Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Húðmaur (Cheyletiella)

Höfundur: • 16. apr, 2010 • Flokkur: Almennt, Hundar, Kettir

cheyletiellamaur1

Áttfætlumaurinn, Cheyletiella, greindist fyrst hér á landi árið 1996 á tveimur persneskum köttum sem voru fæddir á sama heimilinu. Grunur um að sníkjudýr herjuðu á kisurnar vaknaði þegar eigendurnir voru alsettir bitsárum sem þá klæjaði verulega í. Í fyrstu var talið að um flóabit (fuglafló) væri að ræða, en þar sem kettirnir fóru aldrei út þótti það hæpin skýring. Eigendurnir leituðu þá með kettina hingað á stofuna og vaknaði grunur að um smit með húðmaurnum Cheyletiella gæti verið að ræða. Sýni af köttunum báðum voru send til rannsóknar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum og þar var grunurinn staðfestur. Síðan þá hefur húðmaurinn Cheyletiella breiðst út, bæði á hundum og köttum.

Sníkjudýrið Cheyletiella er áttfætlumaur, þ.e. hefur 4 pör af fótum sem fullorðinn og kynþroska maur. Hann er útbúinn sterkum sogrönum og er 0.3 – 0.4 mm langur. Kvendýrin eru ívið stærri en karldýrin og með lagni má sjá maurana með berum augum. Á myndinni sést bústinn húðmaur og til hægri við hann 2 egg.

cheyletiellamynd1

Lífsferill húðmaursins er um 3 – 5 vikur (egg, nymfur, lirfur og maur).  Frá því að kvendýrið verpir eggjum og þar til þau verða að kynþroska maurum líða 3 til 5 vikur (eða allt að 40 dagar) og fer það ferli eingöngu fram á hýslinum sjálfum, þ.e.a.s. hundinum eða kettinum þar sem hann lifir í keratínlagi húðarinnar.

Þau maurinn sé býsna lífseigur á hýslinum, lifir hann hins vegar aðeins í nokkra daga utan hans með þeirri undantekningu, að kvendýr geta lifað allt að 10 daga í köldu umhverfi.

Smit                                                                                                           

Maurinn er bráðsmitandi og berst mjög auðveldlega milli dýra. Eggin, sem eru fastlímd við hárin, eru mjög lífseig og geta lifað svo vikum skiptir í umhverfi dýrsins. Þau eru því uppspretta nýsmits fyrir þá hunda eða ketti sem þau rata á. Með aldrinum myndast hins vegar ákveðið ónæmi gegn húðmaurnum og tíkin eða læðan geta verið einkennalaus, en smitað afkvæmin. Þess vegna er smit algengast í ungum hvolpum og kettlingum. Smit virðist sem betur fer ekki vera mjög algengt hér á landi, sem betur fer, og sennilega er það algengast hjá ræktendum með marga hunda.

Húðmaurinn berst auðveldlega á fólk, því hann er í hópi þeirra sníkjudýra sem setur ekki fyrir sig hvern eða hverja hann bítur!

Einkenni

walking-dandruff2

Einkenni maurasmitsins á hundum og köttum eru mismikil, stundum nánast engin og í versta falli viðþolslaus og klæjandi húðsýking. Algengast er þó að eftir smit sé umtalsverð og óeðlilega mikil flösumyndun í feldinum og þá aðallega á bakinu. Hún stafar af mildri húðbólgu sem myndast þegar maurarnir næra sig með því að stinga sograna niður í húðina og sjúga til sín vessa.

Húðmaur lifir ekki á húð manna en er aðeins ,,gestkomandi“ þar. Þriðji hver eigandi getur þó orðið fyrir óþægindum af völdum maursins sem getur bitið hann hressilega. Einkennin klæjandi bit og einna helzt á þeim stöðum sem dýrið snertir eigandann, t.d. á handleggjum, lærum og kvið.

Staðfesting 

á smiti er í flestum tilfellum einföld. Leiki grunur á að hundurinn eða kisa hafi fengið á sig útvortis sníkjudýr, er skynsamlegt að leita til dýralæknis. Hann getur í flestum tilfellum sjálfur gengið úr skugga um hvort grunurinn sé á rökum reistur eða ekki, með því að leita í sýni (hárum eða húðskrapi) undir smásjá að maurum og/eða eggjum. Finnist kvikindi eða egg, er auðvelt að útrýma smitinu. Það er þó oft ekki fyrr en að einn eða fleiri í fjölskyldunni eru útbitnir, að grunurinn beinist að heimilisdýrinu.

Meðferð
er í dag venjulegast með svokölluðum blettunarlyfjum, þ.e. sníkjudýralyfi sem er sett á húð hundsins, milli herðablaðanna, og dreifast þaðan um hann allan. Lyfið virkar svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir og óværan drepst um leið og hún kemst í snertingu við húðina – og lyfið. Einnig er hægt að baða hunda með lúsasjampói, vikulega, þrisvar til fjórum sinnum, en ketti ætti ekki að baða með lúsasjampói.

Til að forðast endursmit, t.d. af hárum með áhangandi eggjum, þarf einnig að gera vel hreint í umhverfi hundsins eða kisu, þvo teppi og mottur og ryksuga vandlega. Sé frost er hægt að láta þá hluti, sem ekki er mögulegt að þvo, hanga úti – eða stinga í heimilisfrystinn.

Smit með Cheyletiellaáttfætlumaur er hvorki hættulegt mönnum né dýrum, en á hinn bóginn er það verulega óþægilegt fyrir þá sem verða fyrir barðinu á sníkjudýrinu. Því er mikilvægt að sporna gegn útbreiðslu þess af fremsta megni. Ræktendur ættu að gæta þess að láta ekki frá sér hvolpa, leiki minnsti grunur á að þeir geti borið með sér smit. Jafnframt er nauðsynlegt að þeir sem annast feldhirðu hunda, viðhafi fyllstu smitgát, sótthreinsi  áhöld á milli viðskiptavina og vísi hundum og köttum umsvifalaust til dýralæknis telji þeir sig sjá einkenni sníkjudýrasmits.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd