Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Hamstrar

Höfundur: • 23. okt, 2003 • Flokkur: Kanínur og nagdýr
Gullhamstur

Gullhamstur

Hamstrafjölskyldan, Cricetidae, samanstendur af u.þ.b. 100 mismunandi tegundum hamstra sem eru útbreiddar um allan heim. Algengastur meðal gæludýra er gullhamsturinn, Mesocricetus auratus, sem á uppruna sinn að rekja til Miðausturlanda (Sýrlands).

Gullhamsturinn telst til lítilla eða meðalstórra nagdýra og hefur, eins og önnur nagdýr, rótlausar tennur, þ.e. tennur sem vaxa allt lífið. Einkennandi fyrir hamstrana eru kinnpokarnir sem þeir hamstra fóðrið í til að fara með heim og éta í ró og næði. Og af þessum eiginleika sínum draga þeir líka nafnið.

Hamstrar gera sér bæli neðanjarðar og þar grafa þeir einnig göng og getur gangnakerfið verið misjafnt; stundum einfalt og stundum flókið kerfi með mörgum göngum og útskotum.

Allir hamstrar eru næturvirk dýr sem eyða deginum í svefn á kafi í holunni sinni. Þeir hafa ekkert sérlega góða sjón en heyra þess betur og hafa gott lyktarskyn.

Gullhömstrum er næstum sama hvað stendur á matseðlinum, því þeir éta næstum hvaðeina sem á vegi þeirra verður eins og fræ, ber og grænmeti en einnnig líka skordýr.

Algengustu tegundir hamstra sem haldnir eru sem gæludýr eru gullhamsturinn (sýrlenskur hamstur) og dverghamstur (rússneskur hamstur).

Gullhamsturinn

Sýrlenskur gullhamstur

Sýrlenskur gullhamstur

Gullhamsturinn er sá hamstur sem er algengastur sem gæludýr. Gullhamsturinn er einfari að eðlisfari og þess vegna á að hafa búr fyrir hvert dýr. Í náttúrunni hittast karl- og kvendýr aðeins til að parast og að því loknu rekur kerlingin karlinn á brott. Gullhamstraungar geta verið saman í búri fram að kynþroskaaldri (4 – 8 vikna), en þá byrjar drottnunargirnin og skilja verður dýrin að.

Dverghamsturinn

Dverghamstrar

Dverghamstrar

Dverghamstur er agnarsmár, aðeins um 8 cm á lengd. Andstætt gullhamstrinum er hann hópdýr og líður bezt með öðrum hamstri, sama kyns eða af gagnstæðu kyni. Vandamál er þó fylgjandi því að hafa tvo dverghamstra saman af sama kyni, því kerlingin getur gotið á 3ja vikna fresti!

Hamstrar

eru ekki alltaf neitt sérstaklega meðfærilegir og eiga það til að bíta. Sé hamsturinn gæfur, er í lagi að taka hann upp og halda á honum í lófanum. Gæta verður þó þess að hann detti ekki niður, því hamstrar eru snöggir í snúningum og fallið getur verið hátt fyrir lítið dýr og afleiðingarnar ófyrirsjáanlegar. Sé hamsturinn hins vegar mótfallinn allri handfjötlun, verður að grípa hann í hnakkaskinnið með þumal- og vísifingri.

Mörgum eigendum gullhamstra bregður í brún sjái þeir hamsturinn éta eigin saur, en það er þeim eiginlegt og bætir nýtinguna á B- og K-vítamínum.

Nokkrar staðreyndir um gullhamstra

Lengd: 15 – 20 cm
Þyngd: Kvendýr 95 – 180 g, karldýr 85 – 150 g
Hali: U.þ.b. 1 cm að lengd
Tær: 4 á framfótum og 5 á afturfótum
Spenapör: 7 – 8
Líftími: 1 – 3 ár
Líkamshiti: 37 – 38°C
Púls: 250 – 500/mín.
Gangferill: 4 dagar
Meðganga: 15 – 16 dagar
Fjöldi unga í goti: 5 – 9
Fæðingarþyngd: 2 g
Augu opnast: 15 daga
Á spena: 20 – 25 daga
Kynþroskaaldur: Kvendýr 4 – 6 vikna, karldýr 6 – 8 vikna
Dagleg vatnsþörf: 10 – 15 ml á dag (fullorðin dýr).
Dagleg fóðurþörf: 15-20 g á dag (fullorðin dýr).

Aðbúnaður

Hamstur í pappahólki af eldhúsrúllu.

Hamstur í pappahólki af eldhúsrúllu.

Nauðsynlegt er að hamstrar hafi eitthvað fyrir stafni og sé séð fyrir afþreyingu í búrinu, t.d. hlaupahjóli, rörgöngum og trjágreinum til að klifra í og naga. Einnig er mikilvægt að hafa svefnkofa (15cm x 15cm x 10 cm) í búrinu með opi (u.þ.b. 5 x 5 cm), og t.d. fínt hey sem þeir draga í húsið svo þeir geti falið sig frá umheiminum á daginn.

Hitastig: Kjörhiti gullhamstra er á bilinu 18º og 26ºC. Sé hitastig á bilinu 5° – 15°C hægist á líkamsstarfsemi hamstranna, en fari hitinn niður fyrir 5°C leggjast þeir í dvala, og er þá hjartsláttur og öndun er vart merkjanleg.

Búr

Stærð búra (lágmarksstærð): Grunnflötur 180cm2 og hæð 35 cm.

Búrin verða að standast útrásarþörf hamstranna því þeir naga allt í sundur sem hægt er. Búr fyrir dverghamstra verða að vera með mjög þéttum möskvum því þeir smjúga alls staðar út, reyndar er bezt að hafa þá í heilum plastbúrum. Í búrinu verður að vera gott pláss fyrir afþreyingu, rör (pappahólkarnir undan eldhúsrúllunum eru tilvaldir til afþreyingar) og svefnhúsið þeirra.

Fóður

Fóðurþörf fullvaxta gullhamsturs er um 15 – 20 g á dag, þar af 16-24% hráprótín, 60-65 % kolvetni og 4-5 % fita. Á markaðnum er til sérstakt hamstrafóður sem uppfyllir daglega fóðurþörf gullhamstra (músa- og rottufóður hentar einnig hömstrum). En auk tilbúna fóðursins er mikilvægt að gefa hömstrum ávexti og grænmeti, svo sem kál, gulrætur, epli, perur og ber. Skemmt fóður og snöggar fóðurbreytingar geta valdið litlum hamstri alvarlegum meltingartruflunum sem geta jafnvel leitt hann til dauða. Því er mikilvægt að fylgjast vel með fóðurbyrgðum hamstursins sem úldna eða skemmist auðveldlega eins og t.d. grænmeti og ávöxtum og fjarlægja þær reglulega. Hamsturinn verður alltaf að hafa aðgang að fersku vatni (10 – 15 ml. á dag) og því er bezt að endurnýja vatnið daglega.

Undaneldi

Gullhamstrar verða fljótt kynþroska og er meðgöngutíminn með því skemmsta sem þekkist hjá spendýrum. Hamstrakerlingar gjóta árið um kring og viðkoman getur því verið mikil. Eigi að para hamstra, er bezt að hleypa kvendýrinu inn til karldýrsins, því kerlingin er mun grimmari en karldýrið og fylgjast náið með þeim á meðan. Æskilegast er að þau séu saman aðeins stutta stund í einu (nokkra tíma í senn) og endurtaka heldur pörunin aftur næsta dag. Gæta verður þess að kvendýr með unga á spena fái alhliða, vandað fóður sem inniheldur öll næringarefnin auk grænmetis og ávaxta. Ungarnir byrja að éta fasta fæðu þegar þeir eru um viku gamlir og vatn þegar þeir eru 10 daga gamlir.

Það er því mikilvægt að þeir komist auðveldlega í vatns- og fæðuskálarnar.

Helstu sjúkdómar:
Tannslit

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd