Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Ofnæmi í köttum

Höfundur: • 26. nóv, 2003 • Flokkur: Kettir

Ofnæmi í köttum er ekki óþekkt fyrirbæri og geta þeir, ekkert síður en við mannfólkið, fengið ofnæmi. Ofnæmið, sem stafar af ofurnæmi kattarins gegn efnum í umhverfinu eða fóðrinu, vaknar við að efnið, það er ofnæmisvakinn, berst á köttinn, ofan í hann við öndun eða við inntöku fóðurs. Oftast er kötturinn á aldrinum 6 mánaða til tveggja ára þegar ofnæmi gerir vart við sig. Ofnæmi getur verið árstíðabundið og líka arfgengt.

Helsta einkenni ofnæmis er kláði. Ekki er alltaf víst að eigandinn geri sér ljóst að kötturinn hafi ofnæmi þótt hann klæi, því kettir eru meiri einfarar en t.d. hundar og ekki alltaf í sjónmáli við eigandann. Það er kannski ekki fyrr en sár eða skallablettir verða áberandi, að ljóst er að eitthvað er að. Reyndar getur ofnæmi tekið á sig margar aðrar sjúkdómsmyndir og birzt sem húðbólgur, skeinur og sár á andliti, hálsi og haus, ofþrif (hypersoignering) og jafnvel sem eyrnabólga.

Sjúkdómsgreiningin felst í ítarlegri skoðun, nákvæmri sjúkrasögu kattarins og jafnvel niðurstöðum úr blóð- og vefjasýnum. Reyna verður að útiloka aðrar ástæður fyrir ástandinu svo sem útvortis sníkjudýr, bætiefnaskort og húð- og sveppasýkingar.

Ofnæmi er flókið fyrirbæri og erfitt að gera því fullnægjandi skil í stuttri grein. Hér á eftir verður því aðeins stiklað á stóru varðandi ofnæmisvalda og nokkra ofnæmissjúkdóma af þeirra völdum, einkenni og meðferð.

Algengir ofnæmisvaldar

Fái köttur ofnæmi getur verið erfitt, ef ekki illmögulegt, að finna orsakavaldinn. Erlendis eru gerð húðpróf (Intradermal Allergy testing) til að reyna að finna ofnæmisvakann. Slík próf eru hins vegar mjög flókin á köttum, krefjast mikillar reynslu og eru þess utan afar dýr í framkvæmd.

Dæmi um ofnæmisvaka eru frjókorn, sveppafrjó, rykmaurar, ull, vatt (stopp í húsgögnum), fiður (og dúnn), gúmmí- og plastdót, kattasandur, nikkel, svitalyktareyðir, hreinsiefni, húðflögur af dýrum – og jafnvel tóbaksreykur.

Erfitt getur verið að forðast frjókorn eða sveppafrjó þar sem þau eru létt og geta borist hvarvetna. Hafi köttur frjóofnæmi, má reyna að minnka einkennin með því að halda honum innandyra meðan frjótalan er há, þó það dugi ekki alltaf til.

Sé ofnæmið stöðugt en ekki árstíðabundið, verður að reyna að fjarlægja þá hluti úr umhverfi kattarins sem hugsanlega geta verið sökudólgurinn. Það er ekki alltaf einfalt, en gott er að vera í samráði og samvinnu við dýralækninn sinn um aðgerðir.

Fæðuofnæmi

Fóður getur innihaldið marga ofnæmisvaka og valdið fæðuofnæmi. Allt að 6% tilfella af húðkvillum eru talin stafa af fæðuofnæmi, en það getur líka valdið meltingartruflunum, öndunarerfiðleikum og jafnvel einkennum frá miðtaugakerfi. Greina þarf fæðuofnæmi frá fæðuóþoli sem getur t.d. stafað af of snöggum fóðurbreytingum.

Meðalaldur katta sem fá fóðurofnæmi er 4 – 5 ár. Fæðuofnæmi getur komið í ljós þó köttur hafi fengið sama fóðrið lengi, jafnvel um árabil. Orsökina má oftast rekja til próteina, þó önnur efni í fóðrinu geti einnig verið ofnæmisvaldandi. Helztu ofnæmisvakarnir eru fiskur, nautakjöt og mjólkurafurðir.

Sjaldnast stoðar að gefa kettinum aðra tegund matar, því innihaldið í flestum tegundum kattafóðurs er mjög sambærilegt.

Til að reyna að útiloka ofnæmisvaldinn, þarf að fóðra köttinn á sérfæði. Það þarf að vera gert úr einni tegund próteins sem er ólíklegt að hafi fundist í tilbúna matnum sem kisi fékk áður, t.d. kanínukjöti eða hjartarkjöti og einni tegund af kolvetnum svo sem hrísgrjónum eða kartöflum. Gott er að gefa vítamín og steinefni ásamt fjölómettuðum fitusýrum daglega. Þetta þykir flestum köttum afar óspennandi kræsingar en verða samt að láta sig hafa það. Því miður getur það tekið margar vikur og mánuði að sjá einhvern árangur af meðferðinni.

Eosiniphilic Granuloma Complex EO

„Eosiniphilic Granuloma Complex“ er nokkuð algengur sjúkdómur hjá köttum sem oftast stafar af ofurnæmi kattarins gegn ofnæmisvaldandi efnum í umhverfinu. Sjúkdómurinn er samfléttun þriggja sjúkdómseinkenna, þ.e. sjúkdómsmyndirnar geta verið þrjár og jafnvel birst allar í senn. Einkennin eru upphleypt sár oftast á efri vör eða vörum, rauðar, vilsandi skellur í húð, oftast á kvið eða nára og afmörkuð sár, oftast aftan á lærum, í andliti, á tungu eða góm.

Einkennin sjást frekar hjá læðum en fressum og geta sum komið fram hjá köttum yngri en árs gömlum. Þó orsök sjúkdómsins sé í flestum tilfellum rakin til ofnæmis, er þó talið að álagsþættir af sálrænum toga, umhverfi eða streita geti einnig átt sinn þátt í sjúkdómnum.

Meðferð

Í flestum tilfellum þarfnast köttur lyfja fái hann ofnæmi. Þau lyf sem hafa bezta virkni gegn einkennum ofnæmis eru barksterar (methylprednisolone acetate) og eru þau því bezti valkosturinn. Stundum eru andhistamínlyf (clorpheniramine) einnig notuð með ágætum árangri hjá köttum, þó þau gefist ekki vel við ofnæmi hjá hundum.

Mikilvægt er jafnframt að huga vel að mataræði kattarins og gefa honum einungis fóður sem framleitt er úr hágæða hráefnum og er án litar- og aukefna. Sé ómettuðum fitusýrum (Omega 3/omega6) bætt daglega við fóðrið, sýna rannsóknir að þær hafi verulega bætandi áhrif á einkennin.

Þó lyfjameðferð sé ævilöng, eru batahorfur yfirleitt mjög góðar og allir möguleikar á að kisa eigi góða og hamingjusama ævi um langa framtíð.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd