Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Hundaskottið og táknmál þess!

Höfundur: • 15. jan, 2021 • Flokkur: Almennt

Skottið er áberandi líkamshluti hundsins og er lögun þess og staðsetning einkennandi fyrir hvern einstakling – eða hundakyn. Það getur verið lafandi, sperrt, vísað beint aftur, hringað eða stubbur og allt þar á milli.

Skottið virkar sem jafnvægisstöng og sem mótvægi fyrir afturhlutann þegar hundurinn hleypur, stekkur eða breytir um stefnu – og svo auðvitað sem stýri á sundi. En skottið sýnir einnig, eins og flestir hundeigendur sennilegast vita, hugarástand hundsins.

Rannsóknir á hundaskottinu og hlutverki þess í líkamstjáningu hundsins eru ekki margar, en árið 2013 birti ítalski vísindamaðurinn Giorgio Vallortigara við Háskólann í Trieste og samstarfsmenn hans, dýralæknarnir Angelo Quaranta og Marcello Siniscalchi, áhugaverðar niðurstöður rannsóknar sínar á skotthreyfingum hunda og samsvörun þeirra við hugarástand hundsins; niðurstöður sem komu nokkuð á óvart.

Líkamstjáning

hundsins er nokkuð flókin og eigi að reyna að túlka hana, verður að horfa á hundinn, og líkamsstöðuna, í heild allt frá eyrum, munni, kambi og aftur að skotti. Hreyfingar skottsins, ósjálfráðar og/eða ómeðvitaðar, eru auðvitað vel sýnilegar en sýna hugarástand hundsins vel á sama hátt og andlitið sýnir svipbrigði okkar tvífættu.

Þar sem hundar skynja hreyfingu mun betur en hluti eða liti, sjá þeir dillandi skott vel og stundum hjálpar náttúran líka til að gera það enn sýnilegra með tíru, ljósari feldi að neðanverðu eða miklum feldi sem sveiflast við minnstu hreyfingu.

Skottstýfðir hundar tjá sig auðvitað ekki á sama hátt og hundar með skott, en nota líkamstjáninguna því meira. Ekki munu vera til neinar rannsóknir á því hvaða áhrif það hefur á hund að missa skottið, t.d. af slysförum.

Flestir telja það víst að dilli hundur skottinu sýni það tóma gleði, en rannsóknir á atferli hunda hafa sýnt að málið er ekki alveg svo einfalt og reyndar það sem maðurinn mistúlki einna oftast í atferli hundsins. Hreyfing skottsins hvort sem það er sperrt, lágreist eða lafandi, er sem sagt ekki alltaf merki um jákvætt hugaástand. ,,Dillið“ getur nefninlega líka táknað hræðslu, óöryggi, félagslega áskorun í hópi eða jafnvel verið aðvörun um að bezt sé að halda sig fjarri. Hins vegar eru fæstir í vafa um hugarfar hunds þegar slátturinn á skottinu er slíkur, að hann heldur varla jafnvægi af gleði.

Hvernig má lesa og túlka, stöðu skottsins?

Líkja má stöðu og sveiflu skottsins sem eins konar ,,tilfinningaloftvog“ hundsins, há eða lág, fer eftir hugarástandi hans.

Birtingarmyndirnar eru efalaust fleiri en koma fram hér að neðan og verður þá auðvitað að túlka eftir aðstæðum hverju sinni.

Skottstaðan:    

1. Upprétt skott, en ekki sperrt, táknar áhuga og athygli á umhverfinu.   

2. Slakur og afslappaður hundur ber skottið ,,í hálfa stöng“ og sveiflan er hæg.

3. Mjög sperrt skott þar sem sveiflan er stutt og tifandi táknar yfirlæti,  jafnvel derring og að kveikjuþráðurinn gæti verið í styttri kantinum og því betra að vara sig.

4. Lafandi skott sem varla bærist, er svo merki um undirgefni og óöryggi og

5. hræddur hundur setur skottið niður á milli afturlappanna.

 

Sé hundurinn skottstýfður, eða fæddur án skotts, er auðvitað mun óhægara að túlka hugarástand hans út frá skotthreyfingunum miðað við ,,eðlilega“ skottlengd.

Hægri eða vinstri?

Eins og áður segir, eru rannsóknir á skotti eða tengingu á milli hreyfinga þess og hugarástandi hundsins ekki margar. En það var einmitt það sem Ítalirnir vildu rannsaka og í þeim tilgangi skoðuðu þeir hvernig 30 blendingsheimilishundar brugðust við mismunandi áreiti, jákvæðu eða neikvæðu.

Hver hundur var settur í sérklefa með myndavél sem myndaði skotthreyfingarnar nákvæmlega þegar ,,áreitið“ birtist fyrir framan klefann, en það var eigandinn, ókunnugur aðili, kisa og svo ógnandi hundur.  

Í ljós kom, öllum til undrunar, að við jákvæða upplifun leitaði skottið til hægri miðað við hrygglínuna, en til vinstri væri um neikvæða upplifun að ræða. 

Sæi hundurinn eitthvað gott og skemmtilegt eins og eigandann, dillaði hann glaður skottinu sem leitaði yfir til hægri. Það gerði skottið einnig þegar sá ókunnugi birtist, þó sveiflan væri ekki alveg jafn áköf til hægri og þegar hann sá eigandann og þegar kisa birtist, hægðist til muna á skottsveiflunni sem var eilítið hikandi, en þó enn til hægri.

Hver skýringin er á tengslum skotthreyfingar til hægri eða vinstri við gleði eða ótta er ekki vitað, en ein kenning er sú að hugsanlega tengist það heilastarfseminni. Sé starfsemin mest í vinstra heilahveli hafi skottið tilhneigingu til að leita til hægri og öfugt.

Þegar ógnandi hundurinn birtist svo fyrir framan klefann, breyttist stefna skotthreyfingarinnar hins vegar yfir til vinstri.

Tekið er fram að ,,vinstri eða hægri“ miðast við að horft sé í sömu átt og hundurinn. Sé hins vegar staðið augnliti til auglitis við hann, þá er hans hægri hlið okkur á vinstri hönd og sú vinstri okkur á hægri hönd. 

Í framhaldi af rannsókninni og niðurstöðu hennar, lék vísindamönnunum auðvitað forvitni á að vita hvort hundar gætu túlkað hugarástand annarra hunda eftir því hvort þeir dilluðu skottinu til hægri eða vinstri. Hver hundur var settur í vesti með mælitækjum sem mældi hjartsláttinn og þeim sýnt myndband með mynd af útlínum hunds sem sveiflaði skottinu til vinstri. Greinilega kom í ljós að  púlsinn hækkaði sem vísindamennirnir túlkuðu sem merki um aukna streitu eða ótta. 

Þá vitum við það!

Það sem helzt getur hrjáð skottið

Skottlömun (Watertail)

Einkenni skottlömunar er, eins og nafnið segir, lömun og lafir skottið þá nánast eins og dautt. Orsökin er oftast talin vera kuldi og bleyta. 

Þegar hundur syndir i köldu vatni, notar hann skottið sem stýri og beitir því þá gjarnan öðru vísi en á þurru landi. Vatnskuldinn, og öðruvísi hreyfing á vöðvana umhverfis skottrótina, getur valdið bólgum í vöðvunum sem þrengja að taugaendunum í þeim og er það bólgan sem veldur lömuninni. Skottlömun getur verið sársaukafull og getur sársaukinn jafnvel haft áhrif á afturhluta hundsins svo hann eigi erfiðara með hreyfingar. Undir öllum kringumstæðum er skynsamlegt að hafa samband við dýralækninn og fá bólgu- og verkjaeyðandi lyf.

Hafi hundur einu sinni fengið skottlömun, hefur hann tilhneigingu til þess að fá hana aftur. Það er því mikilvægt þegar hundurinn kemur kaldur úr vatni, að þurrka hann vel, setja hann gjarnan í peysu og láta hann alls ekki dúsa í köldum bíl.  

Skottstúfur

Meðfæddur skottstúfur getur verið snúinn eins og skrúfa eða með brot. Orsökin er vansköpun eins eða fleiri skottliða og fer lögun og lega skottins eftir því hve margir liðir eru vanskapaðir. Sé aðeins einn eða tveir skottliðir vanskapaðir sést það eins og brot í skottinu, en séu margir liðir í röð vanskapaðir, rúllast skottið og í einstaka tilfelli getur skottið legið svo illa að það liggi fyrir endaþarminum. Í versta falli getur vansköpun á hryggjarliðum fylgt vansköpuninni á skottinu, sérstaklega hjá hundum með klesst trýni, með þeim afleiðingum að hundurinn lamast. 

Vansköpunin er sársaukalaus, en getur verið arfgeng.

 

Brotið skott

Ekki er algengt að hundar skottbrotni, sem betur fer, og oftast er þá um slys að ræða. Skottið getur orðið undir bílhjóli eða klemst milli stafs og hurðar og brotnað þá svo illa að eina lækningin er sú að fjarlægja brotna hlutann. 

Ígerð

Skottið er viðkvæmur líkamshluti og á það getur komið sár og húðsýking í kjölfarið sé ekki vel að gætt. Jafnvel geta útvortis sníkjudýr eins og hársekkjamaur (Demodex canis) valdið sáramyndun, en einkenni hans sjást þá víðar á líkamanum.   

Efst á skottinu, rétt fyrir neðan skottrótina, eru fitukirtlar sem í getur hlaupið ofvöxtur og jafnvel sýking, sérstaklega hjá eldri karlhundum og þá þarf að koma í veg fyrir að hundurinn sleiki sárið og geri það verra.   

 

Æxli

Fyrirferðaraukning á skotti getur verið bæði góð- eða illkynja æxli og skynsamlegast er að láta dýralækninn skoða meinið strax og þess verður vart. Þurfi að fjarlægja æxlið, er bezt að gera það áður en það stækkar það mikið að ekki verði næg húð til að sauma sárið saman.

Heimildir:

Hundsvansen. SKK 2018, Veraldarvefurinn

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Comments are closed.