Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Spóluormar í köttum (Toxocara cati)

Höfundur: • 4. jan, 2006 • Flokkur: Kettir

Spóluormurinn er algengur í köttum og finnst alls staðar þar sem kettir eru.

Aðalhýsill þessa spóluorms (Toxocara cati)er kötturinn, en millihýslar geta verið bæði smáfuglar og meindýr

Ormarnir

Ormarnir

Einkenni spóluormasmits er niðurgangur, þaninn kviður og ljótur og mattur feldur. Þessi einkenni eru algengast hjá kettlingum og ungum köttum, en fullorðnir kettir eru oft einkennalausir, þó þeir geti verið fullir af ormum. Verði kisi veikur, og kasti upp, bregður eigandanum oft verulega þegar hann sér hrúgu af iðandi ormum á gólfinu.

Eggin eru örsmá (nánast ósýnileg með berum augum), en mjög klístrug sem auðveldar þeim að „líma“ sig hvar sem er og á hvað sem er. Þau eru afar lífseig og geta lifað í umhverfinu svo árum skiptir.

Ormarnir eru hvít-gráir á litinn og geta orðið allt að 10 cm langir. Ekki er erfitt að staðfesta ormasmit í ketti, því það leynir sér sjaldnast. Leiki grunur á að kisa sé með orma, má taka saursýni og leita að eggjum í því.

Smitleiðir  og lífsferill

  1. Egg
  2. Smitleiðir eru margar
  3. Millihýslar
  4. Lirfur í dvala í líkama kisu
  5. Lirfur berast í kettlinga með mjólkinni
  6. Lirfurnar ná kynþroska í þörmunum
  7. Eggin verða að lirfum sem berast frá þörmum með blóðinu að lifur, þaðan í lungu og upp barkann og niður í maga þar sem þær verða kynþroska og byrja að verpa eggjum sem berast út með saurnum.
Smitleiðir og lífsferill

Smitleiðir og lífsferill

Fullorðnir kettir

Algengast er að kettir smitist við að veiða og éta sýkta fugla og meindýr. Þá losna lirfur sem liggja í dvala í vefjum bráðarinnar úr læðingi og berast með blóðinu um líkama kattarins. Þær ná ákveðnum þroska á ferðalaginu sem endar í þörmunum. Þá eru lirfurnar orðnar að kynþroska ormum sem  mynda egg. Eggin berast út með saurnum og hringrásin heldur áfram (7).

Frá því að kisi étur músina eða fuglinn og þangað til egg byrja að ganga út með saurnum, líða 2-4 vikur.

Kettir smitast einnig við að sleikja í sig egg sem verða á vegi þeirra í umhverfinu (2). Eggin klekjast í maganum og verða að lirfum sem bora sig í gegnum magaslímhúðina inn í blóðrásina og berast með henni til lifrar og lungna. Þaðan hóstar kisi þeim upp barkann og kyngir þeim svo niður vélindað í magann og þar þroskast þær í orma (7). Sumar lirfur ljúka ekki ferðalaginu heldur leggjast í dvala í vöðvum (4).

Kettlingafullar læður

Lirfurnar berast ekki í fóstur á meðgöngunni.

Kettlingarnir

smitast nýfæddir með móðurmjólkinni, en lirfurnar berast í þá strax og þeir fara á spena (5). Ormarnir ná fullum þroska (kynþroska) í þörmum kettlinganna á 3-4 vikum og þá geta þeir gengið niður af þeim eða sést í uppkasti. Egg kynþroska orma smita svo umhverfið og endursmita kettlingana.

Smit í fólk

Smit í fólk er ekki algengt

Smit í fólk er ekki algengt

er ekki algengt. Hugsanlega má þakka það þeim sið katta að grafa yfir saurinn og fela hann. Spóluormaeggin eru hins vegar afar lífseig og geta lifað í umhverfinu svo árum skiptir.

Almennt er álitið að fólk smitist einna helzt með  menguðum jarðvegi og illa þvegnu grænmeti. Það er því full ástæða til að gæta fyllsta hreinlætis, sérstaklega þegar börn eða einstaklingar með skert ónæmi eiga í hlut.

Tíðni

spóluorma í köttum á Íslandi hefur verið rannsökuð nokkrum sinnum, bæði með krufningum og mælingum á mótefnum í blóði. Fyrstu rannsóknina á spóluormum í köttum gerði danski læknirinn Harald Krabbe eftir miðja 19. öldina og fann þá þráðorma (Toxocara cati) í 51.6% þeirra katta sem hann krufði.1 Árið 1993 var gerð rannsókn á tíðni T. cati í saur eða meltingarvegi 64 katta og fannst hann í 12.5% þeirra katta sem rannsakaðir voru2   og árið 2002 voru mæld mótefni gegn T. cati í blóði íslenzkra katta og var tíðnin þar 68%.

Eru allir kettir smitaðir?

Það er mun meiri hætta á að spóluormar finnist í þeim köttum sem valsa út og inn og hafa tækifæri til að veiða. Tíðni ormasmits í innikisum, þ.e. þeim köttum sem alfarið er haldið inni, er hins vegar mjög lágt. (Það á reyndar einnig við um fleiri sníkjudýrasjúkdóma – lesið greinina um  bogfrymlasótt í köttum.) Tíðni spóluormasmits hjá kettlingum fer eftir aldri og hversu vel þeir eru meðhöndlaðir með viðeigandi lyfjum.

Miðað við niðurstöður rannsóknanna sem getið er hér að ofan, komast nærri 7 af hverjum 10 köttum í snertingu við spóluorma og hafa myndað mótefni gegn þeim.

Meðhöndlunin

felst í að gefa viðeigandi lyf gegn spóluormum og gæta þess að gefa kettlingum nógu snemma.

Kettlingar: 4, 6, 8 og 12 vikna.
Hálfstálpaðir kettir: 3-4 á ári, þ.e. á 3ja mánaða fresti.
Fullorðnir kettir:  Meðhöndlunin þarf að miðast við lífsstíl kattarins, þ.e. kettir sem veiða þurfa oftar lyf en þeir kettir sem fara aldrei út.

Því miður reynast innfluttir kettir oftar hafa ormasmit en „heimakettir“ og því er afar brýnt að gæta þess að gefa bæði þeim, og sérstaklega kettlingum, ormalyf.

Kattaeigendur eru hvattir til að ráðfæra sig við okkur dýralæknana á stofunni um lyf og meðferð.
Við seljum ormalyf í kvoðuformi sem er mjög auðvelt að gefa ungum kettlingum.

Heimildir

Páll Agnar Pálsson. Echinococcosis and its elimination in Iceland í bókinni „Harald Krabbe: Dagbog fra Island. Ferðasaga (1863, 1870, 1871)“ København 2000, bls. 93-100.

Þorleifur Ágústsson, líffræðingur, Sigurður H. Richter, dýrafræðingur. Sníkjudýr í og á köttum í Reykjavík og nágrenni. Dýralæknaritið í desember 1993, bls. 24-29.

Margrét K. Guðnadóttir.  A seroepidemiological study on the prevalence of Toxocara canis and Toxocara cati in Icelandic dogs and cats, A veterinary thesis. KVL 2002

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd