Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Rangstæð augnhár

Höfundur: • 24. feb, 2013 • Flokkur: Hundar

Kvillar í augnlokum

geta verið margir og misalvarlegir. Þeir geta verið bæði meðfæddir eða áunnir, en oftast valda þeir óþægindum og jafnvel sársauka. Margir þessara kvilla eru einnig arfgengir.

Augnlokin

Augnlokin umlykja augað og er hlutverk þeirra að vernda það, fjarlægja aðskotahluti og dreifa táravökvanum. Heilbrigð augu eru hrein og tær og án útferðar eða ertingar.
Á augnlokunum sitja augnhárin sem vaxa út úr hársekkjum við kantinn á efri augnlokunum.
Í augnkantinum eru einnig fitu- og svitakirtlar (Zeis/Mollkirtlar) auk svokallaðra trefjaleppskirtla (Meibomskir kirtlar) sem framleiða fitu, en þeir liggja fyrir innan augnhárin, þ.e. nær augnkantinum. Fitan frá þeim myndar m.a. fiturönd sem varnar því að of mikið af táravökvanum verpist út yfir augnhvarminn.
Heilbrigð augnhár snúa frá hornhimnu augans. Fitukirtill í augnkanti er rauður.

Heilbrigð augnhár snúa frá hornhimnu augans. Fitukirtill í augnkanti er rauður.

Heilbrigt auga

Rangstæð, eða rangvaxin, augnhár vaxa ekki út úr hásekkjunum, heldur fitukirtlum í kantinum á augnlokinu. Þá vex hárið í ,,ranga“ átt, þ.e. inn að hornhimnunni og þegar hundurinn blikkar geta þessi augnhár bæði ert og sært hornhimnuna með misalvarlegum afleiðingum, en geta líka verið skaðlaus.
Tvísettu augnhárin sjást hér greinilega

Tvísettu augnhárin sjást hér greinilega

Rangvöxtur augnhára

1. Tvísett augnhár (Distichiasis)
Augnhárið (augnhárin) vex út úr trefjaleppskirtlinum í stað hársekknum. Það vex inn á við að hornhimnu augans, andstætt við eðlilegt augnhár og jafnvel svo nærri, að það snertir hana. Hárin geta verið eitt eða fleiri, stíf eða mjúk.Hér sést hvernig augnhárið vex inn á við að hornhimnunniStífu hárin særa og meiða, en þau mjúku valda lítilli eða engri ertingu og eru þá heldur ekki vandamál!
Tvísett augnhár eru ekki óalgeng í mörgum hundategundum, sérstaklega púðluhundum og cockerspaníelhundum (sérstaklega amerískum).
2. Rangstætt augnhár (Ectopic cilia)

Augnhárið borar sig í gegn um augnlokið

Augnhárið borar sig í gegn um augnlokið

Augnhárið getur valdið verulegri ertingu á hornhimnunni og oft sári.
Það getur stundum hins vegar verið þrautinni þyngri að finna rangstætt augnhár því það getur verið hálffalið í slímhúðinni, stundum ljóst og stundum dökkt. Langvinn sár á hornhimnu ættu að beina leitinni að rangvöxnu augnhári, sérstaklega hjá hvolpum og ungum hundum.
Rangstæð augnhár eru reyndar ekki alltaf meðfædd, en einkennin koma þó venjulegast í ljós snemma á ævinni.
3. Erting af völdum feldhára umhverfis augun (Trichiasis)
Þegar um er að ræða óheilbrigt ástand í augnumgjörðinni eins og t.d. innhverfingu augnloka, eða of háa húðfellingu á trýni, geta feldhárin legið að auganu og meitt.
Hárin á húðfellingum á stutthöfða hundum geta sært augun
Hárin á húðfellingum á stutthöfða hundum geta sært augun
Innhverfing á augnloki er það þegar augnlokið, oftast það neðra, rúllast að hluta til inn á við og hárin á innrúllaða augnlokinu snerta þá og erta hornhimnuna í hvert sinn sem hundurinn deplar.
Innhverfing augnloks getur verið meðfæddur kvilli eða áunninn, en er einnig arfgengur í mörgum hundategundum.
Hjá mörgum stutthöfða hundum, sérsaklega þeim með útstandandi augu, getur húðfelling á trýni verið há og legið það þétt að augunum, að hárin á fellingunni snerta hornhimnuna og særa.
Sama getur átt við mjög loðna hunda og þarf þá að gæta þess að klippa hárin frá augunum svo þau særi ekki.

Einkenni

Í flestum tilfellum leyna einkennin sér ekki og koma snemma fram. En hverjar svo sem ofangreindar breytingar eru, eru einkennin oftast keimlík, þ.e.:
  1. Tárarennsli og jafnvel sýking sé komið sár á hornhimnu,
  2. augnkipringur vegna sífelldrar ertingar og sársauka,
  3. hvarmabólga, blóðhlaupin hvíta og
  4. sár á hornhimnunni.
Öll rangstæð augnhár, en sérstaklega þó rangvaxið augnhár (ectopic cilia) geta valdið misalvarlegu hornhimnusári með tilheyrandi einkennum.

Meðferð

Meðferðin miðast að sjálfsögðu við einkenni og orsök kvillans og felst í aðgerð sem gerð er í svæfingu. Tvísett augnhár sem erta þarf að fjarlægja og eru hárin ýmist brennd eða fryst í burtu. Séu hárin ,,bara“  plokkuð í burtu, er það aðeins skammtíma lausn, því þau verða vaxin aftur út eftir 3 – 4 vikur.
Mjúk hár sem valda engum óþægindum, eða ertingu, ætti að láta eiga sig.Rangvaxið augnhár er skorið í burtu ásamt hársekknum og sárið látið gróa án þess að það sé saumað. Innhverfing augnloka, eða of stór húðfelling á trýni, er hvoru tveggja lagfært með einfaldri skurðaðgerð og yfirleitt með góðum árangri. Hugsanlega kann minnkun á fellingunni á trýninu að breyta ásjónu hundsins eitthvað, sem er þó harla léttvægt í samanburði við langvarandi sársauka.
Augnhár geta verið rangstæð og/eða rangvaxin á öðru auga eða báðum, efra augnloki eða því neðra, en vitað er að allir geta þessir kvillar verið arfgengir í vissum hundategundum.
Mikilvægt er að til undaneldis séu aðeins notaðir heilbrigðir einstaklingar, en með ábyrgri ræktun má minnka tíðni arfgengra kvilla sem geta valdið einstaklingnum bæði óþægindum og sársauka.

Heimildir

Vetrinær Oftalmologi. Elen Bjerkås. Tell forlag 1998
Slatter´s Fundamentals of Veterinary Ophtalmology. Saunders 2008
Veraldarvefurinn
Myndir: Fengnar að láni af veraldarvefnum

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd