Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Fjölblöðrunýru (Polycystic Kidney Disease/PKD1)

Höfundur: • 25. mar, 2007 • Flokkur: Kettir
Heilbrigð persakisa

Heilbrigð persakisa

Blöðrumyndun í nýrum (fjölblöðrunýru – Polycystic Kidney Disease/PKD1) er  arfgengur og algjörlega ólæknandi sjúkdómur í köttum sem hefur verið þekktur um árabil. Þó sjúkdómurinn geti fundizt í köttum af hvaða kyni sem er, er hann algengastur í persaköttum eða blendingum þeirra, brezkum, snögghærðum (British Shorthair)-, exotic- og himalayjaköttum.

En hvers vegna leggst sjúkdómurinn aðallega á persaketti?

Það er ekki vitað með vissu, en hugsanlega kann skýringin að vera sú, að upphaflega hafi sjúkdómurinn skotið upp kollinum í örfáum ræktunardýrum og þar sem einkenni hans eru oft óljós og geta minnt á nýrnabilun, algengustu dánarorsök katta, hafi menn ekki áttað sig á hver hin raunveruleg ástæða nýrnasjúkdómsins hafi verið.  Meingenið náði því að breiðast hömlulaust út í stofninum sem er stór, enda persakettir vinsælasta kattakynið í heiminum í dag.

Meingenið PKD1 erfist ríkjandi og finnist það hjá öðru foreldrinu, erfir helmingur afkvæmanna það, en eitt afkvæmi er heilbrigt séu báðir foreldrarnir arfberar.

Sérhvert dýr sem ber meingenið PKD1 veikist fyrr eða síðar á ævinni.

Báðir foreldrar eru arfberar

Báðir foreldrar eru arfberar

Annað foreldrið er arfberi

Annað foreldrið er arfberi

Í dag er talið að tæp 40% persakatta í heiminum beri sjúkdóminn (PKD1). Þar sem sjúkdómurinn er ólæknandi og dregur alla veika ketti til dauða, hlýtur þessi háa tíðni hans að vera verulegt áhyggjuefni fyrir ræktendur persakatta sem og þeirra kattakynja sem eru á einhvern hátt skyldir persaköttum.

Sjúkdómseinkenni

eru oftast væg og óglögg í byrjun. Fyrstu blöðrurnar myndast yfirleitt í nýrunum áður en kisa verður ársgömul og alltaf í báðum nýrum. Blöðrurnar eru litlar í byrjun (1 mm), en stækka og fjölgar með tímanum. Einkenni nýrabilunar koma oftast í ljós þegar kisa er á aldrinum 3ja – 10 ára (að meðaltali 7 ára) og lýsa sér sem deyfð, minni matarlyst, aukinn þorsti, tíðari þvaglát og kisa horast.

Heilbrigt nýra

Heilbrigt nýra

Nýra með blöðrum á yfirborði

Þversnið af blöðrunýra

Nýra á lokastigi sjúkdómsins

Nýra á lokastigi sjúkdómsins

Eftir því sem blöðrurnar stækka, rýrnar nýrnavefurinn auðvitað meir og meir og einkenni nýrnabilunarinnar verða meira áberandi. Í byrjun búa nýrun yfir tímabundnum eiginleikum til að aðlaga sig að minnkandi starfsgetu, en þegar starfhæfur nýrnavefur er nánast horfinn, geta þau ekki meir og kisa deyr.

Reyndar er það mjög einstaklingsbundið hvenær og hvernig einkenni sjúkdómsins gera vart við sig. Því alvarlegri sem sjúkdómurinn er, því fyrr koma einkennin í ljós, en lífslíkur kisu aukast eftir því sem einkennin koma seinna fram. Alvarlegasta mynd sjúkdómsins birtist þegar fóstrið erfir meingenið frá báðum foreldrunum, en þá er talið að fóstrin geti drepist strax í móðurkviði eða veikzt mjög snemma á lífsleiðinni.

Í undantekningartilfellum geta blöðrur myndazt í fleiri líffærum en nýrum, svo sem lifur og legi.

Hvernig er hægt að greina sjúkdóminn fjölblöðrunýru?

Áður fyrr var reynt að greina blöðrur í nýrum með röntgenmyndatöku en þá var aðeins mögulegt að finna stærri blöðrur, en með sónartækni varð mun auðveldara að greina blöðrurnar, en það krefst jafnframt mikillar kunnáttu af hálfu dýralæknisins og góðs tækjakostar. En nú er komið á markaðinn DNA próf sem er bæði einfalt og auðvelt og  veldur straumhvörfum á greiningu sjúkdómsins. Með stroksýni af munnslímhúð er hægt að finna hvort kisa beri meingenið PKD1 eða ekki. Því miður kemur prófið ekki í veg fyrir að sýktur köttur veikist, en getur hins vegar fyrirbyggt að fleiri sýktir kettir fæðist sem þurfa að líða og deyja af völdum alvarlegs og ólæknandi sjúkdóms.

Í dag er það einfalt fyrir ræktendur þeirra kattategunda sem geta borið þennan sjúkdóm að lát taka sýni af öllum ræktunardýrum og þar með útiloka arfbera úr ræktuninni og nota aðeins heilbrigð dýr til undaneldis.

Heill og framtíð persakatta eru í höndum ræktenda og eigenda katta í áhættuhópi og sýni þeir samstöðu, verður vonandi mögulegt með tímanum að losna algjörlega við þennan alvarlega sjúkdóm.

Rannsókn á tíðni fjölblöðrunýrna?

Himalayjakisa

Himalayjakisa

Eins og fram kemur hér að ofan, er talið að allt að 40% katta af persakyni  beri  meingenið PKD1, en það þýðir að 4 kettir af hverjum 10 veikist og deyi af völdum sjúkdómsins. Og það eru ekki bara persakettir einir sem veikjast, heldur allir kettir sem eiga rætur sínar að rekja til þeirra (brezkir, snögghærðir-,  himalayja- og exotickettir) og blendingar þeirra.

Rannsóknir á tíðni fjölblöðrunýrna í persum á Íslandi

Tíðni fjölblöðrusjúkdóms er ekki þekkt í persaköttum eða öðrum katta-tegundum hér á landi. Líklegt er að hún sé í réttu hlutfalli við tíðni hans í öðrum löndum, en nýlega var gerð rannsókn á á persaköttum á Íslandi.

Talið er að um 500 persakettir séu hér á landi og einhver fjöldi af skyldum kattategundum, svo mikilvægt er að allir eigendur persakatta eða katta af þeim tegundum sem eru í áhættuhópi láti rannsaka hvort þeirra kisi kunni að vera í áhættuhópi eða ekki.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd