Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Kynþroski hunda og gelding

Höfundur: • 25. sep, 2003 • Flokkur: Almennt, Hundar
 Kynþroski hunda og gelding
Strax sést áútliti hunds hvort um er að ræða hund eða tík

Strax sést á útliti hunds hvort um er að ræða hund eða tík

Hundar verða að jafnaði kynþroska 8 – 10 mánaða, þó þeir getir verið frjóir frá 6 mánaða aldri. Hundar af smáhundakyni verða heldur fyrr kynþroska en hundar af stærri hundakynjum og almennt verða þeir seinna kynþroska en tíkur af sömu tegund. Á kynþroskaskeiðinu stækka eistun og ná fullum þroska og magn sæðis og fjöldi sáðfruma í því eykst.

     Við upphaf kynþroska hunds, hefst framleiðsla karlhormóna, testósteróna í eistum sem móta og einkenna kynbundið útlit hans og atferli. Reyndar er það svo, að rétt fyrir og eftir fæðingu verður einnig skammvinn hækkun testósteróna í blóðinu sem hefur áhrif á ýmis líffæri hundsins og á sinn þátt í mótun hans sem karldýrs fram að kynþroskaaldri.

           Strax í frumbernsku eru greinileg skil á milli atferlis hvolpa, þ.e. hunda og tíka, sem stafa af tímabundinni aukningu karlhormóna hundhvolpsins í kringum fæðingu. Til dæmis má nefna, að leikur hunda einkennist mun meira af riðli en sést við leik tíkarhvolpa. Bæði hundar og tíkur hafa meðfædd kynbundin viðbrögð frá taugakerfinu sem stjórnast af kynhormónum. Kynbundið atferlið verður auðvitað enn greinilegra við kynþroska og aukningu í framleiðslu kynhormóna.

Hjá hundunum einkennist kynþroskaskeiðið af merkingu yfirráðasvæða, áhuga á ,,hinu“ kyninu, flakki og meiri líkum á slagsmálum við aðra hunda. Þó kynhormónar eigi sinn þátt í að móta og stýra atferli hvolpa, mótast þeir ekki síður af umhverfi og atlæti. Sé þeim þáttum ábótavant, getur það haft bæði veruleg og íþyngjandi áhrif á líf og umhverfi hundsins síðar meir.  En hvenær er geldingar þörf og hvenær er hún réttlætanleg?

Æxlunarfæri ytri-kynfc3a6ri-hundur1

         Æxlunarfæri hundsins samanstanda af getnaðarlim (13), eistum (9), eistalyppum (10), kólfum (21), blöðruhálskirtli (20), þvagrás (17) og forhúð (17).

         Hlutverk æxlunarfæranna er að framleiða fullþroska sáðfrumur og geyma þangað til þeirra er þörf og losa í til þess gerðum vökva í æxlunarfæri tíkur.

Kynfærin framleiða einnig karlkynhormóna sem eru lífsnauðsynlegir fyrir æxlunarfærni hundsins og eiga sinn þátt í að móta andlegan og líkamlegan þroska hans og atferli sem karldýrs.

Eistun                                                                                                                                                                                                                                                                                                          eru venjulega gengin niður í punginn nokkrum dögum eftir fæðingu og finnast auðveldlega þegar hvolpurinn er 6-8 vikna. Þó getur það komið fyrir fram til 10 vikna aldurs, sé hvolpurinn æstur eða taugaóstyrkur, að eistun geta dregist upp í náragöngin og horfið um stundarsakir, en ratað rétta leið til baka þegar ró færist yfir hann á ný. Finnist ekki eista, annað eða bæði, þegar hvolpurinn hefur náð 4 mánaða aldri, er heldur ólíklegt að það eða þau gangi    niður úr því. Eistun eru í þeim tilfellum annað hvort í náragöngum eða í kviðarholi.

Eistun eiga að vera jafnstór, stinn með sléttu yfirborði og laus frá yfirliggjandi húð og er meðalstærð þeirra er á bilinu 2-4 cm á lengd og 1.2-2.5 cm á breidd. Breytingar á stærð og lögun eista, t.d. hnútar, viðloðun eða bandvefstenging við húðina eða sársauki við snertingu, geta verið merki um bólgur, sýkingar eða æxli.

Eistalyppa og kólfurinn                                                                                                                                                                                                                                                                Eistalyppan er samhangandi við eistað og í hana safnast sæðið. Frá eistalyppunni gengur sáðrásin, ásamt bláæðum og slagæðum, í kólfinum upp í gegnum náragöngin og sameinast sáðrásin þvagrásinni við blöðruhálskirtilinn. Eistalyppurnar bæði sjást og finnast greinilega við skoðun sem smáhnútur aftan á eistum.

Getnaðarlimur og   forhúð                                                                                                                                                                                                                                                    Forhúð hundsins hylur getnaðarliminn alveg. Smávægileg útferð sést stundum frá forhúðinni, venjulegast það lítil að enginn tekur eftir henni. Sé um forhúðarbólgu að ræða, eykst úferðin verulega og er gulgræn á litinn.  Getnaðarlimurinn er samsettur úr svampkenndum og æðaríkum vef og reðurbeini sem er nokkrir sentimetrar á lengd. Á hluta hans, í kringum beinið, er vefurinn þykkari (15) og myndar tvo gúla sem að öllu jafnaði sjást ekki, en stækka mikið við pörun. Hjá ungum hundum geta þeir stundum þrútnað mikið og orðið áberandi stórir og sjást þá ofarlega og utanvert á forhúðinni sem tvær kúlur, mitt á milli forhúðaropsins og pungsins.

Blöðruhálskirtillinn                                                                                                                                                                                                                                                                                    er kynkirtill sem liggur í grindarholi og umlykur að hluta þvagblöðruháls, þvagrás og aftasta hluta sáðrásarinnar. Hlutverk hans er að framleiða kirtilvökva sem blandast sæðinu og er starfsemin bundin framleiðslu testósteróns. Stærð blöðruhálskirtilsins er háð stærð, þyngd og aldri hundsins. Breytingar eins og stækkun eða truflun á starfsemi hans, geta stafað af margvíslegum orsökum eins og bólgum, sýkingum og krabbameini.

Vönun   

Við vönun missir hundurinn kynhvötina

Ekki er allt atferli hunda kynbundið, því flestar daglegar gjörðir og hegðan eru meðfæddar, eiginlegar eða  áunnar. Það atferli hverfur sjaldnast eða breytist við geldingu. Við vönun eru kynkirtlar hundsins, eistun, fjarlægð. Við það hverfur framleiðsla kynhormónanna (testósteróns),  hundurinn  verður ófrjór og lætur um leið af atferli sem stjórnast  af  þeim.

Hvers vegna eru hundar  vanaðir og hverjir eru kostirnir – eða ókostirnir?                              

          Fyrir þeirri ákvarðanatöku geta legið margar og ólíkar ástæður, en ófrjósemisaðgerðir, þ.e. fjarlæging kynkirtlanna (eistna og eggjastokka)  hafa lengstum þjónað sem getnaðarvörn., en aðrar ástæður geta verið þær að koma í veg fyrir að sjúkdómar, meðfæddir eða arfgengir, erfist.      

   Því miður er allt of algegnt að velviljaðir aðilar ráðleggi geldingu sé hundur t.d. ofríkur eða árásargjarn gagnvart öðrum hundum.  Það atferli kann að hafa margar ástæður og má oftast um kenna óöryggi hundsins, drottnunargirni, hræðslu  og jafnvel sársauka.  Áhrif hormóna á atferli hunda er margþátta og flókið fyrirbæri og þar sem það stjórnast ekkert síður af erfðum, ,,lífs“reynslu og lærdómi en hormónum, getur gelding  í versta falli snúist upp í andhverfu sína.   

     Rannsóknir hafa sýnt, að í í 90% tilfella hættir hundur flakki sé hann vanaður (enda oftast kynbundið atferli), en þegar um aðra ósiði er að ræða, eins og til dæmis merkingu yfirráðasvæðis, árásargirni eða riðl beri gelding ekki árangur nema í 50%-60% tilfella.  Jafnframt hefur verið sýnt fram á, að sé hundur óttasleginn og óöruggur eða hafi tilhneigingu til að ógna og jafnvel bíta, lætur hann ekki af þeirri hegðun við vönun sem gæti jafnvel frekar versnað. Í slíkum tilfellum er því afar hæpið og jafnvel áhættusamt að ráðleggja geldingu. Meðfæddir eiginleikar eins og veiði- og vakteðli breytist ekki við geldingu. 

        Þó gelding hunds geti í einhverjum tilfellum verið réttlætanleg, er afar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að gelding er sjaldnast nauðsynleg og ekki bara bara ávinningur. jafnvel þvert á móti.

Staðreyndin er nefninlega sú, að við vönun, sérstaklega sé aðgerðin gerð áður en hundurinn verður kynþroska, geta heilsufarsvandamál orðið önnur og meiri en ávinningurinn sem stefnt var að!                       

         Sem dýralæknir heyri ég oft að hundeiganda hefur verið ráðlagt að láta vana hundinn til að koma í veg fyrir vandamál í framtíðinni, sem er auðvitað hin mesta firra; rétt uppeldi og þjálfun, jákvæð og markviss mótun hvolpa frá frumbernsku og fram að kynþroskaaldri, þekking á eðli og atferli hunda, er forsenda farsællar framtíðar hundsins, því lengi býr að fyrstu gerð.

Ávinningur við vönun

 • Kemur í veg fyrir að hundurinn deyi af völdum krabbameins í eistum (en áhættan hjá óvönuðum hundi er <1% ),

 • minnkar líkur á góðkynja stækkun blöðruhálskirtilsins,    

 • minnkar hugsanlega áhættu á sykursýki og 

 • minnkar hættu á fistli við endaþarm.

Ókostirnir m.a.

 • Þrefaldar líkur á offitu og heilsufarsvandamálum tengdum henni,
 • þrefaldar líkurnar á vanstarfsemi skjaldkirtils,
 • fjórfaldar líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli (sem eru þó allajafna mjög litlar eða < 0.6%),
 •  eykur áhættuna á þróun minnisglapa
 •  meira háralos og veruleg breyting á feldi, sérstaklega hjá spaníeltegundum,
 • meiri áhætta á bæklunarvandamálum og
 • sé aðgerðin gerð áður en hundurinn verður kynþroska (stórar hundategundir), stóraukast líkur á beinkrabba (osteosarcoma).     

 

Launeistu og krabbamein í eistum 

      Með launeista er átt við það að eistað, annað eða bæði, sé ekki rétt staðsett í pung heldur liggi það/þau annað hvort í náragöngum eða kviðarholi. Með ómskoðun getur verið mögulegt að sjá hvar eistað liggur í kviðarholi, en algengast er að það/þau séu rétt fyrir framan innra op náragangnanna. Talið er að um 2% hunda hafi þennan galla og er þá það eistað sem er á vitlausum stað ófrjótt þó það framleiði kynhormónana. 

Krabbamein í eistum er algengast hjá eldri hundum (7%) en það dregur hins vegar afar fáa hunda til dauða (<1%). Greinist hundur með krabbamein í eista eru batahorfurnar mjög góðar, því sjaldnast eru meinvörp frá þeim og auðvelt er að fjarlægja veika eistað.   

Hins vegar er tíðni krabbameins í launeistum  talin þrettán sinnum hærri (13.6%) en þegar það/þau eru rétt staðsett. Launeistu er því rétt að fjarlægja, en mikilvægt að taka fram, að það er  alls engin ástæða, eða fagleg rök, fyrir því að fjarlægja það eistað sem er rétt staðsett í pungnum í fornvarnarskyni! 

Launeistað sést eins og afmarkaður skuggi

Það er skynsamlegt, og ætti að vera sjálfsagður hluti af daglegri umhirðu hundsins, að skoða reglulega ytri kynfæri hans. Með því móti uppgövast fyrr ef einhverjar óeðlilegar breytingar eiga sér stað og þá er um að gera að hafa samband við dýralækninn

     

Helztu heimildir

Textbook of Veterinary Internal Medicine. Ettinger/Feldman. Saunders 1995
Canine and Feline Behavorial Therapy.Benjamin L. Hart, D.V.M., Ph.D. and  Lynette A. Hart, Ph.D. Lea & Febiger. Philadelpia 1985.
Long-Term Health Risks and Benefits Associated with Spay/Neuter in Dogs, Laura J. Sanborn. 2007

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd