Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Hótelhósti (Kennel cough)

Höfundur: • 14. jan, 2008 • Flokkur: Hundar
Hótelhósti

Hótelhósti

Hvaða sjúkdómur er hótelhósti eiginlega og hvers vegna hefur hann þetta einkennilega nafn?

Hótelhósti er bráðsmitandi sjúkdómur sem leggst á slímhúðina í efri öndunarfærum hunda, þ.e. barka og lungnaberkjur og veldur þurrum og óþægilegum hósta.

Orsökin er bæði veirur og sýklar, þó aðallega veirur. Nafnið stafar hins vegar af því hve bráðsmitandi hótelhóstinn er. Komi smitaður hundur þar sem margir hundar eru samankomnir í lokuðu rými, t.d. á hóteli, er veruleg hætta á að allir hundarnir sem þar eru, og eru á annað borð móttækilegir, smitist. Margir hundar mynda eðlilegt ónæmi gegn sjúkdómnum og veikjast því ekki þó þeir hitti smitaðan hund, en aðrir eru óvarðir og veikjast. Hótelhóstinn er í flestum tilfellum hættulaus sjúkdómur þar sem alvarleg tilfelli eru afar sjaldgæf og flestir hundar ná sér að fullu.

Berist hann í mjög unga hvolpa getur hann þó reynzt þeim skeinuhættur.

Smitleiðin

Smitefnið, þ.e. veirurnar, finnast í loftinu sem hundurinn andar frá sér og dreifist auðveldlega um umhverfið, svona rétt eins og kvefveira sem berst frá manni til manns. Smitefnið berst einnig milli hunda með beinni snertingu, óhreinum skálum, fatnaði og óhreinum höndum! Og hóstandi hundur er smitberi!

Þegar hundurinn hóstar dreifist smitefnið um langan veg. Berist veiran (eða sýkillinn) ofan í hund, tekur hún sér bólfestu í hlýrri og rakri slímhúð efri öndunarfæranna. Sé hundurinn móttækilegur, þ.e. hafi ekki mótefni gegn sjúkdóminum, nær veiran eða sýkillinn að fjölga sér þar og veldur sjúkdómseinkennum.

Erfitt er að forðast smit þar sem meðgöngutími smitsins er frekar langur, 3 – 7 (5 – 10) dagar, þ.e. frá því að hundurinn smitast og þar til einkenni koma í ljós.

Einkennalaus hundur, en smitaður, getur því farið víða og smitað aðra hunda, t.d. á hundahóteli eða á hundasýningu, en smitaður hundur getur verið heilbrigður smitberi svo dögum og jafnvel vikum skiptir.

Orsök

sjúkdómsins eru annars vegar veirur, Parainfluenzu – og Adenóveirur og hins vegar sýkillinn Bordetella broncoseptica, en það eru þó veirurnar sem eru aðal orsökin. Orsakavaldarnir eru sem sagt fleiri en einn sem gerir það flóknara að fyrirbyggja og meðhöndla sjúkdóminn en ætti aðeins einn skaðvaldur hlut að máli.

Streita og álag getur framkallað sjúkdómseinkennin og þess vegna brýst sjúkdómurinn einmitt út þar sem hundar eru undir álagi, eins og á hóteli, sýningum eða námskeiðum.

Einkennin

eru, eins og fyrr segir, þurr hósti sem minnir á slæman kíghósta, enda veldur  frænka Bordetellasýkilsins  kíghósta hjá fólki. Hóstinn byrjar allt í einu og hundurinn er síhóstandi bæði dag og nótt og stundum er hóstinn svo slæmur að hundurinn kúgast og getur jafnvel kastað upp. Hóstinn minnkar venjulegast á 5 dögum, en hóstakjöltur geta þó heyrst næstu 2 – 3 vikurnar. Alla jafna er hundurinn ekki veikur að öðru leyti; er hress, étur vel og er hitalaus. Við áreynslu eða hreyfingu eykst hóstinn gjarnan.

Í einstaka tilfelli getur lungnabólga fylgt í kjölfarið og þá verður hundurinn lasinn, fær hita, missir matarlystina og hóstar upp slími.

Sjúkdómsgreining

Grunur um hótelhósta ætti að vakna byrji hundur að hósta þurrum og djúpum hósta t.d. 5 – 10 dögum eftir dvöl á hundahóteli eða öðrum stað þar sem margir hundar voru samankomnir.

Meðferð

Engin sérstök meðferð er við hóstanum og í flestum tilfellum gengur sjúkdómurinn yfir á 2 – 4 vikum sem fer eftir því hve fljótt ónæmiskerfi hundsins nær að byggja upp vörn. Mikilvægt er auðvitað að fara vel með hundinn, halda honum í ró, hlýju og streitulausu umhverfi.

Sé hóstinn mjög slæmur má reyna að gefa hundinum hóstastillandi lyf og halda honum í ró, því hlaup, æsingur og kuldi auka hóstaköstin. Fái hundurinn ekki að jafna sig í ró og næði gæti það hugsanlega leitt til þess að hóstinn verði langvinnur. Sýklalyf eru einungis gefin komi bakteríusýking í kjölfarið og hundurinn fái hita.

Fyrirbyggjandi aðgerðir?

Vegna þess hve hótelhóstinn er bráðsmitandi, meðgöngutíminn langur og smitberarnir einkennalausir, þ.e. hósta ekki, getur verið afskaplega erfitt að forðast smit.

Á markaðnum eru til bóluefni og kom eitt þeirra á markað hér á landi sl. ár (BronchiShield). Umrætt bóluefni er lifandi og gefið í nös, en margir þeirra sem hafa verið bólusettir hafa fengið slæman hósta. Því miður veitir bóluefnið takmarkaða vörn; reyndar er talið að bólusetning veiti aðeins vörn hjá um helmingi bólusettra hunda (40 – 50%), en þeir fá þá mildari einkenni sjúkdómsins en hinir óbólusettu.

Hóstandi hundur er smitberi, svo það er auðvitað sjálfsögð tillitssemi við „aðra“ hunda að halda honum frá þeim og mæta hvorki með hann á sýningu, hótel, námskeið eða aðra þá staði þar sem margir hundar eru samankomnir, sérstaklega innanhúss!

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd