Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Smitsjúkdómar í hundum og köttum á Íslandi

Höfundur: • 27. jan, 2007 • Flokkur: Hundar, Kettir

Eftirfarandi sjúkdómar eða mótefni gegn þeim hafa verið staðfestir í hundum og köttum á Íslandi, að hundaæði undanskildu, þó frásögn og lýsing frá 18. öld á sjúkdómi er gaus upp í hundum á Austurlandi gæti átt hugsanlega átt við hundaæði.

Hundar

Veirusjúkdómar

Hundaæði (Rabies)

Ekki er vitað með vissu hvort hundaæðis hafi nokkurn tímann orðið vart í hundum á Íslandi, en til er frásögn frá árinu 1765 um drepsótt ,,er byrjaðist á Austfjörðum í hundum.“

Hugsanlega gæti lýsingin á sjúkdómseinkennum átt við hundaæði, en í frásögninni er ennfremur sagt að bæði menn, naut og hestar hafi drepist eftir að hundar bitu þá.

Hundapest/hundafár (Canine Distemper)

Í dýralækningabók Magnúsar Einarsonar stendur: „Hundapestar hefur orðið vart við og við hér á landi, þó aldrei hafi hún verið að staðaldri. Framan af barst hún af og til til landsins með innfluttum hundum og dreifðist frá þeim um smærri eða stærri svæði, geysaði þar um nokkurra ára bil en dó síðan út. Þess á milli var landið hundapestarlaust.

Pestarfaraldrar sem geisuðu á landinu 1870, 1888 og 1890 ollu mikilli fækkun á hundum en  lögðu um leið baráttunni gegn sullaveiki óbeint lið.  Síðast varð hundapestar vart árið 1966, en faraldurinn dó þá út.

Í dag eru allir innfluttir hundar vel bólusettir gegn hundapest andstætt hundum fæddum hér á landi, en bannað er að bólusetja þá þar sem sjúkdómurinn finnst ekki í landinu.

Smáveirusótt (Canine Parvovirus)

Smáveirusóttar í hundum varð fyrst vart í heiminum árið 1978. Hinn 23. nóvember 1992 sendi Sigurður Örn Hansson, dýralæknir, hund til krufningar að Keldum vegna gruns um smáveirusótt sem reyndist réttur. Ekki tókst að komast að því hvernig hundurinn, ungur silkiterríer frá Hvolsvelli en fæddur í Skaftafellssýslu, smitaðist. Yfirvöld brugðust skjótt við og leyfðu samstundis innflutning deydds bóluefnis, en fram til þess tíma hafði öll bólusetning gegn smitsjúkdómum í hundum verið óheimil á Íslandi. Hinn 9. desember sama ár hófst bólusetning gegn smáveirusótt með bóluefninu CandurP. Sóttin varð aldrei að neinum faraldri sem ef til vill má þakka því, að desembermánuður var kaldur og það snjóaði nánast daglega.

Á haustmánuðum 2003 heimilaði yfidýralæknir innflutning lifandi bóluefnis gegn smáveirusótt og bólusetning hófst hinn 10. október sama ár.

Smitandi lifrarbólga í hundum (Hepatitis Contagiosa Canis)

Blátt auga

Blátt auga

Veirusjúkdómurinn, smitandi lifrarbólga í hundum, hefur greinzt í hundum öðru hverju mörg undanfarin ár þó aldrei hafi verið um faraldur að ræða. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær sjúkdómurinn barst til landsins, en hefur líklegast verið landlægur frá um 1980.

Áður en bólusetning hófst, var ekki óalgegnt að dýralæknar sæju hunda með „blátt auga“, annað eða bæði, eftir að önnur sjúkdómseinkenni voru horfin, en æðahjúpsbólga er meinkennandi fyrir smitandi lifrarbólgu.

Árið 1996 hófst innflutningur á bóluefninu Canlan sem innihélt, auk mótefnis gegn smáveirusótt, deytt mótefni gegn smitandi lifrarbólgu. Síðan þá hefur tilfellum lifrarbólgu fækkað til muna. Í dag er bóluefni gegn lifrarbólgu ófáanlegt hér á landi þar sem það finnst aðeins sem hluti af samsettu bóluefni er einnig inniheldur mótefnavaka gegn hundapest (Canine Distemper Virus).

Bakteríusjúkdómar

Salmonellusýking

Sýking í hundum af völdum Salmonellu spp er fátíð, en hefur þó verið staðfest í nokkrum hundum í Reykjavík, á Suðurlandi og í einangrunarstöð ríkisins í Hrísey.

Í febrúar 2000 var staðfest tilfelli salmonellusýkingar þar sem heimilis-hundur smitaði tvo meðlimi fjölskyldunnar.3  Var um að ræða Salmonellu typhimurium, en talið var líklegast að hundurinn hafi smitast í fjörunni í Skerjafirði.

Gulusótt (Leptospirosis)

Talið er að nokkrir hundar á Álftanesi, Bessastaðahreppi, hafi smitazt af gulusótt í kringum 1980 og  smitefnið hafi sennilegast borizt í þá úr fjörunni.

Hótelhósti (Canine Infectious Tracheobronchitis. Kennel cough)

Haustið 1991 vaknaði grunur um hótelhósta í íslenskum fjárhundi sem hafði verið á hundahóteli. Öll einkenni minntu á sjúkdóminn sem fékkst þó ekki staðfestur. Af og til síðan þá, hafa svipuð einkenni skotið upp kollinum í hundum og árið 2003 var hótelhósti loks staðfestur með krufningu og ræktun.

Sjúkdómar af völdum frumdýra

Bogfrymlasótt (Toxoplasmose gondii)

Bogfrymlasótt með sjúklegum einkennum er sjaldgæf í hundum, en sést helzt í tengslum við hundapest. Eitt tilfelli bogfrymlasóttar hefur verið staðfest í hundi hér á landi, en ekkert liggur fyrir hvort það tilfelli var í tengslum við annan og alvarlegri sjúkdóm.

Ytri sníkjudýr

Hundasoglús (Linognatus setosus)

Í marz árið 1989 fannst lús á enskri cockerspaníeltík og var hún greind á Keldum sem hundasoglúsin Linognatus setosus.  Skömmu áður hafði umrædd tík, ásamt fleiri hundum, verið snyrt hjá sænskum hundasnyrti sem var hér á landi tímabundið. Líklegast er talið að nit eða lýs hafi borizt í hundana með snyrtiáhöldunum sem hafi ekki verið þrifin nægilega vel. Fyrst á eftir bar eitthvað á því að lús fyndist á fleiri hundum sem tengdust þeim stað sem snyrtingin fór fram á, en síðan virðist sem þessi lúsatilfelli hafi fjarað út.

Flær

Tvö staðfest, en einangruð dæmi hafa fundizt um fló á hundum hér á landi, 1980 og 1984. Í báðum tilfellum var um kattafló (Ctenocephalides felis) að ræða.

Skógarmaur (Ixodex ricinus)

Skógarmaur greindist á hundi hér á landi árið 1980 og hefur síðan sést öðru hverju á hundum. Maurinn er sennilega ekki landlægur hér og líklegast er að hann berist til landsins með farfuglum.

Hársekkjamaur (Demodex canis)

Hársekkjamaur

Hársekkjamaur

Hársekkjamaurinn er áttfættur maur sem lifir í hár-sekkjum húðarinnar. Maurinn var staðfestur í 8 mánaða enskum bolabít skömmu eftir komu til landsins í ársbyrjun 1993, að undangenginni einangrun í Einangrunarstöð ríkisins í Hrísey.  Síðan þá hafa fleiri tilfelli hársekkjamaura greinzt á hundum hér og þar um landið.

Eyrnamaur (Otodectes cynotis)

Eyrnamaur í hundum var lengi vel talinn óþekktur hér á landi. Í nóvember 1995 var staðfest að eyrnamaur hefði  fundizt í sýni úr hundseyra.

Húðmaur (Cheyletiella parasitovorax)

Húðmaur

Húðmaur

Húðmaurinn greindist hér á landi í ársbyrjun 1996 á köttum og ekki löngu síðar á hundum.   Frá þeim tíma hefur maurinn breiðst út hægt og sígandi svo telja verður hann algengan.

Grafmaur (Sarcoptes)

Grafmaur hefur ekki fundizt á hundum á síðari árum, en virðist hafa verið þekktur hér áður. Magnús Einarson skrifar: ,,Mér vitanlega hefir þessi kláði ekki komið fyrir hér á landi nema á mönnum og einstaka sinnum á hundum”.

Ormar

Sullaveikibandormur (Echinococcus granulosus)

Sullaveikibandormur

Sullaveikibandormur

Sullaveiki af völdum sullaveikibandormsins var landlægt heilbrigðis-vandamál í Íslendingum fram undir lok 19. aldarinnar og olli einnig miklum búsifjum. Danski læknirinn, Harald Krabbe, ferðaðist um Ísland árið 1863 og safnaði 100 hundum sem hann krufði í leit að sullaveikibandormum og fann T. echinococcus (E. gran.) í 28 þeirra.  Magnús Einarson dýralæknir nefnir í Dýralækningabók sinni að „í görnum hundsins lifi margar tegundir bandorma sem bæði mönnum og dýrum geti stafað hætta af.“

Markvissar aðgerðir stjórnvalda í baráttunni gegn sullaveiki virtust þó hafa borið árangur, því á árunum 1950 – 1960 krufði Páll A. Pálsson, yfirdýralæknir 200 hunda og reyndist þá enginn þeirra sýktur með sullaveikibandorminum.  Í dag má telja að sullaveikibandormi hafi verið útrýmt á Íslandi.

Höfuðsóttarbandormur (T. multiceps)

Árið 1863 fannst höfuðsóttarbandormur í 18% krufðra hunda en enginn í 200 hundum sem krufðir voru á árunum 1950 – 1960.

Gúrkukjarnabandormur (Diphylidum caninum)

Þessi bandormstegund var afar útbreidd í hundum á 19. öld. Rannsóknir H. Krabbe sýndu að 57% krufðra hunda reyndust sýktir, en aðeins 1% 100 árum síðar. Í dag má telja að  gúrkukjarnabandormi hafi verið útrýmt.

Netjusullsbandormur (Taenia hydatigena)

Netjusullsbandormur var algengur í hundum áður fyrr og allt fram á 20. öldina. Harald Krabbe fann 75% krufðra hunda sýkta af orminum árið 1863 en á árunum 1950 – 1960 fannst hann aðeins í 5.5% krufðra hunda.

Breiðibandormur (Diphyllobothrium sp.)

Þó breiðibandormur hafi verið algengur í hundum áður (5%), finnst hann sjaldan í dag.

Árið 1988 fannst breiðibandormur í hundi, en fullvíst er talið að hundurinn hafi sýkzt við að éta silungsslóg úr Þingvallavatni.

Refabandormur (Mesocestoides canislagopodis)

Refabandormur var algengur áður fyrr í hundum og 21% þeirra hunda sem Harald Krabbe  krufði árið 1863 var sýktur af refabandormi.

Spóluormur hundsins (Toxocara canis)

Spóluormur

Spóluormur

Spóluormur hundsins er eini þráðormurinn sem fundist hefur í innlendum hundum. Harald Krabbe fann  þráðorma í 2% krufinna hunda.  Árið 1996 voru skoðuð saursýni úr alls 115 hundum og fannst þar enginn spóluormur í fullorðnum hundum en hins vegar í 6 hvolpum af 31 á aldrinum 5 – 6 vikna og í 1 hvolpi af 25 á aldrinum 2 – 12 mánaða.

Við rannsókn á tíðni mótefna gegn þráð-ormum í blóði hunda árið 2002, reyndust 23% þeirra hafa sýkzt af eða hafa spóluorm hundsins Toxocara canis.

Sveppasýkingar

Húðsveppasýkingar, hringormur og geitur, virðast hafa verið algengir sjúkdómar hér áður fyrr bæði á dýrum og mönnum. ,,Af þeim húðsjúkdómum sem sníkjujurtir valda og koma fyrir á dýrum er hringormur (Trichophyton tonsurans) helztur. Oftast fá hann nautgripir, hundar og hestar, hin alidýrin sjaldnar.“ Hringormur hefur líklega oftast orsakast af sveppum sem sýkja bæði menn og dýr. Geitur (Trichophyton schoenleinii) ,,alþekkt hörundssýki á mönnum … og af alidýrum fá hann oftast kettir, þá hundar og sjaldnar hestar“ olli hins vegar nokkuð öðrum einkennum en hringormur. Hann er mannsækinn og fer sjaldan í dýr. Líklegast er því að smit á milli manna og dýra hafi í flestum tilfellum orsakast af öðrum tegundum en T. schoenleinii.

Malasseziasveppur

Sveppasýking af völdum gersveppsins Malassezia pachydermatitis var staðfest á hundi í Reykjavík 1993. Líklegt má þó telja að sveppurinn hafi verið hér lengur.

Kettir

Veirusjúkdómar

Kattafár (Feline Panleukopenia) og kattainflúflenza (Feline Viral Rhinotracheitis)

Kattafár og kattaflenza hafa verið landlægir sjúkdómar um áratuga skeið, en byrjað var að bólusetja gegn þeim um 1980.

Smitandi lífhimnubólga (Feline Infectious Peritonitis)

var staðfest með krufningu á 5 mánaða persakettlingi í júní 1998. Síðan þá hafa mörg tilfelli smitandi lífhimnubólgu verið staðfest, bæði í hreinræktuðum köttum og húsköttum.

Coronaveira

Tíðni coronaveiru sem getur valdið smitandi lífhimnubólgu hjá köttum, og þá sérstaklega vissum tegundum hreinræktaðra katta, er 53.6% á landsvísu, en mun hærri í hreinræktuðum köttum (88.2%) og flækingsköttum (77.1%) en mældist ekki í köttum til sveita (0%).

Kattaeyðni (Feline Immunodeficiency Virus) og kattahvítblæði (Feline Leukemi Virus)

Klínisk einkenni þessara sjúkdóma hafa ekki enn verið staðfest hér á landi, en rannsókn á tíðni mótefna í blóði íslenzkra katta gegn kattaeyðni (FIV) er 2.6% og kattahvítblæði (FeLV) 1.7%.

Ormar

Spóluormur kattarins (Toxocara cati)

Spóluormur kattar

Spóluormur kattar

Þrjár rannsóknir hafa verið gerðar á tíðni þráðorma í köttum á Íslandi. Þá fyrstu gerði Harald Krabbe eftir miðja 19. öldina og fann þá spóluorma (Toxocara cati) í 51.6% þeirra katta sem hann krufði. Árið 1993 var gerð rannsókn á tíðni spóluorma kattarins í saur eða meltingarvegi 64 katta og fannst hann í 12.5% þeirra katta sem rannsakaðir voru.  Árið 2002 voru mæld mótefni gegn T. cati í blóði íslenzkra katta og var tíðnin þar 68%.

Refabandormur (Mesocestoides canislagopodis)

Við leit að sníkjudýrum í saursýnum úr köttum í Reykjavík fannst refabandormur í einum þeirra (3.3%).

Frumdýr

Bogfrymlar (Toxoplasma gondii)

Tíðni mótefna gegn bogfrymlasótt í íslenzkum köttum hefur mælzt 32%, en þrátt fyrir háa tíðni mótefna hafa klínisk einkenni hennar ekki verið staðfest í köttum hér á landi.

Cryptosporidium sp.

Gródýrið Cryptosporidium er útbreitt á Íslandi og algengast í ungum dýrum. Smitunartíðni þess hefur mælzt 11.1% í kettlingum.

Isospora felis

hníslar fundust í saursýnum 7.8% katta árið 1993 og var það í fyrsta sinn sem þessi einfrumungur fannst í innlendum köttum.

Giardia cati

frumdýr fundust í saursýni eins kattar (1.6%) árið 1993 en höfðu fyrir þann tíma aðeins fundizt í saursýnum katta í einangrunarstöðinni í Hrísey.

Ytri sníkjudýr

Kattanaglús (Felicola subrostratus)

Kattanaglús var fyrst staðfest hér á landi árið 1973, en Brynjólfur Sandholt, þáverandi héraðsdýralæknir, varð strax var við lýs á köttum er hann hóf störf í Reykjavík. Árið 1990 greindist  naglús á þremur köttum sem ekki höfðu nein tengsl sín á milli.

Húðmaur (Cheyletiella parasitovorax)

Þessi húðmaur greindist í ársbyrjun 1996 á tveimur  persneskum köttum, fæddum hér á landi, en ekki er þekkt hverning hann barst á kettina.  Frá þeim tíma hefur maurinn breiðst út hægt og sígandi, svo telja verður hann algengan.

Eyrnamaur (Otodectes cynotis)

Eyrnamaur er algengur um allt land og hefur efalaust verið það lengi.

Áttfætlumaur (Cyrkolaelaps mucronatus)

Áttfætlumaur sem hefur nokkrum sinnum fundizt í feldi katta hér á landi.

Sveppasýkingar

Microsporum canis

Snemma árs 1995 greindust 4 hreinræktaðir kettir frá sama eiganda með sveppasýkingu af völdum Microspoum canis, en kettirnir komu úr stórum kattahópi sem í voru nýlega innfluttir kettir. Smitið barst á eiganda og barn. Eitthvað mun sveppasýkingin hafa dreifzt og þá sérstaklega meðal hreinræktaðra katta, en sést lítið núorðið.

Einangrunarstöð ríkisins í Hrísey

Í einangrunarstöðinni hafa greinzt eftirfarandi tegundir sníkjudýra sem ekki hafa fundizt í eða á innlendum köttum.

Ormar: Toxascaris leonina, Ancylostoma sp., Uncinaria sp..
Ögður:  Ophistorchis felineus:
Ytri sníkjudýr: Ctenocephalides felis.

Eftirmáli

Hættan á að smit berist til landsins er alltaf fyrir hendi. Margar veirur eru harðgerar og geta lifað lengi utan hýsils og borizt víða. Bólusetningar verja vissulega gegn flestum sjúkdómum, en bólusett dýr geta verið heilbrigðir smitberar, þ.e. dreift smitefni þó þau séu ekki sjálf veik. Ekki er hægt að bólusetja gegn sníkjudýrasjúkdómum sem flestir smitast auðveldlega á milli dýra. Sumir þeirra þarfnast þó millihýsla sem geta margir hverjir ekki lifað hér á landi (t.d. moskítóflugur), en hugsanlegt er þó að einhver sníkjudýr sem valda alvarlegum sjúkdómum geti notfært sér millihýsla sem finnast hér á landi, svo sem snigla.

Það er lán okkar hundeigenda að búa í landi með heilbrigðum dýrum og án margra smitsjúkdóma sem má, eins og áður segir, þakka annars vegar legu landsins og hins vegar ströngum skilyrðum yfirvalda fyrir innflutningi gæludýra.

Kappkosta ætti að viðhalda þessari góðu sjúkdómastöðu og því er ekki nógsamlega brýnt fyrir hundeigendum – og öðrum gæludýraeigendum, að gæta fyllstu varkárni og ábyrgðar við komu erlendis frá, sérstaklega hafi fólk verið á dýrasýningum, sama hvers eðlis þær eru. Mikilvægt er að skipta um skó og fara í hrein föt fyrir heimkomuna og koma aldrei heim með leikföng, teppi, nammi eða annað sem gæti hafa komizt í snertingu við dýr.

Heimildir

  • Helga Finnsdóttir. Smitsjúkdómar í hundum og köttum á Íslandi. Dýralæknatal DÍ 2004, bls.: 305 – 315.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd