Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Nýr þráðormur finnst í hundum á Íslandi

Höfundur: • 4. mar, 2012 • Flokkur: Hundar

Miðvikudaginn 22. febrúar 2012 greindist þráðormurinn Strongyloides stercoralis í fyrsta sinn í hundi á Íslandi, utan einangrunarstöðvar.

Núna í lok janúar 2013 greindist ungur hundur, einnig keyptur í Dalsmynni, með alvarlegt smit.

Forsaga málsins  er sú, að í byrjun febrúar (2012) keyptu tvær stúlkur sér hvor sinn cavalierhvolpinn með viku millibili frá hundabúinu Dalsmynni á Kjalarnesi. Hvolparnir eru fæddir í september og nóvember 2011 og voru því 10 vikna og tæplega fimm mánuða þegar kaupin áttu sér stað. Við afhendingu höfðu þeir báðir nýlega verið bólusettir gegn smáveirusótt og einnig meðhöndlaðir gegn sníkjudýrum. Annars vegar gegn innvortis sníkjudýrum með bandormalyfinu Drontal vet. og hins vegar með lyfinu Dectomax sem virkar hvoru tveggja á innvortis- og útvortis sníkjudýr.

Sjúkdómssagan

Í byrjun febrúar hafði eigandi eldri hvolpsins samband við okkur dýralæknana hér á stofunni vegna þess að hundurinn hóstaði þurrum hósta. Við skoðun virtist hann hress, þrátt fyrir hóstann, en var hins vegar langt undir eðlilegri meðalstærð og þyngd miðað við aldur og vóg aðeins 1.4 kg tæpra 5 mánaða! Hóstinn var greindur sem svokallaður hótelhósti (kennelcough), algengur kvilli þar sem margir hundar eru samankomnir og var meðhöndlaður sem slíkur. Jafnframt var eigandanum ráðlagt að gefa hundinum hefðbundna 3 daga meðferð gegn spóluormum (Toxocara canis) með lyfinu Panacur vet.

Viku seinna kom svo yngri hvolpurinn vegna sama kvilla, þ.e. hósta og fékk hann sömu meðhöndlun og sá fyrri.

Skömmu síðar fór að bera á niðurgangi í litla hvolpinum (þ.e. þeim sem fæddur er í september) sem lagaðist ekki með breyttu mataræði. Þegar blóð sást  í saurnum, vöknuðu grunsemdir að um sníkjudýrasýkingu gæti verið að ræða. Þriðjudaginn 21. febrúar var farið með saursýni úr hvolpinum til rannsóknar á Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum og miðvikudaginn 23. febrúar lágu niðurstöður rannsóknarinnar fyrir.

Í  saursýninu fannst mikið magn einfrumungsins Giardia auk þráðormalirfa af tegundinni Strongyloideus stercoralis.

Áhyggjur og frekari rannsóknir!

Í ljósi þessa fundar var óttast að hinn cavalierhvolpurinn gæti einnig verið smitaður. Ákveðið var því að láta rannsaka saursýni frá honum sem og þremur fullorðnum hundum í eigu fjölskyldu þess hunds sem fyrstur greindist.

Allir voru þessir hundar einkennalausir. Mikill samgangur er á milli fjölskylduhundanna fjögurra, en hins vegar enginn milli cavalierhvolpanna tveggja.

Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú, að í cavalierhvolpinum fannst mjög mikið magn Str. Stercoralis þráðorma sem og í einum fjölskylduhundanna þriggja!

Aðkoma yfirvalda

Málið fór nú í hendur viðeigandi yfirvalda, þ.e. Matvælastofnunar, en innan þeirrar stofnunar er dýrasjúkdómadeild, undir stjórn yfirdýralæknis, sem fylgist náið með   dýrasjúkdómum.

Tekin voru tugir saursýna frá  hundum á hundabúinu og sett í rannsókn. Í ljós kom að 50% sýnanna voru jákvæð, þ.e. að helmingur hundanna á búinu er smitaður og að í þeim finnast  þráðormalirfur.

Þessi niðurstaða sýnir og sannar að þráðormurinn S. stercoralis getur fjölgað sér hér á landi við ,,heppilegar“ aðstæður, þ.e. við kjöraðstæður innanhúss í saur og jarðvegi. En hins vegar er mjög ósennilega að hann geti fjölgað sér utanhúss.

Strongyloides stercoralis

Lirfa þráðormsins Strongyloides stercoralis

Lirfa þráðormsins Strongyloides stercoralis

Str. stercoralis finnst aðallega í heitum og heittempruðum löndum. Hann er sníkjudýr sem lifir m.a í hundum, köttum og mönnum og finnst alls staðar í heiminum, þó algengastur sé hann í heitum og heittempruðum löndum.

Talið er að hann hafi greinzt í fyrsta sinn í hundum í N-Evrópu, í Finnlandi, árið 2007. Þráðormurinn Str. stercoralis er sjúkdómsvaldur fyrir dýr og sérstaklega ung dýr. Hann er jafnframt súna (zoonosis), þ.e. en smit ormsins getur farið milli hunda og manna. Ormurinn er hins vegar til í margvíslegum afbrigðum sem oft eru háð ákveðinni dýrategund og því er ekki hægt að fullyrða, né útiloka, að menn geti smitast af þeirri tegund orma sem fundust í hundunum frá Dalsmynni.

Ormurinn er smár; kvendýrið aðeins um 2 mm á lengd en karldýrið enn minna. Lífsferillinn er afar flókinn og lifir þráðormurinn hvoru tveggja sem staðbundinn sníkill (bara kvendýrin) í slímhúð meltingarfæra hýsilsins þar sem han fjölgar sér kynlaust, eða utan hans í jarðvegi sem kynþroska kven- og karldýr. Kynlaus fjölgun, eins og þekkist hjá Str. stercoralis er sérstök meðal sníkjudýra og á sér stað bæði hjá hundum og mönnum. Þá framleiða kvendýrin, sem lifa í slímhúð þarmanna, egg sem verða strax að lirfum og sjálfsmita (autoinfection) hýsilinn aftur og aftur, jafnvel svo áratugum skiptir.

Smit í fólk

Hér sjást einkenni smits í mann

Hér sjást einkenni smits í mann

Smit berst í fólk þegar lirfur í umhverfinu bora sig í gegn um húðina, aðallega gegnum húð á fótum, berast með blóðstraumnum til lungna, upp í gegn um barka, niður vélinda í maga og meltingarveg þar sem þær verða kynþroska og verpa eggjum, sem umbreytast í smitandi lirfur á örskömmum tíma.

Lirfurnar berast svo með saur út í umhverfið, eða þá að þær bora sig strax inn í líkamann í gegn um húðina umhverfis endaþarm og hefja þaðan ferðalagið með blóðrásinni.

Smit í hunda

Aðalsmitleiðin milli hunda er talin vera með móðurmjólkinni í hvolpa

Smitleiðin í hunda er nokkuð sambærilegt og hjá mönnum þar sem smit berst í gegn um húð, þó það geti einnig borizt um munn. Aðalsmitleiðin hjá hundum er þó talin vera með mjólkinni í hvolpa. Sú smitleið hefur mikla þýðingu fyrir viðhald og útbreiðslu sjúkdómsins og torveldar aðgerðir gegn honum.

Talið er að hundur geti verið smitberi í allt að ár, þ.e. að lirfur geti skilist út með saur í allt að ár. Algengast er þó að útskilnaður hætti eftir 2 – 3 mánuði.

Hundar endursmitast ekki hafi þeir unnið á smitinu. Hins vegar er talið að ófrjó, fullorðin kvendýr þráðormsins geti lifað áfram grafin í slímhúð þarmanna lengi þó engar lirfur finnist í saur. Minnki mótstaða hundsins af einhverjum ástæðum svo sem af völdum ónæmmisbælandi sjúkdóma, krabbameinsmeðferðar eða jafnvel meðgöngu, geta þessi fullorðnu kvendýr orðið frjó á nýjan leik!

Sjúkdómseinkenni

Þeir sem hafa keypt hvolp eða hund frá hundabúinu Dalsmynni ættu að gæta fyllsta hreinlætis!
Þeir sem hafa keypt hvolp eða hund frá hundabúinu Dalsmynni ættu að gæta fyllsta hreinlætis!

hjá hundum eru oftast engin eða væg, en vissulega þekkjast alvarleg tilfelli og þá aðallega í nýfæddum hvolpum, hvolpum á spena sem og hundum með ónæmisbælandi sjúkdóma. Einkennin eru lungnabólga, alvarlegur niðurgangur, slen og jafnvel dauði. Tími frá smiti þangað til klínisk einkenni koma í ljós er um ein vika. Fullorðnir hundar smitast sjaldnast alvarlega.

Hundabú

Aðbúnaður hunda á hundabúum verður að vera til fyrirmyndar

Hættan á viðhaldi smits er auðvitað mest þar sem mörgum hundum er haldið þétt saman eins og á umræddu hundabúi, sérstaklega sé fyllsta hreinlætis ekki gætt. Sífelld hvolpaframleiðsla viðheldur síðan smitálaginu, því eins og áður er sagt berast ormalirfurnar með móðurmjólkinni í hvolpana, fjölga sér í þeim og skiljast innan nokkurra vikna í þúsundatali út í umhverfið með saurnum. Erfitt, ef ekki ómögulegt, getur þá reynzt að útrýma smitinu úr umhverfinu.

Meðferð

felst í að gefa viðeigandi ormalyf og taka síðan reglulega saursýni. Gefa má Ivermectin þeim hundum sem það þola, en talið er að ormalyfið Panacur vet sé einn bezti valkosturinn. Það þarf þá að gefa mun lengur en við hefðbundna meðferð gegn spóluormum, eða í 2 – 3 vikur.  

Hér má lesa um Strongyloides stercoralis á vefsíðu Landlæknis

30. janúar 2013

Enn hefur alvarlegt smit af völdum þráðormsins Strongyloides stercoralis greinzt í hvolpi frá hundabúinu Dalsmynni!

Það er mikilvægt að þeir sem hafa nýlega keypt hvolpa frá hundabúinu í Dalsmynni, taki saursýni frá honum og láti kanna hvort hann er smitaður af Str. stercoralis eða ekki. Nánari upplýsingar fást hér á stofunni.

Símatími er alla virka daga milli kl. 08 – 11 í síma 5537107

Heimildir:
1. Georgis Parasitology for Veterinarians. Dwight D. Bowman. MS, PhD. Saunders
2. Strongyloides stercoralis. From Wikipedia, the free encyclopedia
3. Acta Veterinaria Scandinavica. Case report. Strongyloides stercoralis infection in a Finnish kennel Kati J Dillard o.fl.     University of Helsinki, Helsinki, Finland
4. Munnlegar heimildir. Ingibjörg Hilmarsdóttir, læknir.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd