Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Veirukvef!

Höfundur: • 17. feb, 2022 • Flokkur: Almennt

Undanfarnar vikur hefur borið nokkuð á einkennum í öndunarfærum hunda hér á höfuðborgarsvæðinu, meira en eðlilegt kann að teljast og  sem lýsa sér m.a. með þurrum hósta og nefrennsli.

Sjúkdómurinn virðist bráðsmitandi, en sem betur fer hefur afar lítið borið á alvarlegum veikindum og flestir smitaðir hundar virðast ná sér fljótt og vel á einhverjum dögum.

Í byrjun lék grunur á að um svokallaðan hótelhósta væri að ræða þar sem einkenni sjúkdómsins minna nokkuð á þann sjúkdóm, þó hóstaeinkennin séu í flestum tilfellum mun vægari.

 

Orsök sjúkdómsins

 

Í ljós kom að um er að ræða bráðsmitandi öndunarfærasjúkdóm af völdum kórónunveiru, Canine respiratory coronavirus/CRCoV; veiru sem hefur aldrei greinzt áður í hundum hér á landi og fékkst staðfesting sjúkdómsins við greiningu á sýnum (PCR) úr smituðum hundum.

 

 

 

Nýr smitsjúkdómur – veirukvef?

Smitsjúkdómur af völdum veirunnar var fyrst staðfestur í Bretlandi árið 2003, en kanadískar rannsóknir sýna, þar sem litið var til baka, að hægt var að rekja veiruna þar í landi allt aftur til ársins 1996.

Veiran hefur dreifst víða síðan og valdið sjúkdómi í mörgum löndum í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, en mörg lönd hafa þó ekki staðfest tilfelli af völdum hennar þó efalaust finnist hún víðast.

Kjörstaðir

CRCoV sýkilsins eru nefhol, eitlarnir þar og barki sem skýra einkennin, en hann finnst hins vegar afar sjaldan í lungunum eða eitlunum í lungnaberkjunum.

Sýkillinn er hluti þeirra sjúkdómsvalda, þ.e. baktería og veira, sem valda  hótelhósta (Canine infectious respiratory disease complex – CRID) og því ekki furða að í fyrstu hafi vaknaði grunur um hann.

 

 

 

Einkenni

sjúkdómsins sem almennt eru væg, eru hósti, hnerri og nefrennsli, en fylgi aðrar öndunarfærasýkingar í kjölfarið getur sjúkdómurinn leitt til lungnabólgu.

Sjúkdómurinn leggst frekar á eldri hunda en unga hvolpa, þó allir hundar, sama hverrar tegundar þeir eru, geti smitast.

Komi ekki til fylgikvillar vara einkennin í eina til tvær vikur.

Meðferð

Þar sem um orsakavaldurinn er veira eru engin lyf sem gagnast við sjúkdóminum. Komi fylgikvillar í kjölfarið, eins og lungnabólga, eru gefin sýklalyf.

Smitleiðir

Eins og fram hefur komið hér að ofan, er sjúkdómurinn bráðsmitandi og berst smitefnið mjög auðveldlega milli hunda með úðasmiti (hósta og hnerra), snertingu og menguðum hlutum eins og matarílátum, fatnaði og óhreinum höndum (þvo og spritta ….).

Aðalhættan á smiti er því auðvitað þar sem margir hundar eru samankomnir s.s. á hundasýningum, í hundaskólum og á hundahótelum.

Ekki er þekkt hve langur tími líður frá smiti til einkenna, sennilegast eru það bara nokkrir dagar og ekki er heldur vitað hve lengi veiran skilst út.

Bólusetning

Ekkert bóluefni er til, enn sem komið er, gegn þessum sjúkdómi.

 Covid?

Í allri umræðunni um kórónuveiru og covid-smit undanfarið, eru engar vísbendingar um að CRCoV geti smitað önnur dýr eða fólk.

Heimildir
1. Berliner und Münchener Tierärztliche Wochenschrift 134, 1-6
DOI: 10.2376/1439-0299-2021-1
© Schlütersche Fachmedien GmbH. 2021. Publiziert: 04/2021
2. Veraldarvefurinn

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Comments are closed.