Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Spóluormar í hundum (Toxocara canis)

Höfundur: • 3. jan, 2006 • Flokkur: Hundar

Aðalhýsill spóluormsins er hundurinn, en hann finnst einnig í refum og öðrum dýrum. Spóluormar eru algengari í hvolpum og ungum hundum en fullorðnum einstaklingum.

Smitleiðir eru margar. Smit getur borizt í fóstur um fylgju (lirfur) sem veldur því að hvolparnir fæðast fullir af ormum, lirfur berast með móðurmjólkinni í hvolpana, egg spóluormsins menga umhverfið og hundar geta smitast við að éta sýkta millihýsla.

Millihýslar eru fuglar, meindýr, hundurinn sjálfur og maðurinn. Smit í fólk  (toxocarosis) er sem betur fer afar fátítt hér á landi, ef ekki óþekkt.

Einkenni ormasmits í hundum eru  þessi helzt:

  • Niðurgangur og/eða uppköst,
  • hósti,
  • depurð,
  • þaninn kviður,
  • hægðatregða og
  • úfinn og ljótur feldur.
Spóluormarnir geta orðið allt að 18 cm langir og eru hvítir eða gráhvítir á litinn.

Spóluormarnir geta orðið allt að 18 cm langir og eru hvítir eða gráhvítir á litinn.

Eggin eru aðeins ílöng og klístrug og líma sig við flest það sem á vegi þeirra verður. Þau eru afar lífseig og geta lifað í umhverfinu svo mánuðum og jafnvel árum skiptir.  Mikill fjöldi eggja finnst í saur ormaveikra hvolpa og geta allt að 15.000 egg skilist út daglega með hverju grammi saurs.

Sjúkdómsgreiningin er auðveld; ormar í saur eða ormar í uppkasti! Einnig er hægt að staðfesta smit með skoðun á saursýni. Ormaveikir hvolpar eru óþriflegir, vambmiklir með ljótan feld og jafnvel horaðir.

Lífsferill spóluormsins

  1. Eggin
  2. Eggin skiljast út með saur í umhverfið og
  3. þar étur hundurinn, hvolpurinn eða millihýsillinn þau.
  4. Lirfurnar berast með blóðrásinni um líkamann og enda í þörmum þar sem þau ná kynþroska.
  5. Lirfur úr bráð verða að kynþroska ormum í þörmum hundsins.
  6. Lirfurnar berast um líkamann, sumar ljúka ferðalaginu í þörmunun en aðrar leggjast í dvala. Verði tíkin hvolpafull vakna þær til lífsins og fara á kreik.
Lífsferill spóluormsins

Lífsferill spóluormsins

Fullorðnir hundar smitast oftast af því að éta sýktan millihýsil (5). Í honum hefur ormurinn þroskast svo vel, að um leið og hann berst ofan í hundinn verður hann kynþroska í þörmum hans. Hundurinn getur einnig smitast við að fái í sig egg (3) sem  klekjast í lirfur í maganum fyrir tilverknað magasýranna. Lirfurnar (L2) bora sig í gegnum  þarmavegginn í blóðrásina og berast með henni í lifur og lungu. Þær lirfanna sem ná til lungnanna, berast upp barkann í kokið og þaðan  hóstar hundurinn þeim upp í munninn, kyngir og lirfurnar ljúka þroskaferlinu í þörmunum. Margar lirfur dreifast með blóðrásinni vítt um líkamann og leggjast tímabundið í dvala. í stoðvefjunum (vöðvum).

Hvolpafullar tíkur: Á síðasta þriðjungi meðgöngu, þ.e. á 42.- 47. degi meðgöngunnar, endurvekjast þær lirfur sem hafa legið í dvala í líkamanum (6) og berast með blóðrásinni um fylgju til fósturs. Þess vegna fæðast nær allir hvolpar sýktir af spóluormum.

Hvolpar: Tíðni ormasmits er hæst í hvolpum (og unghundum), enda smitast þeir strax í móðurkviði og fæðast sýktir. Rétt fyrir fæðinguna fara lirfurnar til lungnanna og þaðan í þarmana og hvolparnir fæðast fullir af ormum . Ormarnir verða brátt kynþroska og tveimur vikum seinna er saurinn fullur af eggjum sem menga umhverfið (og endursmita tíkina og hvolpana). Um leið berast lirfur (L3) í hvolpana með móðurmjólkinni,  endursýkja þá jafnhraðan og smitið í umhverfinu viðhelst.

Smitálag á hvolpa og tík er því verulegt og mest fyrstu vikurnar í lífi þeirra. Þess vegna er afar mikilvægt að meðhöndla bæði hvolpa (og aðra hunda á heimilinu) með ormalyfjum á þessum tíma.

Tíðni smits í hvolpum og fullorðnum hundum á Íslandi

Spóluormur hundsins er eini þráðormurinn sem hefur fundizt á Íslandi. Árið 1996  en 6 hvolpum af  31 á aldrinum 5 – 6 vikna og í 1 hvolpi af 25 á aldrinum 2 – 12 mánaða.

Einnig hafa mótefni gegn þráðormum verið mæld í blóði hunda hér á landi og reyndust 23% rannsakaðra hunda hafa sýkst af spóluorminum Toxocara canis.

Smit í fólk

Spóluormasmit er svokölluð súna (zoonosis), þ.e. dýrasjúkdómur sem getur borizt í fólk. Stærsti áhættuhópurinn er börn og fólk sem haldið er ónæmisbælandi sjúkdómum – og reyndar einnig dýralæknar sem eru daglega í mjög náinni snertingu við hunda! Einkennin eru flensuleg eins og t.d. hósti, hæsi og astmi. Alvarlegri einkenni eru afar sjaldgæf. (Larva migrans viscerale/Larva migrans oculare).

Almennt er talið að helztu smitleiðir í fólk séu með menguðum jarðvegi (menguðum með eggjum spóluormsins), því eggin eru afar lífseig og geta lifað í umhverfinu svo mánuðum og jafnvel árum skiptir. Nýlega hefur þó sú kenning komið fram, að hugsanlega geti fólk allt eins smitast með beinni snertingu við hund eins og snertingu við mengaðan jarðveg, því spóluormaeggin geti setið fastlímd í feldi hundsins.

Smitvarnir og meðferð

Mikilvægasta smitvörnin felst auðvitað í að meðhöndla hundana reglulega með lyfjum gegn spóluormum og að viðhafa fyllsta hreinlæti.

Hvolpar:  Gefa skal hvolpum spóluormalyf frá 2ja vikna aldri og síðan á 2ja vikna fresti (4, 6, 8 og 10 vikna) eða þangað til þeir fara að heiman og jafnvel lengur, sé það talið nauðsynlegt.

Hvolpafullar tíkur:  Gefa skal spóluormalyf frá 42. degi meðgöngu a.m.k. í 3 daga samfleitt, jafnvel fram að goti og eftir það um leið og hvolpunum.

Fullorðnir hundar: Gefa skal spóluormalyf 1. – 2. á ári.

Mikilvægt er að benda á, að ormasmit er venjulega mun meira erlendis en hér á landi og getur því verið sérstaklega hátt í innfluttum hundum, einkum þeim sem koma frá hundabúum. Þess vegna er mjög mikilvægt að meðhöndla innfluttar, hvolpafullar tíkur og hvolpa undan þeim eins og hér er ráðlagt að ofan.

Spóluormalyf fást í lausasölu í apótekum og hér á stofunni fæst spóluormalyf í kvoðuformi sem er sérstalega ætlað hvolpum og mjög auðvelt að gefa.

Dýralæknarnir hér á stofunni hvetja ræktendur til að fara mjög vandlega eftir ofangreindum leiðbeiningum.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd