Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Hársekkjamaur (Demodex canis)

Höfundur: • 28. jan, 2007 • Flokkur: Hundar
Hársekkjamaur

Hársekkjamaur

Hársekkjamaur hundsins (Demodex canis) er örsmátt sníkjudýr sem lifir í hársekkjum húðarinnar. Maurinn tilheyrir eðlilegri flóru húðarinnar og hjá flestum hundum veldur hann hvorki einkennum né sjúkdómi. Fjölgi hann sér hins vegar óhóflega, getur hann valdið sýkingu sem er algengust hjá ungum hundum (juvenile demodicosis). Oftast er það  vegna þess að mótstaða þeirra er léleg vegna brotalama í ónæmiskerfinu. Það getur verið arfgegnur brestur sem veldur því að sum hundakyn eru líklegri til að fá sjúkdóminn en önnur. Léleg næring eða streita, lóðarí, innvortis sníkjudýr, og snöggur feldur getur einnig verið meðvirkandi áhættuþáttur, en snögghærð hundakyn eru talin líklegri til að fá hann en loðin.

Hvort ónæmiskerfi einstaklings er gott eða lélegt er ómögulegt að mæla. Þess vegna er heldur ekki hægt að sjá fyrir hvaða hvolpur veikist og hver ekki og þá enn síður hvort eða hve vel takist að lækna sjúkdóminn.

Vitað er að séu sýkt undaneldisdýr útilokuð frá ræktun, er mögulegt að minnka líkur á sjúkdóminum og jafnvel losna alveg við hann.

Sýking af völdum hársekkjamaura getur ýmist verið staðbundin (localized demodicosis) eða algjör (generalized demodicosis). Staðbundnu einkennin má eiginlega kalla nokkurs konar „barna“sjúkdóm hjá þeim hvolpum sem fá hann, því 95% þeirra læknast af sjálfu sér. Tilheyri hvolpurinn hins vegar hundakyni sem er í áhættuhópi, eru aðeins helmingslíkur á bata og hjá þeim hundum eru líkurnar einnig  meiri á að sjúkdómurinn blossi upp síðar á ævinni.

Fái fullorðinn hundur (> 2ja ára) sýkingu af völdum hársekkjamaura getur ástæðan t.d. verið af völdum lyfja sem veikja ónæmiskerfi líkamans, vanstarfsemi skjaldkirtils eða illkynja sjúkdóma. Batahorfur þeirra eru því miður mun verri en hjá hvolpum og ungum hundum, en í flestum tilfellum er sem betur fer mögulegt að halda sjúkdóminum niðri, en sjaldnast lækna að fullu.

Sníkillinn

er lítill aðeins um 0.3 cm á lengd og sést ekki með berum augum, en vel í smásjá. Maurinn er í laginu eins og vindill og eru kvendýrin aðeins lengri en karldýrin.  Í sýnum sjást egg, sexfættar lirfur, áttfættar nymfur og áttfættir, kynþroska maurar.

Hársekkjamaurinn lifir allan sinn aldur í hársekkjum húðarinnar í ágætu jafnvægi við líkamann (þó hann geti í undantekningartilfellum tekið sér bólfestu í fitukirtlum húðarinnar). Sé ónæmiskerfi einstaklingsins hins vegar veiklað af einhverjum ástæðum, getur maurinn fjölgað sér óheft og sjúkdómurinn blossað upp í kjölfarið.

Smitleiðir

Smit milli einstaklinga á sér aðeins stað frá tík til afkvæmis og það strax á fyrstu klukkustundunum. Hvolparnir smitast sem sagt strax eftir fæðingu eða um leið og þeira fara á spena og sem betur fer er smitið í flestum tilfellum algjörlega meinlaust fyrir hvolpinn.

Rannsóknir sýna að hársekkjamaurar finnast í hársekkjum hvolpanna þegar þeir eru aðeins 16 klukkustunda gamlir og fyrst á trýninu, en það styður kenninguna um  hvernig smitið á sér stað. Rannsóknir hafa ennfremur sýnt, að sé hvolpur tekinn með keiraraskurði og ekki settur á spena hjá sýktri tíkinni, sleppur hann við smit. Hársekkjamaur finnst heldur ekki hjá hvolpum sem eru dauðfæddir.

Hársekkjamaurar berast því ekki á milli hunda við nána snertingu, t.d. á sýningum. námskeiðum eða annars staðar þar sem hundar hittast.

Þrír ljósbláir maurar í hársekk

Hársekkir fullir af maurum

Einkenni

hársekkjasmits (demodicosis) geta verið dulin og eru þá einkennalaus, stundum eru þau staðbundin og stundum útbreidd.

Þegar um staðbundin einkenni er að ræða sjást hárlausir blettir, fáir og misstórir, hér og þar um líkamann, aðallega þó á haus og fótum. Sjaldnast fylgir kláði og hundinum virðist ekki líða illa. Þó getur húðin á hárlausu blettunum verið ert, rauð með nöbbum.  Þegar sýkingin er útbreidd eru húðbreytingarnar einnig mun alvarlegri og húðin getur verið alsett sárum, graftarbólum, hrúðri og skorpum og húðsýking fylgt í kjölfarið sem veldur miklum kláða og vanlíðan hundsins er veruleg.

Staðbundin sýking á haus

og á læri og skotti

Útbreidd húðsýking

og hér er sýkingin mjög alvarleg

Sjúkdómsgreining

Sjúkdómsgreiningin byggist fyrst og fremst á húðsýnum fyrst og fremst frá hárlausu blettunum, annað hvort húðskrapi eða vefjasýni. Dýralæknirinn skrapar með skurðhníf vel ofan í efsta lag húðarinnar, setur skrapið á smásjárgler og skoðar undir  smásjá eða sendir vefjasýnið til meinafræðings. Í flestum tilfellum er auðvelt að sjá sníkilinn í smásjá (þó getur það verið snúið hjá Shar Peihundum). Hárlausir blettir ásamt ríflegum fjölda hársekkjamaura er nægjanleg staðfesting á sjúkdómsgreiningunni.

Meðferð

Meðferð byggist á sjúkdómseinkennum og getur því verið nokkuð mismunandi frá hundi til hunds. Stundum er jafnvel engri meðferð beitt, því sjúkdómurinn getur gengið yfir af sjálfu með tímanum þegar ónæmiskerfi hundsins styrkist. Í öðrum tilfellum, sérstaklega hjá fullorðnum hundum, er meðferðin langvinn og í einstaka tilfelli árangurslaus.

Áður en meðferð hefst, er nauðsynlegt að baða hundinn vel með lyfjasjampói til að hreinsa húðina og fjarlægja hrúður og einnig getur þurft að meðhöndla hann  með sýklalyfjum, jafnvel svo mánuðum skiptir.

Ivermectin er efni sem er aðeins notað þegar um er að ræða útbreidda sýkingu, en þetta lyf má alls ekki nota á allar hundategundir svo sem collíhunda og blendinga þeirra.

Amitraz er baðlyf sem hefur gefist vel til meðhöndlunar á hársekkjamaurssýkingu og þarf að baða hundinn úr því á viku til 2ja vikna fresti þar til hársekkjamaurar finnast ekki lengur í húðsýnum.

Jafnframt lyfjameðhöndlun er einnig afar mikilvægt að hundurinn sé rétt og vel fóðraður, meðhöndlaður gegn innvortis sníkjudýrum og fái hæfilega og rétta hreyfingu og góða daglega umönnun, sem er allt  mikilvægt í að því að auka líkurnar á góðum bata hundsins.

Því miður hafa fyrirheit um ný og áhrifarík lyf á markaðnum ekki staðist væntingar og í dag er ekkert lyf til sem læknar sjúkdóminn fljótt og vel enda er ástæða hans ekki bara maurinn eins og áður er sagt.

Aldrei ætti að nota tík til undaneldis sem hefur greinzt með sýkingu af völdum hársekkjamaura!

Mikilvægt er að ræktendur geri sér ljósa áhættuna á dreifingu smits frá tík til hvolpa.  Hafi sýking af völdum hársekkjamaura verið staðfest í hundi, á ALLS EKKI að nota hann til undaneldis, því um er að ræða arfgengan sjúkdóm og það er algjörlega ófyrirséð hvaða afkvæmi hans fá sjúkdóminn og hver ekki.

Með ströngu vali á heilbrigðum undaneldisdýrum er mögulegt að hefta útbreiðslu hársekkjamaursins.

Kettir og hársekkjamaur

Sýking af völdum hársekkjamaurs (Demodex cati) er sjaldgæf í köttum og alls ekki eins alvarleg og í hundum. Venjulegast er orsökin alvarlegur og undirliggjandi sjúkdómur, t.d. sykursýki eða veirusjúkdómar eins og kattahvítblæði (feline leukemia virus) og kattaeyðni(fiv).

Talið er að hreinræktaðar kattategundir, t.d. síams- og burmakettir, séu líklegri til að fá sýkingar af völdum hársekkjamaura en aðrar kattategundir og blendingskettir.

Heimildir

  • Muller & Kirk´s Small Animal Dermatologi. Saunders
  • Canine Demodicosis – Diagnosis and Treatment. Dr. med. vet. R.S.Mueller, Ludwig-Maximilians-University, Munich, Germany.

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd