Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Kynþroski tíka, lóðarí og getnaðarvarnir

Höfundur: • 30. apr, 2021 • Flokkur: Almennt

 

Tíkur verða að jafnaði kynþroska á aldrinum 6 – 10 mánaða sem getur verið bæði tegundabundið og einstaklingsbundið, en meðalreglan er sú að tík verður kynþroska einhverjum mánuðum eftir að hafa náð meðalþunga og stærð tegundarinnar.

Líklegast er því að tík af smáhundakyni verði kynþroska 5 – 6 mánaða, meðalstór tík 7 – 10 mánaða, en tíkur af stærstu hundategundunum ekki fyrr en 12 (18 – 24) mánaða.

 

 

Kynfæri tíkarinnar

Kynfæri tíkarinnar samanstanda af ytri kynfærum (vulva), leggöngum (vagina), legi (uterus), leghornum (cornua uteri), eggjaleiðurum (salpinx) og eggjastokkum (ovarie). 

Legið er mjög lítið eða bara nokkrir sentimetrar að lengd, en frá því ganga tvö, löng leghorn sem hýsa fóstrin. Eggjaleiðarrnir sem eru í framhaldi af leghornunum, eru mjög stuttar, holar pípur og á þeim enda sem snýr að eggjastokkunum, eru þreifarar sem grípa eggin sem losna úr þeim. 

Eðlileg stærð eggjastokkanna eru um 1 cm að stærð    

 

 

Fyrstu einkenni kynþroskans

Fyrstu merki um að tíkin sé kynþroska eru þrútin ytri kynfæri og blóðug útferð

eru þau að ytri kynfæri tíkarinnar þrútna. Þau verða frekar áberandi sérstaklega hjá snögghærðum tíkum, blóðug útferð sést um þriggja vikna skeið og tíkin sleikir sig meira að aftan. Þetta tímabil kallast lóðarí og þá er tíkin frjó. Einnig má nefna að spenar og júgur verða meira áberandi.  

Á kynþroskatímabilinu getur gilt það sama fyrir hunda eins og aðra; það að verða ,,táningur“ getur truflað athyglina og námsárangurinn. Þó tíkur séu almennt viðráðanlegri en hundar hvað það varðar, breytir kynþroskinn skapgerðinni og sjálfstæðið eykst. Algengustu einkennin eru þau að svo virðast sem að bananar séu komnir í eyrun því innikallinu er síður hlýtt og á gönguferðunum þarf að svo þefa af öllu og til þess að geta það, er togað í tauminn sem ekki var gert fyrr!   

 

Gangferillinn

Hjá flestum tíkum er gangferillinn, þ.e. tíminn frá lóðaríi til lóðarís, að meðaltali 6 – 7 mánuðir (5 – 11 mánuðir) og reglulegur hjá hverri tík, þ.e. tímabilið á milli lóðaría er það sama hjá hverri tík.

Gangferillinn er flókið fyrirbæri sem stjórnast af hormónum, umhverfi og erfðum ásamt andlegu og líkamlegu ástandi tíkarinnar og skiptist í fjögur tímabil, þ. e.:

a. Blæðingartímabil,

b. egglosunartímabil,

c. eftirgangmál og

d. hvíldargangmál.

Frávik á lengd gangferilsins eru þó þekkt hjá sumum hundategundum eins og séfertíkum sem geta lóðað á 4 – 4,5 mánaða fresti, á meðan basenjitíkur (og tíbeskar mastiftíkur) lóða aðeins einu sinni á ári. Hjá þeim er lóðaríið reyndar birtutengt sem þýðir að þær lóða þegar sól fer að lækka á lofti og gjóta á norðurhveli jarðar í svartasta skammdeginu eða í nóvember – janúar, en á suðurhveli jarðar í júní/júlí.

Lóðarí

Lóðaríið sjálft skiptist sem sagt í tvö aðskilin, en þó samhangandi tímabil, þ.e.  a. blæðingartímabil og b. egglosunartímabil sem vara samanlagt að jafnaði í um 3 vikur án augljósrar aðgreiningar.    

Fyrra tímabilið, blæðingartímabilið (proestrus), byrjar með blóðugri útferð sem getur varað frá 2 – 3 dögum til 27 daga, en meðallengd þess hjá flestum tíkum eru 9 dagar. 

Á þessum tíma byrjar tíkin að draga að sér hunda, en sýnir þeim þó litla athygli og bregst jafnvel illa við nálgist þeir hana um of að hennar mati.

Það getur verið misjafnt hve mikið blæðir frá tík á lóðatímabilinu, því hjá sumum blæðir mikið en hjá öðrum getur verið erfitt að sjá að þær séu lóða. Sjaldnast fylgja lóðaríi nokkur óþægindi fyrir tíkareigendann því þær þrífa sig almennt afskaplega vel.

Ástæða aðdráttaraflsins er talin stafa af sérstökum lyktarefnum, ferómónum, í útferðinni, seyti frá endaþarmssekkjunum og þvagi.

Seinna tímabilið, egglosunartímabilið (oestrus), er svo í beinu framhaldi af blæðingartímabilinu og er líka að jafnaði 9 dagar. Ytri kynfærin eru enn þrútin en liturinn á útferðinni er eitthvað ljósari. Hægt er að segja að sá dagur þar sem tíkin stendur undir hundi, sé byrjunin á egglosunartímabilinu og sýna margar tíkur  það greinilega með því að vera afar tilkippilegar á þesum tíma. Mikilvægt er að undirstrika að tíkin er einungis frjó á þessum tíma.  

En hvenær egglosið á sér svo stað er önnur saga og er reyndar ekki alltaf í samhengi við atferli tíkarinnar sem getur sýnst tilbúin þó egglosið hafi ekki átt sér stað eða verði seinna.

Algengast er að þó egglosið eigi sér stað á 9. – 12. degi eftir upphaf blæðinga, en getur, eins og fyrr segir átt sér stað mun fyrr, eða seinna, jafnvel allt frá 4. degi til 24. dags frá því að blóð sést fyrst.

Egglosið stjórnast af samspili hormóna, þ.e. estrógens, prógesteróns og gulbúskveikjunnar (LH) í blóðinu. Þeir hormónar stjórna þroska eggjanna í eggjastokkunum og þar með egglosinu og losna eggin öll á sama sólarhringnum. Egg tíkarinnar eru sérstök að því leyti, að þau eru ekki frjó fyrr en 1 – 3 sólarhringum eftir að egglosið á sér stað.

Til þess að staðsetja egglosið upp á dag, er hægt að mæla magn prógesteróns í blóðinu sem er afar skynsamlegt að gera, eigi að para tíkina.

Benda má á, að tíkur geta verið viðkvæmari á lóðatímanum þegar hormónarnir leika lausum hala í líkamanum. Einbeitingin getur líka verið og það er því skynsamlegt að taka tillit til ástandsins og krefjast ekki of mikils á þessum tíma t.d. með æfingum eða álagi.

This image has an empty alt attribute; its file name is hundur-og-ís.gif

Einnig ætti að hlífa tíkinni við kulda eins og t.d. sundi í köldu vatni.  

 

 

c. Eftirgangmál (diestrus) er tímabilið sem tekur við af lóðatímabilinu og varir það í um 2 mánuði. Magn prógesterónsins er enn hátt í blóðinu á þessum tíma hvort sem tíkin er hvolpafull eða ekki, en lækkar niður í sama gildi í lok tímabilsins og það var fyrir lóðarí (< 1.0 ng/ml). Sé hún hvolpafull á fæðingin sér stað þegar prógesterónið er komið undir 2 ng/ml. Í lok eftirgangmálsins geta sumar tíkur sýnt hegðun sem lýsir sér eins og þær séu á hvolpum, fengið mjólk í spena og látið sem þær séu mjög uppteknar við umönnun ímyndaðra hvolpa.  Þetta er kallað ,,fölsk meðganga“ og gengur yfir á einhverjum dögum eða fáum vikum.

d. Hvíldargangmál (anestrus) er, eins og nafnið gefur til kynna, tímabil í gangferlinum þegar slímhimna legsins er í hvíld eftir hormónasveiflurnar á blæðinga- og egglosunartímabilinu og/eða meðgöngu. Það byrjar við lok eftirgangmálsins eða eftir fæðingu, varir að jafnaði í 4,5 mánuði og lýkur þegar lóðaríið/blæðingatímabilið hefst að nýju.

Hvolpar eða ekki?

Þegar tík kemur á heimilið er skiljanlegt að eigandinn velti fyrir sér hvernig bezt sé að koma í veg fyrir að hún verði  hvolpafull og hvaða getnaðarvarnir eru í boði.

Eins og kemur fram hér að ofan, er tíkin aðeins frjó þegar hún lóðar og utan þess tíma er engin hætta fyrir hendi. En það er það afar góð regla að skrifa hjá sér hvenær tíkin lóðar, því flestar tíkur lóða reglulega með sama millibili og sé vel fylgst með henni, ættu fyrstu merki um blóð ekki að fara fram hjá eigandanum.   

En hvaða ráð eru fyrir hendi?

Þegar kemur að getnaðarvörnum er afar skynsamlegt að hugsa sig vel um áður en ákvörðun er tekin um óafturkræfar aðgerðir, því ókostirnir geta oftar en ekki verið fleiri en kostirnir og þá er ekki aftur snúið.

1. Allra bezt!

Hér á stofunni er eindregið ráðlagt að passa tíkina á lóðatímanum, sem er ekki svo erfitt sé haft í huga að fylgjast vel með henni, undirbúa sig vel og hafa auga á hverjum fingri!

Það að passa lóða tík þýðir einfaldlega að hún má aldrei vera laus í gönguferðum, aldrei úr augsýn eða ein úti í garði þó girtur sé.

Ókosturinn við það að passa lóða tík er helztur sá, að hún getur verið afskaplega vergjörn og meira en tilkippileg til að stofna til nánari kynna við nálægan vonbiðil og þá hleypur jafnvel fótfráasti eigandi hana ekki uppi ætli  hún sér að hitta einhvern skemmtilegri en hann! Lausir hundar eru líka öskufljótir að þefa uppi lóða tík og eru þá eldsnöggir á staðinn og setja ekki fyrir sig jafnvel hæstu grindverk og girðingar og þá er ekki að sökum að spyrja.

Óskynsamlegt að leyfa börnum að fara með lóða tík í gönguferð, því beri stóran hund að er veruleg hætta á að þau ráði ekki við aðstæður.

2. Ófrjósemisaðgerð

Varanleg ófrjósemisaðgerð felst í því fjarlægja eggjastokkana með skurðaðgerð. Í eggjastokkunum myndast kynhormónið estrógen, einnig kallað kvenhormón, og það á sinn þátt í að framkalla eðlilegan líkams- og kynþroska kvendýra. Það finnst reyndar bæði í karl- og kvendýrum, en mun meira í kvendýrunum og kemur að skipulagi tíðahrings/gangferils, meðgöngu og fósturþroska og hefur jafnframt áhrif á kynhvöt og á þroska júgursins.

Séu eggjastokkar fjarlægðir áður en tík verður kynþroska, myndast kvenhormóninn estrógen auðvitað ekki, en án hans þroskast (fullorðnast) hún ekki eðlilega sem kvendýr og getur það bæði leitt til bæði líkamlegra sjúkdóma og breytinga á atferli.   

Eins og við allar aðgerðir felast bæði kostir og ókostir við varanlega ófrjósemisaðgerð, en mikilvægt er að hafa í huga að ekki verður aftur snúið þegar aðgerðin hefur verið gerð, þó auðvitað geti þær aðstæður komið upp að nauðsynlegt er .að gera tík varanlega ófrjóa.

Mikilvægast er að kynna sér bæði kosti, og sérstaklega ókostina við aðgerðina og hugsa sig vel um áður en ákvörðunin er tekin og leyfa tíkinni að njóta vafans.

 Ókostir við varanlega ófrjósemisaðgerð eru:

  • Það hægist á efnaskiftunum sem verða ekki nema 80% af því sem eðlilegt er og getur það auðveldlega leitt til þyngdaraukningar,
  • háralos eykst verulega og hjá sumum tegundum, eins og spaníel- og setterhundum, verður feldurinn ein óreiða, mattur og lubbalegur,  
  • óþroska kynfæri,
  • aukin áhætta á að liðbönd í hnjám rifni,
  • beinæxli (sérstaklega hjá stærri hundategundum),
  • krabbamein í blöðru (skoskur terríer, fox terríer, beagle og west highland white terrier)
  • eitlakrabbi (doberman, rottweiler, boxer og berner sennen)
  • húðkrabbi (golden retriever, labrador retriever, boxer og boston terrier). 
  • krabbamein í milti (séfer, golden retriever og  labrador retriever).

 

Sé tík gerð ófrjó áður en hún lóðar í fyrsta skipti:

  • Þroskast kynfæri ekki eðlilega,
  • aukin hætta er á að liðbönd í hnjám rifni,
  • aukin tíðni krabbameins í blöðru og 
  • eitlakrabba og  
  • seinkun á lokun vaxtalína.

Nefna má  líka að þvagleki er ekki óalgengur fylgikvilli ófrjósemisaðgerða, séstaklega hjá stærri hundategundum og einkum sé aðgerðin gerð á mjög ungri tík og/eða fyrir kynþroska. Þvagleki hefur tilhneigingu til að versna með árunum og þó til séu lyf sem geta hægt á honum, getur hann orðið til verulegra leiðinda. 

Einnig er talið að ófrjósemisaðgerðir á mjög ungum dýrum valdi snemmbærri öldrun.

Kostirnir við varanlega ófrjósemisaðgerð eru:

  • Arfgengir sjúkdómar berast ekki áfram,
  • tíkin fær ekki legbólgu seinna á lífsleiðinni,
  • hættan á illkynja júguræxlum er hverfandi sé aðgerðin gerð fyrir fyrsta  lóðarí, 
  • æxli myndst ekki í leggöngum og
  • engin hætta á falskri meðgöngu. 

 

3. Getnaðarvarnarlyf voru mikið notuð áður fyrr til að koma í veg fyrir að tík lóðari, en eru nánast horfin af markaðnum í dag. Kannski má segja sem betur fer, því rannsóknir hafa sýnt að notkun  þeirra leiðir til hærri tíðni krabbameins í júgri og legbólgu.

 

Heimildir:   Long-Term Health Risks ane Benefitss Associated with Spay/Neuter in Dogs. Laura J. Sanborn 2007,                 

Early  s.paying in dog. Samuel Buff. DVM, Dipl. ECAR. Ecole Nationale Vétérinaire de Lyon. 2009 ,

Irene Jarnved og Lise Lotte Christensen.   

Den Danske Dyrlægeforening

 

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd