Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Völustallur – nýr, miðlægur gagnagrunnur fyrir gæludýr

Höfundur: • 4. jan, 2012 • Flokkur: Almennt, Hundar, Kettir

Eyrnamerking katta er örugg merking og öllum auðsæ

Með auðkenningu dýrs er átt við að það er einstaklingsmerkt og þar með er mögulegt að rekja það til eiganda. Slík auðkenning er ekki ný af nálinni hér á landi, a.m.k. hvað varðar ketti, en um áratugaskeið hafa þeir verið auðkenndir með húðflúri í eyra sem auðveldar að koma þeim heim á ný hafi þeir týnst og finnast fjarri heimili sínu.

Örflögur eru agnarlítlir tölvukubbar

Örflögur eru agnarlítlir tölvukubbar

Örflögur (microchips) eru svo önnur tegund auðkennismerkja, en þau eru agnarlítill tölvukubbur sem stungið er undir húð. Hver tölvukubbur inniheldur ýmist 15 tölustafi eða sambland tölustafa og bókstafa.

  

Gagnagrunnur

Til að auðkennið komi að gagni, verður auðvitað að hafa það einhvers staðar á skrá svo finna megi þann sem skráður er fyrir merkinu, þ.e. eiganda dýrsins. Áður hélt hver og einn dýralæknir utan um ,,sín“ örmerki og eyrnamerkingar.

 

Miðlægir gagnagrunnar

Gagnagrunnar hafa verið starfræktir erlendis frá því að einstaklings-merkingar dýra hófust. Framan af gekk illa að stofna slíkan grunn hér á landi, a.m.k. fyrir gæludýr, en miðlægur gagnagrunnur fyrir hesta (Worldfengur) hefur hins vegar verið starfræktur hér á landi um árabil. Dýralæknafélag Íslands sá að við svo búið mátti ekki standa og beitti sér  fyrir stofnun gagnagrunnsins Völustalls sem nú heldur utan um allar merkingar gæludýra

Völustallur

Hinn 1. júlí 2012 opnaði Dýralæknafélags Íslands  örmerkjagagnagrunn sem hlaut nafnið Völustallur og er í eigu félagsins. Tilgangur með gagnagrunninum er, eins og fyrr segir, að halda utan um einstaklingsmerkingar gæludýra, hvort heldur eru  örmerki eða eyrnamerki, og gera þær aðgengilegar á netinu. Markmiðið er auðvitað að auka líkur, og flýta fyrir, að dýr í vanskilum komist aftur til sinna réttu eigenda.

Gagnagrunnurinn Völustallur er hýstur á vefsíðunni www.dyraaudkenni.is

 

 

Hvernig virkar svo gagnagrunnurinn?

Dýralæknar færa allar einstaklingsmerkingar, þ.e. örmerki og/eða eyrnamerki (katta), í Völustall óski eigandinn þess. Eigi að leita eiganda dýrs,  er farið inn á síðuna www.dyraaudkenni.is og undir ,,Leita” er hægt að slá inn örmerki og/eða eyrnamerki viðkomandi dýrs.

Sé dýrið skráð í gagnagrunninn, koma fram upplýsingar um eiganda þess sem og lýsing á dýrinu. Aðrar upplýsingar koma ekki fram.

Hverjir hafa aðgang að grunninum?

Allir hafa aðgang að grunninum og geta leitað í honum að (skráðu) dýri, eftir auðkenni þess, þ.e. örmerki eða eyrnamerki. Einungis koma upplýsingar um eiganda dýrsins fram.

Aðeins dýralæknar hafa fullan aðgang að gagnagrunninum og geta skráð ný dýr í hann.

Aðgangur eigenda að gagnagrunninum

Eigendur skráðra gæludýra fá aðgang að upplýsingum um eigið dýr í gagnagrunninum. Aðgangurinn fæst með því að ýta á island.is á vefsíðunni www.dyraaudkenni.is og nota síðan aðalveflykilinn frá Ríkisskattstjóra, en hann er hægt að nálgast undir ,,Rafræn skjöl” í heimabankanum.

Eigandi getur síðan alltaf afturkallað skráninguna, en þá munu heldur engar upplýsingar birtast við almenna leit á netinu.

Eftir innskráningu inn í gagnagrunninn geta eigendur m.a. breytt heimilsfangi, bætt inn mynd af dýrinu og sett inn tilkynningu ef dýrið er týnt. Einnig getur eigandi  sjálfur umskráð dýrið á nýjan eiganda sem tryggir samþykki hans á eigendabreytingunni. Við eigendaskipti missir fyrri eigandi jafnframt aðgengi að dýrinu í grunninum, en nýi eigandinn öðlast hinsvegar aðgengi í gegnum sinn veflykil.

Hvaða upplýsingar koma fram í gagnagrunninum?

Við skráningu koma eftirfarandi persónuupplýsingar fram:

  • Kennitala eiganda, nafn og heimilisfang. Símanúmer og tölvupóstur er valfrjálst.

Þær upplýsingar sem koma fram um gæludýrið eru:

  • Nafn dýrs, örmerki og/eða eyrnamerki, dýrategund, dýrakyn (undirtegund), kyn dýrs og sérkenni (t.d. feldgerð og litur). Eigandi getur svo valið að setja inn mynd af dýrinu.

Persónuvernd

Dyraaudkenni.is mun meðhöndla persónuupplýsingarnar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd. Aðeins upplýsingar um eiganda eru persónuupplýsingar skv. skilgreiningu laganna.

Dyraaudkenni.is mun aðeins nota upplýsingarnar til að þjóna ofangreindu markmiði.

Dyraaudkenni.is mun einungis geta yfirfært upplýsingarnar til þriðja aðila í tenglsum við rannsóknir er varða dýrið, ef slík rannsókn hefur verið leyfð og viðurkennd af Persónuvernd.

Kostar að skrá gæludýrið sitt í gagnagrunninn?

Öll gæludýr sem eru örmerkt og/eða eyrnamerkt fyrir 1. júlí 2011 hafa þegar verið skráð inn í gagnagrunninn án endurgjalds. Vilji  eigandi fá aðgang að upplýsingunum og/eða breyta þeim, verður að greiða skráningrgjald.

Greiða þarf skráningargjald fyrir þau gæludýr sem skráð eru í gagnagrunninn, en það gjald stendur straum af rekstri gagnagrunnsins.

Er skylda að skrá gæludýrið sitt í gagnagrunninn?

Já, í dag er það skylda að skrá öll gæludýr í gagnagrunninn skv. lögum um dýravelferð.

Við hvetjum eigendur til að skrá sem flestar upplýsingar í grunninn til þess að flýta fyrir því að týnt dýr sameinist fjölskyldunni á ný!


Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd