Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Gæludýr og gos

Höfundur: • 15. nóv, 2014 • Flokkur: Almennt

Gæludýr og gos!                    

Mengun

Brennisteinsdíoxíðið frá Holuhrauni berst víða um land

Eins og allir vita ríkir hættuástand þegar eldar loga. Frá gosstöðvunum berst ýmist aska eða eitraðar lofttegundir sem geta valdið bæði mönnum og dýrum ertingu og verulegum óþægindum í öndunarfærum og það fer svo eftir vindátt hvert efnin berast. Fyrir örfáum árum gaus í Grímsvötnumí og svo kom mikið gos í Eyjafjallajökli með töluverðu öskufalli á Suðurlandi.  

Og enn gýs! Í skrifuðum orðum spúir gýgurinn Baugur í Holuhrauni tugþúsundum tonna af brennisteinsdíoxíði út í himinhvolfið, mönnum og dýrum til ama, en sem betur fer vakta  Almannavarnir magn  mengunarinnar, svo fólk og dýraeigendur geta gert viðeigandi ráðstafanir.  

 

Eldgosin í Grímsvötnum og í Eyjafjallajökli voru frábrugðin gosinu t.d. á Fimmvörðuálsi að því leyti að þau voru undir jökli og því er ekkert hraunrennsli. Þó hraunrennsli hafi fylgt gosinu á Fimmvörðuhálsi, þá fylgdi því ekki uppstreymi eitraðra lofttegunda eins og er í Holuhrauni. Þegar gos á sér stað undir jökli myndast fíngerð aska eða gjóska sem síbreytileg vindátt feykir um allar trissur.

Mikil gjóska myndaðist við gosið í Eyjafjallajökli

Mikil gjóska myndaðist við gosið í Eyjafjallajökli

Askan myndast þegar kvikan splundrast við snertingu við vatn og berst víða og mengar gróður og vatn og berzt ofan í skepnur. Þar sem öskukornin eru oddhvöss, nánast eins og örsmá glerbrot, særa þau augu, öndunarfæri og meltingarveg. Berist þau ofan í dýr geta þau valdið niðurgangi, hjá grasbítum tannsliti og fótsæri hjá þeim dýrum sem þurfa að ganga í öskunni. Einnig inniheldur askan flúor sem loðir við yfirborð kornanna og þeim mun meiri sem askan er fínni. Flúormenguð aska mengar kyrrstætt vatn (polla og vötn) og getur valdið eitrun sem er hættulegust ungum dýrum.  

Brennisteinsdíoxíð SO2, lofttegundin sem Baugur spýr er hins vegar litlaus lofttegund sem sem ertir öndunarfæri bæði manna og dýra. Við mannfólkið finnum lykt af brennisteinsdíoxíði nái styrkurinn 1000 µg/m3, en styrkur í hreinu andrúmslofti er áætlaður u.þ.b. 1 µg/m3.  Nái styrkurinn hins vegar 700 – 1000 µg/​m³ eru loftgæðin talin slæm fyrir viðkvæma og á það örugglega jafnt fyrir bæði menn og dýr og er því full ástæða fyrir dýraeigendur að fylgjast vel með loftgæðum á hverjum stað.

 

Er hundum  og köttum einhver hætta búin?

 

Auðvitað eru hestar og sauðfé sem ganga úti að jafnaði í meiri hættu þegar gýs séu gosefni í andrúmsloftinu. Þau geta vel haft áhrif  öndunarfæri og augu þeirra rétt eins og okkar, þó því miður sé ekki möguleiki á að verja þau með rykgrímum á öskufallssvæði eða þar sem gosmökkur er sýnilegur! En hvað með brennisteinsdíoxíðið frá Holuhrauni?

 

Mikilvægt er að takmarka hreyfingu dýra þegar loftmengun er mikil!

Mikilvægt er að takmarka hreyfingu dýra þegar loftmengun er mikil!

Telja má nokkuð víst að það valdi ekkert síður ertingu í öndunarfærum dýra en manna. Við þá loftmengun eins og þá sem mengar umhverfið á meðan á Holuhraunsgosinu stendur, og vindáttir beina menguninni yfir okkar heimaslóðir, er mikilvægt að dýraeigendur taki mið af aðstæðum. Erfitt getur verið að vernda hesta og sauðfé sem ganga úti (og mýs og rebba), en fari loftmengunin  yfir þau mörk sem talin eru valda ertingu í öndunarfærum manna, er hins vegar heldur engin ástæða til að leggja aukið erfiði á dýr eins og þjálfun utandyra eins og t.d. reiðtúra.

 

Mikilvægt er því að sérhver dýraeigandi fylgist vel með mælingum á mengun frá eldstöðvunum í Holuhrauni og leggi þá alls ekki ónauðsynlegar hreyfingar eða álag á dýr á meðan gildin eru há. Auðvitað er illmögulegt að útiloka einhverja útiveru t.d. hjá hundum, því flestir þeirra þurfa út til að sinna daglegum þörfum sínum og eru mikil vanadýr hvað það snertir. Fullorðnum hundi t.d. gæti reynzt það afskaplega erfitt, kæmist hann ekki út til þess og myndi örugglega þvertaka fyrir að sinna þeim erindagjörðum innandyra!

 

Haldið  dýrunum inni!   

 

Ertingu af völdum brennisteinsdíoxíð og/eða ösku er unnt að takmarka með því að hafa útiveruna sem stytzta – og i taumi.  Hundeigendum ættu því að miða  ,, nauðsynlega“ útiveru við þann tíma sem hundurinn þarf til að athafna sig, en sleppa daglegum gönguferðum meðan á öskufalli stendur. Setjist aska í feldinn ætti að skola hana af, því efalaust getur hún valdið óþægindum og ertingu og einnig má skola augun með volgu vatni.   

Grímur? 

Þó fólki sé ráðlagt að nota grímur, er erfitt að setja grímur á dýr, þær líka tæpast fáanlegar og örugglega enginn skilningur hundsins eða sérstaklega kisu á nauðsyn þess að nota þær. En sé á því brýn nauðsyn, gæti handlaginn eigandi örugglega útbúið lipra grímu um trýni og fest með teygju aftur á hnakka, en vissulega fer það svo nokkuð eftir einstaklingnum hvort gríman tollir!  

 

Mun auðveldara er að halda köttum alfarið inni og flestir kunna þeir að nota sandkassa. Kattaeigendur eru því því eindregið hvattir til að loka kisu inni meðan á öskufallinu stendur og setja hjá henni sandkassa með góðum sandi í.  

Eitrun af völdum flúormengunar í hundum og köttum er harla ósennileg nema þau komist í flúormengað vatn sem ætti að vera einfalt að fyrirbyggja.

 

goseldingJarðhræringar og eldgos valda dýrum ótta og hræðslu bæði vegna hávaðans og eins eldinganna sem kunna að fylgja, eins og raunin var í gosinu í Eyjafjallajökli. Hundeigendur í nánd eldstöðvar ættu því alls ekki að setja hundana út nema í taumi eða bandi og fylgjast vel með þeim á meðan.  

 

Heimildir: Sigurður Sigurðarson, dýralæknir. Áhrif eldgosa á dýr.

Myndir af gosi: www.mbl.is

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd