Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Súkkulaði – nammi fyrir alla?

Höfundur: • 15. apr, 2017 • Flokkur: Almennt, Hundar

Súkkulaði er áreiðanlega meðal þess besta sem margir tvífættir fá og gæða sér á. Þó gott sé, er það er það víst bæði fitandi fyrir okkur og skemmir tennurnar, en fyrir hunda og ketti (og hesta)  getur það verið enn skaðlegra. Súkkulaði inniheldur nefninlega efnasambönd sem geta valdið eitrun hjá dýrum, séu þau innbyrt í nægu magni. Þó allt sem heitir súkkulaði innihaldi þessi hættulegu efnasambönd, eru þó ekki allar gerðir þess jafn skaðlegar, því magn efnasambandanna í súkkulaði er mismikið eftir gerð þess.

Hvað er súkkulaði?

Kakóbaunir

Kakóbaunir

Eins og allir vita sem hafa smakkað súkkulaði, eru til margar gerðir þess; hvítt, ljóst og dökkt og allt þar á milli. Kakóið, sem súkkulaðið er búið til úr, er unnið úr baununum kakótrésins (Theobroma cacao), en þær vaxa í svokölluðum fræpokum þess, en tréð á uppruna sinn að rekja til mið-Ameríku og Mexíkó. Hver baun inniheldur mikið magn fitu (40 – 50%), svokallaðs kakósmjörs.

Þegar baunirnar hafa verið  fjarlægðar úr fræpokunum, eru þær látnar gerjast um tíma eða þangað til þær fá á sig brúnan lit, en gerjunin framkallar líka súkkulaðibragðið eftirsótta og síðan eru þær ristaðar og malaðar í kakóduft.

Það var þó ekki fyrr en á 19. öld, þegar mönnum hafði tekist að vinna kakósmjörið úr kakóbaununum, að farið var að framleiða súkkulaði á föstu formi eins og við þekkjum það í dag. Fram til þess tíma var súkkulaðis einungis neytt sem drykkjar. Kakósmjör er eitt mikilvægasta innihaldsefni súkkulaðisins, auk kakóduftsins (malaðra kakóbauna), sykurs og bragðefna. Ósætt súkkulaði (dökkt súkkulaði) innheldur 50 – 70% kakósmjörs, hálfsætt súkkulaði inniheldur um 30% kakósmjörs, en mjólkursúkkulaðið inniheldur einungis um 10% kakósmjörs.

Efnasambönd kakóbaunanna

er margvíslegt og þær eru ríkar af ýmsum næringarefnum svo sem fitu, járni, einhverjum vítamínum auk steinefna. Auk þessara næringarefna inniheldur súkkulaði hátt í 300 önnur efnasambönd sem eiga flest uppruna sinn í kakóbauninni og hafa margs konar virkni og áhrif sem sum hver eru að litlu leyti þekkt enn þann dag í dag.

Meðal aðal-efnasambandanna má nefna þeóbrómín sem er það efni sem er hættulegast dýrum. og tilheyrir flokki metýlxanþína, en í þeim flokki finnst einnig efnið koffín, en  verkun þeóbrómínsins minnir á verkun koffínsins. Magn þeóbrómíns í súkkulaði er umtalsvert og sérstaklega í dökku súkkulaði.

Eftir því sem meira magn er af kakói í súkkulaðinu, því meira magn er af þeóbrómíni og þar af leiðandi þarf minna magn til að valda eitrun.

Súkkulaðieitrun og einkenni hennar

Súkkulaði - í öllum litbrigðum

Súkkulaði – í öllum litbrigðum

Þeóbrómin getur dregið hund eða kött til dauða ef þess er neytt í nægilega miklu magni, en einkennin fara svo eftir því hve mikið hundurinn hefur étið af súkkulaðinu og hversu hátt hlutfall kakósmjörsins er í því. Þeóbrómínið hefur áhrif á taugakerfi hundsins, hjarta- og vöðvakerfi  og eykur þvagmyndun.

Fyrstu einkenni eitrunar koma oftast fram innan 6 – 12 klst. eftir  súkkulaðiátið, en hundurinn verður eirðarlaus, þorstlátur, kastar upp, er með vindgang og niðurgang. Alvarlegri einkenni valda miklum óróleika, hann sprænir oft, verður reikull í spori, fær skjálftaköst og krampa og í alvarlegustu tilfellunum verða blóðrásartruflanir, ofurhiti, meðvitundarleysi og dauði fylgir í kjölfarið vegna þess að hjartað eða lungun gefa sig.

Þar sem fituinnihald súkkulaðisins er einnig mjög hátt, getur ofneysla þess valdið alvarlegum bólgum í brisi sem geta komið fram  25 -72 tímum eftir súkkulaðiátið.

Líkaminn er lengi að losa sig við eituráhrif af völdum súkkulaðis og getur þeirra gætt allt að 4 daga í líkamanum.

Hversu mikið þarf að éta?

Til að valda eitrun þarf hundur eða köttur að éta um 100 – 150 mg af þeóbrómíni á hvert kíló líkamsþunga, en innihald þeóbrómíns er að meðaltali um

  • 154 mg í 100 g  rjóma- og mjólkursúkkulaðis,
  • 528 mg í dökku súkkulaði og
  • 1365 mg í suðusúkkulaði.

Venjuleg rjómasúkkulaðiplata er 100 g og er ein slík súkkulaðiplata því nægileg til að draga lítinn hund til dauða. Innihald þeóbrómíðsins er nærri 10 sinnum meira í suðusúkkulaði en rjómasúkkulaði, svo það þarf ekki stóran bita af því til að valda alvarlegum veikindum og jafnvel dauða.

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá innihald eiturefnanna í mismunandi gerðum af súkkulaði og kakódufti. Síðasti dálkurinn segir til um hve mikið er af þessum efnum samtals í einu grammi af súkkulaði/kakói.

Þeóbrómín Koffín Samtals í 1 gr.
Hvítt súkkulaði

0,01 mg/g

0,03 mg/g

0.04 mg

Mjólkursúkkulaði

2,05 mg/g

0,21 mg/g

2,26 mg

Dökkt, sætt súkkulaði

4,59 mg/g

0,71 mg/g

5,3 mg

Ósætt,dökkt bökunar-súkkulaði

13,86 mg/g

1,66 mg/g

15,52  mg

Kakóduft

20,89 mg/g

2,47 mg/g

23,36 mg

Kakómjólkurduft

4,80 mg/g

0,53 mg/g

5,33 mg

Kaffibaunir

0

21,17 mg/g

21,17 mg

Gætið þess að láta aldrei súkkulaði liggja þar sem hundurinn getur hugsanlega náð í það!

Heimildir

„Hvaða áhrif hefur súkkulaði á líkamann?“. Vísindavefurinn
Chocolate intoxication by Sharon Gwaltney-Brant, DVM, PhD.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd