Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Eyrnamaur (Otodectes cynotis)

Höfundur: • 3. jún, 2007 • Flokkur: Hundar, Kettir
Eyrnamaurinn er örsmár og varla sjáanlegur með berum augum

Eyrnamaurinn er örsmár og varla sjáanlegur með berum augum

Eyrnamaur er örsmátt sníkjudýr sem lifir í hlust hunda og katta. Eyrnamaurinn veldur þeim töluverðum óþægindum og  getur líka valdið alvarlegum eyrnabólgum og jafnvel miðeyrnabólgu með heyrnarleysi í kjölfarið, sé sýkingin það alvarleg að gat komi á  hljóðhimnuna.

Eyrnamaur er ein algengasta orsök sjúkdóma í ytra eyra, sérstaklega hjá kettlingum og ungum köttum, og er algengur í köttum um allt land og hefur efalaust verið það lengi. Til skamms tíma var eyrnamaur hins vegar nánast óþekktur í hundum hér á landi, eða í bezta falli sjaldgæfur, þar til loksins var staðfest í nóvember árið 1995 að eyrnamaur hefði  fundizt í sýni úr eyra hunds. Síðan þá hefur hann breiðst út um allt land.

Eyrnamaurinn

Lífsferill  eyrnamaursins fer allur fram í hlustinni á kisu

Lífsferill eyrnamaursins fer allur fram í hlustinni á kisu

er tæpast sjáanlegur með berum augum. Hann lifir á yfirborði vaxhúðarinnar í hlustinni, en getur þó skriðið þaðan út á kinn og jafnvel víðar, en lifir ekki lengi utan hýsilsins.

Maurinn, sem nærist á eyrnamerg og húðfitu í hlustinni, verpir eggjum og eftir 4 daga  klekjast út lirfur sem verða kynþroska eftir 3 vikur og nokkur lirfustig og byrja þá að verpa eggjum. Meðalævi eyrnamaursins er um tveir mánuðir.

Einkenni

smits af völdum eyrnamaurs eru mismikil eftir hversu mikið smitið er og aldri hýsilsins, en því yngri sem hann er því skæðara er smitið. Smitinu fylgir oftast kláði, erting og mikil myndun eyrnamergs í hlustinni. Flest dýrin hrista hausinn í sífellu, klóra sér ákaft í kringum eyrun og halla jafnvel undir flatt, á meðan önnur sýna minni einkenni þó hlustin sé full af maurum.

Skýringin kann að vera sú að sum dýr hafa ofnæmi fyrir munnvatni maursins sem hann gefur frá sér þegar hann étur, þannig að í þeim tilfellum þarf ekki mörg dýr til að valda sterkum einkennum kláða og óþæginda.

Hlust full af eyrnamerg

Hlust full af eyrnamerg

Þegar kíkt er í eyrað er hlustin full af dökkum eyrnamerg sem minnir á kaffikorg (þ.e. er öðruvísi útlits en þegar um er að ræða eyrnabólgur af völdum sýkla og sveppa). Eyrnamergurinn samanstendur af húðflögum úr vaxhúð hlustarinnar, storknuðu blóði, bólgufrumum og auðvitað eyrnamaurum, oft í hundraða- eða þúsundatali.

Eyrnamergurinn og ertingin á vaxhúð hlustarinnar getur svo leitt til bakteríusýkingar og alvarlegrar eyrnabólgu.

Með tímanum byggja flest dýr þó upp ákveðið ónæmi gegn eyrnamaurnum sem skýrir hvers vegna einkennin eru algengust hjá kettlingum, hvolpum og ungum dýrum og því, að fullorðin dýr fá mun vægari einkenni smitist þau á ný.

Kettlingar og hvolpar með eyrun full af eyrnamaur hafa efalaust smitast af móðurinni, þó hún virðist einkennalaus, því sé hún skoðuð finnast örugglega eyrnamaurar í eyrunum hennar.

Fullt af eyrnamaurum skríðandi á eyrnaskoðunartækinu

Fullt af eyrnamaurum skríðandi á eyrnaskoðunartækinu

Staðfesting

á að um eyrnamaur sé að ræða byggist alltaf á nákvæmri skoðun á hlustinni ásamt smásjárskoðun á eyrnamergnum, því þó útlit eyrnamergsins bendi sterklega til að um sé að ræða smit af völdum eyrnamaura, er það auðvitað ekki algilt.

Sprelllifandi eyrnamaur á hraðferð undir smásjá

Sprelllifandi eyrnamaur á hraðferð undir smásjá

Sýni er tekið úr hlustinni með eyrnapinna og sett á gler og skoðað undir smásjá. Undir henni er auðvelt að sjá bæði egg og sprelllifandi eyrnamaura, á öllum þroskastigum, oftast á fullri ferð!

Smit

berst mjög auðveldlega á milli dýra með snertingu, en eyrnamaurinn er bráðsmitandi bæði milli dýra af sömu tegund, en einnig milli ólíkra dýrategunda, svo sem úr köttum í hunda (og refi) og öfugt. Hugsanlega getur maðurinn einnig borið smit á milli dýra, en ekki er talið líklegt að eyrnamaur smitist í fólk.

Meðferð

Það þarf að byrja á því að hreinsa hlustina vel og vandlega til að losa kisu eða hundinn við eyrnamaurana og eyrnamerginn sem valda ertingu og skapa hættu á sýkingu. Eftir að hlustin hefur verið hreinsuð, er dýrið gjarnan meðhöndlað með sýklalyfi í eyrun sem lækna sýkingu sé hún til staðar – eða varna henni í kjölfar ertingarinnar sem maurarnir hafa valdið og lyfið drepur jafnframt maurana.

Lyf gegn sníkjudýrum er sett í feldinn

Lyf gegn sníkjudýrum er sett í feldinn

Þó eyrnamaurinn lifi í hlustinni getur hann, eins og fyrr er sagt, skriðið þaðan út á hausinn og jafnvel víðar. Þess vegna getur líka verið nauðsynlegt að meðhöndla dýrið jafnframt með lyfi gegn sníkjudýrum. Lyfið sem er á vökvaformi (blettunarlausn eða svokallað ,,pour on“) er sett á feldinn og er virkt bæði gegn innvortis- og útvortis sníkjudýrum í nokkrar vikur.

Eyrnamaur getur verið viðvarandi vandamál þar sem margir kettir eða hundar búa saman eins og t.d. hjá ræktendum. Þar getur nýtt dýr sem kemur inn í hópinn verið einkennalaus smitberi og endursmitað þau dýr sem eru fyrir á heimilinu.

Þess vegna er nauðsynlegt að meðhöndla alla ketti og hunda á heimilinu samtímis til að forðast að eyrnamaur breiðist út í allan hópinn.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd