Ófrjósemisaðgerðir katta
Höfundur: Helga Finnsdóttir • 21. okt, 2025 • Flokkur: AlmenntÓfrjósemisaðgerðir á köttum
Að mörgu er að hyggja þegar tekin er ákvörðun um að fá lítinn kettling á heimilið bæði hvað varðar ábyrgð á velferð hans ævina á enda, en ekki síður heilbrigði.
Eitt af því mikilvægasta varðandi kisu, heilbrigði hennar og lífsgæði, er ákvörðunin um hvort gera eigi hana ófrjóa eða ekki.
Með slíkri aðgerð hverfur allt kynbundið atferli eins og breim, merkingar og slagsmál sem allt hefur áhrif á daglega velferð kisu, en síðast en ekki sízt, möguleikinn á að eignast afkvæmi.
Eins og sést hér á myndinni til hliðar (sem má stækka), geta margfeldisáhrifin af goti einnar læðu orðið mikil sé ekki gripið í taumana og ,,fái“ allir afkomendurnir að eignast afkvæmi.
Varanleg ófrjósemisaðgerð
felst í því að fjarlægja kynkirtlana með skurðaðgerð, þ.e. eistun hjá fressköttum og eggjastokkana hjá læðum. Aðgerðin kemur í veg fyrir sjúkdóma í eggjastokkum og legi og minnkar einnig um leið líkur á smitsjúkdómum eins og kattaeyðni (AIDS) og kattahvítblæði (sjúkdómar sem eru þó sem betur nánast óþekktir hér á landi), en þeir smitast með biti eftir slagsmál og pörun.
Ekki má gleyma því heldur ,að aðgerðin getur sparað fjölmargar heimsóknir með kisa til dýralæknis vegna afleiðinga slagsmála sumra jafnvel alvarlegra, en oftast þó bitsára og sýkinga!
Pillan!
Áður var mikið notast við getnaðarvarnarlyf eins og ,,pilluna“ fyrir læður, en notkun hennar er nánast alveg hætt í dag vegna alvarlegra aukaverkana eins og krabbameins í júgri.
Fengitími
katta getur reynt verulega á þolrif eigenda þeirra og þá sérstaklega læðueigenda. Á breimatímabilinu, sem varir í 4 – 7 daga á 3ja vikna fresti, mjálmar kisa út í eitt eða getur jafnvel veinað samfleytt daga og nætur, nuddar sér utan í allt sem á vegi hennar verður og er viðþolslaus að komast út.
Breim stjórnast af birtu svo þegar daginn styttir, og í svartasta skammdeginu, er breimið í lágmarki, en byrjar aftur á fullu með hækkandi sól.
Fresskettir finna lykt af breima læðu langar leiðir og merkja sér þá allt í næsta umhverfi hennar, innan húss sem utan. Það atferli er afar óvinsælt því lyktin af þvaginu er ótrúlega stæk, loðir við allt sem hefur orðið fyrir valinu hjá kisa að merkja og er nánast ekki hægt að fjarlægja.
Hitti þeir svo læðu sem er samþykk nánari kynnum, fæðast kettlingar 9 vikum seinna, en flestir kettlingar fæðast að snemmsumars þó þeir geti reyndar fæðst á hvað árstíma sem er.
Hér að neðan eru taldar upp níu góðar og gildar ástæður fyrir því að gera kisu varanlega ófrjóa.
1. Aðgerðin kemur í veg fyrir óvelkomna kettlinga
Hver læða getur gotið oft og jafnvel þrisvar sinnum á ári og eitt fress getur frjóvgað margar læður á degi hverjum. Þessi blákalda staðreynd leiðir einfaldlega til offjölgunar katta; katta sem getur reynzt þrautinni þyngri að finna heimili og tryggja líf.
2. Minni líkur á sjúkdómum
Líkur á legbólgu, æxlum í eggjastokkum og júgri minnka umtalsvert við ófrjósemisaðgerðina sem og líkur á alvarlegum veirusjúkdómum eins og kattaeyðni (AIDS) og kattahvítblæði sem smitast gjarnan við pörun. Þó þessir sjúkdómar séu sem betur fer nánast óþekktir hér á landi (sem þakka má kröfum um einangrun gæludýra), er aldrei of varlega farið.
3. Ekkert breimastand!
Eins og segir hér að framan, getur mikill hávaði og ónæði fylgt breima læðu dag og nótt, heima og heiman, á nokkurra vikna fresti öllum til mikils ama, en eftir aðgerðina heyra katta,,tónleikarnir“ sögunni til.
4. Minni hætta á að kisa verði fyrir bíl
Ógeld fress fara víða í leit að breima læðum sem eykur auðvitað hættuna á að þeir verði fyrir bíl, lokist einhvers staðar inni eða villist jafnvel svo langt frá heimilinu, að þeir rati ekki aftur heim.
5. Bardagalöngunin minnkar eða hverfur!
Geld fress eru ekki jafn árásargjörn og ógeld fress sem verja yfirráðasvæði sín miskunnarlaust gegn ,,óvinveittum“ aðkomufressum. Það atferli leiðir ósjaldan til hatrammra slagsmála með bitsárum, meðfylgjandi sýkingum og jafnvel enn alvarlegri áverkum.
6. Geld fress merkja sér síður svæði og hluti
Ógeld fress hafa þann leiða sið að merkja sér svæði sem þeir telja heyra til síns yfirráðasvæðis, en þvag ógeldra fresskatta gefur af sér afar sterka og stæka lykt, eins og áður segir, og það að losna við þá lykt getur verið erfitt lendi það á óæskilegum stöðum eða hlutum eins og t.d. barnavögnum.
,,Merkingin“ er kynbundið atferli sem minnkar eða hverfur alveg við geldingu, en annar og ekki minni ávinningur við aðgerðina er auðvitað færri kettlingar.
7. Ljúfari í umgengni
Ófrjósemisaðgerð fresskatta, eða gelding, fjarlægir kynbundið atferli sem stjórnar daglegum athöfnum kisa. Eftir aðgerðina verður kisi því rólegri, ljúfari og oft heimakærari.
8. Færri sár og fylgikvillar
Gelding fresskatta og ófrjósemisaðgerð á læðu, eru í sjálfu sér einfaldar aðgerðir gerðar í svæfingu. Hér hjá okkur þarf kisi ekki að vera nema í um klukkustund.
9. Bætt heilsufar til framtíðar
Ófrjósemisaðgerðir katta auka lífsgæði þeirra á margan hátt. Læðum er ekki misboðið með óþarfa meðgöngu og fæðingu, jafnvel oft á ári og þar með offramleiðslu kettlinga. Oft og tíðum er erfitt, eða jafnvel ómögulegt, að finna kettlingunum framtíðarheimili og getur því þurft að aflífa þá á bezta skeiði lífsins eins og dæmin sanna.
Hjá fressum minnkar flakk og slagsmál með öllu því sem þeim getur fylgt.
Hér á landi erum við líka svo ótrúlega lánsöm sem þakka má ströngum reglum um innflutning gæludýra og kröfum um einangrun, að vera laus við marga alvarlega smitsjúkdóma sem berast á milli katta með biti eða pörun.
Aldur við aðgerð?
Aðgerð er betri fyrr en seinna og auðvitað helzt áður en læðan verður kettlingafull eða fressið hefur áunnið sér kynbundna ósiði.
Hvað má kisa vera gömul þegar hún er gerð ófrjó?
Misjafnt hvaða skoðun er á því og jafnvel nefnt að það sé allt í lagi að gera aðgerð á kettlingum allt frá 3ja mánaða aldri. Hér á stofunni finnst okkur slæmt að leggja slíka aðgerð á lítinn kettling, þó ekki sé hún flókin, og að eðlilegra sé að kisa fái að stækka og þroskast t.d. þangað til hún hefur tekið út örasta vöxtinn og tannskiftum er lokið sem er um 6 mánaða aldur.
Hér í Skipasundinu tekur aðgerðin um klukkustund og fyrir heimferð fær kisa að sjálfsögðu verkjalyf í vöðva. Almennt jafnar kisa sig svo bæði fljótt og vel eftir aðgerðina.
Ófrjósemisaðgerðir má gera á hvaða árstíma sem er og sem hentar eigandanum bezt
Breim stjórnast meira af birtu og árstíma en aldri, og þar sem breimatímabilið byrjar af fullum þunga hjá flestum læðum þegar daginn fer að lengja, er skynsamlegast að koma með kisu í aðgerð frá hausti fram á seinni hluta vetrar.
Benda má á, að ljósmagn, eins og mikil innilýsing, getur haft áhrif á breim hjá inniköttum sem geta þá breimað í svartasta skammdeginu.
Hvenær má gera kisu ófrjóa eftir got?
Hér á stofunni mælum við eindregið með því að halda kisu alfarið inni a.m.k. 3 – 4 vikur eftir got svo hún fái gott næði til að sinna kettlingunum á meðan þeir eru bæði blindir og heyrnarlausir. Hins vegar getur það verið vandamál að læður geta breimað mjög fljótt eftir got, jafnvel einhverjum dögum, og viljað þá út á vit ævintýra og gleði. En þá er henni bæði sú hætta búin að verða strax aftur kettlingafullar eða það sem verra er, að verða fyrir bíl.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að gera kisu ófrjóa einhverjum vikum eftir got og skynsamlegt er að tala við dýralækninn sinn til að fá góðar ráðleggingar þar að lútandi og almennt um allt er snertir ófrjósemisaðgerðir katta.
Heimildir:
Helga Finnsdóttir
Dyrenes beskyttelse/Fie Bau Madsen 2024
Veraldarvefurinn
><

Helga Finnsdóttir , dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta.
Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem Helga Finnsdóttir hefur skrifað