 30 cm langan og marglitan feld. Þessi naggrís er einna sjaldgæfastur.

Nokkrar líffræðilegar staðreyndir

Meðallíftími: 4-8 ár
Heyrn og lyktarskyn er frábært, sjón þokkaleg.
Kynþroski: Kerlingar 28 – 35 daga gamlar, en karldýr 60 daga gamlir.
Aldur til undaneldis: Kerlingar: 4 – 5 mánaða/karldýr: 3 – 4 mánaða.
Lengd frá trýni að skottsæti: 20 – 30 cm.
Famtennur: Tvær í efri og tær í neðri skolti.
Skottlengd: Skottlaus
Líkamsþungi: Kerlingar: 700 – 1000 g/karldýr: 1000 – 1800 g
Líkamshiti: 37.4 – 39.5°C
Púls: 230 – 380 á mín.
Gangferill: 14 – 18 dagar. Egglos: 6 – 36 klst (8 – 11 klst)
Lengd meðgöngu: 59 – 72 dagar (63 – 64 dagar)
Fjöldi afkvæma: 2 – 5 ungar
Fæðingarþungi: 50 – 100 g
Á spena í 14 – 28 daga
Dagleg vatnsþörf (fullorðin dýr): 10 ml á hver 100 g líkamsþ.
Dagleg fóðurþörf (fullorðin dýr): 6 g á hver 100 g líkamsþunga

Aðbúnaður og atlæti

Naggrísum líður bezt saman í hóp

Naggrísum líður bezt saman í hóp

Naggrísir eru ekki plássfrek dýr miðað við mörg önnur dýr, en verða þó að hafa nægilegt svigrúm til að líða vel og einnig aðstöðu til að geta falið sig. Þau eru mjög viðkvæm fyrir dragsúg, raka og gólfkulda.

Naggrísir eru hópdýr, svo hafa ætti fleiri en einn naggrís saman, en varast verður hins vegar að hafa mörg kynþroska karldýr saman, því þeir slást og geta slasað hverjir aðra. En séu karldýrin vönuð eru þeir vandræðalausir innan um bæði karl- og kvendýr. Hins vegar er mögulegt að hafa fleiri kvendýr saman, en þau þurfa jafnframt að fá tækifæri til að kynnast og á meðan á viðkynningunni stendur ætti ekki að skilja þau eftir eftirlitslaus.

Kjörhiti er 18 – 26°C, en fari hitinn yfir 30°C er hætta á að dýrin fái hitaslag, sérstaklega ungafullar kerlingar. Sé hitinn undir 12°C þrífast ungarnir illa. Naggrísir þola illa sól í langan tíma og verða því að geta leitað í skugga. Þeir geta vel verið utandyra að sumarlagi, svo fremi þeir fái skjól gegn veðri og vindum.

Búr, hvort sem þau eru utan húss eða innan, þurfa ekki að vera mjög rammgerð því naggrísir eru lágfættir og þungir á sér. Ákjósanleg hæð er 35 – 50 cm, en þó þarf að hafa varann á séu mörg dýr saman í búri, því þau geta hrúgað sér saman og efstu dýrir klifrað yfir.

Lágmarksgólfflötur búrs er 0.3m2 en lágmarkspláss á hvert dýr er 0.15m2 Lágmarkspláss fyrir kerlingu með unga er 0.4m2 Frá þeim tíma að ungar eru vandir undan og þar til þeir eru orðnir 350g, ætti ekki að hafa fleiri en 16 dýr saman í hóp eftir það mest 10 dýr saman í einu. Heppilegur undirburður er sag, spænir eða hey en verður að vera það mikill að naggrísirnir verði ekki sárfættir. Búrið verður að gera hreint minnst 2 – 3 x í viku.

Fóðrun

Naggrísir verða að fá ferskt grænmeti daglega

Naggrísir eru grænmetisætur og dafna bezt á fjölbreyttu grænmetisfóðri. Þeir eru sólgnir í nýtt gras sem þeir taka fram yfir annað fóður, enda hafa kjálkaliðirnir og tennur þróast til að geta fínmulið það.

Naggrísir eru matvandir og fóðurbreytingar geta leitt til þess að þeir svelti sig. Snöggar fóðurbreytingar geta jafnframt leitt til alvarlegra meltingartruflana.

Á markaðnum er til heilfóður ætlað naggrísum (eða kanínum) sem uppfyllir fóðurþörf þeirra, en auk þess verður einnig að gefa þeim hey, bæði til átu og til að róta í bæli. Andstætt flestum öðrum dýrum, mynda naggrísir ekki sjálfir C-vítamín (rétt eins og maðurinn) og er því lífsnauðsynlegt að fá það í fóðrinu. Dagskammtur C-vítamíns er 10 mg á kg. líkamsþunga og allt upp í 30 mg á kg. lþ. á meðgöngu. Of lítill dagskammtur af fersku grænmeti eða fóðrun með stöðnu fóðri (vítamín brotna niður) getur leitt til hörgulsjúkdóma.

Skipta verður um vatn daglega og forðast að breyta vatnsílátum snögglega, því naggrísir forðast vatnsílát sem þeir eru ekki vanir.

Mikilvægt er að hafa trjágreinar í búrinu til að naga, t.d. birkigreinar, til að stuðla að eðlilegu tannsliti – og einnig til afþreyingar!

Æxlun

Naggrís og ungar

Naggrís og ungar.

Karldýrin verða kynþroska 60 – 70 daga (u.þ.b. 350g – 400 g) og kvendýrin 30 – 45 daga (200g – 250g). Eigi að para naggrísi er bezt að það sé gert þegar kerlingin er 3ja mánaða, því það er minni hætta á erfiðleikum í í fæðingu hafi hún ekki náð fullri líkamsþyngd og mjaðmagrindin ekki vaxin endanlega saman.

Naggrísir fæða allt árið um kring þó hægst geti á gangferlinum í svartasta skammdeginu. Meðalfjöldi unga í goti er 3 – 4 sem getur valdið því, að ekki fái allir nóg að drekka, því kerlingin hefur aðeins tvo spena.

Ungarnir fæðast fullburða með sjón og feld og éta strax frá fyrsta degi. Ungana má taka undan móðurinni þegar þeir nálgast 4 vikna aldur og vega um 180 g.

Áður en þú kaupir naggrís!

Naggrísir eru elskuleg og kát dýr sem geta orðið jafnvel 10 ára gömul. Þau þurfa ekki bara nægilegt pláss heldur líka félagsskap og góðan aðbúnað, andlega sem líkamlega. Þeim líður ekki vel einum, svo þess vegna er bezt að hafa fleiri en eitt dýr saman.  Munið að naggrísir eru ekki leikföng og að ábyrgðin á gæludýrahaldi hvílir á alltaf á hinum fullorðnu sem verða að vera tilbúnir til að hugsa um lítinn grís – jafnvel í heilan áratug!

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd