Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Áramótin nálgast!

Höfundur: • 28. des, 2007 • Flokkur: Almennt, Hundar, Kettir

skotflaug-minniFramundan eru áramótin sem eru spennandi tími fyrir marga sprengjuglaða menn. Þessi tímamót geta þó að sama skapi verið tími ótta og skelfingar fyrir mörg gæludýr, því hávaðinn og ljósglamparnir sem fylgja flugeldum  og skottertum geta valdið þeim verulegri hræðslu svo jafnvel djörfustu veiðihundum stendur ekki alveg á sama.

Eigendur gæludýra þurfa að undirbúa áramótin vel með dýri sem hefur ekki áður upplifað lætin sem fylgja þeim. Ekki er endilega víst að dýrið verði hrætt og einnig er til í dæminu að sumir hundar haldi að flugeldar séu eitthvað sem eigi að elta! Varla þarf að taka fram, að ,,skotglaður“ hundur og flugeldar eða blys eiga aldrei samleið!

Sé hvolpur eða ungur hundur á heimilinu sem á sín fyrstu áramót framundan, og sérstaklega hvolpur á aðal mótunarskeiði lífsins, þ.e. 4 – 5 mánaða, er mikilvægt að gera allt til að koma í veg fyrir að hann verði hræddur, því grípi hann skelfing er líklegt að sú neikvæða lífsreynsla fylgi honum um ókomin áramót.

Einkenni hræðslu

Dýr hafa enga ánægju af skottertum

Dýr hafa enga ánægju af skottertum

eru augljós. Dýrunum bregður við hvern hvell, anda ótt og títt, titra og skjálfa og reyna að leita skjóls frá látunum hjá eigendunum, undir rúmum – eða lengst inni í skáp og sum þeirra geta jafnvel orðið svo hrædd að þau missi þvag. Matarlystin hverfur og um leið áhuginn á uppáhalds nammibitunum eða leikföngum og hundar, og jafnvel kisur, hafna því alfarið að fara út fyrir hússins dyr til að gera þarfir sínar. Hræðslan hefur því miður ríka tilhneigingu til að aukast með árunum og dýrin virðast skynja strax hvað í vændum er þegar skotæfingarnar hefjast fyrir áramótin jafnvel þó í órafjarlægð sé. Hrædd dýr vilja ekki út svo tímunum skiptir til að gera þarfir sínar sem eykur auðvitað enn á vanlíðanina.

Hvað er til ráða?

Byrja þarf á því að undirbúa áramótin vel.  Eins og áður segir er afar mikilvægt að koma í veg fyrir að ung dýr, sem nú upplifa sín fyrstu áramót, verði hrædd og sýni það minnstu merki um ótta eða hræðslu, þarf að róa það með rólegu tali og látbragði svo hræðslan nái ekki yfirhöndinni. Almennt eru hundar mun hræddari en kettir sem virðast hugdjarfari og eiga líka auðveldara með að finna skjól frá hávaðann með því að grafa sig dýpst inn í (fata)-skápa!

Séu hrædd dýr skilin eftir ein heima, eða lokuð  afsíðis, er meiri hætta á að það skapi enn meiri hræðslu og vanlíðan, því þá vantar þau nándina, stuðninginn og hvatninguna frá eigandanum. Hvorki matur né uppáhaldsleikföng hjálpa þá, enda veldur hræðslan þeim sinnuleysi.

Dagana fyrir áramótin og sérstaklega á gamlársdag er gott að fara í lengri gönguferðir með hundinn en vanalega, og á þeim tíma sem minnst er um flugelda, og leggja jafnvel fyrir hann þrautir og skemmtilegheit svo hann verði þreyttari en venjulega og þá kannski ekki eins upptekinn af umhverfinu.

Á þeim tíma sem von getur verið á flugeldum eða sprengingum má t.d. aldrei skilja hund eftir bundinn úti í garði, einan í garðinum þó girtur sé eða í búri í bílnum. Hann hefur þá enga möguleika á að komast undan eða leita skjóls og getur algjörlega misst stjórn á aðstæðum með ófyrirséðum afleiðingum. Ketti ætti alltaf að loka inni dagana fyrir og eftir áramót og þurfi þeir út er bezt að hleypa þeim út um ,,há“bjartan daginn þegar minnst er von á sprengingum, eða fara með þá út í ól og taum.

Munið líka að það má ekki undir neinum kringumstæðum sleppa hundi lausum þar sem minnsta von er á sprengilátum, því óttasleginn hundur getur tekið á rás algjörlega stjórnlaust út í buskann!

Séu hrædd dýr skilin eftir ein heima, eða lokuð  afsíðis, er meiri hætta á að það skapi enn meiri hræðslu og vanlíðan, því þá vantar þau nándina, stuðninginn og hvatninguna frá eigandanum. Hvorki matur né uppáhaldsleikföng hjálpa þá, enda veldur hræðslan þeim sinnuleysi.

Athugið að hrædd dýr má aldrei skilja eftir ein heima eða loka þau ein afsíðis!

Gamlárskvöld

Gott er að undirbúa gamlárskvöldið með hundinum eða kettinum þannig að einhver sé inni með dýrið á meðan hinir sprengja. Bezt er þá að vera á þeim stað í húsinu eða íbúðinni þar sem minnsta hávaða og/eða ljósagangs gætir, t.d. í gluggalausu herbergi. Sé gluggi á herberginu, dragið þá gluggatjöldin vel fyrir og spilið rólega tónlist í tilraun til að draga úr hávaða- og ljósmenguninni utanfrá.

Sömu ráðstafanir gilda auðvitað fyrir eldri dýr sem vitað er að eru smeyk eða hrædd. Hafi þau hins vegar verið mjög hrædd um síðustu áramót og eigandanum finnst óráðlegt að láta dýrið upplifa sömu hræðsluna á ný, eru nokkur ráð til bjargar. Stundum eru svokölluð ferómonefni nægileg til að róa hundinn eða kisu og gera þeim áramótin bærilegri, en í öðrum tilfellum eru þau ekki nægileg hjálp og þá verður að grípa til þess ráðs að gefa kvíðastillandi og jafnvel einnig róandi lyf.

Aldrei má gefa hundi eða kisa róandi lyf og skilja þau síðan eftir ein heima eða eftirlitslaus!

Róandi lyktarefni

D.A.P.

D.A.P.

Á markaðnum eru efni sem hafa róandi áhrif á dýr án þess að vera lyf og draga úr streitu og hræðslu. Til eru t.d. svokölluð ferómon (lyktarefni) sem eru efni sem skiljast frá fitukirtlum umhverfis spena tíkarinnar eftir got og hjá köttum á haus (vangum) og hefur mjög róandi áhrif á afkvæmin. Einnig eru til efni sem eru blanda náttúrulegra plöntuolía sem hafa róandi áhrif á kvíða og streitu hjá flestum dýrategundum bæði gæludýrum og hestum. Meðal innihaldsefnanna eru m.a. efni unnin úr rótum plöntunnar garðabrúðu, en virkni þeirra gegn streitu og kvíða hefur verið þekkt um aldir. Þessi náttúrulegu efni henta jafnvel gæludýrum sem hestum og fuglum.

Efnin finnastPetRemedy í vökvaformi sem sett eru í svokallaðan úðadreifara sem stunginn er í samband við rafmagn og úðast þá efnið jafnt og þétt í umhverfið og vekja öryggistilfinningu hjá dýrinu.

Þessi efni hafa gefið góðan árangur í margvíslegri meðferð hunda og katta með truflað atferli s.s. vegna breyttra aðstæðna á umhverfi, taugaóstyrks og/eða hræðslu t.d. í kringum áramót.

Lyfjagjöf

getur því miður reynst nauðsynleg í sumum tilfellum. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að dýrin líði, en í lang-flestum tilfellum eru það hundar sem þarfnast lyfja.

Gott að ræða við dýralækninnn tímanlega fyrir áramótin um vandamálið og hvenær dagsins/kvöldsins sé bezt að gefa lyfin, hvernig og hversu lengi þau virka, en almennt virka róandi og kvíðastillandi lyf í 3 – 6 klukkustundir. Í vægum tilfellum fær hundurinn aðeins kvíðastillandi lyf, en nægi þau ekki ein og sér eru einnig gefin róandi lyf.

Mikilvægt er að eigandinn láti okkur vita hvernig lyfin virka, svo hægt sé að breyta lyfjagjöfinni um næstu áramót, þurfi þess. Reynsla okkar hér á stofunni er sú að rétt lyfjagjöf, þegar hennar er þörf,  léttir bæði fer- og tvífættum áramótalætin.

                           Hundar í taumi – og kisur inni!

Göngutúr í taumi

Göngutúr alltaf í taumi

Mikilvægt er að hafa hundinn í taumi dagana í kringum áramótin þurfi hann að fara út, jafnvel bara út í garð, því skyndilegur hvellur getur hrætt hundinum svo illilega við að hann rjúki af stað, beint af augum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

                   Langur göngutúr – alltaf í taumi!

Áramótabrennur og flugeldasýningar?

Munið að dýr hafa enga ánægju af brennum, flugeldum eða „skottertum” og eiga því ekkert erindi á slíkar samkomur. Þó hundur hafi ekki verið hræddur áður, getur smávægilegt atvik valdið skelfingu og þá er ekki aftur snúið.

Nokkur atriði sem hafa þarf í huga um áramótin:

  • Verið heima með hundinum ykkar eða kisa á gamlárskvöld/þrettándanum.
  • Það má alls ekki skilja hrædd dýr eftir ein heima.
  • Farið snemma út með hundinn á gamlársdag í góðan göngutúr áður en sprengingarnar hefjast, hafið hundinn í taumi – og haldið kisu alveg inni, helzt líka dagana fyrir gamlársdag. 
  • Hafið hundinn eða köttinn  þar sem minnsta hávaða og ljósagangs gætir og dragið gluggatjöldin vel fyrir til að forðast ljósaganginn.
  • Kveikið á útvarpinu eða spilið rólega tónlist til að „fela“ sprengjulætin.
  • Ekki skjóta upp rakettum eða kveikja í „tertum“ nálægt húsinu. Hugsanlega eru nágrannarnir líka með dýr, svo tala má um að allir fari fjær húsunum með flugeldana.
  • Verið með hundinum eða kisu og reynið að leiða athygli þeirra frá látunum, – vorkennið þeim alls ekki; sýnið þeim heldur með atferli ykkar að ekkert er að óttast!
  • Ráðgeri fjölskyldan að skoða brennur er skynsamlegt að einhver verði heima með hundinn á meðan.

Hestar

Þeir sem eiga hesta þurfa einnig að gæta vel að þeim fyrir gamlárskvöld. Gott er að byrgja gluggana á hesthúsinu svo leiftrin frá flugeldunum og sprengjunum hræði ekki hestana. Jafnframt er gott að hafa hjá þeim útvarp með tónlist. Hægt er að fá t.d. PetRemedy í stærri einingum sem henta vel í hesthús.

Hestamenn ættu að vitja hesta sinna um eða eftir miðnætti til að athuga hvort ekki sé allt í góði lagi.

Gott er að meta hvort skynsamlegt er að fara í reiðtúr á meðan von getur verið á sprenginum og hvellum, því  hestur getur auðveldlega fælzt við snöggum hávaða.

Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur í Skipasundi 

óska öllum gæludýraeigendum og skjólstæðingum þeirra gleðilegra áramóta og farsældar á nýju ári!

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár!

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd