Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Bann við innflutningi flækingshunda frá Rúmeníu til Noregs!

Höfundur: • 9. jún, 2013 • Flokkur: Almennt

lega bönnuðu norsk heilbrigðisyfirvöld innflutning svokallaðra ,,heimilislausra“ hunda (,,gatehunder“) frá Rúmeníu (þ.e. annarra en heimilishunda og/eða ræktunardýra), en mikil fjölgun þeirra í Noregi sem og bágborið heilbrigðisástand flækingshunda í Rúmeníu, olli norskum dýraheilbrigðisyfirvöldum verulegum áhyggjum. Ástæðan fyrir þeim áhyggjum var sterkur grunur um að hundarnir gætu verið smitberar margra alvarlegra sjúkdóma sem jafnframt eru súnur og þeirra alvarlegastir eru hundæði (Rabies) og sullaveikifár (E. Multilocularis). Hundaæði og refabandormur eru landlægir sjúkdómar í mörgum löndum suður – og þá sérstaklega austur –Evrópu.

Í Noregi er ekki lengur krafa um einangrun gæludýra og innflutningur hunda og katta  frjáls að undanskildri kröfu um að dýrin hafi verið bólusett gegn hundæði og meðhöndluð gegn sníkjudýrum og þá sérstaklega refabandorminum (Eccinococcus multilocularis). Það er því allsendis ómögulegt fyrir yfirvöld að fylgjast með því hvort kröfurnar um bólusetningar og varnir gegn sníkjudýrum séu uppfylltar eða ekki, eins og hægt er hér á landi sem betur fer. Auk hundaæðis og sullaveikifársins hafa einnig fundizt  í saur rúmensku flækingshundanna sníkjudýr sem eru sjaldgæf í Noregi, eða óþekkt, sum hver einnig súnuvaldandi.

Víða í suðlægum löndum eru flækingshundar (og kettir), þ.e. heimilislaus dýr, algeng sjón. Þau leita gjarnan ætis í kring um veitingastaði í von um mat og ferðamenn fyllast því oft á tíðum meðaumkun með litlum, sætum hvolpi eða stálpuðum hundi sem hugsanlega eltir þá á röndum daglangt eftir að hafa þegið frá þeim bita. Tengsl myndast jafnvel við dýrið og þá er auðvitað freistandi að taka það með heim, frekar en að skilja það eftir umhirðulaust á götunni. Væntanlega hafa fæst þessara dýra verið bólusett hvað þá meðhöndluð gegn sníkjudýrum, enda eigendalaus. Líkurnar á að þau geti verið smitberar alvarlegra sjúkdóma og sníkjudýra sem eru sjaldgæf í gæludýrum á Norðurlöndunum (og algjörlega óþekkt á okkar slóðum), er því talsverðar og í því felst hættan!

 Norsku dýraheilbrigðisyfirvöldin ákváðu í samvinnu við eigendur tæplega eitthundrað innfluttra hunda frá Rúmeníu að rannsaka heilbrigðisástand þeirra.Útbreiðsla hundæðis í heiminum

Niðurstaðan leiddi því miður í ljós það sem óttazt hafði verið, þ.e. að stóraukin hætta er á alvarlegum sjúkdómum með innflutningi götuhunda; sjúkdómum sem eru annað hvort sjaldgæfir í Noregi eða óþekktir. Rúman helming hundanna vantaði nægilega vörn, eða alla, gegn hundaæði þó svo hann hafi verið sagður bólusettur, sem þýðir einfaldlega, að annað hvort hafði hundurinn alls ekki verið bólusettur eða þá að bólusetningin virkaði ekki sem skyldi. Áhættan á því að hundurinn geti borið með sér hundæði er því margfalt meiri en áður var talið.

Rannsóknin sýndi einnig að aðeins 20% hundanna höfðu verið meðhöndlaðir rétt gegn innvortis sníkjudýrum s.s. refabandorminum (og jafnframt að alls engar upplýsingar lágu fyrir um bandormameðhöndlun þriðjungs hundanna) sem vekur að sjálfsögðu upp áhyggjur af öðrum sníkjudýrum sem eru afar sjaldgæf í Noregi eins og t.d. Trichuris sp., Uncinaria stenocephala og Toxacaris leonina og óþekktra eins og Dirofilaria immitis. Að auki fundust í blóði margra hundanna mótefni gegn alvarlegum bakteríum (Leptospiru) og einfruma sníkjudýrum (Babesia canis). Mótefnafundurinn staðfestir að hundurinn hafi einhvern tímann smitast af þessum sjúkdómum og því er heldur alls ekki mögulegt að útiloka að hann sem smitbera! Áhyggjur norskra heilbrigðisyfirvalda eru því vel skiljanlegar og ákvörðun þeirra um innflutningsbann rökréttar.

Benda má á að batnandi efnahagur ýtir undir ferðalög og þykir þá auðvitað sjálfsagt að heimilishundurinn fari með. Þar sem heilbrigði gæludýra á norðlægum slóðum (í Noregi og á Norðurlöndunum almennt) er frábrugðið því sem þekkist í suðlægari löndum og öðrum heimsálfum, eru ,,okkar“ hundar varnarlausir gegn mörgum alvarlegum og landlægum smitsjúkdómum sem þar herja á dýr og þykja eðlileg, eins og dæmin sanna.  

Niðurstaða rannsóknar norsku matvælastofnunarinnar er verulega umhugsunarverð, sérstaklega í ljósi þess að nokkur umræða hefur verið um það hér á landi að afnema sóttkví innfluttra hunda og taka þess í stað upp svokölluð ,,gæludýravegabréf“. Gæludýravegabréfin, sem segja alls ekkert til um heilbrigðisástand dýrsins, eru aðeins hugsuð sem staðfesting á bólusetningum og lyfjameðferð gegn sníkjudýrum. Og yrði einangrun gæludýra afnumin hér á landi, yrði líka alls ómögulegt að banna, eða takmarka, innflutning frá einhverjum löndum eins og t.d. austur-Evrópulöndum og við myndum því lenda í sömu vandamálum og Norðmenn. Um leið opnast einnig möguleikinn á að óprúttnir aðilar flytji hingað í gróðraskyni allt of unga hvolpa í kassavís, en það hefur lengi verið óviðráðanlegt og verulegt vandamál, og dýravendunarmál, í nágrannalöndum okkar. Skilríki og gögn eru þá annað hvort alls ekki fyrirliggjandi, röng eða beinlínis fölsuð og þá má líka ímynda sér heilbrigðisástand dýranna!

Því miður hefur það komið fyrir í innflutningi gæludýra hingað til lands, að meðfylgjandi gögn og vottorð hafa haft vafasaman uppruna og jafnvel verið fölsuð! Hver tilgangurinn hefur verið, er erfitt að segja til um, en þakka má árvekni yfirvalda að upp um málin hafa komist. Sérstaða okkar í heilbrigðismálum gæludýra og búpenings almennt, er öfundsverð og eftirsóknarverð sem ber að viðhalda!  

Meimildir

Mattilsynet

Parasittologisk og serologisk undersökelse av pröver fra gatehunder importert til Norge fra land i Öst-Europa

 http://www.mattilsynet.no/dyr_og_dyrehold/reise_med_kjaledyr/sluttrapport_etter_undersokelse_av_importerte_gatehunder_2013.9718/BINARY/Sluttrapport%20etter%20unders%C3%B8kelse%20av%20importerte%20gatehunder%202013, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd