Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Smitandi lífhimnubólga í köttum – FIP

Höfundur: • 7. mar, 2006 • Flokkur: Kettir

Smitandi lífhimnubólga í köttum (Feline Infectious Peritonitis) er ekki  algengur sjúkdómur, en hins vegar mjög alvarlegur og hefur til skamms tíma verið talinn algjörlega ólæknandi. Sjúkdómurinn leggst aðallega á unga ketti og er dánartíðnin þeirra katta sem veikjast mjög há, eða nærri 100%.

Margir þættir geta orðið þess valdandi að köttur veikist, smitist hann af veirunni og má þar nefna magn og hversu meinvaldandi hún er, aldur kisu, tegund og streituálag í umhverfi hennar.

Kórónaveiran sem veldur almennt vægum einkennum hjá flestum kisum getur hins vegar stökkbreytzt og er stökkbreytingin einkennandi fyrir hvern einstakling, þ.e. veldur sem sagt ekki alltaf eins einkennum.

Enn er ekki þekkt hvers vegna veiran stökkbreytist og þá alls ekki hvers vegna stökkbreytingin er einstaklingsbundin.

Rannsóknir miðast nú að því að skoða hvort mögulegt sé að sjá fyrir, og þá hvort, hjá hvaða einstaklingi veiran muni stökkbreytast.  Rannsóknirnar hafa leitt í ljós að tveir staðir á erfðamengi hverrar kattategundar eru afgerandi fyrirhvort stökkbreyting veirunar muni eiga sér stað eða ekki. Þá verður hugsanlega mögulegt að nota aðeins heilbrigða einstaklinga í ræktun, þ.e. þá einstaklinga sem eru lausir við þá staði í erfðamenginu þar sem stökkbreytingin á sér stað.

Smitandi lífhimnubólga er mun algengari hjá hreinræktuðum köttum en venjulegum heimilisköttum og sumar kattategundir, svo sem síams, burma- og persakettir eru  mun móttækilegri fyrir sjúkdóminum en aðrar tegundir.

Orsök

Orsök sjúkdómsins er kórónaveira (FCoV), en af henni finnast mörg afbrigði, eða stofnar, sem eru misjafnlega sjúkdómsvaldandi, en flestir þeirra valda sem betur fer aðeins smávægilegum og saklausum niðurgangskvillum í köttum.

Stofnarnir FECV (Feline Enteric Corona Virus) og FIPV (Feline Infectious Peritonitis Virus) eru þeir stofnar veirunnar sem skipta máli fyrir köttinn. Stofninn FECV er mjög algengur og  veldur engum eða vægum klíniskum einkennum, en FIPV er hins vegar skaðvaldurinn sem veldur sjúkdóminum sem við köllum smitandi lífhimnubólgu. Reyndar eru skilin milli stofnanna flókin og þeir eru einnig misjafnlega meinvaldandi.

Veiran veldur aðeins alvarlegasta sjúkdómsafbrigðinu komist hún inn í ákveðnar blóðfrumur, gleypifrumur (macrophage), þar sem hún fjölgar sér og dreifist með blóðrásinni um líkamann. Hvers vegna það gerist er ekki vitað og er reyndar eitthvað sem enginn kann skýringu á.

Í raun má segja að nafn sjúkdómsins, þ.e. smitandi lífhimnubólga, sé villandi, því hann veldur ekki bara lífhimnubólgu, heldur skemmir æðar, veldur æðabólgum og sýkingum í líffærum og stafa klínisk einkenni hans af því hvaða æðar skemmast og til hvaða líffæra skemmdu æðarnar liggja.

Smit  og smitdreifing

Kórónuveiran FCoV er mjög smitandi og smitar nánast hvern þann kött sem kemst í snertingu við hana. Aðalsmitleiðin er annað hvort bein, þ.e. með saur, eða óbein, þ.e. með saurmenguðum hlutum svo sem afnotum af sama sandkasanum, saurmenguðum matarílátum, óhreinum snyrtiáhöldum, óhreinum fatnaði, skófatnaði eða óhreinum höndum. Smit getur einnig borizt í ketti við feldhirðu þegar veirumenguð hár  þyrlast upp og kisa andar þeim að sér.

Kisa A (1) er heilbrigður smitberi sem dreifir veirunni allt í kringum sig (2) og smitar kött B. Kisa A (3) losnar við veiruna, en kisa B skilur nú út veiru og endursmitar köttinn A (5). Kisa B losnar við veiruna (6) en þá er kisa A (5) byrjuð á nýjan leik.

Kisa A (1) er heilbrigður smitberi sem  dreifir veirunni allt í kringum sig (2) og smitar kött B. Kisan A (3) losnar við veiruna, en kisa B skilur nú út veiru og endursmitar köttinn A (5). Kisa B losnar við veiruna (6) en þá er kisa A (5) byrjuð á nýjan leik.

Smit getur, í algjörum undantekningartilfellum, einnig átt sér stað um fylgju til fósturs og fæðast kettlingarnir þá ýmist veikburða eða dauðir.

Flestir kettir veikjast á aldrinum 6 – 24 mánaða, en geta smitast strax  5 – 7 vikna þegar mótefnin, sem þeir fengu gegn sjúkdóminum frá læðunni með broddmjólkinni, hafa lækkað það mikið að þau veita ekki lengur vernd.

Við smit fjölgar veiran sér fyrst í kokinu, en síðan aðallega og nær eingöngu í slímhúð þarmanna. Smitdreifingin á sér stað með saurnum, en veiran getur dreifst með munnvatni í upphafi smits.

Þegar kisa smitast af veirunni FCoV, gerist  eitt af  eftirfarandi:

 1. Kisa fær sjúkdóminn smitandi lífhimnubólgu.
 2. Veiran fjölgar sér, mótefni myndast í blóðinu og það myndast ónæmi gegn veirunni sem hættir að fjölga sér, mótefnin lækka og hverfa með tímanum (<10). Flesti kettir (58% ) skilja veiruna út í um mánaðartíma, en hér um bil allir kettir (95%) eru lausir við hana 9 mánuðum eftir smit. Á meðan veiran er í líkamanum er kötturinn heilbrigður smitberi, þ.e. skilur út veiruna í saurnum.
 3. Kisa losnar ekki við veiruna (13%) og verður þ. a. l. heilbrigður smitberi ævilangt. Sumir þessara katta geta verið með langvarandi niðurgang.
 4. Einhverjir kettir (4%) virðast svo hafa algjöra mótstöðu gagnvart veirunni, skilja  hana ekki út með saur og mótefnamyndunin er vart mælanleg þrátt fyrir smit.

Sjúkdómseinkenni

af völdum veirunnar FCoV eru mörg, en oftast væg þegar um er að ræða smit með veiru af stofnium FECV. Stundum er kisa einkennalaus og stundum sést niðurgangur í skamman tíma. Sé aftur á móti um að ræða FIPV, hina skæðu meingerð veirunnar, bregst varnarkerfi líkamans við árásinni, veiran fjölgar sér óheft og berst með blóðrásinni um líkamann og veldur hinum banvæna sjúkdómi.

Það geta liðið vikur, mánuðir og jafnvel ár frá því að kisa smitaðist þar til  sjúkdómurinn kemur í ljós og geta umhverfisáhrif eins og álag og streita flýtt fyrir framgangi hans. Þegar ungir kettlingar smitast líður yfirleitt ekki langur tími frá smiti til veikinda, en hjá eldri köttum er aðdragandinn lengri og byrjunareinkennin óljósari, en ágerast smá saman.

Sjúkdómsmyndirnar eru tvær; þ.e. vökvasöfnun í holrúmum líkamans (effusive/wet FIP) eða bólguhnútar í líffærum (noneffusive/dry FIP). Fyrri sjúkdómsmyndin er mun bráðari en sú seinni og einkennin greinilegri. Algengt er að báðar sjúkdómsmyndirnar fari saman. sem gerir greininguna enn erfiðari.

a. Vökvaformið

Þaninn kviðurinn er greinilegur

Þaninn kviðurinn er greinilegur

Í byrjun sést lystarleysi, deyfð og hár hiti og vegna æðaskemmdanna ber fljótlega á einkennum vegna vökvasöfnunar í holrúmum líkamans, þ.e. kviðar- og brjóstholi, gollursholi, við nýru og í pung. Sjúkdómurinn ágerist og kisa horast  nokkuð hratt og afholdgast, vöðvarýrnun verður áberandi og sérstaklega þaninn kviðurinn. Skert lifrar- og nýrnastarfsemi verður greinileg, vessaþurrð, hjartsláttartruflanir og andnauð sem stafar af vökvasöfnuninni í brjóstholinu.

Gulur vökvi frá kviðarholi getur staðfest að um smitandi lífhimnubólgu sé að ræða.

b. Þurraformið

Þurraform sjúkdómsins er frekar hægfara og klínisk einkenni þess koma seinna í ljós og eru bæði óljósri og vægari í byrjun. Byrjunareinkennin eru eins og hér að ofan, þ.e. hár hiti sem lækkar lítið, lystarleysi, deyfð og afholdgun. Veiran myndar bólguhnúta í þeim líffærum sem hún berst til og flest öll líffæri geta orðið fyrir barðinu á henni. Aðallega sækir hún í lífhimnu, nýru, lifur, æðahjúp augnanna og taugakerfi. Einkennin fara svo eftir því hvar hana ber niður og hversu miklar skemmdirnar verða. Við nýrna- eða lifrarbilun sést aukinn þorsti/gula, í augunum bólga í lithimnu og   skemmdirnar í miðtaugakerfi valda skjálfta, riðu,  lömun eða flogum. Uppköst, niðurgangur og sykursýki geta stafað frá sýkingu í brisi og svo getur sést sambland af mörgum einkennum.

Greining og rannsóknir

Greining á smitandi lífhimnubólgu er mjög erfið og nánast ómöguleg vegna þess hve sjúkdómseinkennin eru mörg og ólík og minna um margt á einkenni annarra sjúkdóma.

Endanleg staðfesting sjúkdómsins fæst oftast ekki fyrr en við krufningu, en í einstaka undantekningartilfelli við vefjaskoðun, náist sýni af bólguhnút. Nefna má, að af þeim sýnum sem dýralæknar senda til rannsókna á rannsóknastofu vegna gruns um smitandi lífhimnubólgu, er aðeins hægt  í 18% tilfella að staðfesta sjúkdóminn. Þegar grunur vaknar að um smitandi lífhimnubólgu sé að ræða og vökvasöfnun í kviðarholi er auðsæ, ætti að taka sýni af vökvanum, en strágult og seigt útflæði er eitt af meinkennum hans.

Mæling á mótefnum í blóði er mikilvægur liður í greiningu sjúkdómsins, en það verður að undirstrika, að hvorki er mögulegt að staðfesta eða útiloka smitandi lífhimnubólgu með mótefnamælingunni einni saman. Við nýsmit myndast mótefni, en þau lækka oftast fljótlega og eru í flestum tilfellum horfin (<10) innan mánaðar (sjá kaflann um mótefni/ekki mótefni hér að neðan) Mikil hækkun mótefna, 1280 eða meira getur,  ásamt öðrum sjúkdómseinkennum, verið vísbending  um  smitandi lífhimnubólgu, en há mótefni ein og sér eru EKKI staðfesting á að kisa sé með sjúkdóminn. Við  mótefnahækkun ætti að mæla þau aftur 2-3 mánuðum seinna til að sjá hvort þau hafi ekki lækkað.

Mótefnamælingar geta hvorki sannað né afsannað að veiran sem smitaði kisu sé banvæn eða ekki. Mælist mótefni í blóði er það aðeins staðfesting á að kisa hafi smitast.af veirunni FCoV og að möguleikinn á að sjúkdómurinn geti brotist fram sé fyrir hendi. Sé um umtalsverða hækkun að ræða, er mikilvægt að forða kisu frá öllum streituvaldandi umhverfisþáttum (sjá sjúkdómavarnir).

Sérhæfðar rannsóknarstofur erlendis telja sig geta boðið upp á rannsókn sem í jafnvel 90% tilfella staðfestir eða leiðir líkur á að um smitandi lífhimnubólgu sé að ræða. Skoðaðir eru þá nokkrir þættir eins og mótefni í blóði, gildi albúmíns og glóbúlíns (A:G) í útflæði eða blóðvökva og blóðmynd.

Meðferð

Smitandi lífhimnubólga er ólæknandi sjúkdómur og því felst meðferðin fyrst og fremst í líknandi meðferð, þ.e. næringu og vökvameðferð – og þess sem er allra mikilvægast, umhyggju og nostri. Samhliða eru gefin breiðvirk sýklalyf og ónæmisbælandi lyf (Prednisolon/nýrnahettusterar) því sjúkdómurinn ræðst á ónæmiskerfið. Þessi meðferð getur í bezta falli létt á sjúkdómnum um stundarsakir.

Erlendis eru til veirudrepandi lyf, svokölluð interferón (IFN omega), sem hafa verið reynd og notuð til meðhöndlunar á köttum með smitandi lífhimnubólgu. Talið er að þau geti læknað um þriðjung veikra katta. En lyfið eitt sér er ekki nægilegt (sum þessara lyfja eru reyndar verulega hættuleg köttum vegna eitrunaráhrifa) því meta verður sjúkdómsástand kisu í hverju tilfelli fyrir sig, hefja meðferð strax og sjúkdómseinkennin gera vart við sig og síðast en ekki sízt, að staðfest sé að um smitandi lífhimnubólgu sé að ræða.

Bólusetning?

Primucell

Primucell

Á markaðnum finnst aðeins ein tegund bóluefnis gegn smitandi lífhimnubólgu en það er bóluefnið Primucell (Pfizer).  Bóluefnið sem er lifandi bóluefni er ,,sprautað“ í  nasir kisu og vekur það þá upp mótefnavörn líkamans gegn FCoV veirunni  (IgA/cell med. immunity).

Bóluefnið getur hindrað sjúkdómseinkenni  hjá  50 – 75%  katta sem ella hefðu fengið sjúkdóminn.     Bóluefnið verndar hins vegar aðeins þá ketti sem hafa aldrei komizt í snertingu við veiruna og hafa þ.a.l. engin mótefni gegn henni í blóðinu. Sé sú ekki raunin, er bóluefnið algjörlega gagnslaust.

Hjá ræktendum þar sem veiran FCoV er viðvarandi vandamál (sem er frekar regla en undantekningin þar sem margir kettir búa saman) er mögulegt að bólusetja unga kettlinga að undangengnum varúðarráðstöfunum, svo sem einangrun áður en þeir ná að mynda mótefni gegn veirunni.

Fyrirbyggjandi aðgerðir eru mikilvægar

Streita

Sýnt hefur verið fram á, að streita er mikill áhrifavaldur í þróun sjúkdómsins og að flestir kettir sem veikjast, hafa orðið fyrir streituvaldandi áreiti áður en sjúkdómurinn brauzt út. Kettir sem hafa einkenni vökvaforms sjúkdómsins hafa iðulega orðið fyrir einhverju streituálagi 2-4 vikum áður, en þegar um þurraform sjúkdómsins er að ræða, geta streituvaldandi áhrifin hafa átt sér stað mánuðum og jafnvel ári áður en kisa veikist. Hafi kisa mótefni FCoV í blóðinu er mjög skynsamlegast að forðast allt sem getur valdið streitu hjá henni  svo sem að senda hana á nýtt heimili, á kattahótel (frekar fá einhvern til að passa hana heima) og forðast allar skurðaðgerðir (t.d. ófrjósemisaðgerðir), séu þær ekki lífsnauðsynlegar.

Dæmi um streituvaldandi þættir í lífi kisu:

 • Nýtt heimili eða
 • flutningur á nýtt heimili.
 • Breytingar heima við, s.s. barn, hundur, annar köttur eða kettlingur,
 • kattamergð á heimilinu (> 6 kettir),
 • dvöl á kattahóteli,
 • ýmsar (skurð)aðgerðir,
 • slys,
 • aðrir sjúkdómar og
 • meðganga, fæðing og að mjólka kettlingum.

Hreinlæti

Hreinlæti er mikilvægt

Hreinlæti er mikilvægt

Hreinn sandkassi er bezta smitvörnin og mikilvægasta aðferðin til að vernda kisuna þína gegn smiti.

Kassann verður að hreinsa oft og séu margir kettir á heimilinu verða líka að vera margir sandkassar og ekki færri en einn kassi fyrir hverja 3 ketti (bezt er kassi á kött). Sandkassana verður að staðsetja fjarri matarílátum svo  maturinn mengist ekki. Velja verður sand sem berst ekki með loppunum um allt húsnæðið, því veiran dreifist þá auðvitað líka með. Vikulega, eða oftar, er nauðsynlegt að þvo kassann úr klóri (og skola vel) og jafnframt að ryksuga oft, vel og vandlega, til að minnka mengun í umhverfinu.

Kettlingar

Veiran er ekki sérstaklega harðger, en getur þó lifað utan kisa í þurru umhverfi í allt að 7 vikur, t.d. í saur. Það þarf að hafa í huga, hafi smit komið upp á heimilinu og ætlunin er að læða gjóti eða að fá annan kött inn á heimilið.

Mótefnin sem kettlingar fá með broddmjólkinni vernda þá til 5-7 vikna aldurs. Eigi að forða þeim frá smiti, verður að taka þá undan læðunni áður en mótefnin frá henni hverfa úr blóðinu, einangra þá frá öðrum köttum í hreinu (smitfríu) umhverfi og gæta ýtrasta hreinlætis þangað til þeir fara að heiman.

Veiran FCoV þolir illa flest hreingerningarefni og klór er upplagt sótthreinsunarefni í lausninni 1:32. Á markaðnum finnast einnig önnur sótthreinsunarefn eins og Virkon sem er virkt á veirur.

Mótefni eða ekki mótefni

Ræktendur þurfa að vera mjög meðvitaðir um heilbrigðisástand kattanna sinna sem er auðvitað undirstaða farsællar ræktunar heilbrigðra katta.

Þekking á mótefnastöðu hópsins er bæði mikilvæg og nauðsynleg, því annars er hætta á að fá heilbrigðan smitbera inn í „neikvæðan“ hóp katta – eða senda inn í hóp ósmitaðra katta. Og það er hægara sagt en gert að losna við veiruna FCoV, hafi hún einu sinni borizt inn í kattahópinn og því fylgir verulegur kostnaður, bæði vegna mótefnamælinga og dýralækniskostnaðar.

Heilbrigður smitberi í kattahópnum sem viðheldur og dreifir smitefninu í umhverfinu er eins og tímasprengja, því hann smitar  bæði kettlinga og fullorðna ketti og margfaldar hættuna á að sjúkdómurinn blossi upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Hvað á að gera ef kettirnir mælast með mótefni í blóði?

Á heimili þar sem eru fleiri en 10 kettir, er líklegt að einhver einn þeirra skilji  út veiruna og endursmiti sífellt þá ketti sem ná að losna við hana. Séu hins vegar færri en 10 kettir á heimilinu, er talið líklegra að hópurinn í heild nái að verða „veirulaus“.

Til að fjarlægja smitberana, verður að mæla mótefni í öllum köttunum reglulega og einangra jafnharðan þá ketti sem mælast „neikvæðir“ þ.e. með engin mótefni, ella endursmitast þeir á nýjan leik. Smám saman fækkar „jákvæðu“ köttum í hópnum, en stundum getur liðið langur tími þangað til allir kettirninr eru lausir við mótefnin. Vitað er að það getur tekið einstaka kött jafnvel fleiri ár að losna við veiruna FCoV og er talið að 13% katta losni aldrei við hana að fullu. Þá er ráðið að finna þeim kisa nýtt heimili, þar sem ekki eru neinir aðrir kettir sem hann getur smitað.

Og hvernig er hægt að forðast smit inn í „neikvæðan“ kattahóp?

Takið aldrei kött inn í kattahópinn nema að láta mótefnamæla hann fyrst og:

 • Gangið úr skugga um að fressið sem fara á með læðuna til sé neikvæður með tilliti til mótefna FCoV,
 • sama gildir um læðu sem kemur til pörunar inn á heimilið,
 • látið mótefnamæla nýjan kött eða ketti áður en þeir fá að koma inn í hópinn,
 • einangrið kisu frá hópnum í 2 vikur sleppi hún út og stofni til náins kunningsskapar við fress, fari á kattasýningu eða á hótel og látið þá mæla mótefnin áður en kisu er hleypt inn í hópinn á ný,
 • látið frekar passa kisurnar heima en að fara með þær á kattahótel.

Eigi að taka nýjan kött inn á heimilið, verður áður að ganga úr skugga um hvort hann er heilbrigður smitberi eða ekki. Sé kisi „jákvæður“ þ.e. með mótefni í blóði, verður að einangra hann frá hinum köttunum, endurtaka mælingarnar og sleppa kisa ekki inn í hópinn fyrr en mótefnin eru horfin úr blóðinu.

Erlendis, t.d. á Bretlandseyjum, hafa rannsóknir sýnt að 84% katta á kattasýningum mælast með mótefni gegn veirunni FCoV í blóði og geta því verið heilbrigðir smitberar. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að passa að kettir á kattasýningum hafi ekki afnot af sandkössum annarra katta og lána alls ekki skóflu milli búra til að hreinsa saur úr sandkössum. Sömuleiðis er mikilvægt að dómarar, dómþjónar og dýralæknar sótthreinsi hendur og borð milli hvers kattar sem þeir skoða. Hafa þarf í huga í því sambandi, að í upphafi smits geta kettir skilið veiruna út frá öndunarfærum, t.d. með hnerra og hósta (úðasmit).

Góð kisa

Góð kisa

Tíðni smitandi lífhimnubólgu í köttum er heldur stígandi og þó dýralæknar geri sitt bezta til að bjarga lífi kisu, er það næsta vonlaus barátta við þennan banvæna sjúkdóm. Ekki er vitað hvers vegna sjúkdómstilfellunum fjölgar, en hugsanlega má leita skýringarinnar í auknum vinsældum katta og um leið breyttum áherzlum í kattahaldi. Hreinræktaðir eðalkettir sem fara aldrei út, fleiri kettir á hverju heimili sem getur leitt til minna yfirráðasvæðis fyrir hverja kisu og þ.a.l. streitu. Og þegar kisa gerir stykkin sín inni í kassa en grefur þau ekki niður utandyra (og veiruna með), eykur það smitmagnið í umhverfinu í réttu hlutfalli við fjölda kattanna og þar með hættuna á smitandi lífhimnubólgu.

Ekki eru ýkja mörg ár síðan fyrsta tilfelli smitandi lífhimnubólgu greindist í ketti hér á Íslandi, en það var í júní 1998. Síðan þá hefur tilfellum fjölgað og nú er svo komið, að árlega greinast alltaf nokkur tilfelli sjúkdómsins.

Ábyrgð ræktanda er mikil þegar ungur kettlingur úr hans ræktun greinist með smitandi lífhimnubólgu, því þá er líklegast að undaneldiskisan, eða aðrir kettir á heimilinu, séu heilbrigðir smitberar og hafi borið smitið í kettlinginn, einn eða fleiri.

Mikilvægt er að kanna ástand stofnsins og láta mótefnamæla alla kettina á heimilinu og taka á vandamálinu af fagmennsku og ábyrgð og vinna eftir ofangreindum ráðleggingum til að losna við smitið úr umhverfinu.

Heimildir

 • Infectious Diseas Of The Dog and Cat. Craig E.Greene,
 • Textbook og Veterinary Internal Medicin, Ettinger/Feldman,
 • Diane D. Addie DVM, The Un

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd