Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Hótelhósti

Höfundur: • 13. jan, 2022 • Flokkur: Hundar

 

Undanfarið hefur borið meira á öndunarfærasjúkdómum í hundum en venjulega a.m.k. hér á höfHótelhóstiuðborgarsvæðinu sem hefur vakið  grun um hugsanlegan smitsjúkdóm, jafnvel hótelhósta. 

Reyndar hefur hótelhósti aldrei verið staðfestur hér á landi þó einkenni svipuð honum hafi skotið upp kollinum öðru hverju og margir hundar lasnast á sama tíma.   

Þegar einangrun innfluttra hunda hefur verið stytt í 2 vikur, má velta því fyrir sér hvort smit geti hugsanlega hafa borizt með innfluttum hundi, sérstaklega þegar vitað er að hundur sem hefur náð sér eftir hótelhósta getur verið heilbrigður smitberi í jafnvel 3 mánuði.     

Hótelhósti

eða smitandi barka- og berkjubólga (Infektiøs tracheobronchitis), er bráðsmitandi sjúkdómur  sem nær yfir lungu og öndunarveg hunda og veldur misalvarlegum veikindum gjarnan með þurrum hósta eins og nafnið bendir til.

Hótelhósti brýst gjarnan út þar sem margir hundar eru samankomnir til dæmis á hundahótelum og af því dregur sjúkdómurinn nafn sitt, á hundasýningum og námskeiðum. Hann er sem betur fer í flestum tilfellum hættulítill sjúkdómur, alvarleg tilfelli sjaldgæf og flestir hundar ná sér að fullu. En berist hann í mjög unga hvolpa getur hann þó reynst þeim skeinuhættur.

Orsök

hótelhóstans er sambland smitefna, veira og baktería, í öndunarvegi hundsins. Veirurnar eru parainflúenzuveira og adenóveira (Canine adenovirus2/CAV2), en bakterían er Bordetella bronchiseptica. Algengasta orsök sjúkdómsins er sambland parainflúenzuveirunnar og bordetellabakteríunnar.

Parainflúenzuveiran ræðst á yfirborð efri hluta öndunarvegarins og veldur ein og sér frekar vægum einkennum sem minna á kvef. Adenóveiran, sem leggst á lungun, veldur heldur verri einkennum eins og berkjubólgum, lungnakvefi og snörli í nefgöngum. Bætist bakterían Bordetella bronchiseptica hins vegar í hópinn, sem er ekki óalgengt, tekur hún sér bólfestu á þekjuhárum í lungum og öndunarvegi og veldur þurrum og djúpum hósta sem minnir á kíghósta hjá fólki. Hótelhósti minnir um margt um kíghósta enda veldur frænka Bordetellabakteríunnar í hundum kíghósta (Bordetella pertussis) hjá fólki.

Streita og álag, léleg loftgæði, raki, kuldi og trekkur getur svo allt lagt sitt af mörkum til alvarlegri veikinda og framkallað fylgikvilla af völdum annarra sóttkveikja.

 

Einkenni

hótelhósta geta verið margvísleg eða allt frá því að vera mild með lítils háttar slappleika og lystarleysi til slæms hósta og jafnvel lungnabólgu.

En sem betur fer verða fæstir hundar mikið veikir og ná sér venjulegast á nokkrum dögum.

Í byrjun sést smá hiti, lystarleysi og rennsli úr augum og nösum og nær hundurinn sér fljótt nema nái sýkillinn að fjölga sér. Um viku (2 – 14 dögum) eftir smit koma aðaleinkenni hótelhóstans, þurr hósti, í ljós og hundurinn er síhóstandi bæði dag og nótt. Hóstinn getur orðið svo slæmur að hundurinn kúgast og getur jafnvel kastað upp. Venjulegast minnkar hóstinn á 5 dögum þó hóstakjöltur geti heyrst næstu 2 – 3 vikurnar, sérstaklega við áreynslu. Alla jafna er hundurinn þokkalega hress að öðru leyti, étur vel og er jafnvel hitalaus.

Þekkt er að í einstaka tilfelli geta alvarlegir fylgikvillar eins og lungnabólga með hita, fylgt í kjölfarið og auðvitað eru hvolpar viðkvæmari fyrir sjúkdómnum en fullorðnir hundar.

Benda má á að eðlilegur líkamshiti hunds er 38.5 – 39.0°C og einfalt er að mæla hundinn með hitamæli í endaþarm.

Sjúkdómsgreining

er í flestum tilfellum einföld þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Hundurinn hóstar þurrum og djúpum hósta 5 – 10 dögum eftir dvöl á hundahóteli eða öðrum stað þar sem margir hundar voru samankomnir.

Vert er að taka aftur fram, að sem betur fer hefur hótelhósti ekki enn verið staðfestur hér á landi, en spurning er hversu lengi sem við höldum þeim forréttindum!

Smitleiðir

Hótelhósti er ofursmitandi. Smitefnið dreifist með dropasmitum sem þyrlast í umhverfi hundsins þegar sýktur hundur hóstar, en smitefnið berst einnig milli hunda með beinni snertingu, (óhreinum) skálum, fatnaði og (óhreinum) höndum!

Erfitt getur verið að forðast smit þar sem meðgöngutími frá smiti og þar til einkenni gera vart við sig er frekar langur eða 3 – 7 (5 – 10) dagar, þ.e. frá því að hundurinn smitast og þar til einkenni koma í ljós. Á meðan er hann auðvitað smitberi og sé hann innan um margra hunda, er veruleg hætta á að hann smiti þá flesta, ef ekki alla. Hundar geta reyndar myndað eðlilegt ónæmi gegn sjúkdómnum þar sem hann er landlægur og veikjast því ekki þó þeir hitti smitaðan hund, á meðan aðrir eru óvarðir og veikjast og hundur getur auðveldlega endursmitast af hótelhósta.

Mikilvægt er að muna, að eftir staðfestan grun um hótelhósta getur hundurinn verið heilbrigður smitberi í allt að þrjá mánuði eftir að hafa náð bata.

Meðferð

Engin sérstök meðferð er við hóstanum og í flestum tilfellum gengur sjúkdómurinn yfir á 2 – 4 vikum sem fer eftir því hve fljótt ónæmiskerfi hundsins nær að byggja upp vörn.

lmennt krefst hann ekki meðhöndlunar nema minnka má einkennin með hóstastillandi mixtúru, en komi  bakteríusýking í kjölfarið þarf oft að gefa sýklalyf.

Mikilvægt er auðvitað að fara vel með hundinn, hlúa vel að honum, halda í ró í hlýju og streitulausu umhverfi til að hann nái að jafna sig fljótt og vel.

Bólusetning

Þar sem orsakavaldarnir eru fleiri en einn og bæði veirur og bakteríur, er flóknara að fyrirbyggja sjúkdóminn með bólusetningum en ætti aðeins einn skaðvaldur hlut að máli.

Hér á landi eru flestir hundar vel bólusettir með margþátta bóluefninu Recombitek (Merial). Það inniheldur, auk mótefnavaka gegn smáveirusótt (Parvo) og smitandi lifrarbólgu (HCC), mótefnavaka gegn bæði parainflúenzu- og adenóveirunni CAV-2. Því miður er sú vörn sem það veitir gegn flenzu- og adenóveirunni frekar skammvinna, jafnvel skemmri en ár, miðað við margra ára vörn gegn parvó og smitandi lifrarbólgu.

Bóluefnið inniheldur hins vegar ekki mótefnavaka gegn bakteríunni Bordetella bronciseptica. Erlendis er til sérstakt ,,lifandi“ bóluefni gegn henni og parainflúenzunni í formi nefúða, en þá eru notaðar lifandi, en veiklaðar veirur og bakteríur, sem mótefnavakar til að virkja ónæmiskerfið. Það veitir því miður einnig frekar skammvinna vörn, varla ár, og því getur bólusettur hundur smitast af hótelhósta þó bólusettur sé, þó einkennin verði almennt vægari.

Vandamálið við bóluefni í formi nefúða er að það getur reynzt erfitt að sprauta því upp í nefgöngin á hundinu sem finnst það hreint ekki þægilegt og hnerrar því út um allt! Geta má þess, að fyrir allmörgum árum fékkst hér bóluefni, ætlað í nös og átti að veita vernd gegn hótelhósta (?), en þá hafði orðið vart við einhverja hnerrapest í hundum sem virtist smitandi. Hnerrinn hvarf að sjálfu sér svo sjálfhætt var að nota það.

Og þar sem hótelhósti hefur ekki enn verið staðfestur hér á landi, sem betur fer, hefur heldur ekki verið ástæða til að bólusetja gegn sjúkdómnum.

Getur fólk smitast af hótelhósta?

Hótelhósti er svokölluð súna (Zoonosis), þ.e. að hann getur smitað fólk þó í algjörum undantekningartilfellum sé, enda er bakterían sem veldur hótelhóstanum náskyld bakteríunni sem veldur kíghósta í fólki eins og áður segir.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Vegna þess hve hótelhóstinn er bráðsmitandi, meðgöngutíminn langur og smitberarnir geta verið algjörlega einkennalausir svo vikum skiptir eftir afstaðin veikindi, getur verið afskaplega erfitt að hefta útbreiðslu sjúkdómsins komi upp faraldur af hótelhósta. Þess vegna er mikilvægt, leiki grunur hótelhósta, eða á hvaða á smitfaraldri sem er, að forðast að fara með hundinn á þá staði þar sem margir hundar eru samankomnir.

Heimildir:Veraldarvefurinn

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Comments are closed.