Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Hundainflúenza, nýr smitsjúkdómur í hundum

Höfundur: • 16. okt, 2005 • Flokkur: Fréttir

Inflúenzunnar hefur ekki enn orðið vart utan Bandaríkjanna, en hvarvetna hafa yfirvöld dýraheilbrigðismála verulegar áhyggjur af þessum nýja smitsjúkdómi í hundum. Eins og allir vita er inflúenza bráðsmitandi, svo það er mjög skiljanlegt að sjúkdómurinn veki ugg, ekki sízt hjá hundeigendum þar sem ekki er enn hægt að bólusetja gegn honum.

Sjúkdómurinn greindist fyrst í veðhlaupahundum (Grayhounds) í Flórida í byrjun árs 2004 og hefur síðan breiðst út til margra ríkja í Bndaríkjunum, m.a. til New York, Texas, Massachusetts, Iowa V., Virginíu og Colorado. Í byrjun voru það aðallega veðhlaupahundarnir sem veiktust, en snemma á þessu ári (2005) greindist flenzan í heimilishundum, hundum á hótelum og í hundaathvörfum.

Sjúkdómurinn leggst á alla hunda, bæði unga og gamla og yfirleitt eru einkennin frekar væg. Meðgöngutíminn er stuttur, ekki nema 2-5 dagar. Um 80% smitaðra hunda sýna sjúkdómseinkenni, en hafa verður í huga að einkennalausir hundar geta líka verið heilbrigðir smitberar.

Loftsmit er helsta smitleiðin og berst  veiran frá hundi til hunds, t.d. með úða þegar hann hóstar. Sýktur hundur getur smitað aðra hunda í 1-2 vikur eftir að hann hefur smitast, en sem betur fer er veiran, þó bráðsmitandi sé, skammlíf utan hýsilsins og missir smithæfnina fljótt í umhverfinu. Dánartíðni er talin liggja á bilinu 1-10%.

Einkennin eru hósti, hiti (>39.0°C) og útferð úr trýni og stundum fylgja flenzunni alvarlegir fylgikvillar,  m.a.  mjög  alvarleg lungnabólga.

Sjúkdómseinkennin geta minnt á svokallaðan hótelhósta (kennelcough) sem er algengur sjúkdómur í hundum erlendis og í byrjun flækti það sjúkdómsgreininguna.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hestainflúenzuveiran H3N8 tók þessum breytingum, en talið er að það sé frekar nýlega, því rannsóknir á gömlum (hunda)blóðsýnum sýna engin mótefni gegn henni.

Í ljósi mikillar umræðu um fuglaflenzu, hafa vaknað spurningar um hvort þessi nýi hundaveirusjúkdómur geti borizt í menn þar sem hundar lifi í svo miklu nábýli við manninn. Það telja vísindamenn þó harla ólíklegt.

Erlendis er  flenza mjög algengur sjúkdómur í hestum, en er hins vegar algjörlega óþekktur hér á landi. Vísindamenn hafa velt þeirri spurningu fyrir sér hvort mögulegt sé að hundar geti endursmitað hesta., en þeirri spurningu hefur ekki enn verið unnt að svara, enda sjúkdómurinn ennþá svo nýr af nálinni.

Ljóst er að þrátt fyrir dvöl í einangrun,  getur innflutningur á hundum frá Bandaríkjunum falið í sér hættu fyrir hunda á Íslandi og ekki síður fyrir stofn íslenska hestsins ef ekki er gætt fyllstu  varkárni, svo allur er varinn góður!

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd