Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Fuglainflúenzan og gæludýr

Höfundur: • 13. maí, 2004 • Flokkur: Almennt

Fuglainflúenza hefur verið þekkt síðan um 1880 og kom fyrst upp á Ítalíu, en núverandi faraldur, sem hófst um mitt ár 2003, er umfangsmesti og alvarlegasti fuglaflenzufaraldur frá upphafi. Sjúkdómurinn hefur nú náð hingað til vesturhluta Evrópu og virðist ekkert lát vera á útbreiðslunni. Aldrei í sögunni hefur sjúkdómurinn greinzt í jafnmörgum löndum í einu eða valdið jafnmiklu tjóni, en yfir 200 milljónir fugla hafa drepizt eða verið slátrað til að reyna að hefta útbreiðslu veikinnar.

Til eru tvö afbrigði fuglainflúenzunnar, vægt og alvarlegt, og hefur vægara afbrigðið (Low Pathogenic Avian Influenza, LPAI) fundist af og til í villtum fuglum, bæði í Evrópu og annars staðar í heiminum. Hitt afbrigðið, og það sem er alvarlegast og mest smitandi (Highly Pathogenic Avian Influenza/HPAI), leiðir til bráðadauða hjá móttækilegustu fuglategundunum. Hænsni og kalkúnar smitast auðveldast og komi sjúkdómurinn upp í hænsnahópi, drepst hver einasti fugl á örskömmum tíma. Sú mynd hans hefur verið kölluð hænsnapest (Fowl Plague ) á íslenzku.

Vísbendingar eru um að það afbrigði veirunnar sem veldur  vægari einkennum fuglaflenzu (LPAI), einkum af gerð H5, geti stökkbreyzt og valdið alvarlegra afbrigði sjúkdómsins (HPAI).

Allir fuglar geta smitast af fuglainflúenzu, en margar tegundir hafa mikla mótstöðu, þ.e. veikjast ekki en skilja samt veiruna út með saur og eru þá heilbrigðir smitberar.

Veiran er afar óstöðug og hefur ófyrirséða hegðan og getur stökkbreytzt án minnsta fyrirvara, en það er einmitt eitt mesta áhyggjuefnið.

Orsök

Smásjármynd af veirunni

Smásjármynd af veirunni

fuglainflúenzu er ortomyxoveira af A stofni sem flokkast aftur í undirstofnana H og N eftir hver mótefnavaki þeirra er og hve smitandi þeir eru. Til þessa hafa fundizt 16 H undirflokkar og 9 N undirflokkar og eru H5 og H7 þeirra skæðastir eftir samsetningunni. Sú samsetning undirflokkanna sem veldur mestum áhyggjum og alvarlegustu einkennunum er samsett úr H5 og N1 (H5N1).

Inflúenza af A stofni leggst einnig á manninn, hesta, svín og nokkrar aðrar tegundir spendýra.

Sjúkdómseinkenni og smitdreifing í fuglum

Sjúkdómurinn leggst á öndunarfæri, augu og meltingarfæri fugla og er misalvarlegur eftir aðstæðum og hvaða tegund á í hlut. Veiran skilst út með úða frá öndunarfærum og með saur og smitast milli fugla með beinni snertingu við sýkta fugla, saur og með líkamsvessum (frá öndunarfærum) og einnig með menguðum eggjum og fóðri, drykkjarvatni, óhreinum fatnaði, tækjum og áhöldum.

Sundfuglar eru mikilvægir geymsluhýslar fyrir sjúkdóminn og sýnt hefur verið fram á hærri tíðni í hænsnabúum sem liggja á slóð far“sund“fugla.

Nýjustu rannsóknir hafa sýnt, að einhverjir farfuglar, aðrir en sundfuglar, geti einnig borið með sér alvarlegasta stofn inflúenzunnar, en það flýtir auðvitað fyrir dreifingu sjúkdómsins á ný landsvæði.

Svín eru einnig geymsluhýslar fyrir vissa stofna inflúenzu af A-stofni og tilraunir hafa sannað að svín, sýkt af inflúenzuafbrigðinu H1N1, hafa borið smit í kalkúna.

Alvarlegasta mynd fuglaflenzu, hænsnapestin, hefur aldrei greinzt á Íslandi en mótefni gegn vægari sjúkdómsmyndinni (LPAI) hafa hins vegar mælst í blóði fugla hér á landi.

Fuglaflensuveiran getur lifað lengi í saur, vefjum og vatni.

Fuglainflúenza og fólk

Fuglaflenzan er sjúkdómur í fuglum sem er, undir venjulegum kringumstæðum, mjög tegundabundinn og smitast aðeins á milli fugla og í stöku tilfellum í svín.

Hin mikla og hraða útbreiðsla fuglainflúenzunnar, H5N1, og smit í fólk hefur vakið upp áhyggjur um tvennt; annars vegar að veiran geti breytzt með þeim afleiðingum að hún berist auðveldlega úr fuglum í fólk og hins vegar að hún stökkbreytist svo hún smitist á milli manna.

Til þess að smit berist í fólk, og valdi veikindum, þarf mjög mikla nánd við sýkta fugla, þ.e. veiruna, en í þeim löndum þar sem fuglaflenzutilfelli hafa greinst í fólki, bjó það annað hvort með sýktum fuglum (í orðsins fyllstu merkingu), vann innan um  þá, eða hafði neytt afurða af þeim án þess að sjóða þær eða steikja fyrst.

Þau tilfelli þar sem sjúkdómurinn hefur borizt úr fuglum í menn eru örfá og samkvæmt skýrslum WHO (World Health Organization), hafði það fólk sem smitaðist af fuglaflenzu af stofni H5N1, mjög náin samskipti við smitaða fuglahópa. Líkur á að fólk smitist af fuglaflensu af villtum fuglum eru álitnar nánast engar.

Fuglainflúenza og kettir

Vitað er að fuglainflúenzuveiran H5N1 sýkir ketti svo þeir veikist, en fyrstu tilfelli fuglaflenzu í köttum, utan rannsóknarstofu, fundust í Taílandi árið 2004. Síðan þá hafa fleiri sjúkdómstilfelli af völdum H5N1 veirunnar verið staðfest í köttum, en eru þó í raun aðeins örfá þegar á heildina er litið.

Í lok síðasta árs og byrjun þessa drápust kettir í Íraq í kjölfar fuglaflenzufaraldurs í hænsnum þar í landi og hinn 28. febrúar s.l. fundust nokkrir dauðir kettir á eyjunni Rügen í Þýzkalandi. Staðfest var að þeir hefðu smitast og drepizt af fuglainflúenzu af stofni H5N1 og talið fullvíst, að þeir hafi sýkst við að éta sýkta, villta fugla, en veikir fuglar eru auðvitað auðveld bráð fyrir kött í veiðihug.

Rannsóknir hafa leitt í ljós, að kettir sem voru smitaðir í rannsóknarskyni með inflúenzuveiru af stofni H5N1, veiktust ekki bara sjálfir, heldur smituðu einnig aðra ketti á rannsóknarstofunni og kom það þeim vísindamönnunum sem að rannsókninni stóðu, mjög á óvart.

Einkenni fuglainflúenzu í köttum af stofninum H5N1 eru svipuð og önnur flenzueinkenni svo sem hiti, deyfð og sýking í öndunarfærum.

Talið er mjög ólíklegt að kettir smitist öðruvísi en við að éta sýkta bráð, en fræðilega er ekki hægt að útiloka að smitaðir kettir geti smitað aðra ketti, þó líkurnar á því séu taldar engar. Talið er útilokað að sýktir kettir geti smitað fólk.

Fuglainflúenza og önnur spendýr

Nokkur staðfest dæmi eru um að ljón og tígrísdýr (í dýragörðum) hafi smitast, veikst og drepizt af inflúenzuveiru af stofni H5N1, reyndar eftir að þau voru fóðruð á sýktum kjúklingum.

Lítil þekking er á því hverning veiran H5N1 hagar sér gagnvart hundum  og engar vísbendingar eru um veikindi í þeim af völdum veirunnar og raunar  talið að þeir séu ekki móttækilegir fyrir henni.

Við rannsóknir á blóðsýnum flækingshunda í Thailandi kom í ljós, að 25% þeirra höfðu myndað mótefni gegn H5N1 veirunni (Nature, vol. 439/16 februar 2006) og hinn 9 marz s.l. var sagt frá því, að fundizt hefði fuglaflenzuveira af A stofni í dauðum hundi í Azerbaijan. Ekki liggur enn fyrir hvort um er að ræða H5N1 veiruna, eða hvort einhverjar meinafræðilegar breytingar hafi fundizt við krufningu hundsins, sem tengja megi hinu hættulega afbrigði hennar.

Talið er hugsanlegt að hundar (og refir) séu endahýslar fuglainflúenzu, þ.e. þeir geti smitast og myndað mótefni, en veikist ekki né smiti önnur dýr.

Talið hefur verið að minkar (loðdýr) og jafnvel selir geti smitast af fuglaflenzuveirunni, tilgáta sem varð að veruleika þegar þær fréttir bárust frá Svíþjóð nú á dögunum, að þar hafi fundizt minkar smitaðir af H5N1.

Þau tilfelli sem hingað til hafa verið staðfest í spendýrum eru samt afar fá, þrátt fyrir að mörg þeirra lifi í mikilli nánd við og jafnvel innan um smitaða fugla í þeim löndum þar sem sjúkdómurinn geysar.

Að mati vísindamanna er mikilvægt að hafa þann möguleika í huga, þó fjarlægur sé, að allar kjötætur sem éta sýkta (og ósoðna) bráð geti smitast.

Áhyggjur gæludýraeigenda

eru vel skiljanlegar í ljósi þeirrar umræðu sem er í fjölmiðlum og fréttum. Fjallað er um fuglainflúenzuna og hraða útbreiðslu hennar í nær hverjum einasta fréttatíma um þessar mundir. Áhyggjufullir kattaeigendur hringja í kjölfarið hingað á stofuna til að leita sér upplýsinga um sjúkdóminn og hvort þeir eigi að hafa áhyggjur af kisu sinni, sérstaklega þegar þær fréttir berast erlendis frá, að kattaeigendur láti aflífa kettina sína af hræðslu við fuglaflenzuna.

Mikilvægt er að gæludýraeigendur, sérstaklega kattaeigendur,  haldi ró sinni og láti ekki fjölmiðlafár ráða för.

Hvað eiga gæludýraeigendur að gera EF fuglainflúflenzan kemur til Íslands?

Gæludýraeigendur þurfa auðvitað fyrst og fremst að kynna sér vandlega leiðbeiningar yfirvalda hér á landi.

Erlendis, í þeim löndum þar sem fuglainflúenza hefur þegar verið staðfest, hafa þarlend yfirvöld lagt einfaldar og skýrar reglur varðandi ketti – og reyndar líka hunda og ekki er ólíklegt að sambærilegar reglur verði settar hér, ef og þegar fuglainflúenza berst hingað. (Sjá danskar leiðbeiningar)

Erlendis (þar sem flenzan finnst) skulu katta- og hundeigendur m.a.:

  • Halda heimilsköttum inni til að koma í veg fyrir að þeir veiði og éti smitaða bráð,
  • passa að fóðra ketti á sveitabæjum vel til að minnka líkur á að þeir flakki um í leit að æti  og eigi þá á hættu að veiða og éta smitaða bráð,
  • ekki fóðra villiketti nálægt heimilum eða bæjum; sé það nauðsynlegt ætti að gefa köttunum í a.m.k. 100 m fjarlægð frá húsum eða frá þeim stað þar sem fiðurfénaður og heimiliskettir halda sig. Gæta skal fyllsta hreinlætis við umgang við kettina, forðast að snerta þá, þvo og sótthreinsa fóðurskálar vel og muna að þvo sér vel og vandlega um hendur eftir á
  • sé þetta ekki mögulegt, má að öðrum kosti halda villiköttum frá húsum með því að fóðra þá ekki.

Þar sem hundar eru ekki álitnir móttækilegir fyrir sjúkdóminum, en gætu hins vegar auðveldlega veitt eða étið sýktan fugl, er m.a. hvatt til að þeir séu ætíð hafðir í taumi í gönguferðum.

Sótthreinsun

Veiran þolir illa öll sótthreinsunarefni svo sem oxandi efni og fituleysa (sápu), formalín og joðsambönd.  Veiran drepst við hitameðferð svo sem suðu í 3 tíma við 56°C eða 60°C í 30 mínútur, en þolir hins vegar vel kulda og getur lifað lengi í vef, saur og vatni.

Spurningar varðandi fuglaflenzu, ketti og hunda

Gæludýraeigendur hafa auðvitað fjölmargar spurningar varðandi fuglaflenzuna og hunda og ketti og hvað sé bezt að gera. Sem betur fer hefur fuglaflenzan ekki enn borizt til landsins, en bezt er auðvitað að vera við öllu búinn.

Hér á eftir eru fáeinar algengar spurningar og svör sem miðast auðvitað við að sjúkdómurinn hafi verið staðfestur í landinu.

Er hægt að sjá á fugli hvort hann er smitaður?

Þeir fuglar sem eru móttækilegastir fyrir sjúkdóminum, eins og hænsni og kalkúnar, drepast mjög fljótt komi sjúkdómurinn upp hjá þeim. Aðrir fuglar eins og margar tegundir sundfugla sýna væg eða engin einkenni, en skilja veiruna hins vegar út með saur og eru því heilbrigðir smitberar.

Hvað á ég að gera finni ég dauðan fugl?

Fjöldi fugla drepst af „eðlilegum“ ástæðum án þess að vekja grun um fuglaflenzu, t.d. á veturna eða fljúgi þeir á rafmagnslínur, svo stakur, dauður fugl er ekkert sérstaklega óeðlilegt. Séu dauðu fuglarnir hins vegar fleiri og:

  • t.d. sundfuglar (svanir, endur, gæsir, mávar, kríur, vaðfuglar)  á stuttum kafla  (200 m) í flæðarmáli,
  • sýnilega veikur ránfugl, einn eða fleiri,
  • veikir eða dauðir hrafnar eða
  • grunur sé um smit í umhverfinu og kisa komi færandi „hendi“ með dauðan fugl þarf að láta viðkomandi yfirvöld vita. (Sjá leiðbeiningar íslenzkra yfirvalda)

Hvað á ég að gera við fuglinn?

Það ætti hvorki að snerta hvorki fugl né fugladrit með berum höndum, en setja á sig einnota hanzka eða nota poka yfir höndina til að koma fuglinum í pokann, loka honum vel og henda í ruslið eða grafa. Sé óumflýjanlegt að snerta fuglinn með berum höndum, þarf að þvo sér vel um hendurnar á eftir með vatni og sápu. Það er nóg til að drepa veiruna. Ekki ætti að láta börn handleika dauða fugla.

Smitist köttur af sjúkdóminum hvenær koma einkennin þá í ljós?

Meðgöngutími sjúkdómsins veltur á magni smitefnis og smitleiðinni. Varlega má áætla að það geti liðið 2 – 7 dagar áður en sjúkdómseinkenni komi í ljós, en greind tilfelli fuglainflúenzu í köttum eru svo afskaplega fá að það er það ekki vitað fyrir víst – nema á tilraunastofum, en þá eru einkenni greinileg 7 dögum eftir smit.

Hvað gerist ef hundurinn minn étur fugladrit eða fuglshræ?

Í fyrsta lagi eru engar heimildir um að hundar geti veikst af fuglainflúenzu, en hafi hundurinn velt sér rækilega upp úr dauðu fuglshræi, er nóg að baða hann vandlega með sjampói.

Hvað á ég að gera, komi kisa heim með dauðan fugl?

Hafi fuglaflenza verið staðfest þar sem þú býrð, er líklegt að yfirvöld vilji fá hræið af fuglinum til rannsóknar.  Leitaðu upplýsinga hjá yfirvöldum um hvert þú eigir að snúa þér.

Á meðan er bezt að setja fuglinn í poka (muna einnota plasthanzka), hnýta vel fyrir pokann og þvo sér svo vel og vandlega um hendur með vatni og sápu.

Er í lagi að halda áfram að fóðra smáfuglana úti í garði?

Það er allt í lagi, en það þarf bara að muna að setja á sig hanzka þurfi að þrífa fugladrit úr garðinum (garðhúsgögnum o.þ.h.).

Mikilvægt er að muna að þvo sér um hendur vandlega oft á dag með vatni og sápu, einkum áður en matar er neytt.

Á vefsíðu FAO er hægt að lesa það nýjasta um fuglaflenzuna.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd