Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Sjúkdómar í íslenzkum fjárhundi

Höfundur: • 18. júl, 2022 • Flokkur: Hundar

skjamba

Telja má að hundurinn okkar, íslenzki fjárhundurinn, sé nokkuð heilbrigður hundur þrátt fyrir að hafa verið í útrýmingarhættu um langt árabil vegna lítillar stofnstærðar og mikils skyldleika. Sem betur fer vakti Íslandsvinurinn og áhugamaðurinn um íslenzka fjarhundinn, Mark Watson, athygli Íslendinga á þessari þjóðargersemi okkar og vonandi hefur tekizt með markvissri ræktun að snúa dæminu við. 

Þrátt fyrir þessa litlu stofnstærð, og fullmikinn skyldleika, eru arfgengir og meðfæddir kvillar sem betur fer ekki margir, en fjölgar þó því miður. Þar má helzt nefna starblindu (katarakt), en um aldamótin síðustu var sá sjúkdómur talinn óþekktur í hundinum hér á landi. Þegar staðfest tilfelli lágu hins vegar fyrir í íslenzkum hundum í nágrannalöndum okkar, ákvað þáverandi stjórn DÍF að ráðast í markvissa augnskoðun á stofninum og fékk danska augnsérfræðinginn Finn Boserup til þess að fylgja verkefninu úr hlaði með styrk frá HRFÍ. Um 100 hundar voru skoðaðir og var ekki að orðlengja, að í þessari fyrstu skoðun fundust nokkrir hundar með starblindu, svo hugsanlega hefur þessi alvarlegi augnsjúkdómur verið lengur í stofninum en talið var.

Gaman er að geta þess, að íslenzki fjárhundurinn er afar langlífur hundur og er alls ekki óalgegnt að hann nái háum aldri með þokkalegri heilsu.

Yfirgripsmikil rannsókn sem var gerð á skyldleika hundsins sýndi að hér á landi fundust, þegar rannsóknin var gerð, nokkrir hópar (fjölskyldur) hunda sem voru ekki mikið skyldir, gagnstætt hundum erlendis, t.d. í Skandinavíu, þar sem flestir hundanna tilheyrðu einni og sömu fjölskyldunni. Rannsóknin gagnaðist í ræktunarstarfinu með því að koma í veg fyrir, eða minnka, skyldleikaræktun og koma þar með í veg fyrir að arfgengir sjúkdómar gætu næðu yfirhöndinni vegna innræktunar.

Til gamans má geta þess, að til er fryst sæði úr hundi sem tilheyrði sjaldgæfasta fjölskylduhópnum og var hann raunar sá eini sem eftir var úr þeim hópi!

Á mörgum undanförnum árum hefur deild íslenzka fjárhundsins því lagt mikla áherzlu á að hvetja ræktendur til að nota undaneldishunda úr sem flestum fjölskylduhópunum til að breikka genamengið – og minnka hættu á arfgengum sjúkdómum. (Sjá yfirlit um „fjölskylduhópa“ á Norðurlöndum).

Ábyrgð ræktenda íslenzka fjárhundsins er mikil, því á þeirra herðum hvílir framtíð íslenzka hundsins og jafnframt sú skylda að nota einungis heilbrigð dýr til undaneldis.

Það er einnig mikilvægt, að ræktendur geri sér ljóst mikilvægi þess að búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á hundinum og fylgja um leið þeim reglum sem díf setur ræktendum varðandi  heilbrigðiseftirlit, svo sem mjaðmamyndatöku (frá 12 mánaða aldri) og augnskoðun (frá 6 mánaða aldri).

Eftir að hafa fylgst með íslenzka fjárhundinum um áratugaskeið sem dýralæknir, er gott að geta sagt að hundurinn tilheyri heilbrigðum stofni þó aldrei sé hægt að útiloka að einstaklingar veikist hvort heldur þeir eru íslenzkir hundar eða ekki.

Almennt heibrigði hundsins

er gott og hann ekki kvillasamari en aðrar tegundir nema síður sé. Eyrnabólgur eru (nánast) óþekktar og tannheilbrigði gott og varla að sjáist tannsteinn, þó alltaf sé til bóta að bursta tennurnar.  Fylgjast þarf með sporum sem geta vaxið í hring inn í þófa sem er afar sársaukafullt. Feldhirða er lítil nema á hárlosunartímabilinu, en annars er heilbriður feldur nánast sjálfhreinsandi! Mjaðmalos virðist ekki valda vandræðum, en gigt getur látið á sér kræla hjá gömlum hundum sem hægt er að meðhöndla með gigtarlyfjum. Hjartakvillar eru afar fáséðir, en ofnæmi og óþol er eitthvað sem þarf að hafa augu á.

Eftirfarandi sjúkdómar hafa verið staðfestir í íslenzkum fjárhundum hér á landi, þó tæplega sé hægt að fullyrða að listinn sé tæmandi.

Ónæmiskerfið

Mikill skyldleiki getur veikt ónæmiskerfi einstaklingsins og valdið sjúkdómum eins og ofnæmi og óþoli. Kláð, t.d. að sumarlagi, er þekktur í hundinum og einnig einkenni frá meltingarvegi eins og lystarleysi samfara miklum gauragangi og depurð.

Mjaðmalos

Umræðan um mjaðmalos hefur verið umtalsverð og valdið mörgum áhyggjum bæði hér heima og erlendis. Í Danmörku var meira að segja rætt um það í fullri alvöru, að gera tilraunir með íblöndun annars hundakyns við stofn íslenzka hundinn þar í landi til að lækka tíðni mjaðmaloss!

Í lok ársins 2005 höfðu 317 hundar verið myndaðir hér á landi og samantekt á niðurstöðum sýndi að af þeim voru 208 án einkenna (A/B) eða 65%, 43 hundur var með C-mjaðmir eða 14%, 45 hundar með D- mjaðmir eða 14% og 21 hundar greindust med E-mjaðmir eða 7%.

Þrátt fyrir að þriðjungur hunda, að meðaltali, greinist með breytingar á mjaðmaliðum (C-E), er sem betur fer afar fátítt að ungir og yngri hundar sýni klínísk einkenni sjúkdómsins  þó gigtin  geti plagað þá með aldrinum!

Röntgenmynd af heilbrigðum mjöðmum

Röntgenmynd af heilbrigðum mjöðmum

– og hér sjást miklar breytingar

Starblinda (Cataract)

Starblinda er sjúkdómur í augnlinsunni sem veldur því að hún verður gruggug og ógegnsæ. Breytingarnar leiða smám saman til blindu.

Við augnskoðun sjást eins og þrjú jafnarma strik í linsunni sem er staðfesting á starblindu

– en svona sér eigandinn augað

Arfgeng starblinda sem getur verið meðfædd, áunnin eða arfgeng, finnst í mörgum hundategundum og því miður bætast sífellt nýjar tegundir við í hópinn eins og sannaðist hjá íslenzka fjárhundinum.

Dæmigerð linsa í íslenzkum fjárhundi með starblindu. Þríhyrningurinn er í linsunni.

Dæmigerð linsa í íslenzkum fjárhundi með starblindu. Þríhyrningurinn er í linsunni.

Staðfest var að arfgeng starblinda hefði fundizt í íslenzkum hundum erlendis, en þeir hundar sem höfðu verið augnskoðaðir hér höfðu allir reynzt heilbrigðir. Í þeim tilgangi að skoða ástand stofnsins réðst díf í það verkefni, eins og að framan segir, að efna til sérstakrar augnskoðunar. Skoðunin fór fram í nóvember 2003 og var það nokkuð áfall, en kannski ekki óvænt, þegar  5 hundar fundust með arfgenga starblindu.  Það sem var e.t.v. alvarlegast var að nokkrir þeirra voru innan við ársgamlir. Í samráði við Finn Boserup , ráðgjafa díf, var ákveðið að taka þessa alla þessa hunda úr ræktun og að jafnframt skyldi hvorki alið undan foreldrum þeirra eða systkinum.

Díf fór fram á að þau skilyrði yrðu sett, í samráði við HRFÍ að frá 1. janúar 2005 fengjust íslenzkir fjárhundshvolpar ekki skráðir í ættbók nema foreldrarnir væru augnskoðaðir, en augnvottorðið má ekki vera eldra en 18 mánaða við pörun.

Við augnskoðunina dagana 28. – 29. október 2005 greindist svo ungur hundur með arfgenga starblindu svo samtals fundust strax 6 hundar með sjúkdóminn.

Stjórn díf hefur hvatt alla eigendur íslenzkra hunda að láta augnskoða þá strax 6 mánaða og síðan reglulega á a. m. k. 18 mánaða fresti eftir það.

Visnun í hornhimnu (Corneal Dystrophy)

Tvö hornhimnuvisnunar í glæru hafa verið staðfest í augnskoðun, en það stafar af útfellingu lípíðkristalla í glærunni sem mynda misstóra, hvíta flekkir í öðru auga eða báðum.

Ástæðan er óþekkt, þó hugsanlega megi rekja ástæðuna í einhverjum tilfellum til undirliggjandi sjúkdóma, eins og vanstarfsemi skjaldkirtils. Engin lækning finnst en bent er á, að minnka megi fituinnihald þess fóðurs sem hundurinn fær.

Sjónumisvöxtur (Retinal Dysplasia)

Á sjónunni sjást fellingarnar sem lítil svört strik

Á sjónunni sjást fellingarnar sem lítil svört strik

hefur verið staðfest í einum hundi. Þá myndast felling/fellingar á sjónunni sem þá losnar frá undirlaginu og hefur venjulegast engin áhrif á sjálfa sjónina. Sjónumisvöxturinn getur verið algjörlega tilfallandi þó hann sé arfgengur í sumum hundategundum og geti leitt til blindu.

Vanstarfsemi skjaldkirtls

Fyrir nokkrum árum voru staðfest tilfelli vanstarfsemi í skjaldkirtil (Hypothyreodisme) í tveimur alsystkinum. Ástæðan getur annað hvort verið bilun í ónæmiskerfi líkamans eða stafað af óþekktri ástæðu. Þessi sjúkdómur getur verið arfgengur.

Skjaldkirtillinn, sem er staðsettur framan á hálsinum, skiptist í tvo hluta sitt hvoru megin við barkann, gefur frá sér hormónið týroxín sem stjórnar meðal annars efnaskiptum líkamans og hefur jafnframt áhrif á líkamsstafsemina og mörg líffæri svo sem húð, hjarta og meltingarfæri.

Nabbasótt í hvolpum

Sár myndast kringum augu og trýni

Sár myndast kringum augu og trýni

Nabbasótt leggst á unga hvolpa og þó ástæða hennar sé óþekkt er hún jafnvel talin stafa af skertu ónæmi hvolpsins.

Fyrstu einkennin eru bólgur kringum augu, trýni og í eitlum undir kjálkabarði. Þetta er frekar sjaldgæfur sjúkdómur en virðist leggjast þyngra á íslenzka fjárhundshvolpa en hvolpa af öðrum hundategundum.

Tannskortur

Nokkuð hefur boðið á tannskorti og hefur þá aðallega vantað einn eða fleiri framjaxla (P1 -P4). A.m.k. eitt tilfelli er þekkt þar sem hundinn vantaði fullorðinsframtennur.

i = framtennur, C = vígtennur, P = framjaxlar (P1 – P4), M = jaxlar

Hér vantar framjaxl (P 4)

Flogaveiki

Staðfest er eitt tilfelli flogaveiki í tík úr stórum systkinahópi. Flogaveiki er þekkt í öllum tegundum hunda og þarf ekki að vera arfgeng.

Nýrnasjúkdómar

Grunur hefur leikið á um (arfgenga) nýrnabilun og þá sérstaklega í íslenzkum hundum Danmörku fyrir mörgum árum. Í dag munu einhver tilfelli til viðbótar hafa fundizt um nýrnabilun hjá skyldum hundum í Finnlandi.

Ófrjósemi

Ófrjósemi hjá hundum og tíkum getur stafað af mörgum ástæðum. Hjá hundum getur ófrjósemin stafað af rýrnun í (báðum) eistum, hugsanlega af völdum sýkingar, og þ.a.l. engri myndun sáðfruma.

Tíkur eru sárasjaldan ófrjóar, en frjósemin minnkar auðvitað með aldrinum af eðlilegum ástæðum og þá aukast einnig líkur á sýkingu í legi, þ.e. legbólgum. Ástæða ófrjósemi getur einnig stafað af innræktun, þ.e. of miklum skyldleika.

Launeistu

Sjást af og til og algengast er að annað eistað sé staðsett í náragöngum eða kviðarholi. Sjaldgæfara er að bæði eistun séu í kviðarholi, en þá er hundurinn líka algjörlega ófrjór.  Það er arfgengur kvilli séu eistu, annað eða bæði, ekki rétt staðsett.  (Sjá grein um kynþroska hunda).

Krabbamein

Krabbamein er sem betur fer mun fátíðara í íslenzkum fjárhundi en mörgum öðrum hundategundum. Tíðni krabbameinsæxla í júgri er frekar lág, en þau geta hins vegar verið frekar illskeytt.

Góðkynja æxli í eistum sjást hugsanlega oftar í íslenzkum hundum en öðrum hundategundum. Lækningin er auðveld, veika eistað er einfaldlega fjarlægt (passa að heilbrigða eistað sé ekki fjarlægt).

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd