Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Smitandi lifrarbólga í hundum

Höfundur: • 11. feb, 2006 • Flokkur: Hundar

Sjúkdómurinn smitandi lifrarbólga greindist fyrst í silfurrefum árið 1925, en ekki sem sérstakur sjúkdómur í hundum fyrr en árið 1947. Fram til þess tíma var smitandi lifrarbólga álitin hluti af sjúkdómseinkennum hundapestarinnar og að heilabólgan í refum væri jafnframt af sama toga.

Smitandi lifrarbólga hefur verið þekktur sjúkdómur í hundum á Íslandi undanfarna rúma tvo áratugi. Ekki er  nákvæmlega vitað hvenær hann barst til landsins, en talið er að það hafi verið snemma á 9. áratugnum. Þá  fór að bera á óþekktum veikindum í hundum og reyndar sýktust líka refir á a.m.k. einu refabúi. Grunurinn að um lifrarbólgu væri að ræða fékkst svo staðfestur þegar hundar, sem höfðu verið veikir, fengu svokallað „blátt“ auga í afturbatanum, en það er einmitt meinkenni fyrir sjúkdóminn. Síðan þá hefur lifrarbólgan verið landlægur sjúkdómur, en sem betur fer hefur hún aldrei ollið faraldri og mjög fáir hundar drepist.

Árið 1996 fékkst leyfi yfirvalda til notkunar á bóluefninu Canlan en það innihélt, auk deydds mótefnavaka gegn smáveirusótt, einnig deyddan mótefnavaka gegn smitandi lifrarbólgu og lifrarbólgutilfellum fækkaði. Haustið 2003 hvarf þetta bóluefni af markaðnum; reyndar var framleiðslu þess hætt vegna mengunarvandamála hjá framleiðanda í framleiðsluferlinu og þá kom í  ljós, að ekkert sambærilegt bóluefni var til á markaðnum.

Á undanförnum tveimur árum hafa því miður nokkur staðfest tilfelli smitandi lifrarbólgu skotið upp kollinum á ný.

Orsökin

Adenoveiran CAV-1

Adenoveiran CAV-1

er veira sem nefnist Adenoveira af stofni CAV-1.  Veiran CAV-1 er harðger og getur lifað í umhverfinu svo vikum og mánuðum skiptir, en þolir illa hita yfir 60°C og ýmis sótthreinsiefni svo sem klór.

Bóluefni gegn smitandi lifrarbólgu sem innihalda smitefni (mótefnavaka) CAV-1 geta haft í för með sér aukaverkanir sem eru auðvitað frekar óæskilegar, eins og til dæmis bjúgmyndun í hornhimnu augans svo augað virðist blátt.

En veiran CAV-1 á sér náskylda frænku, en þó ólíka, sem er af stofni CAV-2 og veldur sú barkabólgu í hundum (infectious canine tracheobronchitis). Þessi skyldleiki gerir það að verkum að sama bóluefnið er virkt gegn þessum tveimur sjúkdómum, svo flest bóluefni sem notuð eru í dag gegn smitandi lifrarbólgu innihalda lifandi mótefnavaka (smitefni) veirunnar CAV-2.

Veiran sem veldur lifrarbólgunni í hundum smitar ekki fólk.

Smitleiðir

Á myndinni er lifrin rauð

Á myndinni er lifrin rauð

frá hundi til hunds eru með þvagi, saur og slefi, en einnig með óhreinum matarílátum, fatnaði, óhreinum skóm og höndum.

Veiran berst fyrst í hálskirtlana þar sem hún fjölgar sér hratt og þaðan í nærliggjandi eitla og áfram  með blóðstraumi til marklíffæranna sem eru lifur, nýru, milti og lungu, en það er lifrin sem verður venjulegast verst fyrir barðinu á henni.

Meðgöngutími smits er 4-9 dagar og koma klínisk einkenni fram að þeim tíma liðnum.

Lifrarbólguveiran CAV-1 getur búið um sig í nýrum hunda, skilist út með þvagi og dreift sér með því um borg og bæ allt að heilu ári eftir að hundurinn hefur náð sér. Margir hundar geta því komist í snertingu við smitefnið og myndað náttúrulegt ónæmi sem veitir ákveðna smitvörn.

Sjúkdómseinkenni

eru mörg og margvísleg; stundum nánast engin, stundum aðeins smávægileg hitavella og/eða meltingartruflanir, en stundum eru þau öllu alvarlegri og geta þá minnt á einkenni smáveirusóttar. Í alvarlegustu tilfellunum getur smitandi lifrarbólga dregið hundinn til dauða á aðeins örfáum klukkustundum. En sem betur fer er það afar sjaldgæft, því sjúkdómseinkennin eru oftast væg og hundurinn nær fullum bata.

Allt augað, annað eða bæði, verður blátt

Allt augað, annað eða bæði, verður blátt

Helztu einkenni smitandi lifrarbólgu eru lystarleysi, hálsbólga, uppköst, niðurgangur, þorsti, hár hiti (>40°C), eymsli í kviðarholi og hósti, hvarmabólga, minni blóðstorknun þ.e. tilhneiging til óeðlilegra blæðinga t.d. við tannskipti og jafnvel krampar og meðvitundarleysi.

Augað bláa, annað eða bæði, eru meinkenni fyrir smitandi lifrarbólgu og sést hjá um fjórðungi hunda á afturbatatímanum.

Orsök litabreytinganna er bjúgur í hornhimnu augans af völdum veirunnar. Allt augað verður „ópal“blátt og hundurinn verður ljósfælinn, þ.e. líður illa í mikilli birtu. Stundum eru gefin augnlyf, en venjulegast hverfa þessi einkenni á nokkrum dögum.

Greining

og staðfesting sjúkdómsins getur verið flókin þar sem einkennin eru svo margvísleg. Dýralæknirinn metur sjúkdómsástand sjúklingsins út frá þeim einkennum sem hann finnur við klíniska skoðun og blóðrannsóknir, t.d. mælingu á lifrarenzímum í blóði og hvítum blóðkornum og reynir að staðfesta sjúkdómsgreininguna eftir skoðunina og þegar niðurstöður úr blóðrannsóknum liggja fyrir.

Nútímatækni gerir kleift að finna lifrarbólguveiruna með sérstökum rannsóknum (Polymerase chain reaction – PCR) og einnig má mæla mótefni í blóði. Við smit, bólusetningar  – og þegar hvolpar fá mótefni með broddmjólkinni frá tíkinni, verður mikil hækkun á mótefnum (varnarsveit líkamans) í blóði og þess vegna þarf að mæla mótefnin a.m.k. tvisvar sinnum til þess að athuga hvort hækkunin sé af völdum nýsmits eða annars.

Meðferð

Það finnst engin lækning eða sértæk meðferð við smitandi lifrarbólgu í hundum. Meðferðin byggist á þeim einkennum sem eru til staðar og hugsanlegum fylgikvillum. Almennt eru gefin breiðvirk sýklalyf, vökvi í æð sé þess þörf og það sem alltaf er mikilvægast í umönnun veikra dýra; umhyggja, nostur og natni við fóðrun og aðbúnað.

Bólusetning

Bóluefni gegn smitandi lifrarbólgu finnst aðeins sem hluti af margþátta bóluefni, þ.e. bóluefni sem innihaldur einnig smitefni (mótefnavaka) gegn öðrum veirusjúkdómum en lifrarbólgunni, svo sem hundapest, (Canine Distemper) smáveirusótt, hótelhósta og inflúenzu, en sumir þessara lífshættulegu sjúkdóma eru sem betur fer óþekktir hér á landi eins og hundapest. Þessi bóluefni eru svokölluð „lifandi“ bóluefni, en þá er mótefnavakinn, þ.e. veiran, lifandi en veikluð.

Með lifandi bóluefnum er sú hætta því miður fyrir hendi, þó lítil sé, að bóluefnið framkalli þann sjúkdóm sem honum er annars ætlað að veita vörn gegn; það er að hundurinn getur fengið klínisk einkenni sjúkdómsins. Rannsóknir hafa sýnt að bólusetning gegn hundapest getur í (algjörum) undantekningatilfellum framkallað heilabólgu hjá einstaka hundi, en heilabólga er eitt af klínískum einkennum sjúkdómsins (og það alvarlegasta) – og er eins og hundapestin, algjörlega ólæknanleg!

Hundapest er skæðasti og alvarlegasti veirusjúkdómurinn sem leggst á hunda, bráðsmitandi og er dánartíðni af hans völdum allt að 90%.

Það er viðtekin regla stjórnvalda, hvar sem er í heiminum, að banna notkun „lifandi“ bóluefna gegn þeim sjúkdómum sem ekki finnast í viðkomandi landi af ofangreindri ástæðu, þ.e. að smitefnið (mótefnavakinn) í bóluefninu getur valdið sjúkdómnum í stað þess að vernda gegn honum.

Til umhugsunar!

Ísland er eyja og hefur þar af leiðandi náttúrulega einangrun gegn flestum smitsjúkdómum í dýrum. Hesturinn okkar er t.d. algjörlega laus við alla smitsjúkdóma sem eru algengir alls staðar erlendis og aðeins  finnast örfáir smitsjúkdómar í öðru búfé. Sjúkdómar af völdum sníkjudýra eru sömuleiðis fátíðir hér og þeir sem finnast, valda sem betur fer ekki alvarlegum sjúkdómum, hvorki í dýrum né mönnum.

En af nógu er enn að taka og því er vert að hvetja hunda- og kattaeigendur (og ALLA aðra dýraeigendur) til að sýna fyllstu ábyrgð þegar þeir eru á ferð erlendis og koma nálægt dýrum, t.d. á (hunda- hesta-katta)sýninguum, hjá ræktendum, eða í gæludýraverzlunum.

Margir sjúkdómar  eru bráðsmitandi og geta auðveldlega borizt hingað heim með fötum, skófatnaði og hlutum sem hafa komizt í snertingu við dýr (t.d. veirur eða egg sníkjudýra).

Hvað get ÉG gert?

Sýningar

  • Ekki fara heim í sömu fötunum eða skónum sem verið var í á sýningunni,
  • þvo sér mjög vel um hendur,
  • hafa hreina skó og föt til að fara heim í og
  • ALDREI taka neitt með heim handa hundinum (dýrunum) sem hefur verið notað nálægt/hjá dýrum erlendis og  getur þ.a.l. borið smit svo sem fatnað, áhöld, búr, teppi eða dót.

Hesthús og/eða fjós eða umgengni við önnur dýr hvar sem er:

  • Þvo sér vel um hendur,
  • fara í hreina skó og föt áður en farið er heim,
  • ekki fara í hesthús/fjós fyrstu tvo sólarhringana eftir heimkomu.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd