Þvagblöðrusteinar
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 4. maí, 2025 • Flokkur: AlmenntÞvagblöðrusteinar
Ekki er óalgegnt að finna kristalla og steina í blöðru og þvagrás hunda og eru einkenni vegna þeirra allt frá því að vera lítil til þess að vera lífshættuleg.
Í upphafi myndast kristallar sem límast svo saman, mynda steina sem svo stækka og stækka séu vaxtarskilyrði til staðar.
Til eru margar gerðir blöðrusteina og er efnasamsetning þeirra misjöfn eftir því úr hvaða steinefnum þeir eru myndaðir. Algengustu þvagsteinarnir eru strúvítar og svo oxalatsteinar sem finnast sjaldnar.
Orsök þvagsteinamyndunar
er í flestum tilfellum þvagfærasýking og eru bakteríurnar Staphylokokkar og Próteus aðal sökudólgarnir. Þær finna sér leið eftir þvagrásinni upp í blöðruna og valda sýkingunni sem hefur m.a. þau áhrif að þvagið mettast af þvagefnum og verður meira basískt (pH > 7) sem allt stuðlar að myndun kristallanna og steinanna.
Nefna má að hjá enskum cockerspaníelhundum finnst arfgengur galli í ákveðnum ættum þar sem strúvítsteinar myndast án þess að bakteríusýking sé til staðar. Hjá dalmatíuhundum (og enskum bulldoghundum) veldur ákveðin arfgeng stökkbreyting hins vegar því, að þvagsýran brotnar ekki niður í þvagefni með þeim afleiðingum að kristallar myndast í nýrum, blöðru og þvagrásum. Hjá þeim hafa rannsóknir sýnt að breytingin er mun algengari hjá hundum en tíkum og að meðalaldur þeirra,gar þvagsteina verður vart, er um 4.5 ár og verða þeir algengari með aldrinum.
Steinarnir
byrja sem örsmáir kristallar og eru samsettir úr steinefnunum kalsíum, magnesíum og fosfór. Efir því sem kristöllunum fjölgar ,,límast“ þeir saman og mynda steina, stóra sem smáa. Steinefnin hlaðast lagvisst upp jafnt og þétt og geta bakteríurnar sem eru í þvaginu lokast inni á milli laganna. Þegar steinarnir leysast svo upp, losna þær út í þvagið og valda endurteknum sýkingum.
Hverjir fá blöðrusteina?
Allir hundar geta fengið þvagsteina, en hjá sumum hundategundum, aðallega smáhundategundum, er tíðni þeirra hærri en hjá öðrum tegundum og má þar helzt nefna snauzer, shi tzu, yorkshire terríer og langhunda, en líka labradora.
Rannsóknir sýna að 85% þeirra hunda sem fá strúvíta eru tíkur og er meðalaldur þeirra þegar einkenna verður vart um 3 ár.
Sjúkdómseinkenni
vegna blöðrusteina geta verið afar mismunandi eða allt frá því að vera lítil sem engin til alvarlegra og lífshættulegra einkenna.
Algengustu einkennin eru:
- Blóð í þvagi,
- tíðaðri þvaglát,
- hundurinn virðist rembast við þvaglát,
- er lengur að tæma blöðruna og
- nær ekki út til að spræna.
Hjá tíkum geta litlir steinar skolast vandræðalaust út með þvaginu og eigandinn fundið þá hér og þar. Hjá hundum liggur þvagrásin hins vegar í gegn um bein í getnaðarlimnum sem hindrar að hún gefi neitt eftir og því geta verið verulegar líkur á að steinninn kýlist fastur við beinið og valdi þvagteppu sem getur verið lífshættuleg.
Einkenni þvagteppu eru uppköst, sársauki í kviðarholi, þreyta og í versta tilfelli getur blaðran rifnað.
Greining
Leiki grunur um þvagsteina þarf að byrja á því að skoða blöðruna vel og finnist steinar þarf að taka þvagsýni og senda í ræktun. Niðurstaðan kemur sjaldnast á óvart og þegar orsakavaldurinn er fundinn, liggur líka fyrir hvaða sýklalyf henta bezt.
Stundum er mögulegt að finna stóra steina með því að þreifa blöðruna og einnig má ómskoða hana, en öruggasta leiðin er samt alltaf röntgenmyndataka. Blöðrusteinar eru röntgenþéttir og sjást því afar vel á röntgenmynd og á myndinni er auðvelt er að mæla stærð þeirra og fjölda.
Einnig er skynsamlegt að senda steinana í greiningu til að staðfesta hvaða steinefni mynda þá.
Meðferð
Um leið og greiningin liggur fyrir hefst meðferðin sem felst, eins og áður segir, annars vegar í sýklalyfjagjöf með viðeigandi sýklalyfjum til að vinna bug á bakteríusýkinguni og koma þar með í veg fyrir frekari steinamyndun og svo hins vegar fóðrun með sjúkrafóðri. Sjúkrafóðrið sem inniheldur minna magn magnesíums, fosfórs og próteina, breytir þvaginu til hins betra m.a. með því að lækka sýrustig þess (pH = 7 – 7.5) sem auðveldar niðurbrot þvagsteinanna.
Taka verður þvagsýni reglulega til að fylgjast með sýklavexti, því eins og áður segir eru steinarnir lagskiptir og þegar þeir leysast upp, losna bakteríurnar sem hugsanlega hafa innilokast á milli laganna í steininum úr læðingi, valda nýrri sýkingu og þar með myndun nýrra steina.
Einnig þarf að fylgjast vel með sýrustigi þvagsins, þ.e. pH gildi þess sem er á bilinu 7 – 7.5 hjá hundum.
Hundurinn þarf að hafa gott aðgengi að vatni til að auka drykkjuna sem stuðlar að þynningu þvagsins og þá meiri þörf á að losa blöðruna reglulega sem minnkar líkurnar á myndun kristalla. Eðlileg vatnsþörf heilbrigðs hunds eru um 25 – 50 ml á hvert kg líkamsþunga á sólarhring og til að hann drekki vel er t.d. góð hugmynd að bleyta þurrfóðrið duglega.
Sýklalyfin og fóðrið virðast hjálpa afar vel í flestum tilfellum. Við röntgenmyndatöku eftir 8 – 12 vikur ætti að sjást góður árangur; steinarnir minnkað umtalsvert eða jafnvel horfið og sýklalyfin unnið bug á bakteríusýkingunni.
Almennt er ekki mælt með því að fjarlægja steinana með skurðaðgerð nema hjá því verði ekki komist t.d. vegna stærðar eða að hætta sé á að þeir geti valdið þvagteppu.
Þó steinarnir hafi horfið og til að hindra steinamyndun á ný, verður hundurinn að fá sýklalyf þar til gengið hefur verið úr skugga um að engar bakteríur finnist lengur í þvaginu.
Aftur steinar?
Sumir hundar hafa því miður tilhneigingu til ítrekað að fá blöðrubólgu og þar með steina og hafi blöðrusteinar einu sinni fundist, er reglulegt eftirlit afar mikilvægt, því nýir steinar geta myndast mjög hratt.
Eftirlitið felst í bakteríuræktun á þvagi, mælingu á pH gildi þess og röntgenmyndatöku og ekki er verra að hafa meðferðaráætlun tilbúna í samvinnu við dýralækninn til að geta hafið meðferð strax, greinist hundurinn með þvagblöðrusýkingu.
Heimildir:
Mar Vista Animal Medical Center
Dr. Aly Cohen, Cornell Richard P. Riney Canine Health Center
Veraldarvefurinn

Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað