Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Fuglainflúensa H5N5

Höfundur: • 30. jan, 2025 • Flokkur: Almennt

Fuglainflúensa í köttum

Fuglainflúensa, H5N1, bráðsmitandi veirusjúkdómur í fuglum, barst fyrst til landsins árið 2021.

Veiran getur valdið bæði vægum og alvarlegum veikindum hjá fuglum. Skæð fuglainflúensa veldur hárri dánartíðni sérstaklega berist hún í alifugla. Í desember s.l. greindist skæð fuglainflúensa af stofninum H5N5 í hópi eldiskalkúna í Ölfusi, en sem betur fer tókst að uppræta smitið og hefta útbreiðslu þess.

Fuglainflúensa hefur ekki greinzt í öðrum dýrategundum en fuglum hér á landi fyrr en núna í janúar. Þá staðfesti Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum tvö tilfelli skæðrar fuglainflúensu af stofninum H5N5 í köttum á höfuðborgarsvæðinu sem eru alvarleg tíðindi fyrir alla, ekki sízt kattaeigendur, en þetta eru fyrstu staðfestu tilfellin í köttum í heiminum.

Fyrri kisan veiktist 6. janúar og var hún þá nýflutt til bæjarins frá Ísafirði og sýktist að öllum líkindum þar, en seinna tilfellið greindist svo 10. janúar í kisu af Seltjarnarnesi.

Í viðtali við Þóru Jónasdóttur, yfirdýralækni, í Morgunblaðinu 14. janúar síðastliðinn, segir hún það vera áhyggjuefni að veiran H5N5 greinist í heimilisköttum, en Ísland er eina landið sem hafi tilkynnt greiningu afbrigðisins í heimilisdýri til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (WOAH).

Daglega berst fjöldi tilkynninga um dauða fugla um allt land, aðallega (grá)gæsa, anda, hrafna og spörfugla, en flestir eru fuglarnir á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fjölgun tilfella veldur sannarlega áhyggjum og er nokkuð víst að þeir hafi flestir, ef ekki allir, drepist af völdum flensuveirunnar H5N5.

 

 

Þó algengustu og útbreiddustu afbrigði fuglainflúensuveirunnar í Evrópu smitist aðallega á milli fugla, fjölgar greiningum sjúkdómsins í villtum spendýrum. Um miðjan mánuðinn var svo staðfest að dauður minkur sem fannst í Vatnsmýrinni í Reykjavík drapst úr fuglaflensuafbrigðinu H5N5 og nú hefur Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum staðfest greiningu sjúkdómsins í refi sem fannst veikur í Skagafirði.

Rétt er að benda á, að fleiri spendýr svo sem rottur og mýs, geta líka smitast af fuglainflúensu, þótt veiran hafi ekki greinst hingað til í þessum dýrategundum hér á landi

Fuglaflensuveiran

er A veira og skyld öðrum inflúensuveirum, en talið er að nær allar tegundir inflúensuveira séu upprunnar úr fuglum. Fuglalensuveiran dreifist aðallega á milli vatnafugla (gæsa, anda, álfta) í náttúrunni, sérstaklega farfugla og sýkir margar, mismunandi fuglategundir og getur jafnvel sýkt ótal tegundir dýra.

Fuglaflensuveiran er flokkuð eftir mótefnavökum á yfirborði veirunnar sem eru auðkenndir með bókstöfunum H (Hemagglútínín) og N (Neuramínídasa), en var áður greind eftir hversu alvarlegri sýkingu hún olli í hænsnfuglum. Í dag er hins vegar stuðst við mótefnamælingar.

Inflúensuveirur af gerð A eins og fuglainflúensuveiran er, hafa þann eiginleika að geta skipst á erfðaefni og stökkbreytzt. Þessir eiginleikar þeirra geta leitt til þróunar nýrra afbrigða sem geta sýkt margar aðrar dýrategundir eins og nautgripi, hesta, ketti og önnur dýr af kattaætt, seli og menn.

Fuglainflúensuveirur þola ekki hita og verða óvirkar við 56-60°C í 60 mínútur (eða í styttri tíma við hærra hitastig), en þola hins vegar vel kulda og geta lifað lengi í köldu umhverfi, til dæmis í vatni.

Þó að vonir séu bundnar við að smitum muni fækkar þegar fer að hlýna, getur þróunin í raun verið ófyrirsjáanleg og  jafnvel geta komið ný afbrigði  með farfuglunum.

Sótthreinsiefni eins og formalín, spritt og joðsambönd gera veirurnar óvirkar.

Smitleiðir 

Margir þættir hafa áhrif á dreifingu og tíðni fuglaflensu, en villtir fuglar, sérstaklega vatnafuglar (álftir, endur og gæsir) eiga stærstan þátt í útbreiðslu hennar.

Veiran smitast á milli fugla með dropasmiti frá öndunarvegi og með driti, en í dritinu finnst mikið magn veira sem svo berst í aðra fugla m.a. með saurmenguðu vatni eða fæðu.

 

 

Sennilega á veirumengað vatn stóran þátt í dreifingu fuglaflensunnar, því veiran getur lifað í vatni um margra mánaða skeið.

Fuglaflensa smitast ekki á milli dýra, heldur aðeins við snertingu við veika fugla eða fugladrit.

Þar sem veruleg hætta er á að fuglaflensa geti borizt með villtum fuglum eða driti í alifuglabú, lítil sem stór, hænurnar bak við hús eða endurnar á pollinum heima, verður að tryggja umhverfi þeirra tryggilega til að forðast smit með skelfilegum afleiðingum.

Mikið magn smitefnis í stórum búum getur skapað kjöraðstæður fyrir stökkbreytingar á veirunni og  þróun nýrra afbrigða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Geta kettir og hundar smitast af fuglainflúensu?

Staðreyndin er sú, að bæði kettir og hundar geta smitast af fuglainflúensu, en kettir og dýr af kattaætt eins og ljón, tígrisdýr, minkar og gaupur eru mun móttækilegri en hundar.

Smit í hunda virðast afar sjaldgæf, en smit (H5N1) í ættingja hundsins, refi og úlfa  eru vel þekkt.

Ekki má rugla fuglainflúensu saman við hundainflúensu (H3N2) sem er algengur og bráðsmitandi sjúkdómur í hundum víða erlendis og sérstaklega í Ameríku.

 

Einkenni

fuglaflensu í köttum og hundum minnir á mörg einkenni annarra öndunarfærasjúkdóma eins og sótthita, slappleika, lystarleysi, augnbólgum og útferð úr augum og trýni, andnauð auk einkenna eins og krampa, floga, ójafnvægis og jafnvel blindu.

Það getur því verið erfitt að greina fuglaflensu frá öðrum veirusjúkdómum, en leiki grunur á að kisa, eða hundurinn, hafi komist í fuglshræ/drit, er mikilvægt að nefna það við dýralækninn, sérstaklega þar sem staðfestum tilfellum í öðrum dýrategundum virðist fjölga.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Það liggur í augum uppi að veik, dauð og þar með aðgengileg, fiðruð bráð, er afar freistandi fyrir ketti sem ráða sér sjálfir og eru kannski veiðiklær hinar mestu að auki; allt sem stuðlar að aukinni hættu á smiti í kisu.

Hundar láta sjaldnar freistast til þess að éta sjálfdauða bráð, en vilja hins vegar gjarnan velta sér upp úr gæsaskít/fugladriti á víðavangi og þegar hundurinn sleikir svo feldinn er hættunni boðið heim.

Til að hindra fleiri smit og alvarleg veikindi, verður að koma í veg fyrir að kisa komist í tæri við, eða éti, veika/dauða fugla eða komist í fugladrit.

Skynsamlegasta leiðin til þess er einfaldlega að halda köttum inni á meðan faraldurinn gengur yfir eða fara með kisu út í ól og taum.

 

 

 

 

 

 

Þó engin fuglainflúensutilfelli hafi greinzt í hundum hér og eru þar að auki afar fátíð á heimsvísu, er samt alls ekki hægt að útiloka að þeir geti ekki líka smitast af veirunni.

 

Hundeigendur ættu að hafa hunda sína í taumi eða línu sérstaklega á þeim slóðum þar sem hætta er á veikum/dauðum fuglum, gæsaskít eða fugladriti. 

 

Hægt er að fylgjast með framvindu faraldursins og stöðu á vefsíðu Matvælastofnunar www.mast.is

 

Heimildir:
Viðtal við Þóru Jónasdóttur, yfirdýralækni í Morgunblaðinu 14. janúar 2025 
Matsvælastofnun www.mast.is
2025 American Veterinary Medical Association 
CDC U.S. Centersfor Disease Control and Prevention www.cdc.cov
Vísindavefurinn www.visindavedur.is
Veraldarvefurinn
Myndir. Morgunblaðið og veraldarvefurinn

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Comments are closed.