Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Klærnar og umhirða þeirra

Höfundur: • 6. maí, 2007 • Flokkur: Hundar, Kanínur og nagdýr, Kettir

Klóin er samsett úr hornlagi sem umlykur æða- og taugaendaríka kviku. Hún endar í oddi sem er mishvass eftir dýrategund og til hvers dýrið notar klærnar.

Hornlag klónna getur ýmist verið ljóst eða dökkt á litinn og þegar það er ljóst, skín kvikan í gegn um hornlagið.

Klær gæludýra, hvort sem um er að ræða hund, kött, kanínu, nagdýr eða fugla, þarfnast reglulegs eftirlits og umhirðu rétt eins og annað, því þær vaxa stöðugt. Verði klær of langar geta þær heft eðlilegar hreyfingar dýrsins, valdið því óþægindum og jafnvel sársauka.

Í náttúrunni slíta dýr klónum eðlilega við hlaup og veiðar, en öðru máli gegnir um nútíma „borgargæludýr“ eins og hunda sem ganga oftast aðeins stutta túra í einu og reyna sjaldnast mikið á sig, á meðan önnur dýr búa sum hver í búrum allt sitt líf.

Með kisu gegnir nokkuð öðru máli, því hún dregur klærnar inn til að hlífa þeim og halda hárbeittum, enda eru þær veiðarfærin hennar. En kattaklær þarfnast ekkert síður umhirðu og eftirlits en klær annarra dýra, því þær geta líka orðið of langar.

Líkurnar á ofvöxnum klóm eru auðvitað meiri hjá þeim dýrum sem hreyfa sig lítið en þeim sem hreyfa sig mikið við ólíkar aðstæður – og einnig hjá léttari hundategundum frekar en þeim hundum stíga þyngra til jarðar.

Það er afar mikilvægt að eigendur gæludýra fylgist reglulega með klóm dýranna sinna og klippi þær eftir þörfum. Fylgjast þarf sérstaklega vel með sporunum, en það eru klærnar sem sitja aðeins ofan við loppurnar á innanverðum framfótum og einnig á afturfótum hjá mörgum hundategundum.

Of langar klær

geta valdið margvíslegum kvillum og óþægindum og því lengri sem þær eru, því verri verða afleiðingarnar. Þær  hindra eðlilegar hreyfingar því hundur t.d. stígur þá öðru vísi til jarðar með þeim afleiðingum að fótstaðan verður röng sem með tímanum getur leitt til álagsskaða á liði.

Langar klær brotna líka auðveldlega sem er auðvitað mjög sársaukafullt  þegar stigið er í fótinn.

Reglulegt eftirlit

og umhirða á klóm er jafn mikilvæg og t.d. eftirlit með tönnum og feldi. Klippa þarf klærnar reglulega til að halda þeim í eðlilegri lengd og sérstaklega verður að fylgjast vel með sporunum, en þeir slitna auðvitað síður en hinar klærnar og hafa tilhneigingu til að vaxa í hring og inn í þófann. Eins og nærri má geta er það auðvitað mjög sársaukafullt og getur að auki valdið alvarlegri sýkingu.

Brýnt er að fylgjast mjög vel með klóm hjá gömlum dýrum, bæði hundum og köttum og sérstaklega  gigtveikum dýrum, því þau hreyfa sig minna og þá slitna klærnar auðvitað líka minna. Þá eru það ekki bara sporarnir sem geta vaxið í hring og inn í hold, heldur líka hinar klærnar.

Séu loppurnar loðnar þarf að fylgjast enn betur með þeim, því þá er erfiðara að sjá lengdina á klónum.

Hvenær á að klippa klærnar?

Reglulega! Einfaldasta leiðin til að forðast ofvaxnar klær, brotnar klær, sýkingar og sár er að aðgæta ástand þeirra við daglega umhirðu hundsins eða kattarins og klippa reglulega eftir þörfum.

Sé hundur mikið á fartinni í mis“grófu“ umhverfi getur verið nægilegt að klippa klærnar á 6 – 8 vikna fresti. En sé hundurinn hins vegar í rólegri kantinum, ætti þumalfingurreglan að vera sú að snyrta klærnar á 2ja – 4 vikna fresti.

Hér er klóin alltof löng og kvikan líka

Hér er klóin stutt og eðlileg

Sé kisa gjörn á að klóra í húsgögn, skemma langar klær auðvitað meira en stuttar klær og þá þarf að snyrta þær á 2ja – 4 vikna fresti. Kisa með sljóar klær á líka mun erfiðara með að grípa bráð og passi eigandinn að klippa þær reglulega, getur það hugsanlega bjargað mörgum fuglsunganum frá bráðum bana!

Hvenær eru klærnar of langar?

Bognar klær eru of langar og heyrist þegar hundurinn stígur niður, eru klærnar líka of langar. Eðlilegar og rétt klipptar klær snerta ekki undirlagið þegar hundurinn stendur í fæturna og ekki heyrist þegar hann gengur á parketti eða stétt.

Sjáist í klær á kisu þegar þær eru inndregnar, eru þær of langar.

Klærnar eiga ekki að nema við undirlagið þegar hundurinn stendur í fótinn.

Klærnar eiga ekki að nema við undirlagið þegar hundurinn stendur í fótinn.

Hvað á að gera ef klærnar eru of langar?

Séu klærnar ekki snyrtar reglulega, verða þær ekki bara þær of langar heldur vex kvikan fram til jafns við klóna. Þá getur reynzt erfitt að stytta klærnar í eðlilega lengd án þess að klippa í kvikuna – og það er sárt!

Byrja má á því að ganga með hundinn á grófu undirlagi, möl eða malbiki til að reyna að láta hann slíta klónum og jafnframt klippa örlítið framan af þeim vikulega. Þetta getur þó reynzt erfitt, sérstaklega er klærnar eru dökkar, og þá er þörf á aðstoð dýralæknisins. Klærnar eru styttar í eðlilega lengd í svæfingu og brennt fyrir kvikuna. Að því loknu verður að snyrta klærnar reglulega, jafnvel vikulega, svo ekki sæki aftur í sama farið.

Alltof langar klær - og bognar

Hér er búið að snyrta þær

Forvarnir

eiga að byrja strax og hvolpurinn kemur á nýja heimilið. Jafnhliða öðru þarf að kenna honum að loppurnar séu handfjatlaðar og að það verði hluti af daglegri umhirðu.

Gott er að sitja með hann í fanginu til að byrja með og klippa agnarögn framan af klónum, t.d. einni á dag.

Hvolpurinn lærir í flestum tilfellum fljótt að þetta er eðlilegur hluti af daglegri umhirðu og sættir sig við klóklippinguna.

Þó geta hundar verið misviðkvæmir og staðreyndin er, að t.d. íslenzkur fjárhundur er sérlega viðkvæmur með loppurnar á sér og það getur reynzt ótrúlega erfitt að fá að klippa klærnar á mörgum þeirra, jafnvel þó reynt sé að kenna hvolpinum það frá upphafi.

Muna verður að klóklippingin má aldrei vera bundin óþægindum eða þvingunum; betra er þá að fara til dýralæknisins og láta klippa klærnar í léttri svæfingu.

Kisa

Yfirleitt er auðvelt að klippa klær á köttum og þær sætta sig vel við það. Í flestum tilfellum eru kattaklær ljósar, svo það er lítil hætta á að klippa í kvikuna.

Hvar skal klippa

Hvar skal klippa

Kanínur og nagdýr

Ekki þarf síður að fylgjst vel með klóm á kanínum og naggrísum en hundum og köttum. Klærnar þarf að klippa reglulega og það er sjaldnast nokkrum vandkvæðum bundið.

Eðlileg lengd á naggrísaklóm

Eðlileg lengd á naggrísaklóm

Fuglar

Snyrta þarf klærnar á fuglum reglulega, því þær geta orðið of langar.
Gott er að hafa misþykkar trjágreinar í búrinu svo fuglinn sitji ekki alltaf á jafnsverum pinnum.

Margir setja því miður sandpappír um pinnana sem getur varla verið sérlega þægilegt fyrir fótinn!

Fuglakló

Fuglakló

Klóklippur

Margar tegundir af klóklippum eru á markaðnum og verður að velja þær eftir tegund og stærð dýrsins, en bezt er að velja vandaðar og vel beittar klóklippur. „Nagla“klippur eru ekki heppilegar fyrir klær.

Góðar klóklippur fyrir hunda

Góðar klippur fyrir ketti og minni dýr

Hér á stofunni seljum við margar gerðir af góðum klóklippum og ráðleggjum við gæludýraeigendum um rétta notkun þeirra.

Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur þakkar Guðmundi R. Guðmundssyni, ljósmyndara á Morgunblaðinu fyrir leyfi til að birta myndir hans.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd