Dýralækningastofa Helgu Finnsdóttur

Skipasundi 15, 104 Reykjavík, Sími 553 7107

Eru rúsínur og vínber hollustufæði fyrir hundinn?

Höfundur: • 28. jan, 2007 • Flokkur: Almennt, Hundar
Rúsínur

Rúsínur

Rúsínur og vínber (Vitis vinifera) hafa alla tíð verið taldar hið mesta hollustufæði fyrir okkur tvífætta og neyzla þeirra sennilega seint talin geta valdið veikindum og hvað þá dauða. En það á ekki við um hunda, því rúsínu- og vínberjaát getur sannarlega reynzt þeim bannvænn biti og eftir því sem bezt er vitað, eru þeir eina dýrategundin sem virðist ekki þola þessa ávexti.

Orsökin

er einfaldlega ekki þekkt! Það sem er vitað er að rúsínur og vínber geta valdið alvarlegum veikindum í hundum, svo alvarlegum að þau geta dregið þá til dauða og er dánarorsökin þá  óviðráðanleg bráðanýrnabilun. Hvers vegna nýrun bila er heldur ekki vitað, en tilgátur hafa verið settar fram um að hugsanlega geti ástæðan verið brotalöm í efnaskiptum líkamans, nýrnasækið sveppaeitur eða einstaklingsbundið óþol við vínberjum og rúsínum.

Hversu mikið

magn þarf hundurinn að innbyrða af rúsínum eða vínberjum til að þær valdi eitrun? Talið er að 9 – 14 g af rúsínum eða vínberjum á hvert kíló líkamsþunga hundsins geti valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða. Benda má á, að lítill poki af súkkulaðirúsínum er 100 g og venjulegur rúsínupakki er 250 g, svo miðað við meðalstóran hund (15 kg) gæti einn súkkulaðirúsínupoki valdið alvarlegum veikindum og rúsínupakki einfaldlega orðið honum að fjörtjóni.

Einkenni

Fyrstu einkenni eitrunar eru uppköst fljótlega (innan tveggja klst.) eftir að hundurinn hefur étið annað hvort vínber eða rúsínur og í kjölfarið fylgir niðurgangur, deyfð og þorsti. Einkenni nýrnabilunar koma oftast í ljós innan sólarhrings, en geta komið fram jafnvel nokkrum sólarhringum seinna. Einkenni nýrnabilunarinnar eru lystarleysi, deyfð og svefnhöfgi, uppköst, niðurgangur, eymsli í kviðarholi og lágþrýstingur og blóðmyndin sýnir hækkuð gildi á creatíni, þvagefnum, kalsíum og fosfati.

Sjúkdómsgreiningin

byggist á sjúkrasögunni og þeim einkennum sem eru fyrirliggjandi við skoðun á sjúklingnum og blóðrannsókn.

Meðferð og lækning

byggist á því hvenær hundurinn át rúsínurnar eða vínberin og hversu mikið hann innbyrti. Í byrjun er oftast gripið til þess ráðs að láta hann kasta upp til að tæma magann og gefa síðan lyfjakol til að frásoga eiturefnin eins mikið og mögulegt er. Magatæming kemur reyndar aðeins að gagni hafi liðið minna en tvær klst. síðan hundurinn át rúsínurnar eða vínberin, en að öðru leyti byggist meðferðin á þeim einkennum sem eru til staðar og hversu fljótt er brugðist við. Horfur á bata byggjast á mörgum atriðum, svo sem magni þess sem var étið og líkamsástandi einstaklingsins.

Hafi hundurinn étið svo mikið magn að nýrun bili, er öll meðferð því miður oftast gagnlaus.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Ekki gefa hundinum súkkulaðirúsínur!

Ekki gefa hundinum súkkulaðirúsínur!

gegn eitrun af völdum rúsína og vínberja er auðvitað sú að gefa hundum ALDREI slíkt og forðast að láta rúsínur eða vínber liggja þar sem hundurinn hefur tækifæti til að komast í þau. Tæpast þarf að taka fram að súkkulaðirúsínur eru ekki heppilegt nammi t.d. í þjálfun, sem verðlaun fyrir góða frammstöðu eða bara sem nammi á huggulegri samverustund!

Heimildir

  • Katrina McKnight , ASPCA Animal Poison Center, Urbana, Illinois
  • Vet Stream – Canis

, dýralæknir, lauk námi frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1979. Starfaði sem dýralæknir á göngudeild skólans (Ambulatorisk Klinik) til ársloka 1980. Var í sérnámi í sjúkdómum hunda og katta í Kaupmannahöfn 1993 - 1996 og hlaut að námi loknu viðurkenningu danska dýralæknafélagsins sem fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta. Hefur sótt fjölmörg námskeið erlendis eftir að námi lauk í smádýralækningum sem og atferli hunda og katta. Formaður vísindaráðs Hundaræktarfélags Íslands og einn af stofnendum hvolpaskóla HRFÍ (1986) og viðurkenndur leiðbeinandi á hvolpanámskeiðum skólans. Ritsjóri SÁMS, félagsblaðs HRFÍ 1987 - 1992 og hefur ritað fjölmargar greinar um sjúkdóma hunda og katta. Hefur verið skipuð í nokkrar nefndir um málefni gæludýra.
Skoða allar færslur sem hefur skrifað

Settu inn athugasemd