Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Gláka

Höfundur: • 6. feb, 2016 • Flokkur: Almennt

Eftirfarandi grein um gláku í hundum og köttum er eftir danska dýralækninn Finn Boserup Jørgensen, sérfræðing í augnsjúkdómum hunda og katta (og hesta). Finn er mörgum hund- og kattaeigendum að góðu kunnur, því hann hefur komið hingað til landsins mörg undanfarin ár til að augnskoða hunda fyrir arfgengum augnsjúkdómum, tekið á móti sjúklingum hér á stofunni og haldið fyrirlestra.  

 

 

 

Gláka

Gláka (Glaucoma) er heiti yfir hóp sjúkdóma sem valda alvarlegum skemmdum á starfsemi augans vegna aukins þrýstings inni í því. Til þess að starfsemi augans haldist eðlileg, verður þrýstingurinn líka að haldast eðlilegur, en hækkaður augnþrýstingur veldur, auk skemmdanna á auganu, bæði verulegri vanlíðan og miklum sársauka hjá hundum og köttum.

Heilbrigt auga með eðlilegu flæði augnvökvans

Linsan (augasteinninn) og lithimnan skipta auganu í tvo hluta; stórt afturhólf og lítið framhólf. Í þessum tveimur hólfum flæðir þunnur augnvökvi sem myndast í sérstökum kirtlum í framhólfiinu (corpus ciliare) og það er þessi augnvökvi sem heldur augnþrýstingnum eðlilegum.

Augnþrýstingurinn stjórnast af jafnvægi í framleiðslu og afflæði augnvökvans, en afflæðið á sér stað í gegn um síuvef í horninu sem myndast milli lithimnu að aftan og hornhimnu að framan og þaðan út úr auganu í sérstökum göngum og inn í blóðrásina. Áður var talið að síunin væri frekar einfalt fyrirbæri, en í dag er ljóst að um er að ræða flókið líffræðilegt ferli og stíflist rásirnar, eykst þrýstingurinn auðvitað inni í auganu og veldur skemmdunum sem við köllum gláku.

Hér er of hár þrýstingur inni í auganu sem þrýstir á sjónuna og sjóntaugina og veldur skemmum

Ofþrýstingurinn inni í auganu þrýstir á sjónuna og sjóntaugina og veldur skemmum

Hér sést stíflaður síuvefur (rauður kross yfir síunni)

Síuvefurinn er stíflaður og vökvinn flæðir ekki burtu (rauður kross)

 

Tvö mikilvæg hlutverk augnvökvans

Hlutverk augnvökvans er annars vegar að flytja næringu til hornhimnunnar og linsunnar, sem báðar hverjar eru algjörlega gegnsæjar og hafa ekki æðakerfi, og fjarlægjaum leið  niðurbrotsefnin sem myndast í þessum hluta augans.

Augnvökvinn gegnir því mikilvægu hlutverki til þess að viðhalda eðlilegri starfsemi í linsu og hornhimnu og gegnsæinu svo ljósið geti borizt  óhindrað utanfrá í gegn um þær að sjónunni, en í henni eru frumurnar sem nema það sem við sjáum og bera boðin til heilans um sjóntaugina.

Hitt hlutverk augnvökvans er sem sagt það að viðhalda eðlilegum augnþrýstingi inni í auganu sem byggist auðvitað á því, að framleiðsla og afflæði hans haldist í jafnvægi.

En hvað gerist hækki þrýstingurinn inni í auganu? 

Gláka og mælingÞrýstingurinn inni í auganu er mældur með svokölluðum augnþrýstimæli (Tonometer) og sveiflast á milli 15 og 25 mmHg hjá hundum og köttum.

Hækki augnþrýstingurinn sýna hundar frekar en kettir merki um sársauka   og hafa þá hægar um sig og eru daprir. Þau einkenni geta auðvitað átt við marga kvilla eða sjúkdóma, en ætla mætti þegar sársaukinn er bundinn við augað, að hundurinn myndi nudda það annað hvort með loppunni eða nudda sér utan í húsgögn. Það er hins vegar ekki tilfellið, því hann gerir sér nefninlega fljótt ljóst, að það að snerta augað er hræðilega sársaukafullt og sérstaklega sé um bráðagláku að ræða.

 

Einkenni hækkaðs þrýstings:

  1. Sársauki,
  2. mislitun (bláleit) á hornhimnu,
  3. frumuskemmdir í sjónunni,
  4. skert sjónsvið ásamt sjónskerðingu,
  5. blinda og
  6. augnstækkun.

 

Hvernig sést að eitthvað er að auganu?

Rautt auga

Eitt aðaleinkenni gláku er blóðhlaupið auga og æðarnar í hvítunni greinilegar

Greinilegustu einkennin eru þau að augað er blóðhlaupið og jafnframt sést litabreyting (blámi) á hornhimnunni. Orsök roðans er sú, að háþýstingurinn inni í auganu þrengir svo að blóðflæðinu í æðakerfinu í hvítunni og augnslímhúðinni  (sem öllu jafna er nær ósýnilegt), að æðarnar þrútna og koma berlega í ljós. Bláminn í hornhimnunni stafar aftur á móti af bjúgmyndun, því þrýstingsaukningin teppir einnig eðlilegt afflæði augnvökvans frá henni.

Einkenni aukins þrýstings geta verið lítil eða mikil – en því miður oftast það síðarnefnda. Sýnist  eigandanum eitthvað vera að auganu er afar mikilvægt að láta skoða það strax, en bíða alls ekki og sjá til hvort það lagist ekki á næstu dögum!

 

Hvers vegna má ekki bíða?

Mælist augnþrýstingurinn 35 – 40 mmHg í tvo sólarhringa (48 klst) eða lengur, veldur hann einfaldlega óafturkræfum og ólæknanlegum skaða á sjóntauginni og sjónunni og þar með blindu.

Vissulega kunna verkjalyf að minnka sársaukann eitthvað svo dýrinu virðist líða betur um stund, en þau hindra að sjálfsögðu alls ekki framvindu sjúkdómsins og geta því gert illt verra, sé því frestað að fara til dýralæknisins.

Meðhöndlun

Liggi rétt sjúkdómsgreining fyrir strax eða fljótlega eftir að grunur vaknar um gláku, getur meðhöndlun með augndropum sem betur fer komið í veg fyrir blindu í mörgum tilfellum og ekki sízt, losað dýrið við þann sársauka sem glákunni fylgir.

En það verður að hafa í huga, að gláka er langvinnur sjúkdómur sem krefst ævilangrar lyfjameðferðar sem skilar því miður ekki alltaf tilskildum árangri, þ.e. að halda  augnþrýstingnum lágum. Afleiðingin er blinda á veika auganu og þá er ekkert að gera nema fjarlægja það vegna sársaukans sem fylgir ofþrýstingnum.

Það er ekki alltaf sem eigandinn gerir sér grein fyrir því að hundinum eða kisu líði illa og sé með verki, því matarlystin  og daglegt atferli virðist í góðu lagi. En  gruni hann að eitthvað sé að auganu, eða augnum almennt, er mikilvægt að fara strax til dýralæknisins.

Orðið gláka er komið úr grísku (glaukos) en það er orð sem Hómer notar um hafið og merkir ljómandi eða silfurlitað; seinna var það notað um blágrænan lit hafsins, olívulaufa og lit augna. Aþena er stundum kölluð glaukopis í Hómerskviðum, en það þýðir bjarteygð. (www.Wikipedia.is)
Myndir: Veraldarvefurinn

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Comments are closed.