Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Bólusetning katta

Höfundur: • 20. okt, 2009 • Flokkur: Kettir
Regluleg bólusetning verndar kisu gegn alvarlegum smitsjúkdómum

Regluleg bólusetning verndar kisu gegn alvarlegum smitsjúkdómum

Kettir eru almennt heilsugóð dýr og eiga flestir sem betur fer langa og góða kattaævi, oftast án teljandi veikinga. En sjúkdómalausa ævi er því miður ekki hægt að tryggja, því smitsjúkdómar, sumir hverjir mjög alvarlegir, geta reynzt köttum skeinuhættir og dregið þá til dauða. Eina ráðið til að verjast þeim er bólusetning, en hún getur í flestum tilfellum komið í veg fyrir að kisi veikist  og allavega ekki jafn alvarlega og væri hann óbólusettur.

Vel bólusett kisa hefur nægilegt magn mótefna í blóðinu til verndar þeim sjúkdómum sem bólusett er gegn og sem hindra alvarleg veikindi. Þess vegna er regluleg bólusetning bezta vörnin gegn smitsjúkdómum og mikilvægasta forsenda heilbrigðrar og langrar kattaævi. Því betur sem kattastofninn er bólusettur, því minni líkur eru á að smitsjúkdómar blossi upp og verði að faraldri.

Hverjir eru í mestri hættu?

Óbólusettir kettir sem fara allra sinna ferða eru auðvitað í meiri smithættu en vel bólusettir kettir og þeir sem fara aldrei út. Líklegra er að kisi hitti á ferðum sínum flækingsketti sem ekkert er sinnt þó veikir séu, eða eru heilbrigðir smitberar. Kettir á kattahótelum, kattasýningum og í kattaathvörfum eru einnig í verulegri smithættu, þó bólusettir séu, því á slíkum stöðum er streituálagið mikið, en streita og álag veikir mótstöðu einstaklingsins og eykur líkurnar á að hann veikist. Reyndar geta innikettir smitast af alvarlegum veirusjúkdómum, því veirur eru ferðaglaðar og berast auðveldlega með andrúmsloftinu og einnig með okkur mannfólkinu t.d. með óþvegnum höndum eða óhreinum ílátum.

Sé læða vel bólusett, fá kettlingarnir mótefni með broddmjólkinni sem vernda þá fyrstu 11 -15 vikurnar gegn veirusjúkdómum. Þessi mótefni brotna hins vegar niður smátt og smátt og hverfa loks alveg. Áður en það gerist er tímabært að bólusetja kettlingana svo þeir myndi eigin vörn, en bíða má með bólusetninguna fram yfir þann aldur, sé kettlingurinn ekki innan um óbólusetta ketti sem gætu verið heilbrigðir smitberar eða búi í streituvaldandi umhverfi (margir kettir).

Gegn hvaða sjúkdómum er hægt að bólusetja?

Unnt er að bólusetja gegn flestum veiru- og bakteríusjúkdómum og hafa flestir þeirra verið landlægir hér um áratugaskeið, en aðrir hafa numið land með auknum innflutningi. Flest bóluefnin veita góða og langvinna vernd, en önnur því miður mun skammvinnari og síðri vernd. Mikilvægast er að bólusetja ketti gegn þeim sjúkdómum sem eru landlægir, þ.e. hér á Íslandi gegn kattaflenzu, caliciiveiru og kattafári. Gjósi upp aðrir sjúkdómar er nauðsynlegt að meta þörfina á bólusetningu gegn tilteknum sjúkdómi, áhættuna á því að kisi geti smitast af honum og smitálagið í umhverfinu.

Veirusjúkdómar

Kattafár (Feline Panleukopenia) er alvarlegur veirusjúkdómur en þó alvarlegastur fyrir kettlinga. Veiran skilst út með saur og berst beint milli katta eða með snertingu við mengaðan saurinn. Helztu einkenni eru hár hiti, lystarleysi, uppköst og niðurgangur. Sem betur fer er kattafár sjaldséður sjúkdómur í dag, að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu, sem er því að þakka hve kattaeigendur eru duglegir að láta bólusetja kisa sína reglulega. Nefna má að kattafár var töluvert algengur hér áður fyrr, sérstaklega þegar gæludýrabúðir seldu kettlinga!

Mikil útferð úr augum og trýni einkennir kattaflenzu

Mikil útferð úr augum og trýni einkennir kattaflenzu

Kattainfúenza (Feline Viral Rhinotracheitis) er veirusjúkdómur sem leggst á efri öndunarfæri og er aðalorsakavaldurinn annað hvort herpesveira eða caliciveira. Helzta smitleiðin er milli katta annað hvort með útferð frá augum og trýni eða með munnvatni. Veiran getur einnig borizt óbeint með fólki, hlutum eða lofti. Einkenni sjúkdómsins er hósti, hnerri og hiti, útferð frá augum og trýni og sár í munnholi og kettlingafullar læður geta látið fóstrum. Fylgikvillar eru ekki óalgengir og gera sjúkdómseinkennin verri og jafnvel langvinn og getur sjúkdómurinn gosið upp aftur og aftur, sérstaklega við streitu og álag.

Bakteríusjúkdómurinn Klamidía (Chlamidophilia felis) leggst á augu og öndunarfæri. Hann var fyrst staðfestur í köttum hér á landi árið 1992. Klamidía er bráðsmitandi og smitast við snertingu og veldur því oftar meiri vandræðum þar sem margir kettir eru á sama heimili. Venjulegast eru sjúkdómseinkennin ekki alvarleg og flestir kattanna ná sér ná ér vel.

Samtök amerískra dýralækna í kattasjúkdómum (AAFP) ráðleggja að einungis skuli bólusetja gegn sjúkdómum eins og klamidiu miðað við tíðni sjúkdómsins og ástand hópsins í viðkomandi kattastofni. Mótefni sem myndast við bólusetninguna duga skammt (< ár) og hætta á alvarlegum aukaverkunum er mikil.

Aðrir alvarlegir og hættulegir sjúkdómar sem hafa ekki verið staðfestir á Íslandi

Hundaæði (Rabies) er óþekktur sjúkdómur á Íslandi, einu fárra landa í heiminum. Hundaæði er súna, þ.e. sjúkdómur sem smitast í menn – og leiðir til dauða! Óheimilt er að bólusetja ketti gegn hundæði hér á landi, en yfirvöld geta gefið undanþágu frá því banni eigi að flytja dýrið úr landi.

Kattahvítblæði (Feline Leukemi Virus) er einnig alvarlegur veirusjúkdómur. Sem betur fer er hann óþekktur hér á landi og mikilvægt er að hindra að hann berist til landsins. Þeir sem hyggja á innflutning katta ættu aðeins að kaupa dýr frá ræktendum sem eru með heilbrigð dýr og sem láta mótefnamæla þau reglulega.

Bólusetningaráætlun

Það bóluefni sem við höfum hér á landi er svokallað ,,deytt“ bóluefni sem gefur ágæta vörn. Þegar um er að ræða deydd bóluefni er venjan að bólusetja oftar en gert er með ,,lifandi“ bóluefnum, allavega sé kisa í streituvaldandi umhverfi.kisubarnatt001301

Kettlingar:

  1. Fyrsta bólusetning 8-9 vikna,
  2. svo 3-4 vikum seinna.
  3. Næst eftir ár,
  4. og síðan á 1-2 ára fresti.

 

Fullorðnir kettir:

Bólusetja á fullorðna ketti árlega séu þeir í áhættuhópi, þ.e. fari á sýningar, á kattahótel eða eru í kattaathvörfum.

Inniketti sem fara sjaldan eða aldrei ,,meðal“ katta ætti að vera nóg að bólusetja á 2 x á 3 ára fresti.

Sérstakar reglur gilda um bólusetningu katta sem eiga að fara til landa innan Evrópusambandsins og Bretlands. Bólusetja þarf kisa 21 degi fyrir brottför og síðan þarf að fylla út tilskilin vottorð sem fylgja kisa á ferðalaginu. Koma þarf með kisu á stofuna og hér er gengið frá vottorðinu og öðru því sem þarf að gera, svo sem gefa ormalyf. Pappírana þarf svo að fara með á skrifstofu Matvælastofnunar þar sem þeir eru stimplaðir. Gott er því að vera ekki á allra síðustu stundu með lokaundirbúninginn. Aðrar reglur kunna að gilda fyrir lönd utan Evrópusambandsins og þarf því að kynna sér þær vel tímanlega fyrir brottför.  

Aukaverkanir

fallegur-kettlingurAukaverkanir sjást afar sjaldan, en geta verið smá bólga á stungustað, lystarleysi og einstaka kisi getur verið þreyttur daginn eftir bólusetningu, en þó ekki lengur en það.

Því miður er ekki enn mögulegt ennþá að bólusetja gegn jafn alvarlegum sjúkdómum eins og smitandi lífhimnubólgu (FIP) sem dregur alla ketti sem fá klínísk einkenni hans til dauða. Bóluefnið sem er á markaðnum (Primucell FIP) er talið ófullnægjandi og veitir ekki vörn gegn sjúkdómnum.

Heimildir

Drs. Foster & Smith, Inc. www.peteducation.com

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd